15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

172. mál, eftirlit með fyrirtækjasamtökum

Flm. (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Seint á s.l. ári ákvað stjórn Innkaupastofnunar Reykjavikurborgar að bjóða út olíu- og benzínkaup borgarinnar og borgarstofnana. Tilgangurinn með því að auglýsa eftir tilboðum í olíu og benzínkaup var sá að tryggja hagkvæmari innkaup en ella mundu verða með því að fá þann mikla afslátt frá útsöluverði, sem því mundi væntanlega verða samfara af hálfu olíuseljenda að afhenda svo mikið magn af olíu og benzíni, sem hér var um að ræða, án þess mikla dreifingarkostnaðar, sem álagning á vöruna hlyti að miðast við. Á árinu 1962 höfðu olíu- og benzínkaup borgarinnar og borgarstofnana numið samtals 20.7 millj. kr. Hér var því um að ræða óvenjulega mikil viðskipti í einu lagi, enda voru meðal kaupenda bæði Bæjarútgerð Reykjavikur með rekstur nokkurra togara og Strætisvagnar Reykjavíkur með rekstur strætisvagna auk annarra borgarstofnana. Þegar tilboð olíufélaganna voru opnuð hinn 21. des. s.l., kom á daginn, að olíufélögin 3 höfðu skilað tilboðum, sem reyndust vera nákvæmlega samhljóða, svo að ekki skeikaði einum eyri á upphæðum í hverju einstöku tilviki. Bersýnilegt var, að fyrirtækin höfðu átt með sér samtök um tilboðin, enda voru þau nánast samrit. Fyrirtækin, sem í hlut eiga, eru Olíufélagið h/f, Olíuverzlun Íslands h/f og Olíufélagið Skeljungur. Þessi afstaða þykir eftirtektarverð, m.a. með hliðsjón af því, að eitt þessara þriggja olíudreifingarfyrirtækja er í nánum tengslum við samvinnuhreyfinguna, Olíufélagið h/f. Með framkomu sinni gagnvart Reykjavíkurborg sýna olíudreifingarfyrirtækin, að um samkeppni um verð þeirra á milli er alls ekki að ræða.

Þetta samstarf um að sýna Reykjavíkurborg slíka storkun hlaut að vekja menn til umhugsunar um aðdragandann að þessu fáheyrða tilboði. Hugsum okkur, að þessi fyrirtæki hefðu komizt að samkomulagi sín á milli um það, að eitt þeirra skyldi fá að njóta viðskiptanna við Reykjavíkurborg. Það félag hefði þá væntanlega getað lagt fram tilboð, sem hefði getað verið 10% hærra en þessi sameiginlegu tilboð, sem lögð voru fram, en hin félögin hefðu svo hvort um sig gert málamyndatilboð, annað t.d. 13% hærra og hitt 15% hærra. Þá hefði ekki komizt upp um samstöðu þessara félaga. Þá hefði mátt ætla, að Reykjavíkurborg hefði tekið lægsta tilboðinu. Missir þessara viðskipta við Reykjavikurborg hefðu hin félögin tvö, sem gátu ekki gert sér vonir um að njóta þeirra, getað bætt sér upp með því að fá loforð af hálfu lægstbjóðandans um að láta öðru hvoru hinna eftir að fá þau viðskipti, sem næst yrðu boðin út, t.d. viðskipti við ríkið og ríkisstofnanir, sem munu nema um 40 millj, kr. á ári. Hið þriðja hefði e.t.v. fengið loforð um að fá að sitja eitt um önnur viðskipti, t.d. við bátaflotann eða ámóta, sem væri þeim kærkomið. Ef lengra væri farið út í þessa sálma, mætti jafnvel hugsa sér, að olíufélögin gerðu milli sín samkomulag um að skipta á milli sin þeim hagnaði, sem hvert þeirra um sig hlyti við að fá tilboð með þeim hætti, að hin félögin tvö tækju ekki þátt í alvöru í samkeppnisútboðum sem þessu, heldur til málamynda, til þess að villa fyrir þeim, sem útboð annaðist.

