04.12.1963
Sameinað þing: 24. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í D-deild Alþingistíðinda. (2918)

50. mál, jarðhitarannsóknir í Borgarfjarðarhéraði

Flm. (halldór E. Sigurósson):

Herra forseti. Á þskj. 51 flytjum við þm. Vesturl. till. til þál. um jarðhitarannsóknir og jarðhitaleit í Borgarfjarðarhéraði og enn fremur, að athugað verði um hitaveitu fyrir Borgarnes.

Í sambandi við þessa till., um leið og ég geri grein fyrir henni, langar mig að víkja nokkrum orðum að þeirri auðlind, sem jarðhitinn er okkur íslendingum.

Jarðhitann notum við í tvennum tilgangi og höfum gert um alllangt skeið. Allt frá því 1924 hefur gróðurhúsarækt verið stunduð hér, Þar sem jarðhitinn hefur verið aflgjafinn, og var fyrsta gróðurhúsið reist að Reykjum í Mosfellssveit það ár af Bjarna Asgeirssyni, fyrrv. alþm. Sama ár hóf Carl Olsen gróðurhúsarækt á Laugalæk hér í Reykjavík. Á þessum árum, sem liðin eru síðan, hartnær 40 árum, hefur þróun í þessum málum orðið veruleg, svo að gróðurhúsaræktin getur nú talizt atvinnugrein. Hér á landi munu nú vera um 120 gróðurhúsastöðvar, og um 10 ha. lands munu vera undir gleri. Framleiðslumagn í þessum gróðurhúsum var um 340 smálestir af tómötum á s.l. ári, og heildarverðmæti í gróðurhúsum landsins mun það ár hafa verið um 23—24 millj. kr.

Jafnhliða því, sem jarðhitinn hefur verið notaður til gróðurhúsaræktunar, höfum við þó í enn þá ríkara mæli notað hann sem hitaveitu vegna upphitunar íbúðarhúsa. Það var á þriðja tug þessarar aldar, sem farið var að nota jarðhitann til upphitunar húsa. Það var m.a., þegar byrjað var að reisa hér héraðsskólana, þá var það eitt af baráttumálum, að þeir skyldu vera reistir á heitum stað. Það var á þessum áratug, milli 1920 og 1930, sem héraðsskólinn að Laugum í Þingeyjarsýslu var reistur á heitum stað og um 1930 að Laugarvatni, 1931 í Reykholti. Á þessum sömu árum var farið að vinna að því að koma á hitaveitu fyrir Reykjavíkurborg. Árið 1927 mun fyrst hafa verið unnið að þessu máli, og 1928 voru hafnar jarðboranir hér í Reykjavik vegna væntanlegrar hitaveitu. 1930 mun hins vegar hafa verið byrjað að veita heitu vatni i hús hér í Reykjavík út frá Laugunum, sem svo voru kallaðar, en það var upphaf að hitaveitu Reykjavíkur. Eins og kunnugt er, er þetta fyrirtæki nú orðið mikið risafyrirtæki, og munu um 5000 íbúðarhús hér í bænum nú vera hituð upp með hitaveituvatni. Tugir milljóna króna eru sparaðir árlega vegna notkunar jarðhitans til upphitunar húsa, því að engin orka nýtist betur til upphitunar en einmitt heita vatnið. Nú munu vera hér á landi 5 bæir og kauptún, sem eru hitaðir upp með hitaveitum úr iðrum jarðar, höfuðborg landsins, Reykjavík, Ólafsfjarðarkaupstaður, Sauðárkrókskaupstaður, Selfoss og Hveragerði. — Þetta vildi ég segja um jarðhitann og notkun hans hér á landi.

Það, sem við förum fram á með till. okkar, þm. Vesturl., er að fá rannsakaðan jarðhitann í Borgarfjarðarhéraði, þann sem þekktur er, og leitað verði eftir nýjum jarðhitasvæðum.

Með l. frá 1961, um jarðhitasjóð, er gert ráð fyrir því í 2. gr. þeirra 1., að sjóðurinn rannsaki eðli og uppruna jarðhitans og leiti að jarðhitanum, enn fremur, að hann geri tilraunir með vinnslu úr jarðhita. Till. okkar er því í fyllsta samræmi við það, að jarðhitasjóðurinn taki að sér þetta hlutverk. Ástæðan til þess, að við bendum á Borgarfjörð öðrum fremur, er sú, að Borgarfjörður er eitt mesta vatnshvera- og laugasvæði þessa lands. Ekki er enn vitað um það, hve mikið heitt vatn er þar, það hefur ekki verið nóg rannsakað enn þá, hve mikið rennur af heitu vatni undir yfirborði jarðarinnar, en fullvíst er það, að þar mun vera um verulegt vatnsmagn að ræða. Þær rannsóknir, sem fram hafa farið í Borgarfirði á jarðhitasvæðunum þar, hafa gefið góða raun, vakið áhuga kunnáttumanna um að halda þeim áfram.

Það er hugsun okkar flm. þessarar þáltill., að þau svæði, sem fyrst verði rannsökuð í Borgarfirði, séu jarðhitasvæðin í Reykholtsdal og Bæjarsveit. Það, sem þarf, er í fyrsta lagi jarðfræðileg rannsókn, sem þarf að gera á þessu svæði, og svo þarf að leita eftir heitu vatni, þar sem það er ekki sjáanlegt, enn fremur að bora á jarðhitasvæðunum til þess að auka við Það vatnsmagn, sem fyrir er eða rennur þar undir jarðskorpunni. Jarðhitaleitin, sem síðar þarf að gera, þarf að byggjast á þeim undirstöðuatriðum, sem jarðeðlisfræðirannsóknin gefur.

Jafnframt því, sem þarf að leita að nýjum jarðhita út frá þessu, þarf einnig að gera það með tilliti til þess, hvaða möguleikar eru til að hagnýta sér jarðhita. Í því sambandi bendum við á, að athugaðir séu möguleikar á því, að komið verði upp hitaveitu fyrir Borgarnes. Borgarnes er ört vaxandi staður, og væri það mikill fengur fyrir kauptúnið, ef jarðhiti fyndist í grennd við það, svo sem nokkrar ástæður eru til að ætla.

Í sambandi við jarðhitaleitina viljum við benda á það, að líkur eru til þess, að samband sé á milli jarðhitasvæðisins í Borgarfjarðarhéraði annars vegar og jarðhitasvæðisins á Snæfellsnesi hins vegar. Komið hefur upp jarðhiti í Akraós í Hraunhreppi, í flæðarmálinu. Mun sá hiti, sem mældur hefur verið þar, vera milli 50 og 60 gráður. Þessi uppspretta af heitu vatni, sem þarna kemur fram, bendir til þess, að nokkurt samband sé á milli jarðhitasvæða Borgarfjarðarhéraðs og sunnanverðs Snæfellsness. Af þeirri ástæðu er nokkur von til þess, að jarðhiti muni einnig finnast í kringum Borgarnes.

Í upphafi máls míns skýrði ég frá þeim verðmætum, sem fólgin eru í jarðhitanum. Ekki er nokkur vafi á því, að notkun jarðhitans er eitt af meiri háttar málum framtíðarinnar. Þess vegna treysti ég því, að hv. þm. ljái þessu máli lið og till. verði afgreidd á þessu þingi og með þessari rannsókn, sem gera á í Borgarfirði, verði hafin skipuleg leit að jarðhita og rannsókn á jarðhitasvæðum hér á landi.

Herra forseti. Ég legg svo til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.