27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (2849)

38. mál, þjóðhagsáætlun fyrir árin 1964-1968

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Til umr. er till. á Þskj. 38, flutt af hv, framsóknarmönnum, um það að kjósa með hlutfallskosningu í sameinuðu þingi fimm manna nefnd til að semja nýja þjóðhagsáætlun til næstu 5 ára. Nú er það vitað, að þjóðhagsáætlun hefur verið samin til 4 ára, en hv. framsóknarmenn segja, að það sé ekki gert ráð fyrir nógu miklum hagvexti í þeirri áætlun og þess vegna sé þörf á að samþykkja nýja. M.ö.o.: hagvöxtur þjóðarinnar skal aukast með því að kjósa 5 manna nefnd til að semja nýja áætlun, sem gerir ráð fyrir auknum hagvexti. Þetta út af fyrir sig væri mjög æskilegt að gera, að kjósa nefnd í þessu skyni og semja nýja áætlun, ef það út af fyrir sig hefði áhrif á hagvöxtinn, því að það er vitanlega eitt af því nauðsynlega að auka framleiðnina og auka framleiðsluna. Það er undirstaða bættra lífskjara, sem alltaf er verið að berjast fyrir. En málið er ekki svona einfalt, og þótt þessi till. væri samþykkt og sett slík nefnd, þá hefði það ekki áhrif á hagvöxtinn til þess tíma, sem hér er um að ræða, m.a. vegna þess, að þjóðhagsáætlunin hefur verið samin og í þeirri þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að nýta alla hugsanlega möguleika til þess að auka framleiðsluna og framleiðnina. Það kemur þjóðinni ekki að gagni að gera áætlun, sem e.t.v. er ekki raunhæf. Og við getum sett okkur í spor bónda, við getum sett okkur i spor forstjóra fyrirtækis, sem er hygginn og vill sjá fram í tímann. Bóndinn vill ekki gera ráð fyrir meiri tekjum af búinu en hann er öruggur með að fá. Og fyrirtæki, sem er vel stjórnað, reiknar ekki með meiri hagnaði af fyrirtækinu en líklegt er að fá. Ef gert er ráð fyrir of miklum tekjum og tilkostnaður er miðaður við þessar óraunhæfu tekjur, getur svo farið, að af því stafi hreinn háski.

Við skulum hugsa okkur, að bóndinn gerði ráðstafanir til útgjalda miðaðar við þær tekjur, sem hann fengi ekki, þá vita allir, hvernig fer fyrir þeim bónda. Og sama máli gegnir um fyrirtæki, sem bindur sér bagga og ræðst í kostnað, sem er miðaður við hinar óraunhæfu tekjur, þá vita allir, hvernig fer fyrir slíku fyrirtæki. Það er miklu hyggilegra að gera ráð fyrir lægri tekjum, því að auknar tekjur fram yfir áætlunina koma vitanlega alveg að sama gagni, þótt ekki hafi verið að öllu leyti reiknað með þeim í byrjun tímabilsins. Eða hverjum dettur í hug, að við munum fiska meiri síld við strendur landsins eða þorsk, hvort sem gert er ráð fyrir því í þjóðhagsáætluninni, við skulum segja, að síldaraflinn verði 500 tonn, eða það væri bara gert ráð fyrir, að hann væri 300 tonn? Mundum við ekki fiska nákvæmlega jafnmikla síld, hvað sem væri sagt í áætluninni um þetta? Og mundum við ekki fiska nákvæmlega jafnmörg tonn af þorski, hvort sem við gerum ráð fyrir 100 tonna afla meira eða minna í áætluninni? Við mundum gera það undir þeim kringumstæðum, sem hér er um að ræða, þegar allt er gert til þess að ná í aflann: með því að kaupa fiskiskip til landsins, með því að byggja frystihús, síldar- og fiskimjölsverksmiðjur og gera ráðstafanir til að taka á móti aflanum, þegar hann kemur í land. En það gerir þessi þjóðhagsáætlun, sem hefur verið samin. Hún gerir ráð fyrir svo mikilli aukningu í skipakosti, vinnslustöðvum og öðru slíku, sem hugsanlegt er, að við höfum mannafla til að ráða við. Og þessi þjóðhagsáætlun, sem hefur verið gerð, gerir einnig ráð fyrir því að auka framleiðnina samkv. þeim tækjum, sem fyrir hendi eru, og nýta þau sem bezt, þannig að fiskvinnslustöðvar, frystihús og verksmiðjur geti í síauknum mæli tileinkað sér þá tækni, sem nýjust er, og það er vitanlega verkefni einnig samkv. þessari áætlun, sem hér hefur verið samin, að endurbæta frystihúsin og afkastagetu þeirra, fullkomna vélakost þeirra þannig, að þau verði megnug að greiða hærra kaup en áður. Ef ekki væri gert ráð fyrir þessu í þjóðhagsáætlun ríkisstj. og það væri meiningin með þessari till. og nefndarskipun að taka þetta upp í nýja áætlun, þá væri það mjög þarft og mjög nauðsynlegt. En það er ónauðsynlegt, af því að þessi þáttur er í þeirri áætlun, sem hefur verið gerð.

