20.12.1963
Sameinað þing: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

1. mál, fjárlög 1964

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum mæla fyrir einni brtt. við frv. til fjárlaga. Ég flyt brtt. við fjárlfrv. 1964 ásamt þeim hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Reykv. Till. er lögð fram á þskj. 178, XIX, og fjallar um það, að við 20. gr. Út. XI. 2 komi nýr liður: ,; Til nýs menntaskóla í Reykjavík 5 millj. kr.“ Ástæðan til þess, að ég flyt þessa tillögu nú við 3. umr. fjárl., er sú, að ég hef áður á þessu þingi flutt frv. til l. um breyt. á l. nr. 58 frá 7. maí 1946, um menntaskóla, en það frv. flyt ég ásamt hv. 4, þm. Sunnl., Birni Fr. Björnssyni. Þetta frv. hefur enn ekki komið til 1. umr. hér í hv. Nd. vegna anna hér á hv. Alþingi, og er ekkert við því að segja út af fyrir sig. En afleiðing þess er þó sú m.a., að efni þessa frv. er hv. þm. ekki eins kunnugt og annars mundi vera.

Í þessu frv. er lagt til, að menntaskólar verði 4 í landinu, 2 í Reykjavík, 1 á Akureyri og 1 á Laugarvatni. Tveir þeir síðasttöldu hafa þegar starfað árum saman samkv. heimild í áðurnefndum lögum frá 1946, og er því breytingin, að því er þá snertir, aðeins formsbreyting til samræmingar. En samkv. gildandi lögum er aðeins einn menntaskóli í Reykjavík. Sá skóli er til húsa í gömlu menntaskólabyggingunni við Lækjargötu, eins og allir vita. Það hús var tekið í notkun árið 1846. Þá voru nemendur Latínuskólans, eins og sá skóli hét þá, aðeins 60. Nú eru þarna í þessu sama húsi yfir 900 nemendur. Þess vegna er augljóst, að þar hlýtur að vera um mikið þröngbýli að ræða, enda er það svo, að gamla húsið er orðið allt of lítið og því óhjákvæmileg nauðsyn að byggja nýtt skólahús.

Ég tel skylt að geta þess í þessu sambandi, að nú þegar eru hafnar framkvæmdir að auknum byggingum í námunda við gamla skólahúsið, en hvort tveggja er, að þær framkvæmdir eru skammt á veg komnar, og þó fremur hitt, að þær bæta ekki nema að mjög litlu leyti úr þeim húsnæðisvandræðum, sem þarna er um að ræða. Þær koma fyrst og fremst til með að bæta úr brýnni þörf á sérkennslustofum fyrir ýmsa verklega kennslu, sem mjög hefur vantað í sambandi við menntaskólann í Reykjavík, eins og kennsluháttum er nú á dögum almennt hagað. En auk þess kemur það til, sem mestu máli skiptir, að almennt er nú talið af þeim, sem bezt til þekkja, að menntaskólinn hér í Reykjavík sé nú þegar orðinn a.m.k. nógu fjölmennur og því er rangt að stefna að fjölgun nemenda í honum. Flestir skólamenn telja, að heppilegasti nemendafjöldi í slíkum skóla sé 500–600 nemendur og ekki yfir það. En miðað við þann fjölda gætu tveir menntaskólar verið fullsetnir í Reykjavík eftir 1–2 ár. Ýmsir skólamenn nefna miklu lægri tölu en þetta, allt niður í 300–350, en ég skal ekki fara nánar út í þann rökstuðning, sem liggur til grundvallar þessu áliti þeirra. Ég veit, að allir eru sammála um það, sem þessum málum eru kunnugastir, að 800–900 nemendur séu of há tala, jafnvel þótt aðstæður allar væru eins og bezt yrði á kosið. Það er af þessum ástæðum, sem við flm. frv. um breyt. l. um menntaskóla teljum, að nú þegar þurfi að fjölga menntaskólunum í Reykjavík í tvo og að hefja byggingu nýs skólahúss eins fljótt og verða má, og þess vegna er frv. flutt. Breyttir þjóðfélagshættir auka þörfina á sérmenntuðu fólki til starfa í margvíslegum greinum. Batnandi þjóðarhagur byggist fyrst og fremst og í vaxandi mæli á því, að vísindi og tækni verði tekin í þjónustu atvinnuveganna. Þess vegna er nauðsynlegt að greiða fyrir því, að sem flestir eigi kost á að afla sér þeirrar menntunar, sem nauðsynleg er til að geta orðið virkur þátttakandi þessarar framtíðaruppbyggingar.

Ég skal ekki eyða tíma hv. alþm., með því að núna er líka mjög liðið á þingtímann og nóg að starfa, með því að rökstyðja þetta frekar hér, enda er ekki um þetta deilt. Allir hv. alþm. hljóta að vilja stefna að þessu marki. Þess vegna hef ég gert mér vonir um það, að framangreint frv. okkar hv. 4. þm. Sunnl. fái vinsamlega afgreiðslu hér á Alþingi. En ef svo skyldi fara, sem við flm. einlæglega vonum, og til þess að það gæti komið að notum strax á næsta ári og bætt úr þeirri brýnu þörf, sem fyrir húsnæðið er, þarf að taka inn á fjárlög fyrir árið 1964 fjárveitingu til byggingar nýs skólahúss fyrir menntaskólann í Reykjavík, og þess vegna er till. til breytinga á fjárlögum hér fram borin og er þess efnis, eins og ég í upphafi lýsti, að taka inn nýja 5 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni.