29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

208. mál, tunnuverksmiðja á Skagaströnd

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það er ákaflega heimskulegt af músinni að ráðast á köttinn. Viðvíkjandi því, að ég hafi fengið einhverja aðstoð frá sómamanninum Gunnari Jóhannssyni með þessa greinargerð, þá er það misskilningur, því að ég hef aldrei lesið grg. Gunnars Jóhannssonar, og ég þarf ekkert nesti að fá hjá hálfkommum eða kommum eða Alþb. mönnum eða neinum, því að ég er sendibréfsfær og get samið þetta sjálfur og þarf enga aðstoð frá þeim. Það er rétt hjá Ragnari, að hann minntist á tunnuverksmiðju við mig, og ég tók ekkert undir það mál, einfaldlega af því, að mér er það alveg ljóst, að hvert einasta mál er dautt, sem Ragnar Arnalds flytur, því að hann fer svo flónskulega að þessu, er frakkur og hortugur og espar menn upp á móti sér. Það var þess vegna dauðadómur yfir málinu, ef ég hefði fengið hann fyrir meðflm. Ég tók vitanlega þá menn, sem líklegast var að koma málinu fram með, sinn af hvorum flokki. Pólitískt mátti þetta ekki verða. Í öðru lagi vissi ég, að ég þurfti ekkert nesti að sækja til þessa hv. þm. í atvinnumálum, því að ég held, að hann beri ekki mjög mikið skyn á þau. Ævinni hefur hann eytt í að skokka um landið og tala eitthvað um sprengjur, helsprengjur og her í landi og annað því um líkt, en lítið fengizt við atvinnurekstur, þannig að ég þurfti ekki að fá neina aðstoð hjá honum til þess að semja grg. Þar að auki átti ég ekkert vangert við manninn, þannig að ég þyrfti neitt að vera að draga hann með mér með einu eða öðru máli. Ég held, að það sé upplýst. Þið sjáið bara af brtt. flónsku þessa hv. þm., að koma og segja: Fyrir þennan dag, gerið svo vel, sé tunnuverksmiðjan til. — Hvaða ríkisstj. ætli fari að láta mann úr stjórnarandstöðu segja sér á þennan hátt fyrir verkum? Þetta sýnir aðeins klaufahátt hans og ólagni. En hitt sagði ég og átti tal um það við Pálma Sigurðsson, sem hefur haft mikinn áhuga á þessari tunnuverksmiðju, að ég teldi tormerki á því, að það væri hægt að koma málinu fram, þá var hv. 4. þm. Vesturl. með frv. um tunnuverksmiðju, Austfirðingar voru það líka, og þau gengu ekki fram, eins og þið vitið. Það hefur ekki verið auðgert að koma þessu fram. Hins vegar er aðstaðan dálítið önnur nú viðvíkjandi okkar kjördæmi, vegna þess að það hafa verið miklu meiri örðugleikar með atvinnu en nokkurn tíma áður. i;g álit, að aðstaðan sé þannig dálítið breytt frá því, sem verið hefur. En það verður hv. þm. að gera sér alveg ljóst, að ég hef engan áhuga á að flytja með honum frv., nema þá þau, sem ég vil að séu felld. En ef ég óska eftir, að mál komist fram, þá dytti mér aldrei í hug að hafa hann meðflm., því að það væri banabiti málsins.