En úr því að olíufélögin leyfa sér að sýna svona opinberlega samstöðu sína, væri þá ekki hugsanlegt, áð önnur fyrirtæki, sem einnig senda tilboð í ákveðin verk, hefðu skilyrði til þess að hafa með sér samtök svipaðs eðlis og olíufélögin? Væri t.d. hugsanlegt, að þrjú önnur fyrirtæki skiptu milli sin ákveðnum verkefnum með þeim hætti, sem ég skal sýna fram á, að fyrirtæki Á tæki að sér að bjóða í verk x, hugsum okkur, að það væri hitaveltuframkvæmd, fyrirtæki B tæki að sér að bjóða í verk y, byggingu skóla, og fyrirtæki C tæki að sér verk z, holræsagerð eða hafnargerð á vegum ríkisins, og fyrirtæki B og C bjóði til málamynda í verkefnið x, hitaveltuna, fyrirtækin Á og C í verkið y, skólann, og fyrirtækin Á og B í verkið z, hafnargerð, með það takmark fyrir augum að auðvelda fyrirtækjunum hverju um sig að taka sér óhóflegan hagnað af verkunum, m.a. með því að spara sér þá dýru útreikninga, sem fylgja því að láta verkfræðinga reikna út verktilboð í alvöru.

Þessi möguleiki á slíku samstarfi hlýtur að verða mönnum umhugsunarefni á tímum slíkrar þenslu og skorts á vinnuafli, sem nú ríkir. Og væntanlega mun það sannast í raun, að samtök olíufélaganna um afstöðu til Reykjavíkurborgar muni reynast af þeirra hálfu óskynsamleg.

Í beinu framhaldi af þessu dæmi gerði borgarstjórn Reykjavíkur ályktun á fundi sínum í febrúarmánuði með 11:2 atkv. samkv. till. borgarfulltrúa Alþfl., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Borgarstjórn Reykjavíkur beinir þeim tilmælum til hæstv. ríkisstj., að hún hafi forgöngu um, að sett verði, svo fljótt sem unnt er, sérstök löggjöf um rekstur og starfsemi stórfyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa, þar sem reistar verði sérstakar hömlur gegn einokunaraðstöðu, svo og gegn samtökum um verðákvarðanir, en hagsmunir neytenda verndaðir, m.a. með því að tryggja samkeppni slíkra fyrirtækja, frjáls viðskipti og frjálsa verðmyndun.“

Þessi beiðni borgarstjórnar Reykjavíkur hnígur mjög í sömu átt og till. sú, sem hér liggur fyrir hv. Alþingi til umr. Ef svo væri háttað á fleiri sviðum viðskiptalífsins sem áðurnefnt dæmi um olíufélögin bendir til, mundi þá ekki hv. Alþingi og hæstv. ríkisstj., sem vaka í sameiningu yfir velferð hins almenna borgara, þykja nærri sér vera höggvið og tímabært, að hið opinbera tryggði sér með löggjöf betri aðstöðu en nú er til að hlutast til um gerð þess ramma, sem viðskiptalífinu væri búinn, með því að geta sett sér þær leikreglur, sem hindra misnotkun einkasöluaðstöðu einkafyrirtækja með samruna efnahagsvalds?

Þetta dæmi um olíufélögin er því miður ekki einsdæmi. Á borðum hv. alþm. í dag lá eintak af nýútkomnu blaði, sem heitir Frost og er gefið út af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, blað um fiskiðnað. Á forsíðunni hefst aðalgrein blaðsins, sem heitir, með leyfi forseta: „Frystihúsaeigendur hyggjast stofna öskjugerð.“ í blaðinu er síðan rakinn aðdragandi þeirrar ákvörðunar, sem fyrirtækin innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna munu hafa tekið um að reisa sér eigið öskjugerðarfyrirtæki. Við skulum huga nánar að aðdraganda þessarar greinar.

Eitt fyrirtæki hér á landi annast framleiðslu og sölu á öllum þeim pappaumbúðum, sem Íslendingar hafa þurft á að halda um skeið, bæði til innanlandsnotkunar og sem umbúðir utan um útfluttar sjávarafurðir og mun það vera liðlega helmingur framleiðstu fyrirtækisins. Fyrirtæki þetta, Kassagerð Reykjavíkur, er talið samkeppnisfært við innfluttar umbúðir, gæti jafnvel annazt útflutning, ef ekki kæmu til verndartollar í öðrum ríkjum, og eitthvað mun fyrirtækið hafa selt af vörum sínum til Færeyja. Verðákvarðanir fyrirtækisins, Kassagerðar Reykjavíkur, eru ekki háðar neins konar verðlagseftirliti eða íhlutun ríkisvaldsins. Þetta fyrirtæki hefur þess vegna einkasöluaðstöðu að því leyti, að það er eini framleiðandi pappaumbúða á landinu. Það hefur óneitanlega allgóða aðstöðu til þess að nota sér þessa einkasöluaðstöðu sína til að afla sér óhóflegs ágóða í hennar skjóli, enda er það vel búið nýtízkulegum vélum til framleiðslustarfseminnar.