Þetta var um frystihúsin og þetta var um fiskiskipin, og það er vitanlega fleira, sem um er að ræða. Við vitum, að okkar aðalatvinnuvegir eru fiskveiðar, landbúnaður og iðnaður. Það er gert ráð fyrir því einnig í þessari þjóðhagsáætlun ríkisstj., að iðnaðurinn verði efldur og unnið verði að því að auka framleiðni hans og stefna að auknum útflutningi iðnaðarvara. Einmitt vegna þess að þetta er í þjóðhagsáætlun ríkisstj., verður ekki um það bætt með því að semja nýja, þótt hún yrði samin af þingkjörinni nefnd.

Um landbúnaðinn hefur verið nokkuð rætt í sambandi við þessa till. og talað um framleiðni hans. Stundum eru menn ekki alveg sammála um þátt landbúnaðarins í þjóðarbúskapnum. Stundum er því jafnvel haldið fram, að framleiðni í landbúnaði sé minni en hjá öðrum atvinnuvegum. Framleiðni í landbúnaði hefur verið ákaflega mikil síðustu árin. Og þegar skyggnzt er inn i þessi mál og það athugað ofan í kjölinn, er það alveg ótrúlegt, hver landbúnaðarframleiðslan er, miðað við þann fólksfjölda, sem að landbúnaði vinnur.

Það er dálítið fróðlegt að líta í skýrslur og athuga það, að um aldamót eru í landinu 78470 manns. (Gripið fram í: Hvar er Gylfi?) Gylfi, ég er ekki að tala við hæstv. viðskmrh. frekar en hv. 1. þm. Austf. um þessi mál. Þeir hlusta á það, sem vilja, hv. þm., og ég ætla, að það sé hollt fyrir hv. 1. þm. Austf. að hlusta vel á það, sem hér er verið að segja og verður sagt um landbúnaðinn. Ég las um það í Tímanum núna fyrir nokkrum dögum, að það væri tekin upp ný stefna í landbúnaði, og það er að víssu leyti rétt. Það hefur verið tekin upp ný stefna frá því sem var, þegar hv. 1. þm. Austf. var fjmrh. Og í hverju er sú nýja stefna fólgin? Eigum við að rifja upp. hver var stefnan í landbúnaðinum 1957 og 1958? Eigum við að rifja það upp, hvað hv. 1. þm. Austf. sagði, þegar hann var fjmrh.? Hann sagði, að það væri ekki um það að ræða að borga eina kr. úr ríkissjóði með því, sem kallað var umframframleiðsla í landbúnaði. Þess vegna var það, að búnaðarþing 1957 og 1958 eyddi miklu af sinum tíma í að ræða um það, hvað ætti að gera við það, sem kallað var umframframleiðsla, því að bændur urðu að bera hallann af því, sem flutt var út fyrir lágt verð. Bændur vantaði stundum 10% af grundvallarverði mjólkur, vegna þess að það voru fluttir út ostar. Og bændur voru að tala um það, hvernig þeir ættu að bregðast við, úr því að ríkisvaldið vildi ekkert koma til móts við þá og tryggja fullt verð fyrir framleiðsluna alla. Niðurstaðan var sú hjá hyggnum bændum að draga úr framleiðslunni. Bændur hugsuðu sem svo: Úr því að það vantar 10% af verði mjólkurinnar og við þurfum að flytja út, þá er ekkert annað en draga úr framleiðslunni þannig, að hún verði mátuleg fyrir innanlandsmarkaðinn og við þurfum ekkert út að flytja.

