06.02.1964
Sameinað þing: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (2782)

49. mál, æskulýðsmálaráðstefna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessari till. er hreyft mjög athyglisverðu máli. Á því leikur enginn vafi, að vaxandi tekjur almennings síðustu ár og áratugi og auknar tómstundir, ekki hvað sízt æskufólks, hafa í för með sér margvísleg vandamál, sem vafasamt er að úr greiðist með heppilegum hætti, nema atbeini ríkisins, hins opinbera, komi þar til, a.m.k. að nokkru leyti. Mjög aukin fjárráð æskufólks og auknar tómstundir þess hafa ekki aðeins bjartar hliðar, heldur færa æskufólki og ýmsan nýjan vanda, sem áður var óþekktur.

Um margt er að velja í nútímaþjóðfélagi til þess að nota fjármuni og tómstundir til, og skiptir þá mjög miklu máli, að skynsamlega sé valið. Ég tel það tvímælalaust vera eitt af hlutverkum ríkisvaldsins og bæjar- og sveitarfélaga og meira að segja eitt af mikilvægustu hlutverkum þessara opinberu aðila að hjálpa æskufólki til þess að nota aukna fjármuni og auknar tómstundir sér til aukins þroska, til mannbóta, en ekki á þann hátt, að það hafi öfug áhrif. Þetta hefur menntmrn. verið ljóst undanfarin ár, og þess vegna hefur þar nokkuð verið unnið að því með gagnasöfnun og öðrum hætti, viðræðum við ýmsa aðila, með hverjum hætti bezt yrði snúizt við þessum sívaxandi vanda.

Í lok s.l. árs var svo komið, að ég taldi heppilegast til að hrinda málinu fram að skipa nefnd æskulýðsfulltrúa eða æskulýðsleiðtoga til þess að fjalla nm þetta mál, nánar tiltekið til þess að athuga, hvort ekki væri orðið tímabært að setja löggjöf um æskulýðsmál. Hinn 20. des. s.1. skipaði menntmrn. því nefnd til að semja frv. til l. um æskulýðsmál, þar sem sett séu ákvæði um skipulagðan stuðning hins opinbera, þ.e.a.s. ríkis og sveitarfélaga, við æskulýðsstarfsemi, er m.a. miði að því að veita æskufólki þroskandi viðfangsefni í tómstundum. Í n. skipaði menntmrn. oddvita eða forustumenn helztu æskulýðssamtaka landsins eða þeirra samtaka, sem láta æskulýðsmál til sín taka, og eiga þessir menn sæti í n.: Séra Bragi Friðriksson framkvstj. Æskulýðsráðs Reykjavíkur, séra Eiríkur J. Eiríksson, sambandsstjóri Ungmennafélags Íslands, Gísli Halldórsson forseti ÍSÍ, Jón Pálsson tómstundaráðunautur Æskulýðsráðs Reykjavíkur, Jónas B. Jónsson skátahöfðingi, Ölafur Egilsson formaður Æskulýðssambands Íslands. Ólafur Þ. Kristjánsson stórtemplar, séra Ólafur Skúlason æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar, Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi ríkisins og Knútur Hallsson deildarstjóri í menntmrn., og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Í skipunarbréfi hennar er sagt, að þess sé óskað, að n. hafi lokið störfum svo snemma, að unnt verði að leggja frv. um æskulýðsmál fyrir Alþingi, er það kemur saman haustið 1964.

N. er þegar tekin til starfa og hefur nú þegar safnað nokkrum gögnum um æskulýðslöggjöf og skipan æskulýðsmála erlendis. Af þeim gögnum, sem n. hafa þegar borizt og hún hefur hafið að vinna úr, telur hún, að engin sérstök heildarlög um æskulýðsmál séu til í nágrannalöndunum, heldur séu ákvæði um þau efni á víð og dreif í ýmsum lögum. N. telur, að þar sem væntanlega sé við engar beinar hliðstæður að styðjast í erlendri löggjöf, kunni hlutverk n. að verða nokkru tímaírekara og vandasamara en ætlað var í fyrstu, en n. hefur þó heitið því að hraða störfum sinum eins og unnt er. N. hefur og hafizt handa um söfnun gagna um framlag ríkis og hinna ýmsu bæjar- og sveitarfélaga til æskulýðsmála, svo og framlag æskulýðssamtakanna sjálfra og annarra aðila til þessara mála, til að fá glögga mynd af því, hvernig skipan þessara mála er háttað á Íslandi í dag, og er slík gagnasöfnun að sjálfsögðu undirstöðuatriði í starfi nefndarinnar.

Með hliðsjón af því, að þegar er hafið starf að þeim málum, sem till. fjallar um, vildi ég beina því til þeirrar hv. n., sem málið fær til meðferðar, hvort hún teldi ekki heppilegustu meðferð málsins þá að vísa þessari till. ,til ríkisstj. Með því á ég ekki við það, að í því felist ekki fullkomin viðurkenning á því, að hér er um mikilvægt mál að ræða, heldur þvert á móti undirstrikun á því, að hér er um mikilvægt mál að ræða, sem ég lýsi ánægju minni yfir, að margir þm. eins stjórnmálaflokksins hafa sýnt þann áhuga á, að till. er fram komin hér á hinu háa Alþingi.

Hins vegar skal ég segja það og enga dul á það draga, að ég hef meiri trú á því að fela þetta sérstakri nefnd, sem sé beinlínis skipuð af ríkisvaldinu, heldur en að kveðja til altfjölmenna ráðstefnu eða ráðstefnu 25 fulltrúa, eins og hér er gert ráð fyrir, og virðast raunar flm. vera mér sammála um þetta að því leyti, að í till. er beinlínis gert ráð fyrir því, að þessi ráðstefna kjósi 5 manna nefnd, sem raunverulega eigi að vinna aðalverkið, að því er mér hefur skilizt. Þó að ég telji 25 manna ráðstefnu vera of fjölmenna til að geta sinnt beinu starfi að undirbúningi löggjafar, tel ég hins vegar 5 manna nefnd vera of fámenna, til þess að öll sjónarmið, sem eðlilegt er að menn vilji láta koma fram, fái notið sín í aðeins 5 manna nefnd, því að samtökin, sem láta sig þessi mál miklu skipta, eru 9 starfandi í landinu, og mér þótti þau ölt vera Þess eðlis, að mjög eðlilegt væri, að raddir þeirra heyrðust, þegar löggjöf um þetta mál yrði undirbúin.

Ég vil beina því til hv. n., herra forseti. að hún taki til athugunar, hvort það væri ekki eðlilegust afgreiðsla á þessu mjög svo mikilvæga máli, að ríkisstj. fengi till. þessa til athugunar. Hún mundi þá að sjálfsögðu láta hana koma til meðferðar í n., sem þegar er að starfa að þessum málum.