20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1964

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Síðan 2. umr. fór fram um fjárlagafrv. hér á hv. Alþingi, hefur fjvn. tekið allmörg erindi til athugunar og afgreiðslu auk þeirra, er bíða áttu 3. umr. N. hefur orðið ásátt um að flytja þær brtt. við fjárlfrv., sem tilgreindar eru á þskj. 173, en fulltrúar Framsfl. og Alþb. hafa áskilið sér í því sambandi sama fyrirvara og þeir gerðu við 2. umr. Eins og fyrir 2. umr. stendur meiri hl. n. að tillögugerð um hækkun tekjuliða á frv. samkv. þskj. 177.

Ég mun nú með örfáum orðum víkja að helztu brtt. nefndarinnar.

Við 10. gr. Samkv. ábendingu hagstofustjóra leggur n. til að lækka liðinn „annar kostnaður“ við þjóðskrána um tæpl. 143 þús. kr.

Samkv. erindi utanrrn. leggur n. til nokkrar hækkanir varðandi kostnað við sendiráðin í London, Osló og Moskvu, en við 2. umr. hafði verið samþ. nokkur hækkun fyrir sendiráðið í París.

Þá er liðurinn tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna hækkaður um helming eða 345 þús. kr. Íslendingar munu sjálfir njóta góðs af þessari fyrirgreiðslu, sem veitt er á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Við 11. gr. eru aðeins fluttar tvær brtt. Launagreiðslur hjá vinnuhælinu á Litla-Hrauni hækki um 200 þús. kr. Með þeirri hækkun er þó ekki um neina fjölgun á starfsfólki að ræða, þar sem lagt er til að taka upp á fjárlög laun tveggja starfsmanna, sem þar hafa unnið um langan tíma. Er því raunverulega aðeins um leiðréttingu að ræða.

Til sumarlöggæzlu á Þórshöfn hækki um 10 þús. kr.

Við 12. gr. Lagt er til að hækka rekstrarstyrki til sjúkrahúsa sveitarfélaga um samtals 2.8 millj. kr., verði liðurinn 8 millj., og að hækka styrkinn til sjúkrahúsa kaþólskra um 800 þús. kr. Frv. til nýrra sjúkrahúsalaga verður væntanlega lagt fram á þessu þingi og þá settar reglur um styrkveitinguna, form hennar og upphæð.

Teknir eru upp tveir nýir liðir: Til St. Franciskussjúkrahússins í Stykkishólmi til kaupa á röntgentækjum 200 þús. kr. Það sjúkrahús nýtur ekki styrks til tækjakaupa samkv. sjúkrahúsalögum, nr. 93 frá 1953. Með þessari tillögugerð er sjúkrahúsinu veitt viðurkenning fyrir hina löngu og merku starfsemi sína. — Þá er og á greininni nýr liður, 100 þús. kr. styrkur samkv. ákvörðun landlæknis til sjúklinga, sem leita þurfa læknishjálpar erlendis. Vitað er um ýmsa efnalitla einstaklinga, sem geta ekki fengið bót meina sinna hér heima, og er með þessari till. ætlazt til að hlaupa undir bagga með þeim vegna ferða til útlanda, auk þeirrar aðstoðar, sem heimiluð er á 12. gr. með stuðningi Tryggingastofnunar ríkisins, en það hrekkur ekki til í einstaka tilfellum.

Við 13. gr. C er lágt til að hækka framlag til ferjubryggna um 300 þús. kr., og er ætlazt til, að hækkunin gangi til ferjubryggna í Ögri og á Stað á Reykjanesi.

Lagt er til, að styrkir til íslenzkra námsmanna hækki um 1 millj. og að öll hækkunin gangi til lánasjóðs námsmanna.

Þá verður að hækka liðinn til framkvæmdar sundskyldu í skólum, þ.e. XII. tölul. 22, um ½ millj. kr., og verður þá liðurinn 3.8 millj. Framlag þetta leiðir af beinum lagaákvæðum og var of lágt áætlað.

