22.10.1963
Sameinað þing: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

1. mál, fjárlög 1964

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það fer einkar vel á því, að báðir andmælendur og gagnrýnendur ríkisstj, í þessum umr. eru fyrrv. ráðh. úr vinstri stjórninni, þeirri, sem einna frægust hefur orðið að endemum hér á landi. Þeir stóðu í desembermánuði 1958 frammi fyrir nokkrum vanda í efnahagsmálum. Ég ætla ekki að bera saman vandann þá og vandann í efnahagsmálum nú, en þessir hv. þm. hafa báðir látið það í ljós, að vandinn 1958 hafi ekki verið svo ákaflega mikill, og hv. 1. þm. Austf. stundum jafnvel haft orð á því, að hann hafi í rauninni ekki verið annað en ósamkomulag þessara hæstv. ráðh. En staðreyndin var sú, að þegar þeir stóðu frammi fyrir þessum vanda í efnahagsmálum, þá reyndust þeir ekki vandanum vaxnir, gáfust upp og hlupust undan merkinu. En þótt þessir tveir hv. þm., Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson, hlypust frá vandanum þá, vanda, sem að þeirra eigin dómi var minni en vandinn í dag, þá mun núv, ríkisstj. ekki hlaupast frá vandamálunum, heldur flytja og bera fram til sigurs úrræði, lausn, sem stöðvar þá þenslu og verðbólgu, sem nú herjar þjóðina.

Hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, sagði, að við þökkuðum viðreisninni góðærið og mikinn sjávarafla. Ekki er þetta alls kostar rétt hermt, því að við höfum yfirleitt jafnan tekið það fram, að velgengnin á undanförnum árum sé hvoru tveggja að þakka, mjög miklu góðæri og sjávarafla annars vegar og hyggilegri stjórnarstefnu hins vegar. En þetta gefur tilefni til þess að minna á það, að fyrr hefur veríð góðæri í landi hér heldur en síðustu 1½ eða 2 ár, því að árið 1958 var alveg sérstakt góðæri. En það var ekki meira pólitískt góðæri fyrir þessa hv. þm. en svo, að í lok þessa ágæta árferðis gáfust þeir upp.

Hv. 5. þm. Austf. sagði, að gjaldeyrissjóðurinn og allt tal um hann væri hrein blekking, það væri sagt, að gjaldeyrissjóðurinn væri nú rúmar 1000 millj., en þetta væri villandi, því að frá þessu ætti að draga hin stuttu vörukaupalán, sem voru um s.l. mánaðamót um 550 millj. kr. Nú vil ég fyrst taka það fram, að gjaldeyrisstaða bankanna er af hendi Seðlabankans reiknuð eftir nákvæmlega sömu reglum nú og áður fyrr, í þeirra stjórnartíð. Mér vitanlega hefur engin breyting orðið þar á. En ef á að draga vörukaupalánin hin stuttu frá gjaldeyrisforðanum, ætli ætti þá ekki einnig að bæta við gjaldeyrisforðann öllum þeim miklu birgðum útflutningsvara, sem eru til í landinu. 1. okt. voru þessi stuttu vörukaupalán, sem hv. þm, vill draga frá gjaldeyrisforðanum, 550 millj., en birgðir útflutningsvara voru 1383 millj. og höfðu aukizt um 634 millj. frá áramótum. Þessi kenning er því á miklum misskilningi byggð:

