24.01.1964
Neðri deild: 44. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan eitthvað á þá lund, að hann hefði ekki rætt mikið um fortíðina í sambandi við þetta mál, því að hann teldi, að það lægi miklu nær að ræða um þann vanda, sem fyrir lægi, en það, sem hefði skeð. Ég skal nú stilla mig um að fara að leggja út af þessum orðum hæstv. ráðh., þó að fullt tilefni væri til þess, að öðru leyti en því, að ég vil segja, að það sé ein æðsta dyggð að kunna að læra af reynslunni, og enn fremur, að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því og ræða nokkuð, hvernig ástatt er, þegar finna þarf úrræði.

Ég mun hafa nokkurn aðdraganda að því, sem ég segi um frv. sjálft, en ekki mjög langan og ekki fara lengra út í að ræða um liðna tíð en ég tel beina lífsnauðsyn í sambandi við þetta mál, eða öllu heldur við þetta tækifæri, sem hér verður til þess að ræða um þau efni, sem venjulega eru kölluð efnahagsmál.

Fyrir tæplega 4 árum var tekin upp hér í landinu ný efnahagsmálastefna, og voru höfundar þeirrar stefnu, þ.e.a.s. núv. hæstv. ríkisstj., óþreytandi í að lýsa því, að nú ætti að taka á allt annan hátt á þeim málum en áður hefur tíðkazt á Íslandi. Þeir höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að þær aðferðir, sem notaðar höfðu verið í þessum málum, hefðu verið mjög ófullkomnar og að ýmsu leyti algerlega rangar, og nú ætti að bæta úr þessu með algerlega nýrri stefnu. Þeir báðu þjóðina að vera þolinmóða og taka því með jafnaðargeði, þó að af þessu kynnu að hljótast nokkrar búsifjar í bili. Og hæstv. þáv. forsrh., Ólafur Thors, sagði, að í því sambandi yrðu menn að gæta þess, að menn yrðu eitthvað á sig að leggja, því að það hefði orðið að horfast í augu við allan vandann í einu, eins og hann orðaði það, og ef menn vildu una allvel þeim búsifjum, sem þá kæmu fram, væri fram undan tímabil stöðugs verðlags og jafnvægis í efnahagsmálum og málin leyst til frambúðar. En núv. hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, lýsti þessum nýju úrræðum eða þessari nýju stefnu aðallega þannig, að þau væru frábrugðin því, sem áður hefði tíðkazt, að því leyti, að þau ættu að fyrirbyggja, að það þyrfti sí og æ að vera að gera nýjar ráðstafanir í efnahagsmálum. Það væri aðaleinkennið á því, sem ætti að gera, að það ætti að vera varanlegt.

Nú hefur þjóðin fengið reynslu af þessu sjálfvirka jafnvægis- og verðstöðvunarkerfi í 4 ár, þessu kerfi, sem átti að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stöðugt verðlag o. s. frv. En sannleikurinn er sá, að þetta kerfi og þessi stjórnarstefna hefur leitt til taumlausrar dýrtíðarhringrásar og slíkrar upplausnar í efnahagsmálum, að ekki verður nú í raun réttri við neitt ráðið með þeim aðferðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur reynt, og um þetta er ekki lengur deilt og óþarfi að deila. Á hinn bóginn er þetta svo mikilsverð staðreynd og mikilsverð reynsla, sem þannig hefur fengizt af þessari efnahagsmálastefnu, að slíkt getur náttúrlega ekki á nokkurn hátt legið í láginni.

Ekki er hægt að kenna því um ófarir þessarar efnahagsmálastefnu og ófarir hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum, að hún hafi búið við erfið skilyrði, t.d. að það hafi orðið áföll utan frá, því að þetta hafa verið óvenjuleg uppgripaár, a.m.k. í sjávarframleiðslunni, alveg óvenjuleg, og nærri því að segja. dæmalaus, og verðlag á afurðum landsmanna á erlendum mörkuðum yfirleitt með allra bezta móti og engin vandkvæði að selja neitt af þeim afurðum, sem landsmenn hafa framleitt. Þessi efnahagsmálastefna, þetta sjálfvirka jafnvægiskerfi hefur því verið reynt við beztu hugsanleg skilyrði, en alveg mistekizt, eins og sést á ástandinu í landinu í dag.

Ég vil fara um þetta aðeins örfáum orðum og miklu færri en tilefni er til. Í staðinn fyrir stöðugt verðlag hefur orðið óðadýrtíð í landinu og meiri dýrtíðarvöxtur en nokkru sinni eru áður dæmi til. Þegar nokkur ár eru tekin samfellt og skoðuð sem tímabil, þá hefur þetta orðið hið mesta dýrtíðartímabil í sögu þjóðarinnar. Þetta höfum við fengið í staðinn fyrir hið stöðuga verðlag, sem átti að verða. Upplausnin í atvinnu- og kjaramálum er þannig núna, að í ýmsum greinum fást alls ekki kjarasamningar gerðir vegna óvissunnar. í öðrum greinum eru kjarasamningar gerðir til mjög stutts tíma í senn og síðan alltaf upp aftur og aftur, jafnóðum og dýrtíðarhjólið veltur áfram. Og þannig er orðið um álit almennings á þessu öllu saman, að það er orðið að stórfelldu deilumáli, hvort kjarasamningar skuli gilda einum mánuðinum lengur eða skemur, og sýnir það traustið eða hitt þó heldur á þeirri efnahagsmálastefnu, sem í framkvæmd er. Þessi stefna þrengir nú þannig að sjávarútveginum við hinn mesta afla, sem hann hefur nokkurn tíma haft, og einhver beztu verðskilyrði á erlendum mörkuðum, að vafasamt er, hvernig hann getur nú haldið áfram lengur. Útvegsmönnum og fiskimönnum er ætlað núna t.d. að búa áfram við óbreytt verð á fiski, enda þótt framleiðslukostnaður hafi hækkað mjög mikið og allur framfærslukostnaður í landinu hafi hækkað stórkostlega, og er víst áreiðanlegt, að þetta fær ekki með nokkru móti staðizt svo að segja stundinni lengur. Þannig þjarmar þessi stefna að sjálfum aðalútflutningsatvinnuveginum þrátt fyrir hin allrahagstæðustu ytri skilyrði, mikinn afla og gott verð erlendis.

Ef svo litið er til fiskiðnaðarins, mun það vera allra þeirra mál, sem þar til þekkja, að fiskiðjuverin séu sízt betur og þó öllu verr fær um að borga jafnvel þetta of lága verð, þetta óbreytta verð, en þau hafa verið áður. Þannig þjarmar þessi stefna bæði að útgerðinni sjálfri og sjómönnunum og einnig að þeim, sem fást við að vinna úr afurðum sjávarútvegsins. Hún þjarmar á þessa lund að sjávarútveginum í heild.

Það er venja hæstv. ríkisstj., þegar rætt er um, hversu efnahagsmálastefnan hefur gersamlega misheppnazt, að benda til þess, að þeir hafi ekki fengið að ráða kaupgjaldinu í landinu, það hafi verið framkvæmdar ótímabærar kauphækkanir í landinu, eins og það er orðað í aðalmálgögnum stjórnarinnar í dag, að það hafi verið gerðar óhóflegar kröfur á hendur framleiðslunni í kaupgjaldsmálum og af þessu stafi allur vandinn. En hvað er það rétta í þessu tilliti? Það rétta í þessu tilliti er það, að núna eftir síðustu kauphækkanir eru borgaðar 77 þús. kr. fyrir 8 stunda vinnu allan ársins hring. Og þessar 77 þús. kr., sem borgaðar eru, hafa minni kaupmátt miðað við kostnaðinn við að lifa en það, sem framleiðslan borgaði í októbermánuði 1958. M.ö.o. það, sem taldar eru óframbærilegar kaupkröfur og óframbærileg kaupskrúfa, sem hafi sett þessa heppilegu stefnu úr jafnvægi og komið öllu út um þúfur, það er í raun og veru þetta, að það eru borgaðar 77 þús. kr. fyrir 8 stunda vinnu núna, og kaupmáttur þess kaups er þó minni en kaupmáttur kaupgjaldsins var í október 1958, fyrir 4 árum. Og þegar ég segi þetta, er þó eftir að benda á, að ef húsnæði væri núna reiknað eins og það kostar, t.d. tekinn inn í þetta dæmi húsnæðiskostnaðurinn, eins og hann raunverulega er, verður myndin alveg geigvænleg, því að jafnvel þótt reiknað sé með 11 þús. kr. húsnæðiskostnaði á ári, sem allir sjá, hvílík fjarstæða er, þá er kaupmáttur kaupgjaldsins fyrir 8 stunda vinnu allt árið minni núna en hann var 1958.

Samt rís útflutningsatvinnuvegurinn, eftir því sem talið er, ekki undir þessu kaupi. Hvað hefur skeð? Ytri skilyrðin hafa ekki versnað, verð á sjávarafurðum hefur ekki lækkað, afli hefur ekki minnkað. En það er alveg augljóst mál, að það búnast miklu verr á þjóðarbúinu en áður. Hér hafa verið gerðar gífurlegar verðmætistilfærslur, sýnilega til óhagræðis fyrir framleiðsluna og fyrir hið vinnandi fólk, sem að henni stendur. Um þetta ætti alls ekki að þurfa að deila. Ég vil því fara fram á það við þá, sem sífellt kasta því fram, þegar rætt er um, að viðreisnin hafi farið út um þúfur, sem sífellt kasta því fram, að þetta hefði allt getað verið í lagi, ef það hefði aðeins verið hægt að halda kaupgjaldinu niðri, — ég vil biðja þá að endurskoða þessa afstöðu, því að þetta er rangt. Þetta er allt saman byggt á misskilningi. Það er allt annað, sem hefur gerzt, en það, að hið vinnandi fólk í landinu hafi dregið til sín aukna fjármuni út úr þessum rekstri og sett með því allt í strand eða úr skorðum fyrir hæstv. ríkisstj. Hér hefur eitthvað annað skeð, sem ég mun koma nokkru nánar að á eftir.

Á þessu sjáum við líka, að það er alveg lífsnauðsyn að endurskoða þetta allt frá rótum. Þetta getur ekki staðizt svona stundinni lengur, það er alveg óhugsandi, því að ástandið á eftir að versna mikið í þessu tilliti, eða hvernig dettur mönnum í hug t.d., að þetta kaupgjald, 77 þús. kr. fyrir 8 stunda vinnudag, geti dugað stundinni lengur, t.d. fyrir unga fólkið, sem á að koma sér upp íbúðum, eins og þær kosta núna, 550–600 þús. kr., borga svo vextina, eins og þeir eru settir núna, eða leigja sér íbúð, eins og húsaleigan er að verða. Það er nefnilega það sorglega við þetta, að inn í þetta dæmi er ekki komið enn nema lítið af afleiðingum þessarar stefnubreytingar. Það er ekki nema lítið enn komið af afleiðingum þessarar stefnubreytingar inn í kaupgjaldið og þar með inn í framleiðslukostnaðinn.

Ef við lítum til landbúnaðarins, er svipaða sögu að segja þar, nema enn verri, því að bændur eru miklu verr settir núna en þeir voru 1958. Þeir hafa lægstu tekjur allra landsmanna og framlög til stuðnings uppbyggingu í landbúnaðinum hafa verið skorin stórkostlega niður, þannig að aðstaða þeirra til að brjótast fram og bæta sinn búskap er miklu lakari en hún áður var, bæði fyrir þá byltingu, sem orðið hefur til hækkunar í stofnkostnaði, og eins vegna þess, að jarðræktarframlög og annar stuðningur hefur verið gífurlega skorinn niður. Þar að auki er þeim ætlað að búa við miklu verri lánskjör en áður var, hærri vexti og aukaskatt, til þess að hægt sé að halda gangandi stofnlánadeildinni, sem áður var haldið gangandi án þess að nokkur sérskattur væri til þess lagður á bændurna. Hvar sem á er litið nálega hefur kostur bændanna verið þrengdur og er þrengri en hann var 1958.

Við sjáum því, að hér er ekki um neitt smávægilegt vandamál að ræða og að sú fullyrðing, að þessi stefna hafi farið út um þúfur eða mistekizt algerlega vegna þess, að það hafi verið gerðar óeðlilegar kaupkröfur af hendi almennings og þar með hafi landbúnaðarverð orðið hærra en það ætti að vera, — slíkar fullyrðingar fá ekki með nokkru móti staðizt. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að það er allt annað, sem hér hefur raunverulega skeð.

Ef við svo lítum til fjárfestingarmálanna, sem eru ákaflega ríkur þáttur í þjóðarbúskapnum, þá blasir við, að í þeim hefur ríkt á þessum árum algert handahóf og nú ríkir í þeim efnum fullkomið ofboð, þannig að hver reynir að festa sitt fé í einhverju — setja það í eitthvað fast og þá oft án þess að skoða gaumgæfilega, hvort það er raunverulega heppilegt, sem í er lagt, eins og ævinlega verður, þegar fjárfestingar-„panik“ grípur um sig. En þessi ringulreið öll á fjárfestingarmálunum sogar til sín fjármagn landsmanna í stórum stíl og að mjög miklu leyti í óhentuga fjárfestingu og verður eins og baggi á þjóðarbúinu, verkar eins og kjararýrnun, bæði fyrir almenning og þrengir raunverulega að framleiðsluatvinnuvegunum. Þessi ringulreið og handahóf í fjárfestingunni og allt það ofboð, sem orðið er í sambandi við hana, og öll sú „panik“ á mjög ríkan þátt í því að hleypa þessum málum öllum í þennan nánast óskiljanlega hnút, sem þau eru í komin við þessar aðfarir.

Fjármagnskostnaðurinn í landinu hefur vaxið alveg gífurlega, og er það auðvitað baggi á framleiðslunni og á almenningi, sem verður að leita sér lána í stórum stíl, og þó sérstaklega á ungu kynslóðinni, því að það er auðvitað unga kynslóðin, sem meira þarf á lánunum að halda en sú eldri. Þessi breyting, sem orðið hefur á fjármagnskostnaðinum í landinu við vaxtapólitík ríkisstj., er vafalaust mikla stórfenglegri en menn hafa fengizt til þess að skilja til fulls. En við þurfum ekki annað en gera okkur t.d. grein fyrir því, að ung hjón, sem byggja sér íbúð fyrir 550–600 þús. kr., sem er það allra minnsta nú orðið og bráðum meira, og þurfa að taka, við skulum segja 2/3 a.m.k. af því að láni með háum vöxtum, kannske þriðjungi hærri vöxtum en áður tíðkaðist, þau þurfa að hafa hærra kaup, það er alveg óhjákvæmilegt, þau þurfa að hafa hærra kaup og þeim verður ekki haldið niðri til lengdar. Vaxtabyrðin, sem menn þurfa að bera í sambandi við uppbygginguna, kemur inn í kaupgjaldið frá neytandanum, kaupgjaldið verður að vera hærra, og það er ekki bara kaupgjald þessara ungu hjóna, sem hækkar, heldur hækkar allt kaupgjald í landinu, og allt kaupgjald í landinu lagar sig eftir þessum nýja vaxtafæti, eftir þessum nýju tekjuþörfum til að greiða vextina. Og allir þeir, sem eiga eignir í landinu, þó að þeir skuldi ekki út á þær, þeir hirða til sín fjármagn tilsvarandi því, sem ungu hjónin þurfa að fá til að greiða vextina af sínum íbúðaskuldum.

Þess vegna er það hörmulegt, þegar talsmenn hæstv. ríkisstj. koma hér stundum og segja, að menn ættu ekki að hafa þessar áhyggjur af vaxtapólitíkinni, því að hún hafi miklu minni áhrif en menn vilji vera láta, því að það sé ekki greidd nema þessi fjárhæð samtals, sem þeir nefna, í vexti inn í bankakerfið. En þeir vilja ekki eða hafa a.m.k. ekki viljað sjá, að þetta er ekki nema lítið brot af málinu, því að fjármagnskostnaðurinn kemur ekki fram nema að sáralitlu leyti í sambandi við vaxtagreiðslur inn í bankakerfið sjálft. Mikill meiri hluti af öllum fjármagnskostnaðinum í landinu færist á milli manna utan við bankakerfið, eins og þetta dæmi, sem ég tók, augljóslega sýnir hverjum skynibornum manni, dæmið um vextina og launagreiðslurnar. Alveg eins er þetta vitanlega í sjálfri framleiðslunni að sínu leyti.

Sannleikurinn er sá, að þegar nýja stefnan var tekin upp, var sagt, að vextir væru hækkaðir aðeins til bráðabirgða, það væri ekki meiningin að innleiða svona háa vexti í þjóðarbúskapinn til frambúðar. Það var sagt: Þessir háu vextir eru aðeins til þess að draga úr eftirspurninni eftir lánsfénu og verða lækkaðir jafnskjótt og þeir hafa haft góð áhrif, þ.e.a.s. komið á jafnvægi í lánamálunum, jafnmikilli eftirspurn eftir lánsfé eins og safnast fyrir af fé til þess að lána. Þetta verður bráðum, var sagt, og þá verða vextirnir lækkaðir aftur. En vegna þess, að öll þessi stefna hefur gersamlega mistekizt, situr enn við sama, að vextirnir hafa sama sem ekkert verið lækkaðir, aðeins örlítið fyrstu áramótin, eftir að hækkað var. Og nú eru þessir háu vextir sem óðast að flétta sig inn í efnahagskerfið og inn í framleiðslukerfið með mjög þungbærum afleiðingum fyrir framleiðsluna og allt efnahagslífið í landinu, og þessi aukni fjármagnskostnaður á geysilegan þátt í því að gera þessi mál svona illviðráðanleg.

Sannleikurinn er sá, að það mun aldrei verða mögulegt fyrir okkur að hafa svona háan vaxtafót til frambúðar. Við ráðum ekki við það, það verður ekki mögulegt. Okkar framleiðsla þolir það ekki, hún þolir það ekki í samkeppni við framleiðslu annarra. Unga kynslóðin þolir ekki heldur að bera svona þungan vaxtabagga eins og ætlazt er til með þessari fjármálapólitík. Þess vegna þýðir ekki að vera að bíða eftir því, að það náist, þetta, sem þeir hafa verið að tala um og kallast jafnvægi í efnahagsmálum, áður en vextirnir eru lækkaðir. Frá mínu sjónarmiði er það eitt af því, sem þarf að gera, til þess að nokkur von sé um að ná betri niðurstöðu í efnahagsmálunum, að lækka vextina.

Þegar þessi nýja stefna var tekin, var okkur sagt, að það ætti að afnema alveg uppbótakerfið, og þeir, sem fyrir þessu stóðu, áttu ekki nægilega sterk orð til að lýsa því, hvað uppbótakerfinu fylgdi raunverulega mikil spilling. Það var talað um og mátti með réttu tala um tvo liði í sambandi við uppbótakerfið. Annað voru hinar almennu uppbætur, sem greiddar voru útflutningsframleiðslunni, og hitt voru sérbætur til einstakra framleiðslugreina í landinu, sem höfðu dregizt aftur úr og þurfti að styðja, ef þær áttu ekki að falla niður. Þetta var hvort tveggja fordæmt með öllu. En sannleikurinn er sá, að út úr hinu almenna uppbótakerfi hefur ríkisstj. aldrei getað komizt í sambandi við þessi nýju efnahagsúrræði. Og það sjáum við á því, að ríkisstj. hefur ætíð notað mjög mikið niðurgreiðslur á vöruverði innanlands, sem er fyrst og fremst gert til þess að halda niðri framleiðslukostnaðinum, og niðurgreiðslur eru bara eins og annar endinn á priki, þar sem útflutningsuppbætur eru hinn endinn. Það er hægt að framkvæma almenna uppbótapólitík með tvennum hætti: annars vegar með því að greiða niður rekstrarkostnaðinn, og það er það, sem raunverulega er gert með niðurgreiðslunum, og hins vegar með því að greiða uppbætur á framleiðsluna, og það er það, sem gert er með almennu útflutningsuppbótunum. Sannleikurinn er sá, að út úr uppbótakerfinu hefur hæstv. ríkisstj. aldrei komizt.

En þá er það hinn liðurinn, sem var enn freklegar fordæmdur en almenna uppbótakerfið sjálft, og það voru sérbæturnar, sem áður giltu fyrir einstakar framleiðslugreinar. En nú hefur það bætzt ofan á allt annað hjá hæstv. ríkisstj., að nú er það hennar hlutskipti að beita sér fyrir sérbótum til einstakra atvinnugreina. Þetta var talið hámark spillingarinnar áður, að slíkt ætti sér stað. Það voru haldnar langar prédikanir um það, að með því að beita sérbótum og styðja einstaka þætti í framleiðslunni væri verið að skekkja allan þjóðarbúskapinn, ýta undir það, sem ætti engan rétt á sér og ætti að falla niður. En nú kemur hæstv. ríkisstj. hér fram og stingur upp á því, að borgaðar séu sérbætur úr ríkissjóði til þess að halda togaraútgerðinni gangandi. Og hún stingur einnig upp á því, að það séu borgaðar sérstakar bætur til þess að halda frystihúsunum gangandi, taka þær nú upp á nýjan leik til þess að halda frystihúsunum gangandi og gera þeim kleift að borga óbreytt fiskverð.

Nú er það sem sagt hlutskipti þessarar stjórnar, sem með miklu yfirlæti fordæmdi uppbótakerfið og sérbæturnar alveg sérstaklega, að beita sér fyrir því, að greiddar verði sérbætur á mjög þýðingarmikla liði íslenzkrar framleiðslu, togaraútgerðina og frystihúsareksturinn. Þannig hafa þeir rekið sig á vegg staðreyndanna, þessir hæstv. ráðh., og þeir hefðu átt að ganga gætilegar um þessar gáttir fyrir 4 árum og þá hefði kannske verið hægt að komast hjá ýmsum af þeim stórfelldu erfiðleikum, sem við er að glíma vegna þess, hvernig þeir fóru í þessi mál öll saman fyrir 4 árum, þegar þeir fordæmdu algerlega þær vinnuaðferðir, sem áður höfðu verið hafðar í sambandi við þessi mál, og ætluðu sér að taka upp alveg nýjar vinnuaðferðir, sem hafa nú leitt til þeirrar niðurstöðu, að efnahagsmál landsins eru komin í mjög illleysanlegan hnút.

Hér er ekki um neinar getsakir af minni hendi að ræða, heldur var hæstv. forsrh. mjög ákafur í því að koma því á framfæri í sinni ræðu, að ástandið í þessum efnum væri svo alvarlegt, að þetta frv., sem hér væri lagt fram, mundi hrökkva skammt til þess að ráða þar bót á, þessar ráðstafanir væru í raun og veru aðeins hugsaðar, meðan menn væru að hugsa sig um og ákvarða, hvað ætti að gera í þeim mikla vanda, sem nú lægi fyrir. Enda þarf ekki um þetta að deila. Allir sjá, hvernig ástatt er. En það er nokkuð deilt um, af hverju það stafi. Við, sem höfum varað við stjórnarstefnunni frá upphafi og höfum reynt að halda því áfram og benda á önnur úrræði, við segjum, að ástandið sé svona vegna þess, að stjórnarstefnan sé í höfuðatriðum röng og hafi verið. En aftur á móti segir hæstv. ríkisstj., að svona illa sé komið vegna þess, að hún hafi ekki getað komið stefnunni alveg í framkvæmd, eins og hún hafi átt að vera, og þar hafi staðið á því, að ekki hafi verið hægt að halda kaupgjaldinu nægilega niðri og afurðaverðinu til landbúnaðarins. Það sé eina atriðið, sem hafi farið úrskeiðis og sé í ólagi. En þá heldur hæstv. ríkisstj. því líka fram, að sú stefna sé viðunandi og það sé hægt að búa við hana, sem ekki þolir, að mönnum sé greitt fyrir 8 stunda vinnu jafnmikið og gert var 1958.

Þegar farið var af stað með hina nýju efnahagsmálastefnu, var ákaflega mikið lagt upp úr því, að fyrir utan það, að ýmsar óskynsamlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar í efnahagsmálum áður, sem nú ætti að lagfæra, þá hefðu líka verið hafðar alveg skakkar aðferðir. Sérstaklega var á vinstri stjórnina deilt látlaust og með ofsa og stóryrðum fyrir það, að hún ætlaði sér að leysa efnahagsmálin með samningum við almannasamtökin í landinu, verkalýðsfélögin og Stéttarsamband bænda og önnur samtök í landinu. Þetta var kallað ólýðræðislegt og gæti ekki staðizt í neinu lýðstjórnarlandi, þessi samtök ættu ekki að stjórna landinu, það væri ríkisstj. og Alþ., sem ættu að stjórna landinu og gera það, sem þeim sýndist. Og í raun og veru var því haldið fram, að þetta væri grundvallarskekkjan í öllu saman. Grundvallarskekkjan í öllu saman væri sú, að það væri tekið of mikið tillit til þessara samtaka, það væri of mikið lagt upp úr því að ná samstöðu við þau og slíkt fengi ekki samrýmzt lýðræðinu eða þingræðislegri vinnuaðferð. En við sögðum aftur á móti og höfum sagt allan þann tíma, að það mundi ekki takast að stjórna þessum málum, nema því aðeins að hafa samvinnu við þessi samtök og reyna að ganga þannig frá þessum málum, að þau gætu fallizt á þau úrræði, sem gripið væri til, eða a.m.k, sætt sig við þau. Í þetta yrði að leggja mikla vinnu, og vinstri stjórnin byggði beinlínis sína stefnu á því, að þannig yrði þessu háttað. Og hún sagði af sér vegna þess, að það náðist ekki samstaða, hvorki innan hennar né við þessi samtök. Var þá mörgum fáryrðum beitt af hendi núverandi hæstv. ráðh.

En nú eru ráðherrarnir fjögurra ára reynslu ríkari, og þeir hafa haldið uppi þessi fjögur ár sífelldri stórstyrjöld við þessi samtök og viljað fara sínu fram, hvað sem þeim sýndist. En hver er svo niðurstaðan af þessari fjögurra ára herferð? Niðurstaðan af þessari fjögurra ára herferð er m.a. sú, að núv. forsrh., sem manna mest hefur staðið fyrir þessu, segir í áramótagrein sinni núna: „Ríkisvaldið eitt fær hér ekki við ráðið,“ og á þar við efnahagsmálin. Enn fremur segir hann þá: „Á ríkisstj. stendur ekki um samstarfsvilja við verkalýðshreyfinguna.“ Og nú sagði hæstv. ráðh. áðan, þegar hann talaði, að haldgóð úrræði fengjust ekki, nema um þau verði viðtækt samkomulag. Haldgóð úrræði fást ekki, nema um þau verði víðtækt samkomulag.

Það er sannarlega ástæða til þess að halda þessu á lofti. Það er ekki aðeins, að nú sé viðurkennt, að efnahagsmálastefnan hafi leitt til allt annarrar niðurstöðu en ætlazt var til, þ.e.a.s. óðaverðbólgu og óðadýrtíðar og hvers konar jafnvægisleysis í þjóðarbúskapnum og hreinnar upplausnar í kjaramálum. og öðrum þýðingarmestu málum, — það er ekki aðeins, að þetta sé nú játað af þeim, sem fyrir þessu hafa staðið, heldur játa þeir nú með þessum yfirlýsingum, að allar þeirra fullyrðingar og allar þeirra ádeilur á þá, sem stóðu að vinstri stjórninni, fyrir það, að þeir hafi farið skakkt að og haft rangar vinnuaðferðir með því að reyna að ná samvinnu og samtökum við almannasamtökin í landinu, — að allar þessar ádeilur hafi verið máttlausar, sem þeir eru að taka til baka með þeim yfirlýsingum, sem nú liggja fyrir. En þá er spurningin, hvort þeir muni raunverulega framkvæma það, sem þeir nú lýsa yfir, en því miður hefur ekki það, sem þeir hafa gert í haust og vetur fram að þessu, bent til, að svo væri. En við skulum samt vona, að úr því rætist.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér mjög um síðustu alþingiskosningar né margt í sambandi við þær og þessi efni, sem þó væri full ástæða til, því að það mundi lengja mál mitt um of. En við vitum, að í alþingiskosningunum var þjóðinni sagt, að það væri allt í lagi með viðreisnina, það væri bein braut fram undan og ekki horfur á því, að það þyrfti neitt sérlegt að aðhafast, nema þá eitthvað til þess að vega á móti einhverjum dýrtíðarhlykkjum, sem komið hefðu til greina. Því var haldið mjög ákveðið fram, að í meginatriðum hefði viðreisnarstefnan reynzt vel, þyrfti aðeins lagfæringar á henni. En þegar búið var að kjósa og við komum hér saman á hv. Alþ. s.l. haust, þá kom það í ljós mjög greinilega, hvað það var, sem hæstv. ríkisstj. fannst þurfa að breyta, og það var prédikað í hennar blöðum allt haustið. Og það var þetta: Það hefðu orðið mistök í kaupgjaldsmálunum. Það hefði ekki ráðizt við kaupgjaldsmálin. Þegar talað er um kaupgjaldsmálin í þessu sambandi, þá er líka átt við afurðamál bænda, því að það fylgist að.

Úr þessu átti svo að bæta hreinlega með því að lögbinda almenna kaupgjaldið óbreytt, eins og það var í haust. Eftir að búið var að hækka kaupgjald meginþorra þeirra hæst launuðu í landinu um stórar fjárhæðir, átti það einfalda úrræði að duga til að rétta af viðreisnina. Það var að vísu stílað þannig, að þetta ætti að vera til bráðabirgða, en fengust engar yfirlýsingar um, að eftir áramótin t.d. ætti að taka aftur upp samningsfrelsi, heldur þvert á móti, allt, sem sagt var, benti til þess, að þarna hlyti að verða um bindingu að ræða til frambúðar, ef hún næði fram að ganga.

Gegn þessu var snúizt af launþegasamtökunum í landinu, og það hafðist að stöðva þetta hér á hv. Alþ., vegna þess hve sterkt almenningsálit myndaðist á móti þessu og vegna þess að fólk stóð saman um þetta yfirleitt í verkalýðshreyfingunni án tillits til stjórnmála. En ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér vonir um, að það væri búið að holgrafa þannig í verkalýðsfélögunum með pólitískum starfsaðferðum og vinnubrögðum, að verkalýðshreyfingin gæti ekki einu sinni staðið saman um að beita sér á móti þessu. En þar reiknaði hæstv. ríkisstj. skakkt. Á endanum fór þetta þannig, að ríkisstj, sá, að þótt hún berði hér í gegn lög um þessi efni, þá mundu þau reynast óframkvæmanleg. Þá dró hæstv. ríkisstj. frv. til baka, sem er algert einsdæmi í íslenzkri þingsögu.

Það reyndist þá ekki mögulegt að rétta viðreisnina við með þessari aðferð. Það varð að grípa til annarra ráða. Var þá farið að tefla um önnur úrræði, og niðurstaðan urðu þeir samningar, sem öllum eru kunnir og lýst er þannig í málgögnum hæstv. ríkisstj., að með þeim séu gerðar óhóflegar kröfur á hendur framleiðslunni. En það er þetta: að koma kaupgjaldinu fyrir 8 stunda vinnu upp í 77 þús. kr. yfir árið. Síðan þetta var gert hefur ekki linnt yfirlýsingum um, að það yrði að gera gagnráðstafanir móti þessu, þetta væri of mikið, þetta þyldi ekki þjóðarbúið, kaupgetan yrði of mikil, það yrði ofþensla út af þessu og það yrði að gera ráðstafanir í móti.

Jafnhliða hafa svo ýmsir, eins og t.d. hæstv. forsrh., verið að tala um, að það þyrfti að reyna að finna nýja fleti á þessum málum, og stundum hefur hann jafnvel látið liggja að því, að það mundi vera hæfilegt markmið að keppa að því, að menn gætu haft þær vinnutekjur, sem þeir hafa núna, með því að vinna 8 stundir á dag. Vinnutekjur yfirleitt eru eitthvað yfir 100 þús. kr., minnir mig vera, að meðaltali vegna þess, hve mikið menn vinna kvöld og nætur. En þetta hefur alltaf af og til komið fram hjá hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. En hér er nú í kjarasamningunum ekki verið að tefla um 100 þús. eða þvílíkt fyrir 3 stunda vinnu, heldur bara 77 þús. kr. Væri það nú ekki, — ég vil biðja menn að athuga það hleypidómalaust og í alvöru, — væri það nú ekki hæfilegur fyrsti áfangi fyrir þessa menn, ef þeir meina eitthvað með þessu tali, að byrja með því að koma þessum málum þannig fyrir, að hægt sé að borga þessar 77 þús. kr. fyrir venjulegan vinnudag, án þess að plokka eitthvað af því af mönnum aftur, því að annars verði of mikil kaupgeta í landinu? Það væri ekki langt skref, sem stigið væri með því í átt til þess, sem bæði hæstv. forsrh. og aðrir hafa sagt að væri æskilegt, sem sé að koma þessu þannig fyrir, að menn gætu haft þær vinnutekjur, sem þeir hafa núna, með því að vinna 8 stundir á dag. Það væri aðeins stuttur áfangi á þeirri leið að láta nú vera að gera ráðstafanir til að kroppa af þessum 77 þús. kr. Því vil ég leggja sterka áherzlu á það, að 5. gr. í þessu frv. nái ekki fram að ganga, sem sagt greinin um nýju álögurnar, sem eiga að verða til þess að minnka kaupgetuna.

Nú kemur sú spurning, hvort hér er í raun og veru með þessu frv. um nokkra stefnubreytingu að ræða af hendi hæstv. ríkisstj. eða hvort þetta frv. bendir til stefnubreytingar. Um það vil ég segja, að það eru náttúrlega þarna atriði, eins og þetta að taka upp sérbætur fyrir vissar atvinnugreinar, sem hæstv. ríkisstj. neyðist til þess að gera, af því að hún rekur sig á staðreyndirnar, rekur sig á, hvernig íslenzkur þjóðarbúskapur er í raun og veru, sem þessir hæstv. ráðh. hefðu átt að vita, þegar farið var af stað með þetta, en létu þá blindast og vildu ekki sjá. Það má segja, að þarna sé um ný atriði og frávik að ræða, en meginstefnan er óbreytt enn þrátt fyrir þetta frv, og í þessu frv., vegna þess að þetta frv. er í raun og veru byggt á því og byggt upp í kringum það, eins og ég skal nú sýna fram á, að draga inn af kaupgetunni, ná aftur til baka af mönnum nokkru af þeirri kaupgetu, sem myndaðist í landinu við síðustu samninga. Þetta er söluskattinum ætlað að gera, og auk þess er 6. gr., þ.e.a.s. að fresta megi verklegum framkvæmdum, ætlað sitt hlutverk, sem er enn í samræmi við fyrri stefnu ríkisstj., sem ég kem að síðar.

Það liggur einna beinast við að kalla þetta frv. viðreisnarhækju eða eitthvað þess konar, og er það einmitt í samræmi við þá einkunn, sem hæstv. forsrh. vildi velja málinu, a.m.k. er það í samræmi við þá hugsun, sem kom fram hjá honum, þar sem hann var að lýsa því, að hér væri aðeins um eins konar bráðabirgðaráðstöfun að ræða, á meðan menn væru að hugsa sig um, hvað ætti að gera til að ráða bót á ástandinu.

En ég vil segja það hér í sambandi við þetta mál alveg sérstaklega, að það er mín skoðun, að hvernig sem reynt verður að lappa upp á þetta viðreisnarkerfi, ef kerfi skyldi kalla, þá mun það sýna sig, að það er búið að ganga sér til húðar og hæstv. ríkisstj. í raun og veru með. Og því lengur sem höfðinu er barið við steininn og dregið að draga af þessu réttar ályktanir, því hættulegra verður ástandið og málefnin verri viðureignar.

Ég skal nú þessu næst víkja nokkuð að frv. sjálfu. Það mætti segja svona í gamni og þó alvöru, að þetta væru í raun og veru þriðju fjárlögin, sem samþykkt eru fyrir þetta ár. Það var nú, þegar þetta nýja kerfi byrjaði, talin mikil íþrótt að afgreiða fjárlög fyrir áramót, og það hefur v erið reynt að halda því. En þetta er í raun og veru með vissum hætti þriðju fjárlögin, fyrst þau, sem venjulega eru kölluð fjárlög, síðan vegalöggjöfin nýja með sköttum og útgjöldum, sem þar eru í, og loks er svo þetta frv., sem í raun og veru er eins konar viðbótarfjárlög, sem á að samþykkja nokkrum dögum eftir að hin voru sett.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því að greiða 43 millj. sem styrk til frystihúsanna, rekstrarstyrk, en hann á að láta úti þannig að hjálpa þeim til þess að koma við aukinni framleiðni, það er haft það form á styrkveitingunni. En eins og hæstv. forsrh. réttilega tók fram, þá er þetta að reyna að koma á aukinni framleiðni eðlilegur kostnaðarliður hjá hverju frystihúsi fyrir sig, þannig að hér er raunverulega um rekstrarstyrk að ræða til frystihúsanna, sem á að borga út til þess að standa undir þessum sérstaka lið. Mun þetta vera gert til þess, að á þessu sé betri blær. Þeir munu telja það heppilegra fyrir sig að láta þetta heita svo með tilliti til þess, hve illa þeir hafa áður talað um sérbætur til einstakra framleiðslugreina og talið þær fordæmanlegar.

En ég vil líka láta það í ljós í þessu sambandi, sem ég hef oft gert áður, að ég tel aukna framleiðni og vinnuhagræðingu og bætt vinnuskipulag eitt þýðingarmesta úrræði, sem til greina, kemur út úr þeim vanda, sem nú er í komið, og minni ég á í því sambandi frv. okkar framsóknarmanna í hv. Ed. um að stofna sérstakan lánasjóð, sem láni fjármagn til þess að hjálpa framleiðslunni til að koma í framkvæmd því, sem þýðingarmest telst til að auka framleiðnina, auka möguleikana til að borga viðunandi kaup og komast út úr þeirri kreppu, sem við erum í. Að því leyti stefnir þessi styrkur að mínu viti rétt og heppilegt að stefna þessum styrk einmitt inn í þennan lið hjá frystihúsunum. Á hinn bóginn þyrfti að endurskoða ákvæðið, þannig að það gæti orðið skýrara, á hverju húsin eiga raunverulega rétt samkv. lagagreininni, en það er atriði, sem ég skal ekki fara út í við þessa umr. Enn fremur sýnist mér, ,að það muni nú vera erfitt að komast hjá því að hafa, þetta ákvæði víðtækara og það nái til fleiri í sambandi við sjávarútveginn en það nú gerir.

Þá eru enn fremur sérbætur í frv. til togaranna, og er gert ráð fyrir, að þeir fái sérstakan styrk úr ríkissjóði, 1½ millj. kr. á ári að meðaltali, að því er mér skilst, til viðbótar því, sem þeir fái fé úr aflatryggingasjóði eftir ákvæðum og reglum hans, og enn fremur til viðbótar tryggingariðgjaldinu, sem er nú ekki hægt að kalla styrk í raun og veru, vegna þess að mér skilst, að það sé tekið af útflutningsgjaldinu, nema þá að því leyti sem það er styrkur til togaranna að nokkru frá öðrum sjávarútvegsaðilum. Ég býst sem sé ekki við, að þeir leggi í þá púlíu, sem svarar iðgjaldinu, þannig að það er þá styrkur frá annarri útgerð í landinu og þeim, sem sjávarafla eiga. Og er það náttúrlega út af fyrir sig, eins og deilt var um hér í fyrra, mjög vafasamt að ætla bátaútgerðinni að standa þannig undir togurunum. Ég skal þó ekki fara út í það hér. Ég sé ekki, að það verði komizt hjá því að styðja togaraútgerðina með sérbótum, og ætla því ekki að gera þetta meira að umræðuefni að öðru leyti en því að undirstrika, að þarna er um sérbætur til þýðingarmikillar atvinnugreinar að ræða, sérbæturnar, sem þarna eru til frystihúsanna og togaraútgerðarinnar. Við getum ekki hætt allt í einu að gera út togara, eins og hæstv. sjútvmrh. sagði, en þetta sýnir þá, hversu óviðeigandi voru þau gífuryrði um sérbótapólitíkina, sem viðhöfð voru, þegar viðreisnin fór á stúfana. Menn hefðu getað sparað sér þau stóru orð og líka, eins og ég sagði áðan, komið í veg fyrir tjón af ýmsu tagi, ef menn hefðu ekki æst sig upp í þá fásinnu að telja, að í einu vetfangi væri hægt að setja okkar efnahagslíf á þann grundvöll, að allt vigtaði sig og allt mætti deyja út drottni sínum, sem þyrfti sérstakrar aðhlynningar við, því að það var stefnan, sem tekin var, og beinlínis sagt: Það má deyja drottni sínum, sem þarf sérstakrar aðhlynningar við. Það er ekki í samræmi við kerfið að láta það lifa. En nú hafa þessir hæstv. ráðh. lært þetta þó á þessum 4 árum, þó að það hafi óneitanlega verið dýr skóli fyrir þjóðina.