Þá eru teknir upp tveir nýir liðir: Til Frjálsíþróttasambands Íslands vegna kostnaðar við landskeppni á árinu 1963 50 þús. kr., en halli á mótunum mun nema hátt á annað hundrað þús. kr. Sambandið eitt heftir ekki getu til að greiða þennan halla. — Þá er styrkur til byggingar félagsheimilis fyrir stúdenta við Háskóla Íslands, 500 þús. kr., en það mál er núna í undirbúningi.

Við 14. gr. B er tekinn upp nýr liður við þjóðskjalasafnið: Til kaupa á tækjum til viðgerða á handritum og skjalaskápum 200 þús. kr. Þessi kaup eru talin nauðsynleg fyrir starfsemi safnsins.

Lagt er til að hækka styrk til byggingar bókasafna um 150 þús. kr., en lög um almenningsbókasöfn voru sett á þessu ári. Ráðizt hefur verið í slíkar framkvæmdir á nokkrum stöðum.

Lagt er til, að styrkur til Bókmenntafélagsins hækki um 35 þús. kr., til Þjóðvinafélagsins um 40 þús. kr., og á greinina verði tekinn upp nýr liður í stað útgáfu íslenzkra nýyrða. Til málnefndar 65 þús. kr., og er liðnum skipt eins og fram kemur í brtt. n.

Lagt er til, að styrkur til skálda, rithöfunda og listamanna hækki um 865 544 kr., verði 3 millj. og þar af hljóti skáldin Halldór Kiljan Laxness og Gunnar Gunnarsson hvor um sig 50 þús. kr.

Tekinn er upp nýr liður: Til dr. Sigurðar Jónssonar til rannsókna á sjávargróðri við strendur Íslands 50 þús. kr., en hann hefur unnið að vísindastörfum við Sorbonne-háskólann í París og er talinn mjög fær í sinni grein. Það er gert ráð fyrir því, að hann komi hingað til landsins næsta sumar og sinni þá þessu starfi.

Til vísindamanna og fræðimanna hækki um 100 þús. kr., en það má segja, að liðurinn hafi staðið svo til óbreyttur síðan 1960, en þá voru veittar inn á þennan lið 180 þús. kr.

Við 15. gr. er tekinn upp nýr liður, 1 millj. til byggingar Hallgrímskirkju hér í höfuðborginni. Eins og menn vita, hefur sú kirkja nú verið í smíðum í mörg ár, og það er gersamlega vonlaust, að söfnuðurinn einn geti staðið undir svo kostnaðarsamri byggingu. Ég þori að segja, að Reykjavíkurborg hafi til þessa lagt af mörkum um 1½ millj. til þessarar kirkjubyggingar, að safnazt hafi eitthvað svipuð upphæð frá einstaklingum og félagssamtökum og að söfnuðurinn sjálfur hafi lagt af mörkum í kringum 2 millj. kr., en að sjálfsögðu veit enginn, hver byggingarkostnaðurinn verður endanlega, enda mun það vafalaust taka mörg ár að koma kirkjunni upp, og þarf það engan mann að undra.

Þá eru breytingar við 16. gr. A. Styrkur til búreikningaskrifstofu á vegum Búnaðarfélags Íslands hækki um 200 þús. kr., liðurinn verði 300 þús., en hækkunin er gersamlega óhjákvæmileg, ef þessi stofnun á að geta gegnt sínu hlutverki.

Þá eru fluttar, eins og við 2. umr., nokkrar nýjar till. um fyrirhleðslur og landþurrkanir og framlag til sjóvarnargarðs við Búðardal, 50 þús. kr. — Þá eru styrkir í sambandi við dýralækningar nokkuð hækkaðir. — Tekinn er upp nýr liður vegna garðyrkjuskólans á Reykjum, til verknáms og stundakennslu 150 þús. kr., en það mun hafa láðst að taka upp þennan kostnað, þegar frv. var samið. — Og þá fær Kvenfélagasamband Íslands nokkra hækkun á sínum styrk.

