22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í D-deild Alþingistíðinda. (2909)

48. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafi Jóhannessyni, að flytja till. til þál. um listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur. Ég vil leyfa mér að lesa till, í heild:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til þess að gera till. um stofnun og starfrækslu opinberra listasafna utan Reykjavíkur. Jafnframt skal n. gera till. um það í samráði við samtök myndlistarmanna, hvernig helzt mætti stuðla að því, að haldnar verði fleiri myndlistarsýningar, samsýningar eða sérsýningar, utan höfuðborgarinnar. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Eins og fram kemur í grg. fyrir till., eru engin listasöfn til utan Reykjavikur. Það vakti því eigi alllitla athygli, er frú Bjarnveig Bjarnadóttir í Reykjavik gaf Árnessýslu álitlegt safn málverka, sem ætlað er að verða stofn að listasafni sýslunnar. Þetta framtak frú Bjarnveigar, sem er óneitanlega mjög óvenjulegt, hlýtur að vekja til umhugsunar um það, hvar við stöndum í þessum málum og hvort ekki mætti koma af stað hreyfingu í þá átt að efla listmenninguna í landinu og binda hana ekki við höfuðborgina eina, eins og segja má að hafi verið þróunin til þessa.

Ég held, að hér sé um mjög mikið verkefni að ræða, sem ástæða sé til þess að vinna að. Að mínu áliti skiptir afar miklu, að uppbygging þessara mála verði svo vel samræmd frá upphafi, að við það megi una til frambúðar. Mikilvægt er að virkja alla þá krafta, sem borið gætu þessi mál uppi. Er þá bæði um að ræða opinbert framtak og einstaklingsframtak, svo og ekki sízt félagslegt framtak, sem án efa er nauðsynlegt til að hrinda þessu máli í framkvæmd. Mér hefur komið til hugar, að af löggjafans hálfu mætti vinna þessu máli mikilvægt lið á fyrsta stigi með því, að samþykkt yrðu lög um fjárhagslegan stuðning við listasöfn bæja eða héraða gegn því, að söfn þessi fullnægðu ákveðnum lágmarksskilyrðum og fé til þeirra væri einnig veitt frá öðrum aðilum. Ef slík lög væru fyrir hendi, mundu þau vafalaust verða hvatning til stofnunar listasafna víða í bæjum og sýslum úti um land. Jafnframt væri mjög nauðsynlegt, að einhver ákveðinn ráðgjafi eða ráðgjafarnefnd hefði það verk með höndum að leiðbeina um stofnun og starfrækslu slíkra safna, enda mundi það bezt stuðla að samræmingu í starfsemi safnanna og tryggja fremur en ella, að þær stæðust þær kröfur, sem gera verður til góðs listasafns, þótt lítið sé.

Ég vil alveg sérstaklega leggja áherzlu á nauðsyn þess, að fjárhags- og skipulagsgrundvöllur þessara safna sé sem traustastur og veiti svigrúm til eðlilegrar þróunar. Það getur ekki orðið með öðru en því, að ríkinu sé skylt að leggja fram ákveðinn hundraðshluta af framkvæmdakostnaði safnanna. Um kostnað ríkissjóðs færi þá eftir því, hversu framkvæmdir væru myndarlegar á hverjum stað, hvað hvert og eitt safn gerði eða væri stórtækt í framkvæmdum sínum.

Ég vil ekki draga dul á það, að ef verulegur skriður kemst á þetta mál, þarf ekki að efa, að það mun kosta ríkissjóð eitthvert fé, hjá því verður auðvitað ekki komizt. En með því að haga framkvæmdum vel og skipulega ætti að vera hægt að koma fjárveitingum þannig fyrir, að ekki væri um þunga byrði að ræða á hverju fjárlagaári. Kaup listaverka er auðvitað höfuðatriði í starfseminni og það, sem helzt þarf að styrkja, en auk þess mundu koma til stofnkostnaður eða leiga húsrýmis og rekstur. Færi það eftir atvikum, hversu mikið í yrði lagt um húsnæði og hver fjármagnsþörfin þá yrði. Húsnæðisvandann mætti leysa með ýmsu móti. Sums staðar mætti hugsa sér, að listasöfnum yrði komið fyrir í skólabyggingum, einkum þeim, sem eiga eftir að rísa, ellegar í sambýli við önnur söfn, svo sem bókasöfn eða minjasöfn, og líklegt er, að allvíða yrðu reistar sérstakar listasafnsbyggingar. Annars yrði það einmitt hlutverk væntanlegrar nefndar að gera sérstaka athugun á húsnæðisþörfinni og þeim leiðum, sem til greina koma um að fullnægja henni, svo að sæmilegt sé.