Í sambandi við þetta vil ég svo ræða sérstakan þátt. Það eru fleiri greinar, sem eiga sérstaklega erfitt uppdráttar núna og hafa átt, sem þarf að taka til íhugunar, heldur en aðeins frystihúsin upp til hópa og svo aftur togaraútgerðin, en það eru þau frystihús, sem eiga við sérstaklega örðug skilyrði að búa, t.d. þau, sem fá lítið fiskimagn, en eru þó lífsnauðsynleg fyrir byggðarlögin, eins og togararnir að sínu leyti á svipaðan hátt, og ekki er hægt að leggja niður, og sum af þessum frystihúsum t.d. verða að taka óhagstæðara hráefni en önnur. Þetta á yfirleitt við þau frystihús, sem starfa úti um landið, sérstaklega að sumrinu. Þetta eru lífsnauðsynleg atvinnutæki fyrir byggðarlögin, og þessi byggðarlög verða að standa og verða að blómgast. Það er ekki hægt að loka þessum frystihúsum. Það er ekki hægt að láta eins og þau séu ekki til. Það er ekki hægt að láta eins og vandamál þeirra séu ekki til, ekkert fremur en hægt er að láta eins og vandamál togaranna séu ekki til. Það er ekki hægt og hefur aldrei verið hægt. Okkar staða er þannig. Þess vegna vil ég fara fram á, að vandamál þessara stofnana verði skoðuð alveg sérstaklega r sambandi við þetta frv., einmitt þetta frv., og það verði sett þarna inn ákvæði, sem gæti komið þeim að liði, gæti jafnað þarna metin og komið þeim að liði, þannig að þau gætu haldið áfram að vinna sitt hlutverk í þessum byggðarlögum. Og ég vil vona það, að af mönnum sé nú öll feimni í þessu efni og þetta gæti orðið athugað hleypidómalaust, eins og málefni annarra greina, sem standa um þessar mundir nokkuð höllum fæti.

Þá er í þessu máli gert ráð fyrir því að lækka nokkuð útflutningsgjaldið á sjávarafurðunum. En mér þykir mjög skammt gengið í því, og ég er alveg sannfærður um og hef lýst því yfir áður sem minni skoðun og vil endurtaka það hér, að þetta háa útflutningsgjald, sem atvinnuvegum hér er ætlað að borga, er alveg úrelt og getur ekki staðizt. Útflutningsgjald á sjávarafurðir var innleitt, þegar sjávarútvegur skaraði langt fram úr að því er mér hefur skilizt. Ég var ekki á þingi þá. Mér hefur skilizt, að það sé óumdeilt, að hann skaraði þá fram úr í framleiðni eða hvað við eigum að kalla það á nýtízkumáli, eða var arðvænlegri en aðrar greinar. Þá var víst útflutningsgjaldið innleitt, en nú eru viðhorfin alveg breytt. Sjávarútvegurinn þarf að keppa harðri samkeppni á öðrum mörkuðum, og ég álít því, að það verði að ganga lengra í að lækka útflutningsgjöldin. Og ég tel, að það sé ekki stætt á þessu fiskverði, sem nú er, það geti ekki staðið óbreytt, eins og það hefur verið. Það ætti að tengja þetta tvennt saman, leita lags að leysa fiskverðsmálið í sambandi við meðferð þessa frv. og ganga þá lengra í því að lækka útflutningsgjöldin. En þá yrði ríkið að sjálfsögðu að taka á sig þau útgjöld, sem útflutningsgjaldinu er nú ætlað að bera. Ég sé ekki, að það verði með nokkru móti fram hjá þessu komizt, því að hjá gengislækkun verður að sneiða og fram hjá henni verður að komast. Það verður að lagfæra þessi mál með öðru móti. Enn fremur vil ég láta í ljós vonbrigði mín út af því, að ekki skuli gert ráð fyrir vaxtalækkun í þessu frv. Það mun hafa verið í hittiðfyrra, sem loforð var gefið um lækkun á afurðalánavöxtum, en varð ekkert úr, og ég hef ætíð verið að búast við því, að það yrði breytt stefnunni, a.m.k. varðandi afurðalánavextina. Ég vil láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að það skuli ekki hafa verið gert einmitt núna í sambandi við þetta frv., og vil ég, að slíkt komi til greina nú við 2. umr.

Það er eitt meginatriði frv. að leggja á nýjan söluskatt, hækka stórkostlega söluskattinn, til þess, eins og það er orðað, að standa undir þeim kostnaði, sem verður af öðrum ákvæðum frv. Ég vil alveg eindregið mæla í móti þessari grein og fara fram á, að hún verði ekki samþykkt, og skal nú færa fyrir því þau rök, sem mér sýnast beinast liggja við. Það er gert ráð fyrir því, að þetta gefi um 210 millj. á 11 mánuðum, eða sennilega um 230, ef um 12 mánuði væri að ræða eða eitthvað þar í kring. Sennilega gefur þetta meira, því að vafalaust er þessi tekjuáætlun varleg. En sleppum því. Þessar nýju álögur verka eins og byrjun á nýrri umferð í dýrtíðarleiknum. Það er ný umferð á dýrtíðarskrúfunni, og verður þannig litið á þetta, enda er sannleikurinn sá, mín skoðun er sú, að þessar nýju álögur séu ekki lagðar á vegna þess, að ríkissjóður þurfi á þessu fé að halda eftir öllum merkjum að dæma, þó að hann tæki á sig þau gjöld, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er mín skoðun, að þetta sé í raun og veru ekki lagt á til þess, heldur sé þetta lagt á til að skapa greiðsluafgang hjá ríkissjóði, og sem einn liður í þeirri jafnvægispólitík eða jafnvægisstefnu, sem hæstv. ríkisstj. telur sig fylgja og er sem sagt fólgin í því að trúa á, að það leysi allan vanda í þjóðfélaginu, ef hægt er að draga sparifé inn í Seðlabankann og minnka lánsfé í umferð og hægt að hafa greiðsluafgang hjá ríkissjóði og leggja það fé líka inn í bankakerfið.

Hæstv. ríkisstj. trúir því og hefur trúað því frá fyrstu tíð, að allan vanda væri hægt að leysa með peningapólitískum ráðstöfunum einum saman af þessu tagi. Bara þeir væru nógu stórir, greiðsluafgangarnir hjá ríkissjóði, og menn væru nógu duglegir að sjá um, að ekki væri of mikið lánsfé í umferð í bankakerfinu, væri allur vandi þar með leystur. Og sé of mikið fé eins og þeir kalla, í umferð, annaðhvort af því að kaupið sé hækkað eða eitthvað annað gert af hliðstæðu tagi, þá sé ekki nema eitt ráð til og það sé að draga féð úr umferð með nýjum álögum. Ég álít, að þessi söluskattur sé ekki lagður á vegna þess, að þeir séu hræddir um halla hjá ríkissjóði, heldur frá þessu sjónarmiði.

Ég vil benda á í þessu sambandi, að ríkissjóður hafði 300 millj. kr. umframtekjur 1962, umfram það, sem áætlað var í fjárlögunum fyrir það ár, og það hljóta að verða mörg hundruð milljóna króna umframtekjur á s.l. ári. Hversu mikið af því verður hreinn greiðsluafgangur, það þori ég ekkert um að segja. Ég veit ekki, hversu mikil ráðdeild hefur verið. En ég þori að segja, að það hlýtur að hafa orðið stórfelldur greiðsluafgangur, og gildandi fjárlög eru áreiðanlega miðuð við að fá stórkostlegar umframtekjur á þessu ári. Það verður þá mikið áfall, að því er mér sýnist, ef það ekki verður, og á það mun vera stílað. Og til þess að rugla ekki þau áform að hafa verulegan greiðsluafgang til að styrkja jafnvægispólitíkina, sem kölluð er, þá er sett hér inn í þessi 5. gr., þ. e. stórkostleg hækkun á söluskattinum.

Það er svo fróðlegt að athuga, að ef þetta verður lögfest, þýðir það, að álögurnar eru komnar upp í 3 milljarða, eða 3000 milljónir.

Það eru 2 milljarðar og 700 þúsundir á fjárlögunum, sjálf áætlunin, en það verður auðvitað miklu meira. Og svo eru vegalögin. Þar voru nýjar álögur upp á tæpar 100 millj., það eru um 2 milljarða og 800 milljónir. Og hérna eru 210 millj. Þetta verða rúmlega 3000 milljónir eða þrír milljarðar. Þetta er því hátíðleg stund. Það eru þrír milljarðar, það verður farið í gegnum hljóðmúrinn. Þetta er orðin hálfgerð geimferð. Það eru 3 milljarðar, þannig að það er „hátíðleg“ stund, ef þetta verður afgreitt.

Fyrir rúmum 4 árum voru þetta á milli 800 og 900 millj. Kannske sýnir ekkert betur en þetta, hvað raunverulega er að gerast í þjóðfélaginu og hvernig þetta hefur allt saman komið út. Það er verið að tala um það t.d. hérna, að útlán hafi vaxið stórkostlega, t.d. til atvinnuveganna, og talað um það sem glannalega pólitík að gera ráð fyrir því að endurkaupa afurðavíxla og annað, eins og áður var gert. Menn eru stimplaðir ábyrgðarlitlir í því sambandi og sagt, að menn vilji þenslu o.s.frv. En það væri fróðlegt fyrir menn að athuga t.d. afurðalán til atvinnuveganna og bera þau saman við þessa þróun í ríkisbúskapnum. Það væri ekki ófróðlegt fyrir áhugamenn í atvinnulífinu. Og ætli það sé nokkur furða, þótt það þurfi fleiri krónur til að reka atvinnulífið, þegar hlutir eins og þessir hafa gerzt? Nei, það er mín skoðun, alveg hreinlega, að nýjar álögur þurfi ekki að lögleiða vegna fjárskorts, enda að mínu viti þessum álögum ætlað annað hlutverk, en það er fyrst og fremst að draga nú aftur og enn úr kaupgetunni, minnka peningaumferðina.

Hæstv. forsrh. sagði áðan, að það væri ábyrgðarlaust að vera á móti álögunum, því að það mundi auka dýrtíðina, ef menn væru ekki nógu duglegir að leggja á skatta og hafa góða útkomu á ríkisbúskapnum, það væri sama og að spila út of miklu fjármagni. En ég segi, að þessi aðferð, að svara alltaf með nýjum álögum, sem auka dýrtíðina, þetta verkar ekki raunverulega til jafnvægis, þetta verkar á hinn bóginn, eins og olía á dýrtíðareldinn sjálfan. Og ég skal koma að því ofur lítið síðar, hvers vegna það er kannske fremur hér en sums staðar annars staðar. Það getur vel verið, að þetta sé góð latína víða, en það er það áreiðanlega ekki hér.

Þá kem ég að 6. gr., sem ég fyrir mitt leyti vildi líka fara fram á að yrði ekki samþykkt. Ég er því alveg mótfallinn að heimila ríkisstj. að fresta verklegum framkvæmdum, eftir því sem henni þykir rétt. Og hæstv. forsrh. mælti eins fyrir þessu og menn gátu náttúrlega búizt við. Hann sagði, að það væri rétt, að stjórnin fengi þessa heimild, því að hún gæti notað hana til að draga úr ofþenslu. Hún gæti notað þessa heimild til að draga úr ofþenslu. Ég vissi, að þessi heimild gat alls ekki verið sett þarna inn vegna þess, að stjórnin byggist við, að hana vantaði peninga. Því að ég veit, að stjórnin hefur allt aðrar hugmyndir um það, eins og ég hef þegar lýst. Henni er það ljóst, að ef allt gengur sæmilega með framleiðsluna, þá verður allt vaðandi í peningum hjá ríkissjóði. En þeim þykir hyggilegt, segir hæstv. ríkisstj., að fá þessa heimild til þess að draga úr ofþenslunni. Og þá er það þessi hugsun, sem er á bak við, að það sé of mikil þensla í þjóðfélaginu, og það álít ég rétt. Það er gífurleg fjárfesting, sjálfsagt meiri en á að vera og allt það, og þá bendir hæstv, ríkisstj. á þessa leið. Hún þurfi, ef hún telur nauðsynlegt að draga úr þenslunni, að minnka verklegar framkvæmdir ríkisins.

Þetta þýðir það, að þær framkvæmdir, sem ríkisstj. telur að eigi fyrst og fremst að víkja, ef of mikið sé aðhafzt, það eru þær framkvæmdir, sem fjárveitingar eru núna til á fjárlögum eða öðrum lögum. En hvaða framkvæmdir eru það? Það er m.a. vegirnir og brýrnar. Það er nýbúið að leggja á 100 millj. í aukasköttum til að auka framlög til vega og brúa, og því hefur verið heitið beinlínis í sambandi við þá lagasetningu, að það fé, sem þar var lagt á, skyldi ganga til vega- og brúagerða. Og nú spyr ég: Eru það vegaframkvæmdirnar og brúaframkvæmdirnar, sem eiga að víkja? Þá er það hafnarframkvæmdirnar, sem samþykktar eru fjárveitingar til á fjárlögum. Eru það þær, sem fyrst eiga að víkja að dómi hæstv. ríkisstj.? Ég segi: vega- og brúaframkvæmdir eiga ekki að víkja. Þær eiga ekki að víkja. Og ég segi: hafnarframkvæmdir eiga ekki heldur að víkja. Þær eiga fremur að hafa forgang en þær eigi að víkja, til þess að allt annað geti gengið sinn gang. Hvað er um sjúkrahúsaframkvæmdirnar? Ég heyrði lýsinguna í gær, — eða var það í fyrradag? sem hæstv. heilbrmrh. gaf um ástandið í sjúkrahúsamálunum og hvernig ástatt væri um framkvæmdirnar, sem menn hafa nú þegar með höndum í þeim málum. Eru það þessar framkvæmdir, sem eiga að víkja, ef eitthvað þarf að víkja af því, sem nú er verið að afhafast í þjóðfélaginu? Ég segi nei. Hvað með skólaframkvæmdirnar? Hvernig er ástatt í skólamálunum? Því hefur verið lýst á hv. Alþ., að það verði að vísa æskufólkinu frá skólunum í hundraðatali. Það eru ekki skólar til fyrir unga fólkið, þótt það vilji læra. Það verður að vísa því frá í hundraðatali. Og það vantar skóla víðs vegar, en vitanlega er skólamenntun helzta undirstaða þess, að okkur geti yfirleitt vegnað sæmilega framvegis í landinu. Þetta á við í enn ríkari mæli en nokkurn tíma vegna tækninnar og verklegra vísinda. Og því segi ég, að skólaframkvæmdir eru ekki meðal þess, sem á að víkja, ef of mikið er aðhafzt. Þá eru raforkuframkvæmdir. Hvernig er ástatt með raforkuframkvæmdir? Sums staðar vantar raforku, orkuverin eru of lítil. Raforkulínur vantar víðs vegar um landið. Það er eitt af því allra þýðingarmesta, til þess að byggð geti haldizt í mörgum ágætum héruðum landsins, að raforkan geti haldið innreið sína, því að eftir tiltölulega fá ár fæst enginn til að búa annars staðar en þar, sem aðgangur er að rafmagni. Því segi ég: raforkuframkvæmdir eru ekki meðal þess, sem á að víkja, ef um ofþenslu er að ræða.

Ég hef nú talið stærstu liðina, sem veitt er fé til á fjárlögum. Það eru að vísu fleiri liðir, en þeir eru allir hégómlega smáir í samanburði við þessa liði. Og þess vegna er ég á móti 6. gr. og segi hiklaust: Ef eitthvað þarf að víkja, þá er það allt annað en það, sem nú er veitt fé til á fjárlögum, og allt annað en það, sem stjórnin mundi láta víkja, ef hún fengi þessa heimild. Ég mundi alveg hiklaust, og skal standa við það hvar sem er, miklu fremur vilja láta víkja margt af þeirri einkafjárfestingu, sem nú á sér stað í landinu. Og það er vitanlega það, sem verður að gera, ef menn ætla sér að komast út úr þessu öngþveiti. Hitt ber algerlega dauðann í sér, eins og stefnt er að með þessu frv. og allri stefnu hæstv. ríkisstj., að láta allar „panik“-fjárfestingarframkvæmdir ganga sinn gang, sem nú eiga sér stað í landinu, m.a. fyrir þann ofboðslega ótta, sem menn bera í brjósti um, að ríkisstj. ráði ekki við neitt, — láta allar þessar framkvæmdir ganga sinn gang, en draga inn og hætta við lífsnauðsynlegustu framkvæmdir þjóðarinnar, sem ég hef verið hér að minnast á. Eitt af því, sem mest á ríður, er að komast út úr því handahófi, sem nú á sér stað í fjárfestingarmálunum, en það handahóf er kannske stærri liður í því, hvað erfitt er að fást við þessi mál nú, en menn hafa gert sér grein fyrir um sinn.

Í þessu sambandi er algerlega haldlaust að vísa til þess, að áður hefur verið stundum í lögum heimild handa ríkisstj. til að fresta framkvæmdum, sem veitt er til á fjárlögum. Það er margt, sem kemur þar til. Stundum hefur verið í gildi fjárfestingareftirlit, þegar slíkar heimildir hafa verið samþykktar, þannig að hægt hefur verið að bera saman og raða niður framkvæmdum yfirleitt, bæði ríkisins og annarra, og þá ráða fram úr því, hvað skynsamlegast væri að láta bíða. En að samþykkja slíka heimild og horfa á það, að allt, sem öðrum en ríkinu sýnist að gera, skuli geta gengið sinn gang, hvers eðlis sem það er, jafnvel þó að í því sé stórkostleg verðmætasóun, nær engri átt.

Það er náttúrlega ekki hægt að neita því, að í sumu af þeirri fjárfestingu, sem verður, þegar fjárfestingaræði grípur um sig, er verðmætasóun. Margt er auðvitað ágætt, en innan um er sóun verðmæta, og þá er auðvitað mjög margt gert af því, sem við ættum að vera sammála um að mætti fremur bíða en annað. En eigum við þá að fara að gera ráðstafanir til þess að draga lífsnauðsynlegustu framkvæmdir til baka, til þess að hitt geti gengið sinn gang? Hvar endar það?

Ég hef nú rætt nokkuð um frv. sjálft og skal ekki fara miklu lengra út í að ræða einstaka þætti þess. Ég vil að lokum segja það um efni þess, að það kemur fram í þessu frv., að ríkisstj. hefur þó loksins gert sér grein fyrir því, að það er óhugsandi að komast hjá sérráðstöfunum vegna einstakra atvinnuvega, og öll gífuryrði um þá stórfelldu spillingu, sem í því hafi falizt að greiða fyrir einstökum atvinnugreinum, þegar sérstaklega stóð á, þau falla um sjálf sig. Enn fremur liggur fyrir, að það, sem uppbótakerfinu hefur í sjálfu sér verið fundið mest til foráttu, er í raun og veru þá um leið dottið í sömu gröf. Hér er fullum fetum lagt til að bæta ekki aðeins við uppbótakerfið, heldur er séruppbótakerfi tekið upp, eiginlega mjög víðtækt séruppbótakerfi. Það eru togararnir og hraðfrystihúsin. En almenna uppbótakerfinu er haldið og við það bætt. En það hefur alla tíð í raun og veru verið í gildi með niðurgreiðslunum.

Enn fremur má segja, að það sé að byrja að votta fyrir því, að menn sjái og sýni það í verki, að hin háu gjöld á útflutningsframleiðsluna geta ekki staðizt. Það verði að lækka þau, þó að stutt sé gengið. Enn fremur má segja, að það komi fram í þessu frv., þótt í litlu sé, að það þurfi meira en orðin tóm til að auka framleiðnina. Það verður áreiðanlega að koma fram einhver þjóðfélagslegur stuðningur til þess að gera atvinnuvegunum mögulegt að auka framleiðnina og þá áreiðanlega í stærri mæli en þessi vísir, sem hér vottar þó fyrir, ráðgerir.

Það má segja, að þessi atriði komi fram í málinu. En á hinn bóginn kemur það líka fram, og það er það versta, að dýrtíðarstefnan á að halda áfram. Meginstefnan á að vera áfram óbreytt, en sú stefna hefur frá fyrstu tíð verið fólgin í því að reyna að halda kaupgjaldi og afurðaverði sem lægstu, en láta dýrtíðina hækka til að minnka þannig kaupgetuna og peningamagnið í umferð og vinna þannig að jafnvægi. Enn fremur að gera kostnað við lánsfé mikinn og hækka fjárfestingarkostnaðinn og reyna þannig að draga úr fjárfestingunni. Því miður er ætlunin, að þessi stefna verði áfram óbreytt, þ.e.a.s. sú stefna, sem til mests ófarnaðar hefur leitt.

En ég held, að menn verði að gera sér grein fyrir því, að þessi stefna fær ekki staðizt. Það verður að breyta stefnunni í lánamálunum, vaxtamálunum, og handahófið í fjárfestingunni fær ekki staðizt. Þetta handahóf dregur þjóðarbúskapinn niður, sennilega með meiri hraða en við höfum gert okkur grein fyrir. Og styrjöldin, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur haldið uppi við almannasamtökin, þetta fjögra ára stríð, getur ekki haldið áfram, það fær ekki staðizt. Og það virðist votta aðeins fyrir skilningi hæstv. forsrh. á því, ef það er þá nokkuð annað en klókindi, sem frá honum hefur komið í þá átt, en ég vil vona, að það sé annað og meira.

Og loks er óhætt að segja það alveg hiklaust, að sú stjórn fær ekki staðizt, sem mistekst allt, sem hún lýsir yfir að hún ætli að taka sér fyrir hendur og við beztu skilyrði. Það er líka þýðingarmikið atriði til að hugsa um á þessum tímamótum og í sambandi við þann mikla vanda, sem fram undan er, því að hér er nefnilega ekki um neitt hégómamál að ræða, því að þegar allt kemur til alls, þá er þetta líka að talsvert miklu leyti spurning um traust eða vantraust. Það er sennilegt, að þeir, sem ekki hafa traust, geti ekki heldur leyst vandann, jafnvel þótt þeir færu ekki mjög skakkt að. Þess vegna er þetta svo alvarlegt. Ég segi þetta ekki til að hreyta skætingi að hæstv. ríkisstj., ég tel, að þetta sé svona.

