08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (2528)

211. mál, vegáætlun 1964

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að bæta neinu við þessar umr., eftir að ég hafði gert grein fyrir helztu staðreyndum Strákavegarmálsins hér í dag, en vegna ummæla hæstv. ráðh., sem svaraði mér hér rétt fyrir kvöldmatinn, og vegna fsp. frá hv. 4. þm. Norðurl. v. sé ég mig neyddan til að eyða fáeinum mínútum af dýrmætum tíma hv. þm.

Almennt má segja það, að málflutningur ráðh. hér rétt fyrir kvöldmatinn hafi verið eins aumlegur og hugsazt gat, þegar hann var að reyna að verja sig í þessu margumrædda Strákavegsmáli. Hann lét sér nægja að minnast á eitt atriði úr ræðu minni. Ég rifjaði hér upp í dag í ræðu minni, hverjar hefðu verið heitstrengingar ráðh. á Siglufjarðarfundi hér rétt fyrir kosningarnar, og í Því tilefni dró ráðh. fram ummæli Þjóðviljans um þennan fund, þar sem sagt var í fyrirsögn, að ráðh. hefði haldið ræðu í 70 mínútur án þess að minnast á Strákaveginn. Þetta var nú það eina, sem hann hafði fram að færa. En hvernig kemur þetta heim og saman, ummæli mín og ummæli Þjóðviljans? Minntist ráðh. á veginn, eða gerði hann það ekki? Var ég kannske að ljúga upp á hæstv. ráðh. hér í dag? Ráðh. sagði, að þar sem augljóst væri, að frásögn mín stangaðist á við ummæli Þjóðviljans, hlyti ég að fara með rangt mál. Síðan afgreiddi hann málið í eitt skipti fyrir öll með því að segja, að þarna sæju menn, hvernig ég meðhöndlaði sannleikann, og þyrfti ekki að eyða frekari orðum að því. Björn Pálsson hefði alveg rétt fyrir sér, það væri ekkert mark takandi á því, sem ég segði. Og þar með var Strákavegur afgreiddur í eitt skipti fyrir öll. Og það var greinilegt á glotti hæstv. ráðh., að hann þóttist hafa sloppið vel í þetta skiptið. En athugum málið svolítið betur.

Eins og hv. 4. þm. Norðurl. v., Einar Ingimundarson, veit jafnvel og ég, því að hann var líka staddur á þessum fundi, talaði hæstv. ráðh. ekki einu sinni, heldur tvisvar. Auðvitað varð enginn hissa á því, að hann skyldi tala tvisvar, því að það gera margir, sem eru ekki jafntunguliprir og þessi hæstv. ráðh. Í fyrri ræðunni talaði ráðh. í 70 mínútur, eins og Þjóðviljinn segir, og minntist ekki einu orði á Strákaveg, og það voru margir undrandi á þeirri háttvísi. Seinni ræðan var hins vegar örstutt, en þá voru þeir svardagar í frammi hafðir af hálfu ráðh., sem lengi munu í minnum hafðir, og voru áreiðanlega hundruð Siglfirðinga til vitnis, þ. á m. hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég vit benda hæstv. ráðh. á, að hann sleppur alls ekki frá fyrri blekkingum sínum í þessu máli með því einu að vitna í rétt ummæli Þjóðviljans af margumtöluðum fundi. Það getur oft verið gott að vitna í Þjóðviljann, og sannarlega ætti hann að gera meira af slíku. En þá þarf maður líka að hafa sannleikann sin megin. Það er mergurinn málsins.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. ræddi nokkuð um Strákavegsmálið áðan í tilefni af ræðu minni. Því miður vildi nú svo illa til, að ég var ekki staddur hér í þingsalnum af óviðráðanlegum orsökum, þegar hv. þm. flutti ræðuna. En ég hef haft spurnir af innihaldinu, og mér er sagt, að hv. þm. hafi verið stóránægður með þróun málsins núna seinustu árin og hafi helzt viljað áfellast þá, sem gagnrýna allan hinn furðulega seinagang þessa máls. Hv. þm. átti ekki sæti á þingi árin 1956–1959, en náði kjöri það ár, og eins og ég sagði við umr. hér í dag, voru anzi góðar horfur í Strákavegsmálinu einmitt um þetta leyti, þegar hann var kosinn, eða rétt í þann mund, sem Siglfirðingar kusu hann til þingsetu. Þá vissu menn, hvar skyldi grafa gatið, og horfðu björtum augum inn í kolsvart myrkrið í þessari 30 m holu, sem var búið að sprengja fyrir þá rétt fyrir kosningar. En nú, þegar hv. þm. er búinn að standa trúan vörð um hagsmunamál Siglfirðinga hér á Alþingi í 41/2 ár, þá er myrkrið í holunni það sama og áður, og ekki er hún einni tommu dýpri, en það bætist við, að nú veit enginn lengur, hvort þetta er rétta gatið eða ekki. Það er von, að þm. sé glaður og innilega stoltur af ráðh. sínum, eins og fram kom hér í dag.

Hv. þm. lagði fyrir mig þá spurningu, hvort ég vildi láta hefja framkvæmdir við Strákaveg, enda þótt færustu sérfræðingar teldu rétt að athuga málið um stund. Ég held, að þessi spurning sé vægast sagt út í loftið, a.m.k. fyrir þá, sem hlustuðu á ræðu mína hér í dag. Ég tók það skýrt fram, að ég teldi enga ástæðu til þess að efast um þá fullyrðingu vegamálastjóra, að tæknilegur undirbúningur væri ekki fyrir hendi, og ég bætti því við, að einmitt þess vegna hefði ég ekki í huga að flytja neina brtt. við till. fjvn., því að auðvitað dugir ekki að grafa gat, sem enginn veit, hvar á að vera. Ég lagði hins vegar fyrir hæstv. ráðh. þá spurningu, hvers vegna ekki hefði fyrr verið hugsað til þess að bjóða út verkið og hvers vegna sá tæknilegi undirbúningur, sem hér hefur svo mikið verið talað um og nú mun skorta, hafi ekki verið framkvæmdur á þeim 4 árum, sem liðu í algeru aðgerðaleysi. Þessari spurningu hefur enn ekki verið svarað, og væri ekki rétt fyrir hæstv. ráðh. og hv. 4. þm. Norðurl. v. að svara þessari spurningu, því að þetta er vissulega kjarni málsins. Svo hlýt ég að bæta því við, að það væri einnig viðeigandi, að þeir báðir bæðu Siglfirðinga afsökunar á þeim blekkingum, sem þeir höfðu í frammi fyrir seinustu kosningar.