20.11.1963
Sameinað þing: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (2844)

38. mál, þjóðhagsáætlun fyrir árin 1964-1968

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá þáltill., sem hér liggur frammi, hafa orðið nokkrar umr. um áætlanagerð og um aðfarir hæstv. ríkisstj. í sambandi við áætlanagerð. Það voru aðeins nokkur atriði, sem mig langaði til að skjóta hér að í sambandi við þessar umr.

Það er í fyrsta lagi, að hér er lagt til að auka allmikið þann hraða, sem ætti að vera í okkar framleiðslugetu, og reyna að tryggja meiri afköst en verið hafa, örari hagvöxt í þjóðfélaginu. Það, sem er nauðsynlegt að við gerum, þegar við ræðum svona mál, er, að við gerum okkur ljóst, í hverju slíkt er fólgið. Nú er það svo um okkar þjóðfélag, að við byggjum ákaflega mikið á veiðinni, eins og allir vita. Það er höfuðgallinn fyrir okkur, hvað snertir alla áætlunargerð, að við erum miklu háðari en allar aðrar þjóðir, sem slíkt stunda, því, hvernig veiðist. Venjulegt iðnaðarþjóðfélag, eins og flest þau þjóðfélög eru, sem hafa tekið upp að einhverju leyti áætlunarbúskap, getur raunverulega alveg reiknað út, hvernig hlutirnir skuli ganga. Og fyrir þau er þetta tiltölulega lítill vandi. Fyrir okkur gegnir þetta allt öðru máti, að svo miklu leyti sem við ekki reynum að koma okkar sjávarútvegi, og þá sérstaklega þeim fiskiðnaði, sem við hann er tengdur, meira og meira yfir á iðnaðarstigið. Það þýðir m.ö.o., að við verðum að reyna að tryggja það, að sveiflurnar, sem geta verið í veiðinni, valdi sem minnstum sveiflum í verðmæti þess útflutnings, sem við byggjum okkar afkomu á.

Ég skal nefna sem dæmi í þessu sambandi síldina og hvernig við þurfum að fara þar að. Enn sem komið er flytjum við síldina út, að svo miklu leyti sem hún er söltuð, sem hálfgert hráefni, eða ef við viljum orða það hinseginn, sem hálfgerða iðnaðarafurð, flytjum hana út í verksmiðjur annarra landa, til þess að þær verksmiðjur geti unnið úr henni til fullnustu. Ef við gætum í staðinn farið yfir í það, sem margoft hefur verið bent á og að nokkru leyti unnið að, ef við gætum sjálfir unnið úr bæði okkar kryddsíld og svo og svo miklu af okkar saltsild hér, í verksmiðjum, þar sem hún væri lögð niður eða jafnvel niðursoðin, þá mundum við geta tí— til tvítugfaldað hennar verðmæti. Nú sem stendur flytjum við út upp undir 100 þús. tunnur af síld handa sænsku niðurlagningarverksmiðjunum til þess að vinna úr, sem þessir hringir selja í Svíþjóð, til Bandaríkjanna og víðar. Mér reiknaðist til hér um árið, þegar okkar framleiðsla var aðeins um 500 þús. tunnur, að ef við hefðum getað lagt niður 100 þús. tunnur af þessu, þá væri verðmætið jafnmikið og 500 þús. tunnurnar, sem við söltuðum eða unnum úr á okkar venjulega máta. M.ö.o.: um leið og við komum þessu yfir i það að vera iðnaðarframleiðsla, þá er öll aðstaða gerbreytt og verðmætið, sem við framleiðum, margfalt meira. En ástandið er þannig á Íslandi nú, að það er bókstaflega staðið í vegi fyrir því, að þetta sé gert, vegna þess að áhrif útlendu hringanna eru allt of sterk hérna í þessum efnum og stjórnarvöldin ekki nógu óhrædd við að grípa til þeirra aðferða, sem nauðsynlegar eru til þess að efla okkar útflutningsverðmæti. Við yrðum vafalaust að hafa það þannig með það útflutningsverðmæti, alveg eins og við höfum haft með hraðfrysta fiskinn, reyna að byggja allmikið á mörkuðunum þar austur frá, til þess að skapa okkur öruggan grundvöll til sölu á okkar framleiðslu, en verja svo því fé, sem við fáum þannig greitt, að meira eða minna leyti til þess að reyna að byggja okkur upp söluskipulag í þeim kapítalistísku löndum. En til þess að við förum út í svona hluti. er nauðsynlegt, ekki aðeins að tala um, að við þurfum örari hagvöxt, gera áætlanir um það, heldur að taka ákvarðanir um, að þetta skuli gert.