Mig langar svo til að fara fáeinum orðum um það, hvers vegna viðreisnarstefnan var alltaf dauðadæmd eða hlaut að mistakast að mínu viti. Viðreisnarstefnan var fólgin í þessu, eins og ég sagði áðan, að það átti að ná jafnvægi og halda jafnvægi með því að hækka verðlagið í landinu til að byrja með, en kaupgjaldið átti að vera óbreytt. Þetta var stefnan, eins og henni var lýst. Einnig með því að hækka verðið á fjárfestingarframkvæmdunum, en peningamagn í umferð átti ekki að vaxa. Á þennan hátt átti að ná jafnvægi og halda öllu í jafnvægi. Og peningapólitískar ráðstafanir einar áttu að duga. Þetta er rétt lýsing á meginkjarna þessarar stefnu. En að mínu viti er slík stefna alveg óframkvæmanleg hér á landi og hefur aldrei verið framkvæmanleg, og nú tel ég, að reynslan hafi sýnt það.

Sannleikurinn er sá, að ef svona stefna ætti sem kalla mætti „að heppnast“, þá yrði víst að borga fyrir það dýru verði, það yrði víst að borga fyrir það með þó nokkru atvinnuleysi. Ef svona stefna á að leiða til þess, sem kallað er á hagfræðimáli jafnvægi, þá verður að borga fyrir það með einhverju þó nokkru atvinnuleysi. Og er þá hugsað þannig eftir lögmálinu um framboð og eftirspurn, að sé eftirspurnin minni eftir vinnu en framboðið, þá hækki ekki verðið á vinnunni, m.ö.o. þá hækki ekki kaupið, og þannig sé hægt gegnum bankapólitíkina og peningamálaráðstafanir einar, með því að draga fé úr umferð, að halda öllu í „jafnvægi“. Þannig er þetta vitanlega hugsað. Þannig hlyti fjárfestingin að haldast í jafnvægi og þjóðarbúið í heild.

En það er frá upphafi vonlaust hér hjá okkur að ætla sér að framkvæma þessa stefnu, og það er af mörgum ástæðum. Okkar þjóðarbúskapur er að mörgu leyti svo ólíkur því, sem annars staðar gerist, það kemur ýmislegt til. En það kemur fyrst til, að Íslendingar sætta sig ekki við atvinnuleysi, og þegar til kemur, efast ég um, að nokkur stjórn þori að standa fyrir þeim samdrætti, sem þyrfti að vera í þjóðarbúinu, til þess að fram kæmi það, sem kalla mætti á hagfræðilegu máli fullkomið jafnvægi, þ.e.a.s. nokkurt atvinnuleysi. Grundvöllur fyrir slíkri stefnu er sem betur fer ekki fyrir hendi, eða það vona ég. Ég skal ekki segja, hvað þessi hæstv. ríkisstj. hefði gert af því, sem hún ætlaði, ég efast um, að hún hefði nokkurn tíma komizt svo langt að gera þetta eins og það átti að vera. En þar kom náttúrlega hin mikla síldveiði inn í og truflaði þær samdráttarfyrirætlanir, sem þarna voru á prjónunum, þannig að þær kæmust ekki í framkvæmd. Það þyrfti að taka þetta allt nokkuð hörðum tökum, ef þetta ætti að vera mögulegt, eins og til stóð, og ég held, að Íslendingar sætti sig ekki við það, nema því aðeins að það sé búið að koma á þá einhvers konar hnappheldu, sem ég sé nú ekki í fljótu bragði, hver ætti að vera.

Þetta er nú undirstaða þess, að viðreisnarstefnan hefur aldrei verið framkvæmanleg. Fleira kemur líka hér til greina, sem er sennilega nokkuð sérkennilegt fyrir Ísland, og m.a. þetta: Það er ekki hægt að nota bankakerfið hér á sama hátt og í öðrum löndum til að stjórna í gegnum það. En það er fyrir það, að þar sem þjóðin er svo fámenn og hver þekkir annan og þekkir betur til hjá öðrum en tíðkast annars staðar, þá eru miklu fleiri leiðir hér en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli til þess, að menn komi fjármálastarfsemi sinni í framkvæmd utan við bankakerfið. Og þetta erum við að upplifa núna þessi árin og þessi missirin. Þó að dregið hafi verið inn í Seðlabankann af sparifénu og ýmsar ráðstafanir gerðar, sem fræðilega séð ættu að vera nægilegar til þess, að allt væri í „ballans“ eftir kennslubókunum, þá er bara dúndrandi ofþensla fyrir því, a.m.k. nú æðilengi, og þessar ráðstafanir ná ekki tilgangi sínum.

Þá kemur hér til greina, að Íslendingar hafa miklu minna fjármagn tiltölulega en flestar aðrar þjóðir, miðað t.d. við fjárfestingarþörfina, sem er ákaflega mikil. Og Íslendingar þola handahóf í fjárfestingunni miklu verr en sennilega nokkur önnur þjóð, einmitt af þessum ástæðum. En í fjárfestingunni verður vitanlega algert handahóf, ef þessi stefna, eins og hún var mótuð í upphafi og hefur verið framkvæmd að verulegu leyti, á að ríkja, — algert handahóf, eins og þið sjáið t.d. á því, að nú ráðgerir hæstv. ríkisstj. að lækna ofþensluna — og með hverju? Með því að draga fjármagn úr umferð, með nýjum söluskatti og með því að fresta opinberum framkvæmdum, láta þær víkja fyrir öllu hinu. En ég er alveg sannfærður um, að Íslendingar þola verr handahóf í fjárfestingunni en nokkur önnur þjóð, vegna þess, hve fjármagnið hér er lítið. Þegar fjármagnið er lítið, þurfa menn að vanda sig betur, hvernig það er notað. En þær þjóðir, þar sem allt veður í peningum og þar sem peningar eru jafnvel útflutningsvara, þar sem menn máske vantar verkefni fyrir peningana, þar er allt öðru máli að gegna. Þær geta leyft sér þann lúxus að láta þetta fara eftir geðþótta hvers og eins. En ég er sannfærður um, að við getum það ekki. Hugsið ykkur, að niðurstaðan af þessu verður sú, að þær framkvæmdir, sem mest á ríður, þær verða að víkja. En handahófsframkvæmdir alls konar, sem fremur ættu að bíða, þær ganga fyrir. Þetta á ekki aðeins við um skóla, sjúkrahús og raforkulínur, vegi, brýr og hafnir, þessar framkvæmdir, sem ég var að telja áðan, þetta á engu síður við undirstöðuframkvæmdir í sjálfri framleiðslunni.

Hvað er svo að verða með framleiðsluna núna við þessar kringumstæður? Menn segja, að kauptaxtarnir hafi verið hækkaðir allt of mikið, kaupið sett svo hátt, að framleiðslan geti ekki staðið undir kaupinu. Samt sem áður er yfirborgað, samt sem áður er fullt af aðilum, sem í dauðans ofboði reka áfram fjárfestingarframkvæmdir sínar, sem yfirborga framleiðsluna núna. Og fyrir þessu eigum við að víkja, segja: Gerið svo vel, haldið áfram, við hættum við skólana, við hættum við raforkulínurnar, við hættum við vegina og brýrnar o. s. frv., við drögum okkur til baka, þið skuluð halda áfram. Hvar haldið þið að þetta endi? Haldið þið, að þetta endi með því, að við getum rifið okkur út úr vandanum með aukinni framleiðni eða öðrum skynsamlegum ráðstöfunum, sem gætu orðið til þess, að okkur búnaðist betur en verið hefur? Nei, áreiðanlega ekki. Og þetta bið ég hverja, sem ráða þessum málum, að íhuga.

Það er annað líka, sem kemur hér til greina og ekkert er minna atriði og snertir þetta sama. Það er fjármagnið og í því sambandi rekstrarfjárþörfin. Hvað er með rekstrarféð? Alveg eins og við höfum svona fjarskalega lítið fé, miðað við fjárfestingarþörfina, þá er allt á hangandi hári hjá okkur með rekstrarfé, jafnvel fyrir þær atvinnugreinar, sem mestu máli skipta. Svo er verið að reyna að baksa við að stjórna með peningalegum ráðstöfunum einum og því, sem kallað er fullt frelsi. Hver verður niðurstaðan? Niðurstaðan verður sú, að það eru dregnar saman lánveitingarnar, líka rekstrarlánin, það er farið að lána 55% út á sjávarafurðirnar og landbúnaðarafurðirnar í staðinn fyrir 67% áður o.s.frv., o.s.frv., draga saman rekstrarféð. Haldið þið, að þetta verði til að auka framleiðnina eða gera atvinnuvegunum kleift að borga hærra kaup? Og hver er svo niðurstaðan núna? Að atvinnuvegirnir geti ekki einu sinni borgað sama kaup og 1958 og ekki keppt við fjárfestingu hinna.

Haldið þið, að þetta sé einhver hégómi, sem menn geti látið eins og ekki hafi skeð? Nei, það er eitthvað alvarlegt að í þessu og eitthvað meira en lítið, — eitthvað, sem þarf að endurskoða. Það finna allir. Meira að segja hæstv. forsrh. finnur það, því að hann sagði, að það yrði að taka sér frest til þess að hugleiða þessi mál og hvað ætti að gera, og viðurkenndi náttúrlega þar með, að hér er ekki um neinn smávægilegan vanda að ræða.

En þá er bara að nálgast þetta hleypidómalaust. Það þýðir ekki að hengja sig í eitthvað, sem menn hafa áður sagt, eða því líkt. Það verður að athuga þetta hleypidómalaust og ofan í kjölinn, því að við erum sannast að segja staddir í hinum mesta vanda. Og sannast að segja verður þetta svo ódrjúgt allt saman, að við stöndum agndofa frammi fyrir þessu, þegar við skoðum t, d. aðstöðu unga fólksins, kaupið annars vegar, fjárfestingarkostnaðinn hins vegar, dæmið um framleiðsluna, landbúnaðinn og sjávarútveginn. Við stöndum agndofa frammi fyrir þessu. Við erum staddir í stórkostlegum vanda. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn. Það verður að finna einhverja tiltækilega leið út úr þessu, og það verður að reyna nýjar leiðir. Það þýðir ekki að halda áfram á þessum leiðum, sem hafa gefizt svo illa. Og það þýðir ekki að bíta sig í það, þótt slíkar aðferðir geti hentað öðrum. Við verðum að miða við okkar ástæður og okkar kringumstæður, við getum ekki stjórnað eftir löggjöf annarra þjáða og ekki nema að nokkru leyti eftir reynslu þeir:a, þótt við getum margt af henni lært, ekki heldur eftir kennslubókunum einum, þó að ég vilji tala um þær með fullri virðingu í þessu sambandi. Við verðum að athuga þetta allt með tilliti til okkar staðhátta, sem eru ákaflega sérkennilegir.

