27.11.1963
Sameinað þing: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í D-deild Alþingistíðinda. (3284)

801. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftsson):

Herra forseti. Á þskj. 81 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins. Fsp. eru þessar, með leyfi hæstv. forseta, og ég vil geta þess jafnframt, að ég hef breytt 1. lið fsp. örlítið, og vona ég, að hæstv. ráðh., sá sem svara mun fsp. þessum, hafi ekkert við það að athuga, en ég mun nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa fsp. þessar upp:

1) Hafa verið gerðir samningar eða ákvörðun tekin af hæstv. ríkisstj. um smiði rannsóknarskips í þágu sjávarútvegsins?

2) Hve mikið fé er fyrir hendi til smíði skipsins?

3) Hvað er talið, að vel búið rannsóknarskip kosti nú?“

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og talsvert ritað um þörf Íslendinga á að eignast alhliða rannsóknarskip til haf- og fiskirannsókna, sem jafnframt gæti annazt fiskileit. Íslendingar hafa eignazt hæfa og vel menntaða stétt fiskifræðinga, sem hefur unnið mjög gott starf í þágu íslenzks sjávarútvegs við erfið skilyrði að ýmsu leyti. Með byggingu hins glæsilega húss Fiskifélagsins við Skúlagötu, þar sem rannsóknarstofur sjávarútvegsins hafa nú aðsetur, hefur skapazt aðstaða fyrir fiskideild atvinnudeildar háskólans, sem segja má, að sé mjög vel viðunandi og muni geta nægt þeirri starfsemi, þó að hún fari vaxandi væntanlega í framtíðinni, um nokkuð langa, ófyrirsjáanlega framtíð. öðru máli gegnir um aðstöðu þeirra fiskifræðinganna til þess að rækja starf sitt á sjónum, sem þó er sízt veigaminni þáttur í þessu starfi. Þar hafa þeir þurft að notast við skip, ýmist frá landhelgisgæzlunni eða togara, sem leigðir hafa verið til skamms tíma í senn. Það hefur stundum reynzt erfiðleikum bundið að leita og ná samkomulagi við landhelgisgæzluna um leigu á skipum vegna annríkis hjá henni, og ekki er ætíð hægt að fá skip til fiskileitar eða fiskirannsókna þar, hvenær sem þörfin krefur. Og ef leigja þyrfti togara í hverja fiskileitarferð, sem farin verður, yrði það bæði dýrt og ódrjúgt.

Þörfin fyrir vel búið rannsóknarskip hefur síðustu árin orðið æ brýnni, þar sem mörg störf hafa hlaðizt á fiskideildina í sambandi við vísindalega friðun fiskimiða, sem ekki er hægt að sinna nema hafa yfir að ráða góðum tækjum.

Flestar þjóðir, sem búa við sjávarútveg, þótt hvergi sé í sama mæli og við, hafa skilið þörfina á haf- og fiskirannsóknum fyrir afkomu sjávarútvegsins og breytt í samræmi við það. Þannig hef ég fengið upplýsingar um, að Norðmenn hafi byggt 4 úthafsrannsóknarskip, eftir að síðustu styrjöld lauk, Bretar hafa byggt 6 og Þjóðverjar 5, auk fjölda annarra smærri rannsóknarskipa í sama skyni. Mér er tjáð, að Bandaríkin eigi nú í smíðum um 72 hafrannsóknarskip, smærri og stærri, og það er óhætt að segja, að reynsla allra þessara þjóða og raunar annarra af starfsemi þeirra er sú sama, að þeim fjármunum sé mjög vel varið, sem eru veittir til smiði þeirra og rekstrar.

Íslendingar hafa enn þá. ekki eignazt sitt hafrannsóknarskip og hægt hefur miðað í áttina að því marki. Vil ég við þetta tækifæri rifja upp í örfáum orðum sögu þessa máls á hv. Alþ., eins og ég hef getað rakið hana bezt, og gefa þær upplýsingar í leiðinni, sem ég hef aflað mér varðandi rannsóknarskipsmálið.

