27.02.1964
Efri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í D-deild Alþingistíðinda. (2771)

40. mál, rannsóknarnefnd til rannsóknar á verðbréfa- og víxlakaupum

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég lít nú að vísu svo á, að ekkert hafi komið fram í ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem nú hafa talað, sem hnekki því, sem ég sagði í framsöguræðu, svo að ég get orðið stuttorður.

Ég skal taka það fram, að ég er alveg sammála hv. 5. þm. Reykn., sem hér talaði áðan, um það, að ástandið á lánamarkaðinum er að mörgu leyti óheilbrigt. Og ég skal einnig taka fram, að ég lít svo á, að ummæli hv. flm. þessarar þáltill. í grg. fyrir henni séu réttmæt hvað snertir orsakirnar til þessa óheilbrigða ástands á lánamarkaðinum. Það er að mínu áliti alveg laukrétt hjá þeim, þegar þeir tala um verðbólguna sem orsök þessa og þá staðreynd, sem af henni leiðir, að eftirspurn eftir fjármagni er stórum meiri en framboðið. Þetta ástand skapar hagstæðan jarðveg fyrir alls konar fjárplógs og okurstarfsemi, sem hlýtur að verða hið mesta þjóðfélagsmein. Þetta er alveg rétt. Ég býst einnig við því, að hv. flm. sé það ljóst, að með því einu að ljóstra slíkum málum upp, þó að sjálfsagt sé að vinna að því eins og föng eru á, er ekki fundin lækning á því meini, heldur þarf að útrýma jarðveginum fyrir slíku og því ástandi, sem er á lánamarkaðinum, en það er miklu stærra mál en svo, að að mínu áliti sé hægt að ræða það hér. Það, sem ágreiningurinn er hins vegar um, er, hvort sú rannsóknarnefnd, sem hér er lagt til að skipa, hafi meiri möguleika til þess að komast til botns í þessum málum heldur en þær þingkjörnu nefndir, sem að mínu áliti eiga þegar að starfa að þessu.

Ég tel rétt að taka það fram, vegna þess að alllangt er nú um liðið, síðan þessi till. var borin fram og rædd hér við 1. umr., að ég var ekki staddur hér á landi, þegar 1. umr. um till. fór fram, og vissi því ekki, hvað gerðist á þeim fundi, og er þess vegna ókunnugt um þau atriði, sem hv. 3. Þm. Norðurl. v. vitnaði til í ræðu, sem hann hélt við það tækifæri, þótt ég vænti þess ekki, að það hafi neina úrslitaþýðingu.

Hvað sem öðru líður, er ljóst, að bankaráðin eru þingkjörin nefnd, og ekki hafa verið bornar á það brigður heldur af þeim tveim hv. þm., sem hér hafa talað, að bankaráðin hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum, sem þessi rannsóknarnefnd hefur aðgang að. Hv. 5. þm. Reykn. nefndi það, að rannsóknarnefndin hefði betri aðstöðu í þessum efnum, vegna þess að hún gæti kallað menn fyrir sig og fram eftir þeim götunum. Ég lít hins vegar þannig á, að þar sem það er hlutverk bankaráðanna að hafa eftirlit með bankastjórunum og með öðrum æðstu embættismönnum bankanna, þá hljóti þau einnig að hafa ekki eingöngu vald, heldur beinlínis skyldu til þess að kalla þá fyrir sig og láta þá gera grein fyrir sínum málum, ef bankaráð telur rökstudda ástæðu til þess að ætla, að einhvers konar misferli geti verið hjá þeim um að ræða. Ég álít, að hvað snerti rannsókn slíkra mála hljóti bankaráðin að hafa sömu aðstöðu og þessi nefnd.

Það gæti út af fyrir sig verið röksemd fyrir því að skipa Þessa rannsóknarnefnd, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. nefndi í framsöguræðu sinni, að það ætti að vera rannsóknarnefnd á bankaráðin sjálf og starfsemi þeirra. Ég upplýsti, og það stendur enn þá óhaggað, að allt að því þriðjungur hv. þm. mundi eiga sæti í bankaráðunum nú þegar, og ég er hræddur um, að almenningi hlyti að koma það þannig fyrir sjónir, að hver gullhúfa færi að verða upp af annarri, ef kosnar yrðu svo nýjar þingkjörnar rannsóknarnefndir, sem ættu að rannsaka starfsemi þeirra þingkjörnu nefnda, sem bankaráðin eru. Og væri þá óhugsandi, ef menn væru óánægðir með þessa þingkjörnu rannsóknarnefnd á sama hátt og bankaráðin, að till. kæmi þá fram um það að skipa enn rannsóknarnefnd til að rannsaka það, hvort rannsóknarnefndirnar hefðu gegnt þeim hlutverkum, sem þeim væri ætlað? Þannig gæti þetta auðvitað lengi gengið.

Hvað snertir spurninguna um það, hvort þörf væri löggjafar um verðbréfaviðskipti, verður það auðvitað alltaf álitamál, hvenær slíkrar löggjafar er þörf. Ég tel, að sú grg. Seðlabankans, sem ég vitnaði til, gefi fullnægjandi skýringu á því, að það sé ekki tímabært að setja slíka löggjöf. En það verður auðvitað alltaf matsatriði. Hitt vildi ég benda á að gefnu tilefni í ræðu hv. 5. þm. Reykn., að auðvitað hafa rannsóknarnefndir eins og sú, sem þáltill. gerir ráð fyrir, ekkert löggjafarvald í þessum efnum. Aðstaða þeirra er sú sama og bankaráðanna, að þær geta aðeins haft tillögurétt, en auðvitað ekki löggjafarvald, þannig að slíkt hlýtur auðvitað alltaf að koma til kasta Alþingis.

Af því, sem ég nú hef sagt, leiðir það, að ég tel, að bankaráðin hafi bæði heimild til þess að framkvæma allar slíkar rannsóknir, sem hér er um að ræða, og þau hafa beinlínis skyldu til þess. Í því sambandi vildi ég leyfa mér að benda á Það, sem öllum hv. þdm. e.t.v. er ekki kunnugt, að bankaráðin eru yfirleitt betur launuð en gengur og gerist um þingkjörnar nefndir. Þetta álít ég að sé a.m.k. af hálfu Alþingis ekki hugsað þannig, að bankaráðin eigi að vera bitlingastörf. Slíkt ætti auðvitað engan rétt á sér, því að svokallaðir bitlingar, þar sem menn taka laun, sem eru ekki í neinu hlutfalli við þau störf, sem unnin eru, eru pólitísk spilling og ekki annað. En ég býst við, að þessi ríflegu laun séu einmitt ákveðin með tilliti til þess, að hægt sé að heimta talsverða vinnu af þeim, sem í bankaráðunum eiga sæti, þannig að þeir mæti ekki eingöngu á hinum reglulegu fundum bankaráðanna, heldur hafi líka, eins og bankaráðunum samkv. lögum er ætlað, raunhæft eftirlit með starfsemi bankanna.