Þessi stefna var ráðandi á árunum 1957 og 1958, og afleiðingin sagði til sín. Mjólkurmagnið minnkaði, og við urðum í fyrsta sinn í mörg ár að flytja inn smjör í ársbyrjun 1960. Þetta var ekki holl stefna. Þetta var vitanlega algerlega röng stefna í landbúnaðarmálum, því að okkur ber að framleiða matvæli, ekki aðeins fyrir þjóðina, heldur einnig til þess að afla okkur gjaldeyris, einnig fyrir landbúnaðarvörur. Og síðan núv. ríkisstj. tók við völdum og tók upp nýla stefnu að þessu leyti, hefur landbúnaðarframleiðslan farið stöðugt vaxandi. Nú talar enginn um það að flytja inn smjör, nú tala menn um e.t.v. óþarflega miklar smjörbirgðir, sem munu vera um 700 tonn. Nú eru fluttir út ostar og mjólkurduft, án Þess að bændur beri hallann af því. Það er flutt út kjöt, án þess að bændur beri hallann af því, Og það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði á þessu framleiðsluári allt að 120 millj. kr. með landbúnaðarvörum, sem eru seldar úr landi fyrir lægra verð en gildir á innlendum markaði. Þetta hefði ekki verið mögulegt að gera, ef hv. 1. þm. Austf. hefði verið með lykilinn að ríkiskassanum. Hann hefði ekki samþykkt það, að bændur fengju þetta greitt. Bændur mundu enn glíma við þann vanda, sem búnaðarþing réð ekki við á árunum 1957 og 1958: hvað ætti að gera við umframframleiðsluna. En sennilegra er, að ef stefna hv. 1. þm. Austf. væri enn ráðandi í landbúnaðarmálum, þá væru engar landbúnaðarvörur til þess að flytja út, vegna þess að bændur hefðu séð sinn hag beztan í því að haga framleiðslunni þannig, að hún rétt nægði til innanlandsnotkunar. Og ef stefna hv. 1. þm. Austf. Væri ráðandi í dag, væri samdráttur í landbúnaði og jafnvel kreppa í landbúnaði, og þess vegna er það, sem margir eru undrandi yfir því, hvernig framsóknarmenn hv. á Alþingi tala og skrifa um landbúnaðarmál nú, þegar þróun landbúnaðarins á síðustu árum hefur verið sú, að framleiðslan hefur stóraukizt, að framkvæmdir i landbúnaði hafa verið meiri nú en nokkru sinni fyrr og flótti frá landbúnaði er minni nú en áður. (ÁB: Miklu meiri.) Nú, hv. 1. þm. Vesturl. grípur fram í og segir: Hann er meiri. Og þetta segir hv. þm. kannske í trausti þess, að ég hafi ekkert fyrir framan mig til þess að rökstyðja minn málflutning. En ég hef nú skýrslur fyrir framan mig, sem geta sannað mitt mál, og ég er ekkert undrandi yfir því, þótt hv. 1. þm. Vesturl. eigi dálítið erfitt með að átta sig á staðreyndunum, því að ég man það, þegar þessi hv. þm. var að tala um landbúnaðarmál veturinn 1960 í hv. Ed og var að tala um, að hér eftir þyrfti örugglega að flytja á hverju ári inn meira og minna af smjöri, það yrði samdráttur í sauðfjárframleiðslunni, samdráttur í nautgripaframleiðslunni, samdráttur í öllu. Hann, þessi hv. þm., hafði sett upp móðuharðindagleraugun og sá vitanlega ekkert nema dökkt og þoku. En hv. þm. ætti nú að hafa áttað sig á því, að spádómarnir hafa ekki rætzt og íslenzkur landbúnaður er í framför síðan núv. ríkisstj. kom til valda og breytti um stefnu og tryggði bændum grundvallarverð fyrir alla framleiðsluna með því að láta ríkissjóð greiða hallann. Já, hv. 1. þm. Austf. greip fram í áðan, þá ætlaði ég að fara að lesa upp skýrslu, sem sýnir það, að landbúnaðurinn og bændurnir í landinu hafa leyst mikilvægt hlutverk af hendi og landbúnaðarframleiðslan er ótrúlega mikil miðað við Þann mannfjölda, sem að landbúnaðinum vinnur.