Á hinn bóginn eru stærstu viðskiptavinir Kassagerðarinnar sameinaðir í heildarsamtökum 58 frystihúsa, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Þessi fyrirtæki munu kaupa 50% af framleiðsluvörum Kassagerðarinnar fyrir um 40 millj. kr., og er þá miðað við árið 1963. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna getur með því að fara með umboð allra eða flestra þessara fyrirtækja komið fram gagnvart Kassagerð Reykjavíkur sem einkakaupandi eða það, sem kallað er á fræðilegu heiti, kaupendasamtök. Aðstaða Sölumiðstöðvarinnar er fyrst og fremst fólgin í því að geta hótað Kassagerðinni annaðhvort að kaupa framleiðsluvörur sinar erlendis frá eða þá að stofnsetja sína eigin kassagerð. Nú er svo komið málum, að Sölumiðstöðin vill ekki una verðlagi Kassagerðar Reykjavíkur og hyggst hefjast handa um undirbúning að stofnun nýrrar kassagerðar. Nú leyfi ég mér að spyrja: Er þá ekki tímabært að áliti hv. Alþingis með hliðsjón af því, að Kassagerðin getur með núverandi húsum og vélakosti fullnægt allri umbúðaþörf landsmanna á komandi árum, með hliðsjón af því, að nýtt framleiðslufyrirtæki í þessari grein mundi ekki kosta minna en 10 millj. kr. og gera það. sem fyrir er, að miklu leyti eða nokkru leyti óstarfhæft, með hliðsjón af því, að mikill hörgull er á vinnuafli í landinu og áframhaldandi þensla í hagkerfinu, með hliðsjón af því, að viðkomandi frystihús hafa hlotið fjárhagslega aðstoð af hálfu ríkisins, — er þá ekki tímabært að áliti hv. Alþingis, að hið opinbera tryggi sér með sérstakri löggjöf vald til íhlutunar um framvindu slíkra deilumála milli einkasölufyrirtækja annars vegar og fyrirtækjasamtaka hins vegar? Eru ekki nógu miklir og augljósir hagsmunir þjóðarheildarinnar í veði, til þess að svarið við þessum spurningum sé játandi?

Á árunum 1961—1962 hafa allmargir vöruflokkar, sem áður voru háðir verðlagseftirliti, verið undanþegnir beinum álagningarreglum. Hefur þetta verið gert, að því er ætla má, til að verða við mjög háværum kröfum af hálfu verzlunarinnar um frjálsari viðskiptahætti. Það hefur ekki verið birt skýrsla um afleiðingu þessara aðgerða, en svo sem vænta mátti hefur álagning á þessa vöruflokka verið hækkuð. Út af fyrir sig væri það ekki svo ýkja alvarlegt, þótt ýmsar neyzluvörur, þær miður nauðsynlegri, hækki í verði, til þess að vega á móti of þröngri álagningu á ýmsar brýnustu neyzluvörur almennings, sem ákaft er haldið fram að sé. Hitt ber að líta alvarlegri augum, ef svo væri háttað, að samtök einkaaðila í verzluninni tækju í eigin hendur ákvörðun um álagningu á hinum ýmsu vöruflokkum og hindruðu með því þá samkeppni um verð, sem ella hefði haft skilyrði til þess að eiga sér stað. Hvort ástæða sé til þess að ætla, að svo sé gert, skiptir ekki verulegu máli í þessu sambandi, heldur það, hvort skilyrði séu fyrir hendi til þess að taka slíka sameiginlega afstöðu. Það hefði verið fróðlegt og ég hafði hugsað mér að telja upp nokkur samtök, sem væru vissulega íhugunarefni fyrir hv. alþm. í sambandi við afgreiðslu á þessari till., sem hér liggur fyrir. En ég ætla ekki, af því að áliðið er nætur, að telja upp mörg samtök. Ég mundi þó vilja hlaupa yfir nokkur með nokkrum hraða.

