15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

176. mál, vinnuaðstaða og sumarhvíld barna og unglinga

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég flyt hér þáltill. um, að Alþingi kjósi fimm manna nefnd, sem taki til athugunar aðstöðu barna og unglinga innan 15 ára aldurs til eðlilegrar og heilbrigðrar sumarhvíldar og hæfilegrar og þroskandi vinnu þann tíma, sem börnin eru ekki í skóla. Till. samhljóða þessari var flutt hér á síðasta þingi af frú Margréti Sigurðardóttur, sem þá átti sæti á þingi. Þá var gerð hér ýtarleg grein fyrir þessu máli, og auk þess er svo allýtarleg grg. með till. á þskj. 329. Ég get því í rauninni sparað mér að tala langt mál um till. og það með sérstöku tilliti til þess, hvernig ástatt er hér orðið með fundartíma. En hér er sem sagt drepið á mjög þýðingarmikið mál.

Við vitum vel, að hér er um vaxandi vandamál að ræða svo að segja um allt land. Foreldrar vita illa, hvað á að gera við börnin þann langa tíma, sem þau eru ekki í skólum. Á tímabili var vandamálið allvíða a.m.k. fólgið í því, að börnin fengu ekki aðstöðu til hóflegrar vinnu. Nú hefur þetta í seinni tíð meira snúizt í þá áttina, að börnin hafa sogazt inn á hinn almenna vinnumarkað og taka þar þátt í störfum á þann hátt, sem enginn vafi er á, að getur ekki talizt eðlilegt fyrir börn á skólaaldri. Hér er sem sagt við mikið vandamál að eiga, en með till. er lagt til. að gerð verði sérstök og ýtarleg rannsókn á þessu vandamáli og að sú n., sem annast þessa rannsókn, skili tillögum um úrbætur í þessum efnum til Alþingis.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja hér umr. meir að þessu sinni, en legg til. að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.