1901 var 71.3% af landsfólkinu, sem stundaði landbúnað, 1910 51%. 1920 42.9%. 1930 35.8%, 1940 31.6%, 1950 21.7% og 1960 aðeins 18.8%. En framleiðsla landbúnaðarvaranna hefur brátt fyrir þetta stöðugt haldið áfram að aukast. og það er vitanlega hvort tveggja, sem hefur skeð, að fólkið, sem við landbúnað vinnur, hefur unnið vel og oft lan,gan vinnudag, og að landbúnaðurinn hefur tekið í þjónustu sína þá tækni, sem er bezt og dugar bezt við framleiðsluna. Þannig mun íslenzkur landbúnaður vera betur vélvæddur en landbúnaður hjá jafnvel nágrannaþjóðum okkar. Og ræktunin hefur stöðugt haldið áfram að aukast. Það er vissulega gott til þess að vita, að við eigum blómlegan landbúnað, sem hefur mikil vaxtarskilyrði, þar sem líklegt má telja. að um næstu aldamót muni landsbúar verða um 350 þús. talsins. Samkv skýrslu, sem ég hef í höndum, er það svo, að 1955—1956 voru 5176 býli í landinu, 1957—1958 5168. 1958—1959 5078, 1959—1960 5159 og 1960—1961 5266. Það er talsvert um það, að jarðir fari í eyði og séu lagðar undir aðrar jarðir, en í skarðið kemur þá það, sem almennt er kallað nýbýli á vegum nýbýlastjórnar, þannig að bændunum fækkar ekki, þrátt fyrir það að einstöku jarðir leggist í eyði. Út í það skal ég ekki nánar fara, en ég vildi segja það, að miðað við það, að þjóðinni fjölgar, og miðað við það gildi, sem landbúnaðurinn á í þjóðlífinu og mun eiga, mundi það vera slæmt, ef bændunum héldi áfram að fækka, og ég er reyndar ekki i nokkrum vafa um það, að nú erum við komnir í botn hvað þetta snertir og straumurinn mun snúast við aftur og bændur setjast að í sveitinni, þeir sem nú eiga heima við sjávarströndina. Og ekki er að efast um það, að nóg höfum við landið til ræktunar. Það var talið, að á landnámsöld væru 50 Þús. ferkm samfellt gróðurlendi, en nú sé þetta aðeins 25 þús. ferkm. Það er talið, að milli 44 og 45 Þús. ferkm séu undir 400 metrum yfir sjávarmáli, sem má teljast gott til ræktunar. Og þegar það er athugað, að við höfum ekki enn ræktað nema 85 þús. hektara eða 850 ferkm, aðeins tæplega fimmtugasta hluta af því landi. sem vel er ræktanlegt, þá getum við gert okkur ljóst, hversu möguleikarnir eru miklir í landbúnaðinum, og fyrir fjölgandi þjóð er vissulega gott að vita til þess.

Nautgripum í landinu hefur fjölgað mjög mikið, enda talar nú enginn lengur um samdrátt. Það má geta þess, að 1901 voru 25674 nautgripir, 1950 44505 og í árslok 1962 54744, og mjólkurframleiðslan hefur vitanlega vaxið í samræmi við fjölgun nautgripanna og meira. Fyrir bætta meðferð og aukna ræktun er það vitanlega meira, sem kemur eftir hvern grip.

En mjólkurframleiðslan hefur farið stöðugt vaxandi, síðan tekin var upp þessi nýja stefna að tryggja bændum fullt verð fyrir allt, sem þeir framleiða. Þannig er það, að 1959 er mjólkurframleiðslan 93 millj. 714 þús. lítrar, 1960 97 millj. 672 þús., 1961 108 millj. og 1962 113 millj. 600 þús., og 1963 verður mjólkurframleiðslan talsvert meiri en 1962, þrátt fyrir það að árferðið hafi ekki verið sem bezt. Og ég endurtek það, að þegar þetta er athugað, þessi mikla aukning í framteiðslunni, getur það ekki verið af öðru en því, að landbúnaðurinn hefur tekið í þjónustu sína aukna framleiðni og afkastar ótrúlega miklu. Og mér finnst, að þeir, sem landbúnað stunda, eigi vissulega þakkir skildar frá þjóðarheildinni, einmitt fyrir það, hversu miklu dugnaður hefur verið sýndur hvað þetta snertir. Og það eru vitanlega þáttaskil, síðan núv. ríkisstj. kom til valda, í sambandi við vélvæðingu landbúnaðarins og aukna framleiðni. Við getum vitað það, að það er erfitt fyrir bónda að framleiða mikla mjólk, ef hann hefur ekki mjaltavél, en allt þangað til núv. ríkisstj. kom til valda, var það miklum erfiðleikum bundið að fá mjaltavélar. Það þurfti margs konar leyfi, og það er óhætt að fullyrða, að það var fleirum synjað um leyfi heldur en þeim, sem fengu þær. En það er vitanlega undirstaða að því, að menn geti framleitt mikla mjólk, að hafa mjaltavélar og hafa byggingarnar þannig úr garði gerðar, að það sé sem léttast og auðveldast að vinna við þetta.

Kjötframleiðslan hefur einnig vaxið, vegna þess að nú er ekkert að óttast um, að það verði of mikið framleitt. Það er flutt út, sem ekki er notað í landinu, og það fæst eins gott verð fyrir það.