Á sviði smásöluverzlunarinnar í landinu starfa Kaupmannasamtök Íslands. Innan þeirra starfa sérgreinafélög, sem hvert um sig hefur innan sinna vébanda kaupmenn í viðkomandi grein. Þau eru Félag blómaverzlana, Félag búsáhalda og járnvörukaupmanna, Félag húsgagnaverzlana, Félag ísl. bókaverzlana, Félag ísl, byggingarefnakaupmanna, Félag kjötverzlana, Félag leikfangasala, Félag matvörukaupmanna, Félag söluturnaeigenda, Félag tóbaks- og sælgætisverzlana, Félag vefnaðarvörukaupmanna. Skókaupmannafélagið. Auk þessara sérgreinafélaga eiga aðild að Kaupmannasamtökunum Kaupmannafélag Akraness, Kaupmannafélag Hafnarfjarðar, Kaupmannafélag Keflavíkur og nágrennis, Kaupmannafélag Siglufjarðar og Kaupmannafélag Ísafjarðar. Varðandi þessi síðast nefndu félög er rétt að benda á, að fyrirtækjasamtök, óæskileg, gætu verið í því fólgin, að allir kaupmenn í einum og sama kaupstað gerðu samkomulag sín á milli um það að halda uppi verði, og væri þá mjög erfitt fyrir neytendur að átta sig á verðlaginu, ef um almennt samkomulag þeirra á milli væri að ræða.

Á sviði innflutningsverzlunar starfar Félag ísl. stórkaupmanna, og standa að því 163 heildverzlanir. Á sviði iðnaðar starfar Félag ísl. iðnrekenda, og að því sambandi standa iðnfyrirtækin hvert um sig. Smásöluverzlunin, innflutningurinn og iðnaðurinn eru að verulegu leyti háð verðlagseftirliti í dag, svo að ekki er ástæða til að fara ýtarlega í hugsanleg samtök á þessu sviði. Þó er rétt að nefna aðeins nokkur fyrirtæki með nöfnum. Innkaupasamband bóksala annast um innflutning á bókum og tímaritum og gæti ákveðið sínar eigin álagningarreglur. Það er ekki háð ákvörðunum verðlagseftirlitsins. Félag ísl. prentsmiðjueigenda er starfandi. Ástæða er til þess að ætla, að það félag hafi skilyrði til þess að samræma verð og söluskilmála prentsmiðjanna. Það er til félag, sem heitir Félag vinnuvélaeigenda. Það er ástæða til þess að ætla, að það félag geti haldið uppi verði á útleigu vinnuvéla, sem opinberir aðilar nota í stórum stíl. Það eru til samtök, sem vátryggingafélögin hafa sín á milli, 13—14 vátryggingafélög eru starfandi. Þessi samtök hafa skilyrði til að samræma skilmála tryggingafélaganna og iðgjöld. Þessi dæmi vildi ég nefna, áður en ég skýri frá þeirri till., sem hér liggur fyrir á þskj. 319, um eftirlit með fyrirtækjasamtökum. Hún hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga, með hverjum hætti hið opinbera geti haft eftirlit með viðleitni fyrirtækja til að hafa með sameiginlegri afstöðu á markaði óæskileg áhrif á verðmyndun í landinu og hvernig bezt megi tryggja, að neytendur fái notið ávaxta aukinna framleiðsluafkasta í meira vöruúrvali og hagstæðara verðlagi.“

Í grg. fyrir þessari till. eru raktar hinar efnahagslegu forsendur fyrir því, að slík samtök myndist. Það er reynsla undanfarinna ára, að það hefur verið mikil og rík tilhneiging fyrirtækja að mynda með sér efnahagssamsteypur, á erlendu máli „trusts“, eða efnahagssamtök, „cartels“, til þess að sölsa undir sig einhvers konar einkasöluaðstöðu til þess að tryggja sér óréttmætan ágóða. Og ég ætla að ljúka máli mínu með því að hlaupa yfir yfirlit um framvindu þessara mála á alþjóðavettvangi.

