31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (2885)

46. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem þörf er á að ég fari nokkrum orðum um að síðustu, og það er það atriði í málflutningi hv. þm. að gera tilraun til að stimpla mig sem sérstakan sökudólg í vinstri stjórninni svokölluðu fyrir það, að ég skuli ekki hafa talið það skyldu mína og skyldu mína einvörðungu að fylgjast með afgreiðslu á till. Alþingis frá því í maí 1958. Skoðun mín er sú, að fyrst og fremst hafi þáv. bankamrh. átt að fjalla um till. (ÞÞ: Hver var þáv. bankamálaráðh.?) Forsrh. Hermann Jónasson. (ÞÞ: Var Það öll stjórnin?) Ég er búinn að margsegja þetta í umr. áður, að það var öll ríkisstj., sem fór með bankamálin, en að forminu til forsrh. fyrir hönd ríkisstj. allrar. Ég hef enga tilraun gert til þess að koma neinni sérstakri ábyrgð yfir á þáv. forsrh. í þessu efni. Það er hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, sem hefur verið að reyna að gera tilraun til þess að koma ábyrgð á mig í þessu efni og mig einan. Og það er þetta, sem ég verð að svara, og þetta, sem ég verð að andmæla. Þetta er ódrengilegt og hlýtur að vera mælt gegn betri vitund. Það á ekki að þurfa að tala um það við reynda þm., að mál, sem snerta Seðlabankann og lúta að mikilvægustu verkefnum hans, hljóta fyrst og fremst að heyra undir þann ráðh., sem fer með málefni Seðlabankans. Um það getur ekki verið ágreiningur meðal sæmilega viti borinna manna. Hitt er annað mál, að þeir ráðh., sem fara með mál þeirra iðngreina, sem eiga þarna hagsmuna að gæta, hljóta auðvitað að láta sig þau mál skipta. Það segir sig algerlega sjálft, enda hefur þannig alltaf verið í öllum ríkisstj., vinstri stjórninni og í þessari, og það er fullkomlega eðlilegt. Þess vegna var það algerlega rétt gert hjá Alþingi, þegar þessi till. var samþykkt, að senda hana bæði forsrh., sem fór með bankamál fyrir hönd stjórnarinnar allrar, og iðnaðarmálaráðherra.

Hv. þm. segir, að þáv. forsrh., Hermann Jónasson, kannist ekki við. að því hafi nokkru sinni verið hreyft við sig, að hann tæki málið unn í ríkisstj. Kannast þá ekki þáv. forsrh., Hermann Jónasson, við það að hafa fengið till. senda? Og hvað þýðir það, ef ráðh. fær till. senda frá hinu háa Alþingi? Það er auðvitað fsp. frá Alþingi eða tilmæli frá Alþingi um það að taka till. upp í ríkisstj. Þess vegna kann ég því illa, að hv. þm. sé að gera endurtekna tilraun til að brigzla mér um vanrækslu í þessum efnum. Vilji hann brigzla einhverjum, þá átti hann að brigzla okkur tveimur, okkur báðum um vanrækslu í þessum efnum. Þá skyldi ég gjarnan hafa tekið minn hlut af ábyrgðinni á mínar herðar. Ef við einhvern var að sakast um vanrækslu, þá var bað við hæstv. þáv. forsrh. og við mig, okkur báða. Þá sameiginlegu ábyrgð skal ég gjarnan taka á mig, en einn tek ég hana ekki á mig.

Nú er það svo, að það er ekki skráð, sem gerist á stjórnarfundum, og er vafalaust mjög heppilegt, að það er ekki gert. Þó man ég ekki betur en ég hafi einu sinni hreyft þessu máli lauslega á ráðherrafundi, en það kom greinilega fram, ég bar engar till, fram um það á fundinum. að þetta skyldi gert, að ríkisstj. skyldi beina þessum tilmælum til Seðlabankans, því að það var ekki í samræmi við skoðun mína. Ég taldi að slíkt hefði ekki átt að gerast. En það kom í ljós, — þess vegna urðu umr. mjög stuttar. — að við vorum allir sammála um, að efni till. skyldum við ekki beina til stjórnar Seðlabankans, við skyldum ekki gera það, og það var rétt gert, ef má kalla það ákvörðun, sem kannske er of formlega til orða tekið, en sú niðurstaða okkar af mjög stuttri umr. um málið var sú, að við vorum allir sammála, og þannig fór líka málið. Þess vegna ræddi þáv. forsrh. málið aldrei við Seðlabankann, af því að hann hafði ekkert umboð stjórnarinnar til að gera það. En það sker svo alveg úr um, hvor okkar tveggja hafði fyrst og fremst átt um málið að fjalla, ef við spyrjum spurningarinnar: Hver hefði átt að tala við Seðlahankann, ef skoðun stjórnarinnar hefði verið önnur en hún var, ef stjórnin hefði verið þeirrar skoðunar, að þetta hefði átt að gera, að Seðlabankinn hefði átt að hefja þessi endurkaup á víxlum iðnaðarins. — hver hefði þá talað við Seðlabankann? Hefði það verið forsrh., eða hefði það verið ég? Auðvitað hefði það verið forsrh. Það var í hans eðlilega verkahring, það var hans eðlilega starfsskylda, og það tekur auðvitað af öll tvímæli um það, hjá hvorum ábyrgðin var fyrst og fremst í þessum efnum. Þó að ég vilji engan veginn skorast undan einhverjum hluta af ábyrgðinni. Mér kom málið auðvitað við sem iðnmrh., en höfuðskyldan í því efni var ekki á mér.