Sami hv. þm. sagði, að stefna okkar hefði jafnan verið sú frá stjórnarmyndun að stjórna í andstöðu við verkalýðssamtökin. Ekki er þetta heldur alls kostar rétt, því að ríkisstj. hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá Alþýðusamband Íslands til skynsamlegs samstarfs. Ríkisstj. hefur hvað eftir annað einkum reynt að fá samstarf við Alþýðusambandið eða stjórn þess og forustumenn til þess að tryggja vissar kjarabætur handa hinum lægst launuðu, án þess að allir aðrir gripu til sín jafnmikið eða meira og gerðu launabætur hinna lægst launuðu þar með að engu. En fyrir þessu hefur verið lítill áhugi hjá forustumönnum Alþýðusambandsins, og m.a. þess vegna hefur svo farið undanfarin ár, að þegar hinir lægst launuðu verkamenn hafa með ærinni fyrirhöfn og jafnvel löngum verkföllum náð nokkrum kjarabátum, hafa aðrar stéttir, sem eru hærra launaðar, skömmu síðar fengið hlutfallslega meiri launahækkanir, og þar með hefur bilið milli hinna lægst launuðu og annarra aukizt. Mér finnst því harla undarlegt, að hér skuli því vera haldið fram eftir það, sem fyrir liggur um þessar tilraunir ríkisstj., að hún hafi frá öndverðu kostað kapps um það og stefnt að því að stjórna í fullri andstöðu við verkalýðssamtökin. Ég ætla, að ef forustumenn Alþýðusambandsins hefðu sýnt meiri samvinnuvilja við ríkisstj. í þessum efnum, þá hefði hlutur hinna lægst launuðu verið betri í dag en hann er.

Sami hv. þm. las hér upp allmargar hundraðstölur um það, hve hinir hærra launuðu í þjóðfélaginu hefðu hækkað miklu meira í prósentum undanfarið heldur en verkamenn, og hann býsnaðist mjög yfir þessari þróun. Manni skildist helzt, að þetta væri allt saman ríkisstj. að kenna. Nú er þess fyrst að gæta, að opinberir starfsmenn hafa á starfstíma núv. stjórnar fengið viðurkenndan samningsrétt, sem þeim hafði ekki tekizt að fá þrátt fyrir langa baráttu árum saman, og m.a. höfðu þessir tveir hv. þm., þegar þeir voru í ríkisstj., þeir Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson, ekki viljað verða við óskum opinberra starfsmanna um að veita þeim samningsrétt. Það kemst fyrst skriður á það mál 1959, þegar þáv. utanrrh. og fjmrh. skipaði nefnd manna til þess að undirbúa löggjöf um þetta efni, og samningsréttinn fengu svo hinir opinberu starfsmenn með l. um kjarasamninga frá í fyrra. Þetta er nú ferill þessara hv. þm. í þeim efnum.

En þegar hv. 5. þm. Austf. vill nú saka ríkisstj. um það, að hún beri ábyrgð á þeirri þróun, að hinir hærra launuðu hafi fengið hlutfallslega miklu meiri hækkun en hinir lægst launuðu, þá er rétt að minna hér á eitt atriði. Kjararáð Bandalags starfsmanna ríkis og bæja bar fram á sínum tíma ákveðnar kröfur um laun til handa opinberum starfsmönnum, lagði fram till. um launastiga og hvaða laun skyldu falla hverjum starfsmannahópi í skaut, og blöð stjórnarandstæðinga hafa hvað eftir annað stært sig af því, að í þessu bandalagi og kjararáði þess hafi nú að undanförnu vinstri menn meiri hl., enda hafa verið þar í meiri hl. menn, sem eru mjög framarlega bæði í Alþb. og Framsfl. Og hverjar voru till. þessara manna? Þeir lögðu til í fyrstu, að meðallaun verkamanna væru 6300 kr. á mánuði, en að laun manna í hæsta launaflokki, eins og sendiherra og ráðuneytisstjóra, væru tæpar 33 þús., m.ö.o. um það bil 380% hærri eða nærri 5 sinnum hærri skyldu vera laun þeirra í hæsta launaflokki en verkamannanna. Niðurstaða kjaradómsins var hins vegar sú, að þetta bil eftir till, kjararáðs bandalagsins var stórlega minnkað, þannig að starfsmenn í hæsta launaflokki fá rúmlega þrem sinnum hærra kaup en verkamannahópurinn. Og ef við lítum á málið frá öðru sjónarmiði, þá var krafa kjararáðsins, þar sem vinstri mennirnir höfðu alla forustu, eins og blöðin tóku fram, að meðallaun verkamanna hækkuðu um 25%, en sendiherranna og ráðuneytisstjóranna um leið um 210%. Þetta var sú yfirlýsta stefna.