Á ofanverðri seinustu öld fór andi frelsis um viðskiptalíf landanna. Líberalisminn var ráðandi stefna. Fljótlega kom á daginn, að hið opinbera þurfti að beita íhlutun sinni um gang viðskiptalífsins til þess að tryggja þessa æskilegu, frjálsu samkeppni. Fyrirtækin tóku verðmyndunina í eigin hendur með samsteypum, og þar kom, að stjórnendur ríkjanna sáu sér ekki annað fært en að grípa í taumana. Bandaríki Norður-Ameríku voru í fararbroddi, og Kanada fylgdi fljótlega eftir, 1890 eða 1891, og settu algert bann við slíkum samtökum fyrirtækjanna, og svipaðri stefnu hafa Bandaríkin og Kanada haldið áfram til þessa dags.

Í Evrópu var afstaða stjórnarvaldanna nokkuð önnur og vinsamlegri í garð hringanna. Jafnvel var þeim komið á fyrir frumkvæði ríkisvaldsins, svo sem á Ítalíu. Fyrsta ríkið, sem setti sér löggjöf um starfsemi fyrirtækjasamtaka, var Noregur með lögum árið 1920 og síðan með lögum um hringa 1926. Norðmenn tóku aðra stefnu en farin hafði verið vestanhafs, settu ekki bann við slíkri starfsemi, heldur komu á eftirliti með því, að þau væru ekki misnotuð þannig, að þjóðfélagsheildinni væri óhagræði að. Síðan hafa flest Evrópuríki fylgt í kjölfar Norðmanna og tekið upp eftirlit með það meginsjónarmið í huga að hindra misnotkun einkasöluaðstöðufyrirtækja á markaðinum. Þjóðabandalagið tók þetta vandamál fyrir með litlum árangri. Eftir stríð var reynt að gera svonefndan Havanasáttmála, og Sameinuðu þjóðirnar reyndu í viðskipta- og félagsmálaráði sínu að taka á þessu vandamáli með litlum árangri. GATT, tollabandalag Evrópu, hefur fjallað um þetta. Efnahags- og framfarastofnunin, sem Íslendingar eru aðilar að, hefur tekið þetta vandamál upp, Evrópuráðið hefur látið það til sín taka og Efnahagsbandalag Evrópu hefur núna mjög ákveðna og einbeitta stefnu gagnvart myndun slikra fyrirtækjasamtaka.

Ég nefni þessi fyrirtæki aðeins, en lýsi ekki, með hverjum hætti þau hafa talið sér fært að ná þeim tilgangi að tryggja frjálsa samkeppni.

Ég þykist vita, að a.m.k. einum hv. þm. er þetta svo vel kunnugt, að það þarf ekki hans vegna, en ég vil þó rétt aðeins skýra frá því, hvernig Norðmenn hafa tekið á þessu máli. Þeir hafa sett sér mjög fullkomna löggjöf, eina fullkomnustu löggjöf, sem til er á þessu sviði, sem var að meginefni til frá árinu 1953, en hefur tekið nokkrum breytingum, seinast í marzmánuði 1962. Löggjöfin er í 11 köflum og telur 61 gr., og tilgangur l. er talinn sá að vera tæki til að tryggja fulla atvinnu, gernýtingu framleiðsluþáttanna og hamla gegn viðskiptakreppu og stuðla að jafnari skiptingu þjóðarteknanna. Þeir framkvæma lögin með því að skylda fyrirtæki til þess að skrá alla þá samninga og hvert það samkomulag, sem þau gera sín á milli, sem gæti takmarkað frjálsa verðmyndun, söluskilmála og skiptingu markaða. Samtök fyrirtækja hafa ekki verið bönnuð, og jafnvel eru sum þeirra talin réttlætanleg undir vissum kringumstæðum. Norsk iðnfyrirtæki eru jafnan smá, og er talið eðlilegt, að þau eigi samstarf sín á milli um störf, um innkaup og dreifingu, en öll slík samvinna verður að vera undir opinberu eftirliti. Jafnvel hömlur á samkeppni eru heimilar, svo sem með landbúnaðarvörur, en undirstaða norsku l. er sem sagt strangt eftirlit, og framkvæmd þeirra er í höndum sérfræðinga á sviði viðskiptamála. Til 1. júlí 1960 höfðu verið skráð í Noregi 557 fyrirtækjasamtök, sem leggja hömlur á samkeppni, 216 samningar um hömlur á samkeppni og 79 fyrirtæki með einkasöluaðstöðu. Að vísu höfðu ýmis þessara samtaka verið tekin af skrá, en 1. okt. 1961 voru skrásett 380 samtök, 175 samningar og 78 einkasölufyrirtæki.