Það má taka sem dæmi: Það er ekki hægt að nota vaxtapólitík hér á sama hátt og í mörgum öðrum löndum. Það er alveg óhugsandi, og þessu hef ég alltaf haldið fram undanfarna áratugi. Hvers vegna er það ekki hægt? Þeir geta máske í þessum stóru og fjármagnsauðugu löndum haft úrslitaáhrif á gang sinna fjármála með því að breyta vöxtunum um 1% eða svo. Það er alveg óhugsandi hérna. Vöxtunum var breytt um mörg prósent og höfðu alls ekki þau áhrif, sem til var ætlazt. Það er einfaldlega vegna þess, að hér snýr allt öðruvísi við. Fjármagnið er það lítið hér, samanborið við verkefnin, að málið snýr allt öðruvísi við. Það var ekki hægt að ná neinu „jafnvægi“ í lánapólitíkinni með því að hækka hér vextina. En þeir geta þetta annars staðar, þar sem allt öðruvísi stendur að en hér. Hvernig hefur svo þetta farið hér með vextina? Þeir hækkuðu vextina, sjálfsagt í því trausti, að þeir mundu geta lækkað þá strax aftur svo að segja. Ég efast ekkert um, að hagfræðingarnir, sem gáfu stjórninni ráð, hafa trúað því, eftir kennslubókunum átti þetta allt að leita jafnvægis á tveimur, þremur missirum eða svo, og þá átti að vera hægt að lækka vextina aftur, því að jafnvægið væri komið. En hver hefur niðurstaðan orðið? Jafnvægið kom aldrei, vegna þess að þetta verkar ekki hér á sama hátt og víða annars staðar og ekki eins og stendur í bókunum. Og svo standa þeir blýfastir með þetta, með háu vextina, og háu vextirnir eru farnir að troða sér inn alls staðar, í húsnæðiskostnaðinn, í framleiðslukostnaðinn og hvar sem er. Og hvað þýðir svo fyrir þessa menn að koma og reikna og segja: Þetta er allt saman svo voðalítið atriði, vegna þess að það eru ekki borgaðar inn í bankakerfið nema svona og svona margar milljónir í vexti, þegar við vitum, að vaxtafóturinn ákveður fjármagnskostnaðinn, ekki bara hjá þeim, sem skulda, heldur hjá öllum þeim, sem eiga eignir í landinu. Og framleiðslan verður að gera svo vel að borga þennan fjármagnskostnað í hækkuðu kaupi til þeirra, sem verða að knýja kaupið upp til að geta lifað, miðað við nýju kringumstæðurnar.

Það er fleira, sem kemur til greina í þessu sambandi. Það er t.d. þetta, að hér er miklu minni stéttaskipting en í öðrum löndum. Fólk þekkir miklu betur til hvert hjá öðru hér en nokkurs staðar annars staðar. Þess vegna sættir almenningur hér sig alls ekki við sömu kjör, sem sums staðar er hægt að fá menn til að sætta sig við. Menn vita betur hér en annars staðar, hvernig þetta er hjá öðrum, og stéttaskipting er miklu minni, og menn sætta sig alls ekki hér við lífskjararýrnun. Samt hefur henni verið þvingað upp á menn með öllum þessum aðförum, en menn sætta sig ekki við það. Þess vegna er líka stöðugt stríð. Og nú er forsrh. farinn að tala um, að það þurfi að breyta til og hafa frið.

Nei, það er alveg áreiðanlegt, og hefur alltaf verið það, og hefur ætíð verið reynt að sýna fram á það, að hér er ekki hægt að kopíera blint það, sem annars staðar er gert. Það verður að velja leiðir með sérstöku tilliti til þeirra staðhátta, sem við búum við, og sérstöku kringumstæðna, sem hér eru. Og ég er alveg sannfærður um, og reynslan er að sýna það nú, að það er ekki hægt að stjórna Íslandi með peningapólitískum ráðstöfunum einum saman. Það verður að fara í þessu blandaða leið, sem kalla mætti, m.a. með stjórn á fjárfestingunni og fleiri slíkum ráðstöfunum. En það segir sína sögu, að sumar þjóðir, eins og t.d. Norðurlandaþjóðirnar, telja sig ekki hafa ráð á því að láta ríkja algert handahóf í fjárfestingarmálum. Þeir telja sig alls ekki hafa ráð á því. En við eigum að hafa ráð á því. Og við eigum að halda svona áfram og segja: Við drögum bara til baka þessar fjárfestingar hérna, skólana t.d., þetta unga fólk getur beðið, sjúkrahúsin o.s.frv. Við drögum okkur til baka, þið skuluð halda áfram. — Þeir telja sig ekki hafa ráð á slíku á Norðurlöndum, þó að við eigum að telja okkur hafa ráð á svona vinnubrögðum. Blandaða leið verður áreiðanlega að fara.

Ég er nú búinn að tala nokkuð lengi og ætla að reyna að ljúka máli mínu fyrir kl. 7 og skal því ekki bæta miklu við þetta, en þetta langaði mig til að segja og fannst nauðsynlegt að segja. En ég vil svo að lokum segja þetta: Það verður að leita hér að nýjum leiðum og fara nýjar leiðir. Menn verða m.a. að gera sér grein fyrir því, að það verður ekki stokkið út úr þessum vandkvæðum öllum í einu stökki. Menn verða að gera sér grein fyrir því. Það verður að fikra sig út úr þessu í áföngum. Það verður alveg tvímælalaust að taka upp samstarf í stað styrjaldar við almannasamtökin í landinu, í svipuðum stíl og hafa svipaða stefnu og vinstri stjórnin hafði að þessu leyti, en menn hæddu mest og deildu mest á hér á árunum. En fram hjá þessu verður ekki komizt. Það verður að hafa stjórn á fjárfestingunni og vinna þannig, gegn ofþenslunni og láta handahófið víkja, því að handahófið er of dýrt. Við höfum ekki ráð á því, ekki fremur en frændur okkar á Norðurlöndum. Við verðum að koma okkur þannig fyrir, að við getum notað fjármagnið vel, af því að við höfum svo lítið af því. Og þeim mun minna sem við höfum af fjármagni, þeim mun betur verðum við að reyna að nota það og reyna að láta minna fara í súginn. Við verðum að stefna að skipulegum hagvexti með þessu móti.

Við verðum líka alveg vafalaust að hafa fjármagnið í umferð og ekki frysta sparifé landsmanna inni í bankakerfinu. Við verðum að auka rekstrarlánin til framleiðslunnar og stofnlánin til lífsnauðsynlegustu framkvæmda, en vinna gegn ofþenslunni með því að láta þær framkvæmdir bíða, sem helzt mega bíða að beztu manna yfirsýn. Við verðum áreiðanlega að lækka vextina, því að það er ekki hægt að hafa vaxtafótinn hér, framleiðslunnar vegna og almennings vegna, miklu hærri en í nokkru öðru nálægu landi, m.a. af þeirri einföldu ástæðu, að með því verður kaupið að vera svo hátt, að framleiðslan getur ekki borið það. Við verðum heldur að reyna að vinna að auknum sparnaði í landinu með því að stöðva dýrtíðarflóðið og finna í vaxandi mæli möguleika á því, að menn geti ávaxtað sparifé sitt með verðtryggingu. Það verður að athuga það gaumgæfilega, hvort ekki sé hægt að fara inn á þá braut, í staðinn fyrir þessa vaxtapólitík, sem við þolum ekki.

Það verður umfram allt að láta fjármagnið ganga til ráðstafana, sem auka framleiðni og þjóðartekjur, og stofna öfluga lánasjóði eða stuðningssjóði til eflingar atvinnulífinu, einmitt í þessa átt, því að þótt allt hitt sé þýðingarmikið, þá er þó þýðingarmest af öllu að reyna að komast út úr þessum vanda með aukinni vélvæðingu og þar með framleiðni.

Við verðum að leysa kjaramál bændanna og launþeganna í áföngum og snúa okkur að því að tryggja lífvænlegt kaup fyrir venjulegan vinnudag, og væri þá fyrsta skrefið að setja sér það markmið, að síðasta breytingin á kaupinu geti orðið raunveruleg kjarabót, þ.e.a.s. upp í 77 þús. kr. Finnst mér þá ekki hátt spenntur boginn, a.m.k. ekki frá sjónarmiði þeirra manna, sem tala fullum fetum um, að menn ættu að geta fengið óbreyttar meðaltekjur, eins og þær eru nú, gegn 8 klst. vinnu, eins og ég hef heyrt hæstv. forsrh. tala um. Í landbúnaðinum verður að tryggja lífvænlega aðstöðu, leiðrétta verðlagið og auka stuðning við uppbygginguna í landbúnaðinum stórlega frá því, sem nú er.

Umfram allt virðist mér einmitt lífsnauðsyn að forðast hvers konar ráðstafanir til að auka álögur, sem gætu komið af stað enn nýrri dýrtíðarumferð og verkað sem olía á dýrtíðareldinn, því að nýjar álögur verka sem hreint eitur og gera allar lausnir miklu erfiðari. Þess vegna á að fella 5. gr. þessa frv., því að hún vinnur á móti því, að samkomulag náist um heppilegar leiðir. Og það verður að reyna að vinna að því að skapa traust í stað óttans, sem nú situr í öndvegi og mun sitja áfram í öndvegi, á meðan núverandi stefna í þessum málum er framkvæmd.

Að lokum vil ég svo segja, að ég tel, að við séum stödd á vegamótum og nú sé spurningin, hvort menn beri gæfu til að breyta nú til og reyna að fikra sig áfram í skynsamlegri stefnu eða hvort á að halda áfram með nýjar risaveltur, eins og verið hefur. Og enginn vafi er á því, og það virðist mér raunar gægjast fram hjá hæstv. forsrh. líka, að það þyrfti að taka bókstaflega allt efnahagskerfið og efnahagsmálastefnuna alla saman til endurskoðunar á breiðum grundvelli, taka aftur upp þá stefnu, sem fordæmd var mest um árið, að hafa samráð við almannasamtökin í landinu um þessi efni. En þetta frv. finnst mér fyrst og fremst þurfi að afgreiða þannig að fella niður 5. og 6. gr. þess og reyna að endurskoða hinar.