Eins og þeim hv. þm., sem sitja í Nd., er kunnugt, hef ég lagt fram nokkur frv. um áætlunarráð. þar sem m.a. er sérstaklega mælt fyrir um, á hvað skuli leggja höfuðáherzlu á næstunni. Og þar er það tekið fram, að á næstu 5 árum skulum við sérstaklega einbeita okkur að fallvinnslu úr okkar íslenzku matvælum, úr síldinni og fiskinum og úr okkar landbúnaðarafurðum. Og það er gefið, að á þessum sviðum getum við unnið stórafrek. Það er engin spurning um það, að þótt við séum ekki alltaf eins heppnir með síld og við erum núna. þá gætum við tvöfaldað verðmætið í síldarframleiðslunni, á sama tíma sem t.d. sjálf síldarmergðin kynni að minnka hjá okkur, — ég tala ekki um, þegar það fer þannig hjá okkur, eins og oft hefur farið, að við verðum að henda eins miklu í bræðslu og við gerum, vegna þess að þeir markaðir, sem við höfum, eru ekki fullnýttir, bara vegna rangrar utanríkisverzlunarstefnu.

Við skulum taka sem dæmi allt það, sem við hefðum getað t.d. látið framleiða af bátum; fiskibátum, fyrir okkur í Austur-Þýzkalandi, á sama tíma sem við ösnumst til að láta byggja báta í Noregi og Danmörku. En Danir, Norðmenn og nú Svíar fara í vaxandi mæli að láta byggja báta fyrir sig í Austur-Þýzkalandi, þannig að Norðmenn láta okkur halda uppi skipasmíðastöðvunum fyrir sig eða bátasmíðastöðvunum úti um land, en kaupa sjálfir inn báta frá Austur-Þýzkalandi.

Það er óhugsandi að ræða þjóðhagsáætlun af nokkru viti án þess að taka um leið fyrir þá stefnu, sem á að marka í okkar verzlunarmálum, vegna þess að 40% af allri okkar þjóðarframleiðslu flytjum við út úr landi, og því aðeins að við kunnum að vinna almennilega úr henni hér heima og tryggja markaði fyrir hana, því aðeins getur okkar þjóðhagsáætlun staðizt. Þess vegna verður þetta sífellt að fylgjast að.