Áætlað er, að heildarframleiðsla landbúnaðarvara sé um 1500 millj. kr., og er það vissulega mikið miðað við það, að ekki eru fleiri en sagt hefur verið frá, sem að landbúnaðarstörfunum vinna. En framleiðsla landbúnaðarins gæti þó verið miklu verðmætari á margan hátt en hér kemur í ljós, vegna þess að með því að vinna úr vörunni meira og betur en gert hefur verið má jafnvel margfalda verðmæti hennar. Tökum t.d. gærurnar, sem eru ágæt vara, og gærur eru taldar vera í góðu verði nú, en bændum eru ætlaðar í grundvellinum 34 kr. fyrir hvert kg. En ef við ynnum gærurnar í landinu, gætum við fengið tvöfalt það verð. Árið 1961 voru fluttar út gærur saltaðar fyrir rúml. 97 millj. kr. Magnið var 2689 tonn. Sama ár voru fluttar út loðsútaðar gærur fyrir 1 millj. 77 þús. kr., það voru 4.8 tonn. Samkv. mjög góðum heimildum fást ca. 320 kg af loðsútuðum gærum úr einu tonni af söltuðum gærum. Ef allt það magn af gærum, sem að framan er nefnt, er flutt var út 1961, þ.e. 2689 tonn, hefði verið loðsútað, mundi það magn hafa orðið 860 tonn og verðmætið 192 millj. kr., eða helmingi meira en fékkst fyrir söltuðu gærurnar. Magnið er tekið samkv. Árbók landbúnaðarins. Það er athyglisvert þetta, að með því að vinna gærurnar í landinu gætum við fengið a.m.k. helmingi meira verð fyrir þær. Það er þó talið, að fyrir óunnar gærur fáist 108 kr. stykkið, en fyrir unnu gærurnar 241 kr. stykkið, og sjáum við, að það er reyndar nokkru meira en helmingi meira.

Ef við tökum ullina, verður dæmið enn hagstæðara með því að vinna hana í landinu heldur en selja hana óunna, eins og við höfum gert. Fullvinnsla íslenzku ullarinnar gefur feiknalega mikla möguleika til aukinnar verðmætasköpunar. Hingað til hefur það þó dulizt öðrum en sérfræðingum, hverjir möguleikar liggja í því, ef hægt væri að finna unn aðferð til þess að skilja þelið frá toginu. Yrði þá þelið notað í fínni vörur, kjóla, kápur og því um líkt, en togið í áklæði, teppi, skjólfatnað o.s.frv. Lauslega athugað mundi fullkomin verksmiðja til þess að framkvæma þann aðskilnað kosta um 150 millj. kr., eftir að búið væri að finna aðferðina. Möguleikunum, sem í þessu felast. má lýsa á eftirfarandi hátt, og er þá miðað við, að ullarframleiðsla landsmanna sé 850 tonn, óunnin og óaðskilin ull, 60 kr. pr. kg, þ.e. 51 millj. kr. Óunnin, en aðskilin ull, þ.e. tvöföld verðmætisaukning, varlega reiknað 102 millj. Aðskilin og unnin sem garn, yfirleitt mun reiknað með tvöföldun á verðmætum með því, það gera 204 millj. Aðskilin og unnin ull sem vefnaður eða prjón 408 millj., þ.e. áttföldun á verðmætinu miðað við það að flytja ullina út eins og við höfum gert áður. Að vísu er áætlað, að kosti um 150 millj. kr. að koma upp verksmiðju til að vinna þetta, en miðað við þá verðmætisaukningu, sem við fáum fyrir ullina með því að fullvinna hana, eru 150 millj. í þessu tilfelli smápeningur.

Ríkisstj. hefur þetta mál til athugunar í samvinnu við norska iðnmrn., og verður væntanlega tekin upp á næstu fjárlög 1/2 millj. kr., sem skal varið til rannsókna í þessu skyni. Þetta er ákaflega mikilvægt, og einmitt eðlilegt að benda á þetta, þegar rætt er um þátt landbúnaðarins í þjóðarbúskapnum. Og þótt ég hafi hér aðeins talað um ull og gærur, þá má einnig og ekki síður minnast á önnur skinn, og ég get upplýst það, að ríkisstj. hefur það einnig til athugunar, á hvern hátt mætti gera alla skinnaframleiðsluna margfalt verðmætari en hún er með því að flytja skinnin út óunnin. Við vitum einnig um kindagarnirnar, að með því að vinna þær og hætta að flytja þær út eins og við gerum mætti margfalda verðmæti þeirra.

