21.10.1963
Efri deild: 4. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

21. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Um mörg undanfarin ár hafa á hverju þingi verið samþykkt frv. til l. um bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga. Þau lög hafa falið í sér heimild til þess að innheimta tiltekin gjöld með viðauka frá ári til árs. Þetta frv. er að efni til shlj. þeim lögum, sem samþykkt hafa verið undanfarin ár, að öðru leyti en því, að niður eru felld ákvæði um að innheimta vörumagnstoll, verðtoll o. fl. með viðauka, og enn fremur um bráðabirgðasöluskatt, 8%. Þessi ákvæði, sem voru í 4. og 5. gr. gildandi 1. nr. 90 frá 1962, voru felld niður með nýju tollskrárl. frá s. l. vori. Hins vegar felur þetta frv. í sér heimild til þess að innheimta með viðauka eins og verið hefur, stimpilgjald, leyfisbréfagjöld, gjald af innlendum tollvörutegundum, bifreiðaskatt og innflutningsgjald af hjólbörðum og gúmmíslöngum. Að þessu leyti er þetta frv, shlj. hinum fyrri lögum.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr, og hv. fjhn.