29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

208. mál, tunnuverksmiðja á Skagaströnd

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í sambandi við það mál, sem hér er til umr., vil ég leyfa mér að minna á, að á seinasta þingi flutti Gunnar Jóhannsson till. um sama efni. Hún var svo hljóðandi, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta gera kostnaðaráætlun um byggingu tunnuverksmiðju á Skagaströnd með sömu afkastamöguleikum og tunnuverksmiðjan á Siglufirði. Kostnaðaráætlun þessari verði lokið fyrir næstu áramót.“

Það er af þessari till. að segja, að hún náði ekki fram að ganga, enda komst hún aldrei til n. Till. þessari fylgdi alllöng greinargerð, sem ég hefði nú haft tilhneigingu til að lesa hér upp, en þar sem svo langt er liðið á fundartímann, þá tel ég það ekki fært. Hins vegar er nóg að geta þess, að framsöguræða hv. 1. flm. þessarar till., hv. 5. þm. Norðurl. v., Björns Pálssonar, var í öllum aðalatriðum unnin upp úr þessari greinargerð, svo að segja má, að ástæðulaust sé að lesa greinargerðina fyrir þá, sem á ræðuna hafa hlýtt.

Forsaga þeirrar till., sem Gunnar Jóhannsson flutti hér í fyrra, var sú, að í marz 1963 samþykkti verkafólksdeild verkalýðsfélagsins á Skagaströnd að skora á þm. kjördæmisins að beita sér fyrir því, að byggð yrði tunnuverksmiðja á Skagaströnd. Stuttu síðar leitaði formaður verkafólksdeildar verkalýðsfélagsins, Pálmi Sigurðsson, til hv. þm. Björns Pálssonar og fór þess á leit við hann munnlega, að hann flyti till. um þetta mál. Björn Pálsson tók því víðs fjarri og taldi, að Skagstrendingar hefðu ekkert með tunnuverksmiðju að gera. Gunnar Jóhannsson flutti svo þessa till., sem ég hef áður getið, eftir að hafa leitað stuðnings ýmissa annarra þm. kjördæmísins, ég held þó ekki allra, en a.m.k. nokkurra, m.a. Björns Pálssonar, sem vildi ekki vera með á þessari till.

Nú í vetur, eftir að Gunnar Jóhannsson hvarf af þingi, hef ég nokkrum sinnum verið að hugleiða að flytja till. svipaða þessari, og ég hef nokkrum sinnum imprað á því við samþingismenn mína, hvort við ættum ekki að flytja svona till. eða hvort þeir hefðu í hyggju að flytja svona till., en hef ekki fengið nein ljós svör við þessum spurningum og fengið heldur daufar undirtektir undir málið. Aðeins fimm dögum áður en þessari till., sem hér liggur fyrir til umr., var útbýtt hér í þinginu, leitaði ég á náðir hv. 5. þm. Norðurl. vestra, Björns Pálssonar, og spurði hann, hvort hann væri ekki tilleiðanlegur til þess að flytja ásamt mér og fleiri þm. till. um tunnuverksmiðju á Skagaströnd. Hv. þm. tók mjög illa í þessa málaleitun, taldi aldeilis fráleitt að flytja nokkra till. um tunnuverksmiðju á Skagaströnd. (Forseti: Ég vil ekki leyfa langar umr. um þetta mál í þetta sinn, þar sem það er búið að gera till. um að vísa því til n. Það er komið langt fram yfir venjulegan fundartíma, og ég vil því biðja hv. þm. að stytta mál sitt.) Ég skal stytta mál mitt og verða við óskum herra forseta, enda tel ég mig ekki eiga eftir nema svo sem 2 mínútur, og er þá ekki mikil sök, þó að ég leyfi mér þann munað. En sem sagt ég leitaði til hv. þm. um það, hvort hann vildi flytja með mér þessa till., og hann taldi mjög fráleitt að flytja hana, vegna þess að Skagstrendingar hefðu ekkert við tunnuverksmiðju að gera. Hann taldi marga kosti við það að hafa Skagstrendinga atvinnulausa, því að þá væri frekar hægt að nota þá í fiskvinnu hér fyrir sunnan og á því væri hin mesta þörf. En sem sagt, fimm dögum eftir að þetta samtal átti sér stað, flytur Björn Pálsson till. um málið án þess að gefa mér eða öðrum þm. Alþb. kost á því að vera með á till.

Ég vona, að orð mín verði alts ekki skilin þannig, að ég haldi, að hv. þm. Björn Pálsson hafi engan áhuga á tunnuverksmiðju á Skagaströnd. Ég er sannfærður um, að hann skilur vel jafneinfaldan hlut og þann, að það er höfuðnauðsyn, að bætt verði atvinnuástandið á Skagaströnd. En ég tel þó rétt að rifja upp þessa forsögu málsins, bæði til þess að útskýra, hvernig á því stendur, að enginn þm. Alþb. er á þessari till., og í öðru lagi held ég, að rétt sé að minna á þessa einstæðu framkomu, svo að hún verði ekki öðrum hv. þm. að fordæmi.

Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við þessa till., og er hún þess efnis, að í stað orðanna „svo fljótt sem við verður komið“ komi setningin: „og verði við það miðað, að rekstur tunnuverksmiðjunnar geti hafizt ekki síðar en í ársbyrjun 1965.“ Ég get því miður ekki leyft mér að rökstyðja þessa brtt. með mörgum orðum, en ég vil minna á það, sem oft hefur áður komið fram, að á Skagaströnd er mikið mannvirki til staðar, þar sem er mjölgeymsluhús síldarverksmiðja ríkisins, og hefur það staðið ónotað nú um árabil. Það má því segja, að þarna sé til staðar allt það, sem þarf til að reka tunnuverksmiðju, nema sjálfar vélarnar. Þykir mér því ljóst, að það þurfi ekki langan tíma til þess að koma þessari verksmiðju af stað, það þurfi fyrst og fremst að kaupa vélarnar og þess vegna sé raunhæft að ímynda sér, að hægt sé að koma henni af stað í byrjun næsta árs.

Að lokum vil ég minna á, að Skagstrendingar hafa á allfjölmennum fundi núna nýlega skorað á Alþ. að samþykkja fram komna till., sem því miður er ekki tími til að lesa hér, og jafnframt hafa þeir skorað á Alþ. að samþykkja brtt. þá, sem ég hef hér lagt fram, um leið og þeir harma, að allir þm. kjördæmisins skuli ekki hafa haft tækifæri til að vera flm. till.