15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í D-deild Alþingistíðinda. (3118)

145. mál, aðstoð frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins

Flm. (Þorvaldur G. Kristjánason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur haldið hér langa ræðu, sem mér kom að ýmsu leyti nokkuð á óvart. Að ýmsu leyti kom mér það á óvart, að mér virtist t.d. bregða fyrir yfirlæti í hv. Þm., þegar hann var að ræða sitt mál. Ef ég vissi ekki, að þetta er greindur og gegn maður, mundi ég halda það. Ég vissi ekki fyrst, hvernig stóð á því, að hv. þm. var svona mikið niðri fyrir, en hann var þó ekki búinn að mæla lengi, þegar það kom glögglega í ljós. í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að athuga möguleika á lántöku úr sjóði, en sjóðurinn heitir Viðreisnarsjóður. Það var greinilegt, að honum líkaði ekki það nafn. Hann vildi frekar kalla sjóðinn Flóttamannasjóð, og út frá því spann hann sitt mál og komst að mjög furðulegum niðurstöðum. Það má segja, að það skipti ekki miklu máli, hvað þessi sjóður er kallaður á íslenzku, en ég hygg þó, að það sé ekki síður réttnefni að nefna hann Viðreisnarsjóð heldur en Flóttamannasjóð, og þá hef ég það sérstaklega í huga, að í 2. gr. samþykkta fyrir sjóð þennan segir svo um hlutverk sjóðsins, að hann eigi að velta aðstoð til þess að leysa vandamál, sem skapast af tilflutningi fólks, og eins og segir í þessari gr. samþykktanna, þar með talið landflóttamanna. En þegar svo er tekið til orða, að það þyki sérstök ástæða til þess að segja: „þar með talið landflóttamanna,“ þá skilja allir þeir, sem vilja skilja, að hlutverk sjóðsins er meira alhliða en svo, að það sé bundið við landflóttamenn. Ég verð þess vegna að vísa algerlega á bug þessum grundvallarmisskilningi í málflutningi hv. þm. En á þessum misskilningi byggir hann svo hinar fáránlegustu hugmyndir, eins og þær, að ef við leituðum aðstoðar þessa sjóðs Evrópuráðsins, mundum við eiga það á hættu, að hingað streymdu flóttamenn, að því er virðist víðs vegar að úr heiminum eða a.m.k. af gerólíku þjóðerni. Og mér skildist, ef eitthvað má leggja í þau orð, sem hv. þm. sagði um þetta efni, að það mundi verða yfirvofandi hætta á því, að hingað streymdi fólk frá Jamaica. Auðvitað eru allar þessar hugleiðingar þess eðlis, að það er ekki ástæða fyrir mig til þess að fara að svara þeim hér ýtarlega, og ég leiði það þess vegna algerlega hjá mér. En ég vek athygli á því, að það voru þessar hugleiðingar, það var þessi misskilningur, sem var meginuppistaðan eða — ef svo mætti segja — nær allt, sem hann sagði, hv. þm., um þá till., sem hér liggur fyrir. Öll hans langa ræða var ekki um Viðreisnarsjóðinn eða beinlínis um þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Hann hélt hér almenna ræðu um jafnvægi í byggð landsins.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að halda hér aðra almenna ræðu um jafnvægi í byggð landsins, ég sé ekki tilefni til þess. Ég vil aðeins víkja að nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hv. þm. Hv. þm. sagði, að ljóst væri, að ekki hafi verið sinnt jafnvægismálunum á fullnægjandi hátt nú hin síðari ár, og sagðist lesa það úr minni ræðu og lagði þann skilning í, að það væri sérstaklega í tíð núv. stjórnar. Ekki var það þetta, sem ég meinti sérstaklega, að það hefði ekki verið sinnt þessum málum í tíð núv. stjórnar. Ég sagði hins vegar, eins og hv. ræðumaður sagði, að það hefði ekki verið nóg að gert í þessum málum á síðustu árum, og þá átti ég ekki síður við á síðustu árum, áður en núv. ríkisstj. tók við völdum. Svo gerði hv. þm. mér upp óróa út af meðferð jafnvægismála í tíð núv. ríkisstj. Ég get sagt hv. þm. það, að mér er ekki órótt út af meðferð jafnvægismála í tíð núv. ríkisstj., og það eru augljósar ástæður fyrir því. Það kann að vera, að hv. þm. sjái ekki þær ástæður, vegna þess að hann og yfirleitt hans samflokksmenn telja sig vera hina einu útvöldu framverði og baráttumenn dreifbýlisins í landinu. Af því stafar kannske yfirlæti það, sem mér þótti bregða fyrir í ræðu hv. þm. En af hverju hafa framsóknarmenn að státa? Þetta er stór spurning, sem mætti svara í mjög löngu máli, en ég ætla mjög að stytta mál mitt.

