09.05.1964
Sameinað þing: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (2796)

70. mál, ferðir með skriðbíl yfir Skeiðarársand

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 76, er flutt af hv. 3. þm. Austf., Jónasi Péturssyni, o.fl. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta á næsta sumri hefja skipulagðar tilraunaferðir með skriðbíl yfir Skeiðarársand milli Lómagnúps og Öræfa.“

Till. var á sínum tíma vísað til fjvn., og hefur n. haft hana til athugunar og leggur til, að till. verði vísað til ríkisstj. Nefndarálit fjvn, er á þskj. 544.

Það verður að telja, að hér sé um mjög athyglisverða tilraun til samgöngubóta að ræða á því svæði, sem till. gerir ráð fyrir, en það er yfir Skeiðarársand milli Lómagnúps og Öræfa. Vitað er, að Skeiðarársandur er ekki fær neinum venjulegum ökutækjum, og verður því að gripa til þeirra úrræða, sem hugsanlegt er að fyrir hendi séu til samgöngubóta á þessu svæði. Samkv. heimild í fjárl. var á s.l. ári keyptur svonefndur skriðbíll eða vatnadreki í tilraunaskyni til úrlausnar samgöngubótum yfir Skeiðarársand. Telja flm. í grg., sem till. fylgir, að reynsla sú, sem af þessu farartæki fékkst á s.l. sumri, sé mjög góð hvað hina tæknilegu hlið snertir. Hins vegar hafi tíminn verið allt of stuttur til þess, að nokkuð liggi fyrir um, hver fjárhagsgrundvöllur farartækisins kunni að vera. Má segja, að eðlilegt hefði verið, að tekin hefði verið inn á fjárlög ákveðin upphæð til tilrauna í þessu sambandi, en svo var ekki. Telur fjvn. því eðlilegt, að till., eins og hún liggur fyrir, verði vísað til ríkisstj. til fyrirgreiðslu, i trausti þess, að endanlegar tilraunir verði gerðar nú í sumar til þess að fá úr því skorið, hvort farartæki það, sem hér um ræðir, hinn svonefndi skriðbíll, leysi þann vanda, sem honum var ætlað, er hann var keyptur hingað til landsins.