Á Alþ. 1952 flutti þáv, hv. þm. Borgf., Pétur Ottesen, svofellda till. til þál., með leyfi hæstv. forseta: „Alþ, ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvernig íslenzka ríkið geti með hagkvæmasta hætti eignazt hæfilega stórt og traust skip, er útbúið sé hinum fullkomnustu tækjum til haf- og fiskirannsókna og fiskileitar.“

Þann 4. febr. ári síðar, eða árið 1953, var samþykkt í Alþ. þál. um hafrannsóknarskip og fiskileitarskip, svolítið breytt frá þeirri till., sem ég var að lesa hér upp áðan og flutt var af Pétri Ottesen. En sú till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvernig íslenzka ríkið geti með sem hagkvæmustum hætti eignazt hæfilega stórt og traust skip; er útbúið sé hinum fullkomnustu tækjum til haf- og fiskirannsókna. Jafnframt fari fram á því rækileg athugun, á hvern hátt verði bezt hagað fiskileit á djúpmiðum og við strendur landsins. Að því er tekur til síldarleitar, skal sérstök áherzla á það lögð að komast að niðurstöðum um það, á hverjum tíma árs hún sé vænlegust til góðs árangurs. Um þau atriði, sem í ályktun þessari greinir, skal ríkisstj. kveðja sér til aðstoðar sérfróða menn í þessum málum.“

Í framhaldi af samþykkt þessarar þáltill. fór fram verkfræðileg athugun á ýmsum möguleikum til notkunar á eldri skipum í þessum tilgangi. T.d. var varðskipið Ægir skoðað í þessu skyni, en í ljós kom, að skipið var ekki hægt að nota sem almennt rannsóknarskip, nema með stórkostlegum breytingum, sem taldar voru vafasamar, m.a. vegna aldurs skipsins, en það mun hafa verið byggt á árinu 1929. í ágústmánuði 1953 voru hins vegar sett í Ægi asdiktæki, sem kostuðu þá um 1 millj. kr. og hafa reynzt mjög vel. Þannig útbúið mátti nota skipið til almennrar síldarleitar án stórvægilegra breytinga. Sú dýrð mun þó tæplega standa mjög lengi, því að eftir því sem mér er tjáð, þá hefur 30 ára flokkunarviðgerð enn þá ekki farið fram á skipinu og mun það því sigla á undanþágu. Er augljóst, að ekki svarar kostnaði að leggja í stórvægilegar breytingar á svo gömlu skipi, sem aldrei mundi koma að fullum notum sem rannsóknarskip.