Ég vil taka það fram, að það hefur verið um áratugi nauðsyn að bæta verulega kjör hinna opinberu starfsmanna og ekki sízt þeirra, sem lagt hafa mikið í kostnað og varið löngum tíma til náms. En hins vegar er það harla undarlegt og ég vil segja ósanngjarnt, þegar menn úr flokkum stjórnarandstæðinga ásaka ríkisstj. fyrir það, að dregið hafi nokkuð sundur milli hinna lægst launuðu og hinna hæst launuðu, þegar það er bert, að þeirra opinbera stefna, sem þeir höfðu barizt fyrir, stjórnarandstæðingar og þeirra trúnaðarmenn, var um miklu meiri mismun en þó hefur orðið niðurstaðan um.

Hv. 1. þm. Austf. komst svo að orði, að ég væri búinn að skrumskæla svo ríkisreikningana, að það væri varla nokkur leið að botna í þeim. Mér finnst þessi ummæli hans um skrumskælingu ríkisreikninganna ákaflega ósmekkleg ádeila á ríkisbókhaldið. Ég veit ekki til þess, að ég hafi verið að umturna og breyta ríkisreikningum. Þeir eru í öllum meginatriðum settir nákvæmlega upp eins og þeir hafa verið fjölmörg undanfarin ár af ríkisbókhaldinu. Hitt er annað mál, að ég hef hlutazt til um að undirbúa nýja löggjöf, þar sem gert er ráð fyrir miklum breytingum. Og hv. þm. kemst svo að orði, að það sé varla hægt að sjá, hver sé raunverulega útkoman á ríkisbúskapnum. Það er varla hægt að snúa staðreyndunum og sannleikanum öllu kirfilegar við en með þessu, því að til skamms tíma var aldrei í ríkisreikningunum minnzt á greiðslujöfnuð ríkisins, og var hvergi hægt að finna í þeim, m.a. alla fjmrh.-tíð hv. þm., hvort væri greiðsluhalli eða greiðslujöfnuður. Það var einmitt fyrir mitt tilstilli, — og það er nú eitt af því fáa, sem ég hef hlutazt til um að breyta eða bæta við ríkisreikninginn, — það var fyrir mitt tilstilli, að tekin var upp sérstök síða í ríkisreikningnum nú fyrir 2–3 árum, þar sem greinilega er tekið fram, hver er greiðslujöfnuðurinn, og m.a. má sjá það í þeim ríkisreikningi, sem nú hefur nýlega verið útbýtt hér meðal hv. þm.

Hv. 1. þm. Austf. talaði mjög um það, hvernig skattalækkunarmennirnir hafi nú framkvæm lækkun hinna beinu skatta, því að Hagtíðindin sýni, að vísitala beinu skattanna hafi nú alveg nýskeð hækkað svo mikið, að við það hafi vísitalan hækkað um 2.6 stig. Það munu nú eiga að vera 2.76 stig. Þetta segir hv. þm., um leið og hann er að ræða fjárlögin, og vitanlega er með þessu verið að gefa í skyn, að svona hafi nú hækkunin orðið mikil á tekjuskattinum í staðinn fyrir lækkun. En þessi vísitöluliður, sem hv. þm. talar um að hafi hækkað upp undir 3 stig, er nú samsettur ekki aðeins af tekjuskatti, heldur útsvari, gjaldi til almannatrygginga, kirkjugarðsgjaldi, námsbókagjaldi, sóknargjaldi. Það varðar hv. þm. náttúrlega ekkert um, þegar hann vill gefa mönnum ranga hugmynd hér um, og af þeim tæpum 3 stigum, sem þetta til samans hefur hækkað, þá nemur tekjuskatturinn 0.26 stigum. Þessi hækkun í vísitölu af tekjuskatti þrátt fyrir óbreytta tekjuskattsstiga stafar eingöngu af því, að kauplagsnefnd reiknar nú með hærri tekjum vísitölufjölskyldunnar, áætlar vísitölufjölskyldunni hærri tekjur, sem þýðir, að hún kemur í hærri skala en áður. Og einmitt í sambandi við það stendur það, sem ég gat um hér í minni framsöguræðu, að ríkisstj. hefur ákveðið að breyta hinni skattfrjálsu upphæð til samræmis við þá hækkun, sem orðið hefur á verðlagi og kaupgjaldi.