En við Íslendingar eru ungir að árum að því leyti að taka okkur tæknina á vald á öllum sviðum, og á iðnaðarsviðinu erum við hvað yngstir í þessu tilliti, og við skulum ekkert syrgja það, þótt við séum tiltölulega skammt á veg komnir að þessu leyti. Við skulum miklu frekar fagna því, að við höfum komið auga á möguleikann til þess að margfalda verðmæti framleiðslu okkar, og það er vitanlega fyrsta skilyrðið til þess, að unnið verði að þessum málum, að gera sér grein fyrir möguleikunum. Og núv. ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir möguleikunum og hefur þegar byrjað athuganir og rannsóknir á þessum sviðum, en það er fyrsta sporið, sem þarf að gera, og í þjóðhagsáætluninni er gert ráð fyrir mikilli aukningu í iðnaði og landbúnaði, enda þótt við hljótum að vera mjög skammt á veg komnir á árinu 1966 í þessu tilliti, þar sem rannsóknir t.d. á ullinni eru aðeins að byrja og allt hlýtur að taka sinn tíma, sem þróun þarf að hafa. Landbúnaðurinn skilar miklu í þjóðarbúið, en hann mun þó eiga eftir að skila miklu meira tiltölulega en hann hefur gert fram að þessu, m.a. vegna þess að við höfum ekki enn nýtt landbúnaðarframleiðsluna eins vel og við gætum gert.

Um till. þeirra framsóknarmanna er í rauninni óþarfi að fara mörgum orðum, og ég veit, að hv. framsóknarmenn gera sér grein fyrir því, þegar þeir fara að athuga málið, að í rauninni er ekki frambærilegt að koma með till. eins og þessa hér á hv. Alþingi undir því yfirskini, að það eigi að fara að betrumbæta þá þjóðhagsáætlun, sem fyrir liggur og unnin er af færustu mönnum samkv. beiðni ríkisstj., undir því yfirskini, að það mætti takast að auka framleiðni og hagvöxt með því að skrifa á blöð nýja áætlun. Ef ríkisstj. hefði sofið á verðinum, ef ríkisstj. hefði ekkert hafzt að, enga þjóðhagsáætlun látið gera, enga grein gert sér fyrir því, hvaða möguleika Þjóðarbúið hefur og hinar ýmsu atvinnugreinar, hefði verið þörf á að flytja till. eins og þessa, eða eitthvað í þá átt.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur tekið til máls í sambandi við þessa till., og hann furðaði sig á því, að hún skyldi vera komin úr herbúðum framsóknarmanna, vegna þess að þeir hafi alltaf verið á móti áætlanagerð. En þessi hv. þm., 3. þm. Reykv., hefur nú lýst því svo myndarlega, hvernig hv. framsóknarmenn eru, þegar þeir eru í ríkisstj., og hvernig þeir eru, þegar þeir eru utan stjórnar, hann hefur lýst því ágætlega, hvernig þessi hamskipti eiga sér stað. Og það gerist ekki aldeilis hljóðalaust. Það hefur skeð margt broslegt í sambandi við stjórnarandstöðuna, síðan framsóknarmenn hv. komust í stjórnarandstöðu, því að þeir hafa yfirleitt í hverju máli, sem ríkisstj. hefur komið með, komið með gagntill. og skrifað ávísun á ríkissjóðinn. Ríkissjóðurinn skal borga.

Mér fyrir mitt leyti fyndist það enginn löstur á hv. framsóknarmönnum, þótt þeir breyttu um skoðun, og mér finnst það alveg geta verið samrýmanlegt, að þótt hv. framsóknarmenn hafi verið á móti áætlanagerð í þjóðarbúskapnum fyrir 5 árum, þá gæti það verið alveg heilbrigt, að þeir væru með því nú, ef það væri fyrir skoðanaskipti eftir heilbrigða athugun, eftir heilbrigt mat á ástandinu í þjóðmálunum. Og ég er alveg sannfærður um það, að áætlunargerð getur verið nauðsynleg, er nauðsynleg og leiðbeinandi fyrir þá, sem með völdin fara, enda þótt það sé aldrei unnt að fylgja því alveg bókstaflega, og framleiðsluaukningin vitanlega verður alveg jafnmikil, þótt ekki sé gert ráð fyrir í þjóðhagsáætlun ríkisstj. nema 4%, þá vitanlega getur hún alveg eins farið upp í 5 eða 6%, ef aflabrögðin verða þannig, vegna þess að það hefur aldrei gerzt áður, að það hafi verið gerðar slíkar ráðstafanir til þess að nýta aflann eins og einmitt nú, nýta alla þá möguleika, sem fyrir hendi eru.

