04.11.1963
Efri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (2766)

40. mál, rannsóknarnefnd til rannsóknar á verðbréfa- og víxlakaupum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma strax fram við þessa umr. málsins, að við framsóknarmenn munum greiða atkv. með till. þeirri til þál., sem hér liggur fyrir. Þá afstöðu okkar ber ekki að skilja á þá lund, að við tökum undir þær aðdróttanir eða getsakir í garð einstakra manna, sem fram hafa komið í blöðum eða manna á milli varðandi málefni þau, sem þessi þáltill. fjallar um. En við teljum nauðsynlegt, eins og málum er komið, að reynt sé með alhliða og viðtækri rannsókn að leiða hið sanna í ljós í þessum efnum, og þá ekki síður til þess að hreinsa af ómaklegum grun og tortryggni þá, sem saklausir eru, en til þess að sakfella þá, sem sekir kynnu að reynast. Það er æskilegt, að með þvílíkri rannsókn, sem menn almennt hafa traust á, séu allir málavextir kannaðir og í ljós leiddir, því að vel má vera, að á því , sem ámælisvert sýnist við fyrstu sýn, séu til skýringar eða málsbætur til réttlætingar. Þögnin er í þessum efnum ekki rétta svarið. Hún getur ýtt undir grun og getsakir, sem opinber starfræksla má ekki undir liggja, ef almenningur á að bera til hennar traust.

Það hafa komið fram einhverjar ákveðnar kærur til dómstóla, ein eða fleiri, út af tilgreindum víxil- eða verðbréfaviðskiptum. Þær kærur taka dómstólar að sjálfsögðu til meðferðar með venjulegum hætti. Þeirra vegna er því ekki þörf á neinni annarri rannsókn eða sérstakri rannsóknarnefnd. En það hafa jafnframt á opinberum vettvangi komið fram ásakanir fyrir ýmislegt annað atferli í lánaviðskiptum tiltekinnar peningastofnunar, og kynni sumt að því að vísu að vera aðfinnsluvert, ef satt reyndist, en án þess þó að vera saknæmt eða refsivert og mun því varla eiga erindi til dómstóla. Auk þess ganga svo alls konar hviksögur manna á milli, sem ekki verður hnekkt né vitað, hvað rétt er í, nema með opinberri rannsókn. Þessi atriði er sjálfsagt að taka til rannsóknar, úr því sem komið er. Það er af ýmsum ástæðum skynsamlegt, að sú rannsókn sé framkvæmd af þingkjörinni rannsóknarnefnd. Það er að vísu rétt, eins og fram kom líka hjá hv. flm., að slíkar rannsóknarnefndir eru fátíðar hér á landi. En það er mín skoðun, að það mætti gjarnan grípa til þeirra hér oftar en raun ber vitni, og er mér þó ljóst, að í því efni má ekki ætíð hlaupa til eftir órökstuddum blaðadylgjum. Ýmsum rekstri og opinberri sýslun er þörf á aðhaldi. Þingkjörnar rannsóknarnefndir geta vissulega verið mikilsverðar í því sambandi, ef rétt er á haldið. Og þær geta átt við og átt fullan rétt á sér, þótt ekki sé spurning um beinlínis refsivert atferli. Í slíkri rannsókn þarf því eðli máls samkv. alls ekkert ámæli og því síður nokkur áfellisdómur að felast.

Þegar alls er gætt, virðist það því rétt og eðlilegt, svo sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill., að rannsóknarstarf fyrirhugaðrar nefndar beinist að víxla- og verðbréfaviðskiptum almennt, hvort heldur er hjá opinberum lánastofnunum eða einkaaðilum, sem gera sér slík viðskipti að atvinnu, en sé ekki eingöngu bundið við þá lánastofnun eða þá aðila, sem opinberar umræður hafa í þessu sambandi sérstaklega beinzt að að undanförnu, og ég mun alveg leiða hjá mér hér að ræða einstakar stofnanir í þessu

sambandi og mun ekki fara að ræða sérstaklega Þær athugasemdir, sem hv. flm. gerði við tiltekna lánastofnun á Austurlandi og ákveðin lán þar, sem hann taldi að fram hefðu farið. Ég hef að vísu séð einhverjar yfirlýsingar um það í blöðum, en er annars allsendis ókunnugt um, að skýrsla sé komin um þá rannsókn, sem í því máli hefur fram farið, hvernig svo sem hv flm. hefur þá vitneskju í því efni, sem hann greindi hér frá. En um það atriði mun ég sem sagt ekki ræða hér. Það er sjálfsagt, að sú stofnun eins og aðrar komi til rannsóknar hjá þessari nefnd, þegar til kemur.

Að lokum vil ég aðeins segja það, að það er ljóst, að fyrirhugaðri rannsóknarnefnd er með því móti, sem ég drap á áðan, — þ.e. þegar henni er ætlað að rannsaka víxla- og verðbréfaviðskipti almennt, — ætlað mjög vandasamt starf. Það verða áreiðanlega margir framkvæmdaerfiðleikar á vegi þessarar rannsóknar, og hún verður fyrirsjáanlega mjög kostnaðarsöm, ef af henni á að verða árangurs að vænta. Þeir erfiðleikar réttlæta það Þó ekki, að dómi okkar framsóknarmanna, að till. þessari um þingkjörna rannsóknarnefnd sé vísað á bug. Þess vegna munum við, eins og áður er sagt, fylgja þessari till. og þá í því trausti, að rannsókn með þeim hætti, sem þar er fyrirhuguð, geti stuðlað að því, að allur almenningur fái að vita hið rétta í þessum efnum, og þeir, sem kynnu að hafa verið bornir röngum sökum, fái í almenningsálitinu uppreisn sinnar æru, en hinir sakfelldir, sem sekir kunna að reynast, hvort heldur er vegna ámælisverðra verðbréfaviðskipta eða uppdiktaðra sakargifta og ærumeiðandi slúðurs.