Hv. 1. þm. Austf. lýsir bæði hér og enn fremur í ræðu mikilli, sem málgagn hans hefur skýrt frá fyrir fáum dögum, hinum geysilega samdrætti í verklegum framkvæmdum, þannig að manni skilst, að horfi til ekki aðeins vandræða með bifreiðar og tæki, sem sitja föst á vegum úti, heldur horfi jafnvel til landauðnar víða um land vegna þess, hve samdrátturinn í verklegum framkvæmdum er mikill. Ég veit eiginlega ekki, hvað að hv. þm. gengur, þegar hann þarf að ganga svo langt í ádeilunum á ríkisstj. að gera sjálfan sig að viðundri frammi fyrir öllum landslýð, því að hver einasti maður veit, að eitt af því, sem skapar okkur mestan vanda í dag, er það, hvað verklegar framkvæmdir og fjárfesting um land allt eru miklar. En hv. þm. lætur það ekki á sig fá. Hann krefst stóraukinna framlaga á fjárlögum til verklegra framkvæmda. Og ekki aðeins það, hann gerði nýlega, ég heyrði ekki, að hann gerði það í ræðunni hér, en hann gerði nýlega þá kröfu í nafni flokks síns, að greiðsluafganginum frá síðasta ári, sem lagður var í jöfnunarsjóð, ásamt væntanlegum greiðsluafgangi nú í ár yrði þegar í stað varið til aukinna , framkvæmda í landinu. Ég segi: þetta er harla undarleg pólitík, þegar maður gætir þess, að þessi hv. þm. talaði og skrifaði, meðan hann var fjmrh. og var í góðum félagsskap, oft mjög skynsamlega einmitt um efnahagsmálin og hættu á verðbólgu og þenslu, samband milli útlána og sparifjáraukningar o. s. frv. Ég minnist þess t.d., að í einni fjárlagaræðu hans, það mun hafa verið varðandi fjárlögin fyrir 1955, þá talaði hann á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki síður ánægjulegt og þýðingarmikið, ef ríkissjóður gæti í slíku góðæri sem nú er eignazt einhverja fjármuni, sem hægt væri að leggja til hliðar og nota til nauðsynlegra framkvæmda síðar, þegar þörf væri á ráðstöfunum af hendi hins opinbera til þess að halda uppi nægilegri atvinnu í landinu. Verður áreiðanlega seint metinn til fulls sá hagur, sem þjóðinni gæti af því orðið, ef ríkissjóður gæti haft greiðsluafgang í góðærum, sem nota mætti, þegar á móti blési, til þess að koma þá í veg fyrir samdrátt verklegra framkvæmda og til þess beinlínis að auka þá verklegar framkvæmdir ríkisins og tryggja sem jafnasta atvinnu fyrir landsmenn.“

Þetta var ákaflega skynsamlega mælt og ber þess vitni, að a.m.k. á þeirri tíð skildi hv. þm. töluvert í lögmálum efnahagslífsins. Að vísu er rétt að geta þess, að sem fjmrh. bar hann aldrei gæfu til þess að framkvæma þessa hugsjón sína, sem hann lýsti svo fagurlega í þessari fjárlagaræðu, og kannske það sé ástæðan til þess, að hann hneykslast nú á því og býsnast yfir því, þegar aðrir verða til þess að framkvæma þetta, sem hann var að lýsa, og leggja til hliðar í góðærum til erfiðu áranna síðar.