Þrátt fyrir samþykkt þeirrar þáltill., sem ég greindi hér frá áðan, hefur lítið miðað í áttina, og það er fyrst rúmum 5 árum síðar eða á valdatímabili vinstri stjórnarinnar, að í lögin um útflutningssjóð o.fl. frá 29. maí 1958 er tekinn upp tekjustofn til hafrannsóknarskips. í 10. gr. þeirra laga segir, að 1/13 hluti af 65% álagi á útflutningsgjald skuli renna til haf- og fiskirannsóknarskips, er ríkisstj. lætur byggja í samráði við fiskideild atvinnudeildar Háskóla Íslands, eins og segir í lagagreininni. Haustið 1958 samþykkti þáv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, að beiðni fiskideildar atvinnudeildar háskólans, áð til landsins mætti koma skipaverkfræðingur frá FAO, þ.e.a.s. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, skipaverkfræðingur, sem mikla reynslu hafði í smíði hafrannsóknarskipa. Gerði verkfræðingur þessi teikningar að fyrirkomulagi hafrannsóknarskips ásamt með byggingarlýsingu í okt. sama ár, okt. 1958. Í Alþýðublaðinu 13. nóv. 1960 var frá því sagt, að hæstv. sjútvmrh. hefði á aðalfundi L.Í.Ú. þá um haustið skýrt frá því, að gengið hefði verið frá teikningum til útboðs á hafrannsóknar- og fiskileitar skipi. Ekkert varð þó úr framkvæmdum, og tæpum þrem árum síðar skýrði sami hæstv. ráðh. frá því í Alþýðublaðinu, 9. júní s.1., að smíði á fullkomnu rannsóknarskipi sé enn í undirbúningi, og er þá sá undirbúningur búinn að standa siðan haustið 1958 eða í rúm 5 ár, án þess að farið sé að smiða skipið enn þá. Mér er tjáð, að þær teikningar, sem gerðar voru af rannsóknarskipi á árinu 1958 og mér skilst að séu þær nýjustu, sem til séu, séu nú af fagmönnum taldar á ýmsan hátt úreltar, enda er þróun í gerð rannsóknarskipa mjög hröð. Sýnir þetta, að óskynsamlegt er að leggja mikla vinnu og mikinn kostnað í undirbúning að smíði rannsóknarskips, nema ákvörðun hafi áður verið tekin af réttum aðila um, að teikningarnar skuli nota og skipið smíðað. Á meðan raunar slík ákvörðun er ekki fyrir hendi, má segja, að allt þetta mál sé í lausu lofti.

Með lögunum um efnahagsmál frá því í febr. 1960 var ákveðið, að 3% af útflutningsgjaldi skuli renna til smíði haf- og fiskirannsóknarskips, þannig að nú hlýtur að vera til í sjóði talsverð fjárhæð, sem safnazt hefur allt frá því árið 1958 með skattlagningu á útfluttar sjávarafurðir, — sjóður, sem nota á í þessu skyni. Tel ég ekki ósennilegt, að sú fjárhæð ásamt með þeim lánsmöguleikum, sem væntanlega eru til staðar hjá þeirri erlendu skipasmiðastöð, er skipið kynni að smiða, mundi nægja til þess að standa undir byggingarkostnaði skipsins. Væntanlega getur hæstv. ráðherra upplýst um þetta atriði, þegar hann svarar fyrirspurnum þessum hér á eftir.

Á fjárlögum undanfarinna ára hefur staðið allveruleg fjárveiting til almennrar fiskileitar, fiskimiðaleitar, síldarleitar og veiðarfæratilrauna. Væntanlegt rannsóknarskip mun að mestu leyti annast þessi hlutverk, og má því segja, að kostnaður við smíði þess sé fyrst og fremst spurning um stofnkostnað, hvernig eigi að greiða hann, þar sem rekstur skipsins er að miklu leyti tryggður með þeim fjárveitingum, sem verið hafa í fjárlögum, og þeim, sem væntanlega verður haldið áfram að veita á fjárlögum í sama skyni.

Herra forseti. Ég vil að endingu leyfa mér að lesa hér upp niðurlag greinar í 25 ára afmælisriti atvinnudeildar háskólans frá í fyrra, greinar, sem skrifuð er af Jóni Jónssyni, forstöðumanni fiskideildarinnar, en hann segir þar í niðurlagi þessarar merku greinar, með leyfi hæstv. forseta:

„Mesta áhugamál íslenzkra hafrannsókna í dag er að eignast nýtt og fullkomið hafrannsóknarskip. Er öli aðstaða okkar í þeim efnum mjög bágborin, ef miðað er við nágrannaþjóðir okkar, sem þó eiga ekki nærri því eins mikilla hagsmuna að gæta í fiskveiðum og við. Er því vonandi, að annar aldarfjórðungur stofnunarinnar hefjist með byggingu nýs og glæsilegs rannsóknarskips. Ekki er að efa, að starfsemi slíks skips mun verða mikil lyftistöng íslenzkum sjávarútvegi.“