Ég sagði áðan, að fataskipti hv. framsóknarmanna hafi á ýmsan hátt borið broslega að í yfirboðum, og af því að ég minntist nú á það, þá kannske er ætlazt til, að ég finni orðum mínum einhvern stað frekar en orðið hefur. Það er þó ekki beinlínis ástæða til þess, vegna þess að þetta er nú öllum kunnugt, og ég sé, að hv. þm., sem stendur hér á móti mér, brosir að því með sjálfum sér, hvernig þetta hefur getað átt sér stað hjá hv. framsóknarmönnum. En mér er sérstaklega minnisstætt, þegar hv. framsóknarmenn eru að tala um viðreisn lánasjóða landbúnaðarins. (ÁB: Nýja skattinn) Hv. 1, þm. Vesturl. talar um skatt, þegar rætt er um búvörugjald til stofnlánadeildar landbúnaðarins, en þegar rætt er um það, sem borgað er til bændahallarinnar, þá er það ekki skattur, þá er það framlag frá bændum til framtíðarinnar, eins og hann hefur sjálfur orðað það, það er ekki skattur. Nei, það er ekki skattur að borga taprekstur af hóteli í Reykjavík, en það er skattur að byggja upp lánastofnun fyrir landbúnaðinn, lánastofnun, sem fær frá ríkinu miklu stærri upphæð en það, sem bændurnir greiða, og neytendur hafa möglunarlaust tekið á sig að greiða 0.75% af landbúnaðarverðinu í stofnlánadeildina. En það eru sumir bændur, sem eru að reyna að ala á óánægju innan stéttarinnar af pólitískum ástæðum með þetta gjald. Og það er enginn vafi á því, að þótt hv. framsóknarmenn af pólitískum ástæðum reyni að ala á óánægju hjá bændastéttinni fyrir þetta nú, þá mun framtíðin sanna það, að hér var rétt að farið, og stofnlánadeildin með þeirri uppbyggingu og þeim föstu tekjum, sem henni hafa nú verið tryggðar, mun verða sú lyftistöng, sem landbúnaðurinn nauðsynlega þarf að fá, til þess að hann geti þróazt í þjóðfélaginu, eins og æskilegt er fyrir þjóðarheildina. Og hvernig halda menn, að landbúnaðurinn væri staddur í dag með sín lánamál, ef fyrir 20 árum og jafnvel ekki nema fyrir 10 árum hefðu verið sett lög svipuð sem þessi? Það er enginn vafi á því, að hverjir sem komast í ríkisstj., hverjir sem verða í ríkisstj., munu þeir ekki leyfa sér að bregða fæti fyrir uppbyggingu stofnlánadeildar landbúnaðarins með því að svipta hana þeim tekjustofnum, sem henni hafa nú verið tryggðir. Og þegar við ræðum um framleiðni og hagvöxt, þá skulum við gera okkur það ljóst, að fyrsta skilyrðið fyrir hvern atvinnuveg er að hafa greiðan aðgang að lánastofnun, og þótt ekki séu nú nema tæp 2 ár, rúmlega hálft annað ár, síðan lög um stofnlánadeild tóku gildi, er árangurinn þegar kominn í ljós. Lán til landbúnaðarins hafa verið aukin til muna frá því, sem var, og nú er farið að lána út á dráttarvélar, súgþurrkunartæki og hækka lán til annarra sviða landbúnaðarins, þannig að lán til landbúnaðarins hafa hækkað tiltölulega mest frá árinu 1960—1962, þegar miðað er við aðra atvinnuvegi, og hvað halda menn, að verði í þessum málum, þegar stofnlánadeildin hefur starfað, hefur aukizt og eflzt samkv. þeirri löggjöf, sem hér er um að ræða? Sjávarútvegurinn getur ekki misst fiskveiðasjóðinn. Sjávarútvegurinn getur keypt fiskiskip til landsins, vegna þess að fiskveiðasjóður er til, og fiskveiðasjóður hefur verið byggður upp af útflutningsgjaldinu, en ríkissjóður greitt aðeins 2 millj. kr. á ári, sem er ekki nema lítið brot miðað við það, sem sjávarútvegurinn sjálfur hefur greitt til sjóðsins. Og á s.l. þingi voru sett lög til tryggingar og uppbyggingar iðnaðinum, með því að iðnaðurinn tekur á sig að greiða visst gjald af framleiðslunni í iðnlánasjóð, en fær aðeins lítið brot frá ríkinu á móti. Og þannig er það, að þegar við erum að tala um aukinn hagvöxt og aukna framleiðni, er það vitanlega undirstaðan, að það sé einhvers staðar fáanlegt fjármagn, að það sé ekki sú lánsfjárkreppa hjá atvinnuvegunum, eins og var á tímabili í landbúnaðinum, þar sem bændur urðu langtímum saman að bíða eftir lánum, sem voru skorin niður, vegna þess að féð var ekki til.