Við 16. gr. C er tekinn upp nýr liður: Til norræns yrkisskólaþings, sem ætlunin er að halda í Helsingfors sumarið 1964, næsta sumar, 70 þús. kr.

Við 16. gr. E. Það er talið nauðsynlegt að hækka styrkinn til Verzlunarskóla Íslands um 1 millj. 384 þús. Þá verður styrkurinn röskar 2½ millj. Og lagt er til að hækka styrk til Samvinnuskólans um 200 þús. kr., þannig að hann njóti þá alls 670 þús. frá ríkinu á fjárlögum.

Við 16. gr. D, sem fjallar um raforkumál og raunar fleira, er hækkað framlag til nýrra raforkuframkvæmda um 17 millj. kr. Að öðru leyti verða nokkrar tilfærslur á liðnum samkv. eindregnum tilmælum raforkumálastjóra og viðkomandi ráðuneytis, sem nefndin hefur að sjálfsögðu tekið upp.

Á 17. gr. er tekinn upp nýr liður: Til heildarskipulags Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga 1 millj. kr. Liðurinn fellur undir I á gr. Á undanförnum árum hafa tekjur af skipulagsgjaldi farið allmikið, ég vil segja nokkuð mjög mikið fram úr áætlun, og það er unnt að hækka tekjurnar sem þessari upphæð nemur og einnig vegna þeirra 100 þús. kr., sem fara til skipulags Kópavogs.

Liðurinn til aðstoðar ríkisins við landakaup kaupstaða og kauptúna hækkar um 1 millj. og verður þannig 4 millj. Veitir sannarlega ekki af þessari hækkun, þar sem mörg sveitarfélög standa nú í landakaupum og önnur munu einnig þurfa að leggja út í slík kaup á næstu árum. Samkv. till. félmrn., sem sendi n. mjög ýtarlega grg., er lagt til að taka upp nýjan lið: Til kennslu í vinnuhagræðingu 2.2 millj. En ég vil taka það fram, að bæði svokölluð vinnutímanefnd og Iðnaðarmálastofnunin leggja mjög ríka áherzlu á, að þessi starfsemi geti hafizt.

Sumardvalarheimilin hækka um 100 þús. kr. — Styrkur til Sjálfsbjargar, félags fatlaðra, hækkar um 25 þús. — Til mæðrastyrksnefndar hækkar um 30 þús. — Teknir eru upp nýir liðir: Til dagheimilis fyrir börn í Neskaupstað 75 þús. kr. — Byggingarstyrkur til kvennaheimilisins Hallveigarstaða hér í Reykjavíkurborg 100 þús. kr. — Og svo að lokum til hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði 50 þús. kr. Hjálparsveitin hefur merku hlutverki að gegna. En jafnframt er í sambandi við þá fjárveitingu felldur niður 25 þús. kr. styrkur til skátafélagsins Hraunbúa í Hafnarfirði.

Elliheimilunum er veittur styrkur á greininni, styrkur hækkar um 250 þús. kr., en upphæðin mun hafa staðið óbreytt alllengi, meðan allur kostnaður hefur að sjálfsögðu stórkostlega aukizt, eins og kunnugt er.

Við 18. gr. eru fluttar af n. brtt., sem leiða af sér hækkun gr. um 654 281 kr. En varðandi þá grein leyfi ég mér að vísa til umsagnar í aths. við fjárlfrv., sem skýrir þá breyt., sem nú er orðin á tilhögun 18. gr.

Við 20. gr. er aðeins ein brtt., en þar er lagt til, að liðirnir til bygginga og til ræktunar á jörðum ríkisins hækki um 700 þús. kr. og munu sannarlega ekki veita af, miðað við fengna reynslu.

Varðandi 22. gr., heimildagr., eru teknar upp nokkrar till., sem ég leyfi mér að lesa upp en sé ekki ástæðu til þess að fara að skýra, þær skýra sig nokkuð sjálfar.