Þessu vildi ég aðeins skjóta hér inn, um leið og verið væri að ræða þessa hluti, og satt að segja er það ákaflega gott, að till. eins og þessi skuli hafa komið fram, því að það er allt of lítið að því gert að ræða þessi mál. Þetta eru grundvallarmálin í öllu okkar þjóðfélagsskipulagi, grundvöllurinn, hvort heldur það er að okkar fjárlögum eða öllum öðrum ráðstöfunum, og þar með öllum þeim ráðstöfunum, sem við gerum í sambandi við kaupgjaldsmál og annað slíkt. En þetta eru þau mál, sem venjulega hefur gengið erfiðast að fá rædd hér á Alþingi að undanförnu.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að það gleður mig nú alveg sérstaklega, að allmargir hv. þm. Framsfl. skuli flytja þessa þáltill. Það er, eins og ég hef stundum áður tekið hér fram, alltaf jafnánægjulegt, þegar maður verður var við það, hvað hv. Framsfl, gerist róttækur og lærir mikið, þegar hann er í stjórnarandstöðu. Ég hafði þá ánægju fyrir nokkrum árum að standa í samstarfi við Framsfl., og eitt af því, sem ákveðið var í þeim stjórnarsáttmála að semja um, var samning þjóðhagsáætlunar, og meira að segja lögð nokkur drög að því, hvað í henni skyldi standa. Síðan voru þau mál tekin fyrir þar, sem eðlilegt og nauðsynlegt er að taka fyrir í sambandi við slíkt. Þá voru bankamálin til úrlausnar, og Alþb. og Alþfl. urðu sammála um, að það væri heppilegast fyrirkomulag til þess að láta semja og framkvæma þjóðhagsáætlun að breyta þannig til. að stjórn Seðlabankans. bankaráð Seðlabankans, skyldi um leið vera áætlunarráð, þannig að öll yfirstjórnin á bankamálum landsins og fjárfestingarmálum þar með væri svo að segja á einni hendi við hlið ríkisstj. og það gæti ekki orðið nein andstaða á milli þess ráðs, sem ætti annars vegar að sjá um og framkvæma undirbúninginn að áætlunargerðinni, og þess bankavalds, sem ætti að framkvæma þetta. Það var nefnilega reynslan frá tímum nýsköpunarstjórnarinnar, þegar hafði verið lagt í það af mestum stórhug að reyna að framkvæma hér áætlun, að allan tímann, sem sú stjórn stóð, varð það nýbyggingarráð eða það áætlunarráð, sem þá var að störfum, þá varð það að berjast við landsbankavaldið, þá varð það að berjast við tregðu, skilningsleysi, þröngsýni og vitlausa pólitík Landsbankans, sem þá var um leið seðlabanki og stóð á móti því, sem varð að gera, tafði það 11/2 ár og reyndi að bregða fæti fyrir þær framfarir, sem þá var verið að knýja fram hjá þjóðinni. Og Alþfl. og Alþb., sem báðir höfðu nokkra reynslu af þessu, vildu þess vegna hindra, að nokkur slík klofning gæti komið upp í stjórnarkerfinu. En þá vildi svo til, að Framsfl., sem er, eins og menn vita, sterkur og voldugur flokkur og harður í horn að taka, þegar samið er við hann, setti sig algerlega upp á móti þessu, hindraði á móti þessum tveimur flokkum, að þetta næði fram að ganga, knúði fram úrlausn á þeim málum, sem ég býst við að Framsfl. sé jafnóánægður eftir á með eins og þeir, sem urðu að lúta því þá, voru óánægðir með að framkvæma það þá, og síðan fékkst Framsfl. aldrei til þess að gera neina ráðstöfun til þess að koma á neinu, sem héti áætlunarráð, eða neinu, sem ætti að undirbúa heildaráætlun. Það er þess vegna ákaflega ánægjulegt, að nú skuli Framsfl. vera inni á því, að þessir hlutir séu nauðsynlegir, og ég vona, að það gleymist nú ekki hjá honum, áður en hann kemst næst í ríkisstj.

Það annað, sem er líka mjög ánægjulegt í þessu, er sá stórhugur, sem kemur fram, sérstaklega í grg. fyrir þessari till. Þar er gengið út frá því að reyna að auka nokkuð frá því, sem hefur verið, þá framleiðsluaukningu, sem orðið gæti hjá þjóðinni, og ef rétt er að farið, þá getur og á sú framleiðsluaukning að koma fram í aukinni kaupgetu almennings, þannig að ef stílað væri nú upp á 4–5% og þaðan af meira, þá ættu þó alltaf að geta komið fram 2–3% í kaupgetuaukningu á ári, jafnvel þótt mjög djarflega væri tekið til með þann hlut. sem fer í fjárfestinguna, og hann aukinn.