Á þessu ári hefur stofnlánadeildin afgreitt byggingarlán og önnur lán eftir hendinni, jafnóðum og umsóknir hafa borizt, og biðtíminn, sem áður var ærið langur hjá bændum eftir lánum, er ekki lengur fyrir hendi. Stofnlánadeildin hefur einnig það verkefni að efla veðdeild Búnaðarbankans. sem lengst af hefur verið tóm, og samkv. lögum er henni ætlað að kaupa árlega veðskuldarbréf að upphæð 10 millj. kr. til þess að efla veðdeildina. Enn sem komið er hefur stofnlánadeildin ekki getað notað þessa heimild að fullu, en hefur þó á þessu ári keypt veðdeildarbréf fyrir 5 millj. kr., þannig að það var þó fært að hækka lán úr veðdeild til jarðarkauna á þessu ári úr 35 þús. í 150 þús. kr. Og ef hv. 1. þm. Vesturl. hefði nú stutt stjórn, sem hefði gert þetta, þá hefði hann séð ástæðu til að lýsa ánægju sinni yfir þessum aðgerðum, en ég fyrirgef honum það alveg, þótt hann hafi ekki enn sem komið er farið viðurkenningarorðum um ríkisstj. fyrir aukin útlán landbúnaðinum til handa, vegna þess að ef hann gerði það. mundi það valda merkingartruflunum og mótsögnum það miklum, að það er ekki eðlilegt, að hann geri slíkt.

Það er ekki heldur um það að ræða hér, hvort ríkisstj. eða öðrum er þakkað fyrir það, sem hefur verið gert, en til þess verður að ætlast af reyndum mönnum, sem hafa setið lengi á Alþingi, að þeir leitist við að líta raunhæfum augum á málið og sanngjörnum og gera sér grein fyrir því viðhorfi, eins og það er. Og einmitt það, sem mestu máti skiptir með landbúnaðinn, er, að með lögum um stofnlánadeild hefur verið lagður hornsteinn að eflingu landbúnaðarins, ekki bara í nútíð, heldur um alla framtíð, því að þessi sjóður mun vaxa ár frá ári og verða eftir tiltölulega fá ár ein öflugasta lánsstofnun í landinu. Og það væru vissulega fjörráð við landbúnaðinn, ef þeim, sem nú tala yfir sig gegn þessum lögum, tækist það, sem aldrei skeður, að skemma þessa lagasetningu. Þá væru það víssulega fjörráð við landbúnaðinn. Og við skulum gera okkur grein fyrir því. að þótt margt hafi breytzt til batnaðar í tíð núv. ríkisstj. og viða megi sjá fé í stofnunum og sjóðum, sem áður voru tómir, þá eru samt sem áður takmörk fyrir því, hversu háar ávísanir má skrifa á ríkissjóðinn hverju sinni. Og við skulum minnast þess, að síðasta árið sem framsóknarmenn áttu fjmrh. í ríkisstj., eftir að gengið hafði raunverulega verið fellt um 55% vorið 1958, sá hæstv. fjmrh. Framsfl. sér ekki fært að hækka framlag til lánasióða Búnaðarbankans úr 4 millj., sem það hafði lengi verið, heldur var frv. til fjárl. fyrir árið 1959 flutt með þessari sömu upphæð. Það var vitanlega vegna þess, að það vantaði þá fé, að allir sjóðir voru tómir, að þetta var ekki gert, en þess vegna má það merkilegt heita, að hv. framsóknarmenn skuli nú í dag ekki gera sér grein fyrir því, þótt fjárhagur hafi batnað, að það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er hverju sinni að heimta úr ríkissjóði.

Ég sá ástæðu til að fara nokkrum orðum um þá till., sem hér liggur fyrir, og lýsa skoðun minni á henni, og ég vil endurtaka það, að ég tel þessa till. algerlega óþarfa, þar sem þjóðhagsáætlun ríkisstj. liggur fyrir og þar sem sú þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir að nýta alla þá möguleika, sem fyrir hendi eru, til þess að auka þjóðarhag, framleiðni og þjóðartekjur, og við skulum vona, að hagvöxturinn verði meiri en 4%. Það er víssulega gott, ef það gæti orðið. En það væri ekki aðeins til einskis, heldur gæti verið skaðlegt að reikna með, að hagvöxturinn yrði 5—6%, og byggja svo aðrar áætlanir á því til útgjalda og svo brygðist þessi áætlun og hagvöxturinn yrði ekki nema 4%. Með því móti gæti ýmsu verið stefnt í hættu og leitt til þess, að við yrðum að fara að stíga spor aftur á bak. Og ég vil vona, að hv. framsóknarmenn hafi nú þegar gert sér grein fyrir þessu. Till. þessi hefur verið flutt, við skulum segja hreinskilningslega: í áróðursskyni, og það út af fyrir sig er mannlegt og ekkert við því að segja. En það væri vitanlega enn mannlegra og stórmannlegra að viðurkenna hreinskilnislega, að till. eftir atvikum og nánari athugun sé algerlega óþörf.