Ég hafði hugsað mér að lýsa einnig löggjöf í Þýzkalandi. Þar eru ekki jafnaðarmenn, enginn sósíalismi hefur ráðið ríkjum í Þýzkalandi. Þar er sjálfur höfuðtalsmaður frjálsrar samkeppni, núv. kanzlari, Ludwig Erhard, sem hefur ráðið ferðinni og mótað stefnu Þjóðverja í viðskiptamálum. Hann hefur að eigin áliti og áliti margra náð mjög langt í því að tryggja í Þýzkalandi það, sem hann kallar þjóðfélagslega viðskiptahætti, og hefur sagt sjálfur í bók sinni, sem ég vil leyfa mér að lesa úr, með leyfi hæstv. forseta:

„Bezta leiðin til þess að ná þessu markmiði í frjálsu félagskerfi er samkeppni. Það er kjarni þessa kerfis. Hinir félagslegu viðskiptahættir knýja mig til að beina athygli minni og segja stríð á hendur hverri viðleitni til að mynda fyrirtækjasamtök og á hendur öllum Þeim, sem stefna að takmörkunum á samkeppni, af hvaða tagi sem er.“

Ludwig Erhard leggur áherzlu á mismuninn á því, sem er það, sem hann kallar hið þjóðfélagslega viðskiptakerfi, og hinu gamla, frjálsa hagkerfi fyrri tíma, sem hefur gengið sér í öllum löndum til húðar, þannig að í löndum þeim, sem standa að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hygg ég, að það séu aðeins fjögur, sem hafa ekki sérstaka löggjöf til þess að tryggja ríkisvaldinu eða umbjóðendum þess, sérstökum stofnunum, rétt til þess að hafa beint eftirlit og strangt eftirlit með fyrirtækjasamtökum í meginatriðum eftir hugmynd Norðmanna og annarra Norðurlandaþjóða um eftirlit, en ekki bann. Þessi fjögur ríki, sem hafa ekki sérstaka löggjöf um þetta, eru Lúxembourg, sem er þó innan Efnahagsbandalags Evrópu, sem hefur sett á fót mjög strangar reglur um þessi mál, og Grikkland, Tyrkland og Ísland, að vísu Sviss var það, þegar ég hafði upplýsingar um seinast, en var þá líka með frv. í undirbúningi, sem búast mátti við, að mundi hljóta samþykki, Ísland er þá á bekk með Grikklandi og Tyrklandi um að hafa ekki sérstaka löggjöf til þess að tryggja ríkisvaldinu eftirlit með fyrirtækjasamtökum til þess að hindra einokun og tryggja frjálsa samkeppni á markaðinum.

Ég mun þá sleppa því að gera grein fyrir þeim markaðsaðstæðum, sem gera myndun fyrirtækjasamtaka æskilega af hálfu fyrirtækjanna, en óæskilega af hálfu þjóðfétagsins, neytendanna og borgaranna. En Svíar áttu fyrir nokkrum árum frumkvæði að því, að þeir ásamt Norðmönnum og Dönum hafa kosið hver um sig nefnd manna til að vinna að endurskoðun löggjafar um þessi mál á Norðurlöndum. Ég tel sjálfsagt að Ísland skipi sér hið allra fyrsta í hóp þeirra ríkja, sem tryggja ríkisvaldinu aðstöðu til þess að sjá neytendum fyrir því, að frjáls samkeppni sé ekki fótum troðin af ákvörðunum einkafyrirtækja á markaði.

Till. þessa hef ég áður flutt á Alþingi og var þá send nokkrum aðilum til umsagnar og fékk mjög jákvæðar undirtektir, m.a. frá Verzlunarráði Íslands þar sem segir, að það telji eðlilegt, að ríkisvaldið sporni við ákvörðunum einstakra stórfyrirtækja og samtökum fyrirtækja og annarra um að binda verð, takmarka framboð og hefta frjálsa samkeppni á annan hátt.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu og legg til, að till. verði vísað til allshn.