Hins vegar var það svo, að ef við 1956 hefðum tekið ákvörðun um að koma upp slíku áætlunarráði, semja slíka þjóðhagsáætlun miðað við slíka framleiðsluaukningu og fara að vinna að henni, þá hefðum við á þeim 6 árum getað skapað álíka aukningu kaupgetunnar og var sköpuð með hækkununum, sem fram fóru haustið 1958 og urðu tilefni til þess, að Framsfl. sleit þá vinstri stjórninni. Ég hef reiknað það út á öðrum stað og get vitnað í það, ef vill. En nokkurn veginn sú sama kaupgetuhækkun, um 6 stigum hærri en var 1956, sem var komin á í des. 1958, gaf Framsfl. tilefni til þess að verkalýðsflokkunum báðum forspurðum að slíta þá vinstri stjórnarsamvinnunni. M.ö.o.: það sama, sem hv. þm. Framsfl. finnst sjálfsagt nú, það notuðu þeir sem tilefni til þess að slíta stjórnarsamvinnu þá. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég vilji fara að ýfast neitt um þetta, heldur bara til hins, að Framsfl. mætti, næst þegar hann kemur í ríkisstj., læra af þeim misfellum, sem hann gerði, þegar hann var í vinstri stjórninni, gera sig ekki sekan um sömu vitleysurnar aftur, en vera álíka stórhuga, þegar hann er í ríkisstj., eins og þegar hann er utan stjórnar.

Ég held hins vegar, hvað snertir sjálfa þessa þáltill., að sá háttur, sem ég hef lagt til að hafður yrði um samningu þjóðhagsáætlunar í því frv., sem liggur fyrir hv. Nd., sé réttari en sú till., sem hér er borin fram. Sannleikurinn er, að áætlunarráð — eða hvað sem við viljum kalla það — er stofnun, sem hlýtur að koma upp hjá hverri þjóð, sem ætlar sér að reyna að þróa sitt efnahagslíf af einhverju viti, og ég tala nú ekki um, ef hún ætlar að reyna að gera það af stórhug, og slík ráð eru þegar komin upp og eru þegar orðin fastar stofnanir, ekki aðeins í þeim sósíalistísku löndum, heldur líka í kapítalístískum löndum Evrópu, eins og Frakklandi, Noregi og víðar. Og þá eru þetta náttúrlega líka sérstakar ríkisstofnanir með sérstökum mönnum, sem því stjórna, og allmiklu bákni, sem þessi áætlunarráð hafa yfir að segja. Það er þess vegna óskynsamlegt út af fyrir sig að ætla að setja í þetta einhvers konar þingnefndir, sem kannske starfa á milli þinga og séu ekki festar í lögum. Það er óhjákvæmilegt, að slíkar stofnanir séu festar í lögum og starfi án tillits til þess, hvaða ríkisstj. eða hvers konar þingmeirihl. er á hverjum tíma. Ég held þess vegna, ef Framsfl. hefur nú svona aukinn áhuga, sem ég gleðst mjög yfir, fyrir að láta semja nýjar þjóðhagsáætlanir, þá ætti hann að taka þátt í því að reyna að fá þær till. og það frv., sem ég er með í Nd., samþykkt. Ég álít, að það sé ekki heldur heppilegt, að það sé reynt að hola slíkri stofnun eins og áætlunarráði niður sem einni deild í stjórnarapparatinu, eins og að sumu leyti hefur kannske verið reynt að gera með efnahagsmálaráðuneytinu, enda sýnist mér á öllu, að öll afstaða, sem þar hefur verið tekin, og þeir, sem ætlað er að stjórna, séu í rauninni ákaflega fjarri því að vinna að raunverulegri áætlanagerð. Sú þjóðhagsáætlun, sem við fengum í hendur fyrir kosningar, var raunverulega aðeins um sjálfan ríkisbúskapinn, ekki um neitt annað, og engar ráðstafanir gerðar í sambandi við það með þá hluti, sem liggja utan við ríkisbúskapinn, ekki a.m.k. neinar ákvarðanir teknar um, hvað þar skyldi vinna og á hvaða sviðum skyldi sérstaklega treyst á að auka á framleiðslugetu þjóðarinnar.

Ég held þess vegna, þegar það frv., sem er lagt fyrir Nd., kemur til 2. umr. þar, þá ætti hv. Framsfl. að athuga um að koma bar heldur með þær brtt., sem hann hefði, og ljá því máli lið að koma þeirri stofnun endanlega á laggirnar. Þó að seint sé og þó að góðum tækifærum hafi verið sleppt til slíks, þá er það aldrei of seint.