Á Það er bent í grg., að héraðslistasöfn eigi að vera á „landsmælikvarða“, Þ.e.a.s. að þau eigi að gefa sem sannasta mynd af því, sem gert er bezt í íslenzkri myndlist að mati kunnáttumanna. Söfnin eiga alls ekki að mínu viti að sanka að sér myndum eftir aðeins einn eða mjög fáa listamenn, eða túlka liststefnur einhliða, því að það mundi aðeins raska nauðsynlegu jafnvægi safnsins og alls ekki gefa rétta hugmynd um fjölbreytni myndlistar, sem víssulega er allmikil. En þrátt fyrir þetta meginsjónarmið um fjölbreytileik listaverkanna í héraðssöfnum, er þó vert að vekja athygli á því, að hvert hérað kann að eiga sina eigin listamenn, og finnst mér eðlilegt, að hin staðbundnu söfn ræki slíka myndlist, jafnvei annarri fremur, ef hún telst þess sérstaklega verð, sem vissulega er vel hugsanlegt í mörgum tilfellum.

Í till. er einnig gert ráð fyrir, að athugun verði gerð á því í samráði við samtök myndlistarmanna, hvernig helzt mætti stuðla að því, að haldnar verði fleiri myndlistarsýningar utan Reykjavíkur. Það er að vísu verkefni Listasafns Íslands að efna til farandsýninga um landið. Ég veit ekki, hvað gert hefur verið til þess að rækja þetta verkefni listasafnsins, en hygg þó, að það sé harla lítið, enda fjárráð safnsins löngum mjög slæm. Á þessu þarf að verða breyting. Slíka starfsemi ætti að efla, og ætti það að verða árlegur viðburður, að efnt væri til myndlistarsýninga úti um land, ekki eingöngu á vegum Listasafns Íslands, heldur væri mjög æskilegt, að einstakir listamenn eða fleiri saman efndu til sýninga á verkum sinum. Ég gæti hugsað mér, að fjölgun listsýninga, væri mikilvægur þáttur í stærri aðgerðum í listamálum landsbyggðarinnar, jafnvei óhjákvæmilegur undanfari þess, að skriður kæmist á þetta mikla menningarmál.

Í Þessu sambandi er ástæða til að benda á þá möguleika, sem felast í því að kynna íslenzka myndlist með eftirprentunum málverka. Eftirprentanir gegna nú mjög mikilvægu hlutverki í listmenningunni vegna hinnar fullkomnu prenttækni, sem gerir kleift að búa til ótrúlega nákvæmar eftirmyndir. Í sambandi við stofnun safna úti um land ber einnig að hafa í huga, að hve miklu leyti mætti notast víð slíkar eftirmyndir í uppbyggingu safnanna. Er trúlegt, að þær gefi talsverða möguleika, þó að hitt hljóti að verða meginmarkmiðið, að eignast sem flest og bezt frumverk.

Ég vil aðeins benda á það að lokum, að okkur Íslendingum ríður mjög á því að rækja betur menningar- og félagsstarfsemi landsbyggðarinnar en nú er. Okkur ber að byggja þetta land og byggja það allt. Atvinnuuppbyggingin situr að sjálfsögðu fyrir, en menningarleg uppbygging verður að vera samhliða, því að menningarleg einangrun er yfirleitt hættuleg og merki um hrörnun. Sú þjóð, sem sparar framlög til menningarmála, er varla á framfaraskeiði, og mun hið gagnstæða trúlegra.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.