Hv. sami þm., 1. þm. Austf., býsnast mjög yfir því, hve há séu fjárlögin og hafi hækkað mikið á hinum síðustu árum. Hver eru þá úrræði hans gegn þessum geysiháu fjárlögum, sem séu að sliga allan landsins lýð og atvinnuvegina? Úrræði hans eru þau, að það á að stórhækka framlög til verklegra framkvæmda. Það má alls ekki lækka neinar niðurgreiðslur, hann bendir á engar till. um lækkun. Ég verð að segja: er hægt að taka svona málflutning alvarlega, þegar samtímis er haldið fram, að fjárl. séu allt of há, ekki bent á neina liði, sem megi draga úr, en hins vegar krafizt stórhækkaðra framlaga á ýmsum sviðum?

Hv. 1. þm. Austf. þóttist nú hafa himin höndum tekið út af þeim ummælum mínum, að efnahagserfiðleikar okkar nú væru heimatilbúnir og að íslenzka þjóðin gæti vel ráðið við þá. Hann leggur svo út og túlkar þessi ummæli, að með þessu sé stjórnin að kenna þjóðinni um erfiðleikana. Þess er nú fyrst að geta, að ég hefði haldið, að við, sem sitjum í ríkisstj. og tilheyrum þingflokkum Sjálfstæðis- og Alþýðuflokksins, værum líka þjóðfélagsborgarar og tilheyrðum íslenzku þjóðinni. Og ég hefði talið, að við ekki aðeins værum íslenzkir þjóðfélagsborgarar og tilheyrðum þjóðinni, heldur hefðum í sumar fengið traustsyfirlýsingu frá meiri hl. þjóðarinnar eða 56% af kjósendum. En hvernig þessi hv. þm., jafnvel þótt hann telji vini sína í Alþb. með, sem hafa fengið 44% þjóðarinnar eða tæplega það með sér í sumar, — hvernig hann telur sig hafa verið þess umkominn að tala fremur í nafni þjóðarinnar heldur en þeir stjórnarflokkar, sem fengu mikinn meiri hluta og traustsyfirlýsingu, það verður dálítið erfitt að skilja.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Tími minn er á þrotum, og skal ég því láta máli mínu lokið. En það hefur lengi verið skoðun í ýmsum löndum, að jafnvægi væri hægt að halda í efnahagslífinu með aðgerðum í fjármálum og peningamálum, sem það er kallað, þ.e.a.s. með ráðstöfunum í sambandi við skattamál og fjármál ríkisins annars vegar og hins vegar með aðgerðum í bankamálum eða peningamálum og lánamálum. En reynslan víða, ekki aðeins hér, heldur einnig í mörgum öðrum löndum, hefur sýnt, að þetta tvennt er ekki nægilegt. Þriðja atriðið kemur til, sem er launa- eða tekjusjónarmiðið. Og þess vegna er það nú orðið almennt viðurkennt og ég held óhjákvæmilegt, að menn viðurkenni það einnig hér, að til þess að tryggja efnahagslegt jafnvægi og þar með efnahagslegar framfarir og bætt lífskjör í landinu þarf allt þetta þrennt að fara saman: samræmdar aðgerðir í fjármálum ríkisins, peningamálum banka og lánsstofnana og í launamálum. Og ég ætla, að það séu fleiri og fleiri, sem skilja, að launahækkanir í krónutölu eru ekki eina leiðin til bættra lífskjara. Margar aðrar leiðir koma til greina: aukin ákvæðisvinna, betri nýting hráefnis, bætt skipulag og hagræðing hjá atvinnufyrirtækjum. Allt færir þetta bæði starfsfólki og atvinnuvegum bættan hag og afkomu. Og ekki sízt verður að hafa það í huga, að tæknilegar nýjungar og umbætur eiga að koma öllum almenningi til góða, t.d. í lækkun byggingarkostnaðar, sem er mjög stór kostnaðarliður hjá öllum almenningi, og með lækkun hans mætti stíga stórt skref í þá átt að bæta lífskjörin. Við verðum að hafa það í huga, Íslendingar, á næstu árum í sókn okkar til bættra lífskjara, að allt þetta þrennt: aðgerðir í fjármálum, peningamálum og launamálum, verður að haldast í hendur.

Þökk þeim, er hlýddu. — Góða nótt.