Af hverju hafa framsóknarmenn að státa? Þeir eru annaðhvort í ríkisstj. eða ekki í ríkisstj. Þegar þeir eru í ríkisstj., hvað er það, sem þeir gera þá fyrir dreifbýlið? Að sjálfsögðu hafa ýmsar ríkisstj., sem framsóknarmenn hafa verið i, gert ýmislegt fyrir dreifbýlið. Mér dettur ekki í hug að neita slíku. En ég á við með minni spurningu það, hvað það er í grundvallarstefnu Framsfl., sem sérstaklega styður að því, að dreifbýlið fái vaxið og dafnað. Mér finnst erfitt að svara þessu, en ég get sagt, hvað það er í grundvallarstefnu Framsfl. og aðgerðum, sem sérstaklega hefur hamlað vexti og viðgangi dreifbýlisins á undanförnum áratugum og á kannske meiri þátt í því, að fólkið hefur leitað frá hinum dreifðu byggðum úti á landsbyggðinni hingað til Reykjavíkur og nágrennis, og það er sú stefna, sem Framsfl. er upphafsmaður og aðalbaráttumaður fyrir, að hneppa atvinnulífið í höft og bönn. Þeir hafa fyrst og fremst komið á því haftakerfi, sem hefur haft óheppilegri áhrif á dreifbýlið en e.t.v. flest annað á síðustu áratugum. Þeir hafa verið baráttumenn fyrir því að færa atvinnuvaldið úr höndum atvinnurekenda og athafnamanna í hinum dreifðu byggðum í hendur ráða og nefnda í höfuðborginni. Ég hika ekki við að fullyrða, að þessi þróun, sem núv. ríkisstj. er að breyta, þessi þróun hefur haft óhagstæðari áhrif á viðgang dreifbýlisins en flest annað. En hvað gera framsóknarmenn, þegar þeir eru utan stjórnar? Þá ganga þeir öllum öðrum lengra í því að flytja till., sem þeir túlka til stuðnings dreifbýlinu, en allajafna og venjulega eru sýndartill., sem þeir láta sér ekki koma til hugar að bera fram eða fylgja fram, þegar þeir fara með stjórn landsins.

Og nú gengur hv. 3. þm. Norðurl. e. svo langt að mælast til þess, að ég ljái lið mitt til þess að fylgja þessum sýndartill. Framsfl. hér á Alþingi. Ég verð að segja það, að mér finnst til nokkuð mikils mælzt. Hvað er það, sem hv. þm. meinar? Ég vissi ekki, hvort hann var með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, eða hvort hann var á móti henni. Getur það kannske verið, að hann ætli að verða með henni, ef ég verð með sýndartillögu framsóknarmanna? Ef sú skyldi vera hugsun þessa hv. þm., þá vil ég segja honum þegar, að slíka verzlun geri ég ekki. Og ég verð að segja það, að málflutningur hv. þm. hefur ekki stuðlað að því, að ég gerist liðsmaður till. þeirra framsóknarmanna. Og það, sem mér fannst kannske mest einkennandi við ræðu hv. þm., var það, sem maður verður því miður allt of oft var við í okkar þjóðfélagi, að menn halda sér svo fast í það, sem var, að þeir geta verið á móti öllu því, sem til nýjunga horfir, hvers eðlis sem það er.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, að ég mundi ekki gera mér gyllivonir um till. mína, ef samþykkt yrði. Það kann að vera, að þetta sé rétt, að ég geri mér engar gyllivonir. En hann sagði annað, að tilgangur minn með því að bera þáltill. þessa fram væri sá að draga athygli frá því, þegar till. Framsfl., sem hann fjallaði mest um, yrði felld. Mér finnst, að hv. þm. gangi nokkuð langt í því að gera mér upp hvatir og tilgang í sambandi við þennan tillöguflutning.

En til hvers er till. borin fram? Hún er borin fram vegna þess, að aðalvandamálið í sambandi við aðgerðir til þess að efla hinar dreifðu byggðir og þau héruð, sem höllustum fæti standa, er fjárhagsvandamálið. Það er aðalvandamálið. Og með því að athuga möguleika á því, hvort hægt sé að fá aðstoð, fá lán frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, eins og ýmis önnur meðlimaríki Evrópuráðsins hafa gert, kann að vera, að við getum gert eitthvað raunhæft í þessum málum. Þetta er hinn eini tilgangur með till. þessari, hvað sem hv. 3. þm. Norðurl. e. vill halda. Og ég vil ekki trúa því fyrr en í síðustu lög, að þessi ágæti þm. vilji ekki stuðla að slíkum raunhæfum úrræðum. Ég er ekki að fullyrða, að lán fáist frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, ég er ekki að fullyrða það. Ég fullyrði hins vegar það, að þau verkefni, sem við höfum við að glíma, eru þess eðlis, að það gætu verið möguleikar á því. Mál þetta þarf hins vegar að rannsakast, og till, gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. láti fara fram athugun á möguleikum á því að fá þessa fyrirgreiðslu. Og ég vænti þess, að hv. þm. sjái ástæðu til, að þessi athugun fari fram, og greiði því atkv. með þessari till.