1) Að ábyrgjast allt að 20 millj. kr. af erlendu láni Landsbanka Íslands vegna véla- og tækjakaupa í 6 fiskiskip, sem samið er um smíði á í Austur-Þýzkalandi. Ábyrgðin fellur niður, jafnóðum og skipin eru afhent kaupendum. í framhaldi af þessari ábyrgð heimilast ríkisstj. að ábyrgjast erlenda lántöku handa fiskveiðasjóði vegna þessara skipa, allt að 13 millj. kr., sem endurgreiðist með venjulegum skilyrðum fiskveiðasjóðs á 7 árum.

2) Að ábyrgjast lán allt að 1 millj. kr. fyrir síldarverksmiðjurnar í Krossanesi og á Hjalteyri til greiðslu kostnaðar við síldarflutninga, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar.

3) Að ábyrgjast lán að upphæð allt að 1½ millj. kr. fyrir Búðaós h/f vegna fiskræktar, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar.

4) Að ábyrgjast lán allt að 50 millj. kr. til byggingar og endurbóta á síldarverksmiðjum og síldarumhleðslustöðvum.

5) Að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. lán vegna orlofsheimilis A.S.Í., með þeim skilyrðum og gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar.

6) Að lána eigendum vélbátsins Flosa ÍS 42 allt að 300 þús. kr. til viðgerðar á bátnum vegna skemmda af völdum trémaðks.

7) Að verja 90 þús. kr. til þess að reisa skýli í Vatnsfirði á Barðaströnd fyrir teinæringinn Egil í Hvallátrum.

8) Að greiða úr ríkissjóði kostnað Þjóðleikhússins árið 1963 og 1964 vegna launahækkana samkv. úrskurði kjaradóms, að svo miklu leyti sem tekjuliðir leikhússins hrökkva ekki til.

9) Að greiða til sjúkrahússins á Sauðárkróki allt að 150 þús. kr. vegna skemmda, sem urðu á sjúkrahúsinu í jarðskjálfta árið 1963.

10) Að verja fé því, sem varnarliðið hefur greitt fyrir afnot Keflavíkurvegar frá 1. júlí 1962. til 30. júní 1964, alls kr. 659 282.50 kr., til lagningar steinsteypts vegar til Keflavíkur (Reykjanesbrautar).

Eftir 2. umr. hækkar gjaldabálkur frv. samkv. till. fjvn. um 34 679 682 kr., og þar við bætist svo hækkunartill. samvn. samgm. varðandi styrk til flóabáta og vöruflutninga á þskj. 163 að fjárhæð 1.2 millj. kr. Útgjaldahækkunin nemur þannig samtals eftir 2. umr. 35 879 682 kr. samkv. till. fjvn. og samvn. samgm. Til þess að mæta þessari útgjaldaaukningu leggur meiri hl. n. til, að eftirfarandi tekjuliðir verði hækkaðir frá því, sem þeir voru áætlaðir við 2. umr., sem hér segir:

Í fyrsta lagi: Tekju- og eignarskattur hækki um 10 millj. og verði þá 255 millj. Aðflutningsgjöld hækki um 14½ millj. og verði 1337 millj. 500 þús., þ.e.a.s. ríkissjóðshlutinn. Það er utan striks á fjárlagafrv. í þriðja lagi: Aukatekjurnar hækki um 2 millj. kr. og verði þá 38 millj. kr. Þannig verður tekjuauki ríkissjóðs samkv. till. meiri hl. n. frá 2. umr. 26 millj. 500 þús. kr. Til viðbótar kemur tekjuafgangur í frv. eftir 2. umr., 19 731869 kr. Samtals verður þetta 46 231863 kr. Eftir 2. umr. hækkuðu útgjöldin, eins og ég tilgreindi, og það dregst þá frá þeirri upphæð, sem ég nefndi áðan. Útgjöldin hækka um 35 879 682 kr., og þá verður greiðslujöfnuður á frv. 10 352187 kr. Verði allar till. n. samþykktar, hækka áætluð útgjöld ríkisins þannig frá því, sem ráð er fyrir gert í fjárlfrv., um 147 370 999 kr. Tekjur eru hækkaðar þannig, að greiðslujöfnuður verði áætlaður, eins og ég sagði, 10 352187 kr.