05.02.1964
Sameinað þing: 38. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í D-deild Alþingistíðinda. (3315)

114. mál, alúminíumbræðsla og olíuhreinsunarstöð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlazt til, að um ræðuhöld sé að ræða í sambandi við fsp., og ég skal halda mig við það. En ég vildi gefa bendingar í þessu sambandi.

Það er í fyrsta lagi, að hér er um einhver allra stærstu framtíðarmál Íslendinga að tefla, hvorki meira né minna en það, hvernig haga skuli stórum rafmagnsvirkjunum, ef hægt verður að ráðast í þær, hvar orkuverin verði staðsett og annað í því sambandi, sem getur haft hinar þýðingarmestu afleiðingar á allan hátt, enn fremur, hvort taka skuli upp stóriðnað og þá hvort það skuli koma til greina, að það sé að einhverju leyti á vegum erlendra aðila og þá með hvaða skilyrðum og hvernig samninga skuli gera. Síðan kemur til staðsetningar á hinum nýju, stóru iðnaðarfyrirtækjum. Vitanlega er ekki hægt að ræða þessi atriði hér í sambandi við fsp., en það er gott, að þessar upplýsingar hafa komið fram.

En ég vil nota tækifærið til þess að segja, að ég álít, að hér sé um svo þýðingarmikið mái að ræða, að það sé fullkomlega tímabært, þar sem hefur verið undanfarið og er óðfluga verið að beina þessum málum inn í ákveðna farvegi, þá er fyllilega tímabært og nauðsynlegt, að Alþingi fái þessi mál til meðferðar nú alveg á næstunni, á því stigi, sem þau eru. Það er ekki nóg að leggja þessi mál fyrir Alþingi, þegar hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið alveg stefnu sina og þá kannske um leið meiri hl. Alþingis, heldur er hér um svo þýðingarmikil málefni að ræða, að það þolir í raun og veru enga bið, að þau séu athuguð af ríkisstj. og Alþingi sameiginlega, hvaða stefnu skuli í þessum málefnum taka. Er sjálfsagt að íhuga, í hvaða formi það gæti eðlilega orðið í framhaldi af þessari fsp. og þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram, og ég vona, að hæstv. ríkisstj. taki því vel, að þannig verði á þessum málum haldið. Hér er um svo örlagarík málefni að ræða, að ég vona, að allir fallist á, að það er ekki nóg að leggja þau fyrir Alþingi, þegar allt er í raun og veru klappað og klárt og ákveðið, hvernig það skuli vera, því að sannast að segja er auðvitað mjög margt um álitamál í þessu sambandi.

Í sambandi við olíuhreinsunarstöð t.d. er það, að olía ætla ég sé u.þ.b. helmingurinn af öllu því vörumagni, sem flutt er til landsins, — olíur og benzín. Það var a.m.k. þannig fyrir stuttu. Þetta er einhver allra þýðingarmesti þátturinn í þjóðarbúskapnum, notkun þessa eldsneytis, bæði fyrir framleiðsluna og fyrir neytendur. Hér yrði að mestu um innlenda neyzlu að ræða. Mér finnst ekki geta komið annað til mála en það fyrirtæki, sem á þessu yrði reist, yrði að vera íslenzkt fyrirtæki, og meira en það, það yrði líka í því sambandi að gera öflugar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni íslenzkra neytenda. Þar á ég bæði við framleiðendur, sjávarútveginn og landbúnaðinn, og neytendur. Það ætti ekki undir neinum kringumstæðum að koma til mála, að erlendir aðilar fengju aðstöðu til þess að reka hér fyrirtæki eins og olíuhreinsunarstöð, sem væri ein í sinni grein, t.d. hliðstæð við áburðarverksmiðjuna og sementsverksmiðjuna, og gæti svo sett Íslendingum stólinn fyrir dyrnar. Yrði því að gera öflugar ráðstafanir til að tryggja það, að fyrirtækið yrði raunverulega íslenzkt, og enn fremur að tryggja hagsmuni þeirra, sem þurfa að kaupa þessar vörur. Á þessu sjáum við, hvað þarna er um gífurlega þýðingarmikið málefni að ræða.

Það má segja, að nokkuð öðru máli gegni um alúminíumframleiðsluna að því leyti til, að þar yrði, að því er mér skilst, nær eingöngu framleitt fyrir erlendan markað, og þá kemur fremur til athugunar um nánara samstarf en hér hefur tíðkazt við erlenda aðila. En þá er það, eins og hæstv. ráðh. segir, hvernig á að koma því samstarfi fyrir. Það yrði að gilda um það sérstök löggjöf, og við höfum ekki nein fordæmi hér eða reynslu í að setja slíka löggjöf. Þá er líka vandi að ákveða, hvernig slík samvinna við erlenda aðila gæti orðið á þann hátt, að íslenzkir hagsmunir væru algerlega tryggðir.

Enn fremur kemur upp í sambandi við þessi málefni öll saman, eins og ég sagði, spurningin um það, hvar á að virkja í landinu, og þá kemur þar inn á þetta stórfellda mál, hvort með ráðstöfunum eins og þessum væri hægt að stuðla að betra jafnvægi í byggð landsins en hefur verið eða hvort ráðstafanir, sem gerðar yrðu í þessum stóru málum, yrðu til þess að auka enn á það ójafnvægi, sem hefur undanfarið verið að skapast í byggð landsins. En nú er ég í raun og veru, býst ég við, farinn að syndga upp á náðina og farinn að halda ræðu, en þetta á eftir þingsköpunum að vera örstutt aths., og þá er aðalefni þeirrar aths. frá minni hálfu sú bending, að það sé fullkomlega tímabaert, að Alþingi fái þessi mál nú til meðferðar með hæstv. ríkisstj., og málin séu einmitt komin á það stig, að það sé ekki seinna vænna, að sá háttur verði upp tekinn, því að það er alveg áreiðanlega bezt fyrir okkur, að leitað yrði, svo sem suðið væri, samstöðu um þessi stórfelldu mál og bsekurnar bornar saman. Það væri í einskis þágu, ef sá háttur yrði hafður á þessum málum, að mjög lítill meiri hl. Alþingis væri notaður til þess að berja fram einhverja lausn á þeim, sem mjög mörgum væri afar ógeðfelld, en hitt miklu heppilegra, að leita á fyrsta stigi málanna eftir skoðunum á Alþingi sjálfu og hvernig línurnar liggja hér varðandi þessi stórfelldu efni.

Ég vil benda á, að hæstv. ráðh. sagði það réttilega, að hér kæmi til greina að fara inn á áður alveg ótroðnar slóðir. Hér er því ekki um neitt smávægilegt að ræða. Ég legg því hina þyngstu áherzlu á, að í framhaldi af þessu verði athugag, hvernig þessi mál gætu komið til meðferðar hér á Alþingi nú í framhaldi af þessum fyrirspurnarviðræðum.

Ég vil svo einnig í sambandi við þetta benda á, að það er lífsnauðsyn, að hér verði sett ýtarlegri löggjöf en við höfum nú varðandi rétt útlendinga til þess að reka atvinnu í landinu, sem tryggi íslenzka hagsmuni miklu betur en núgildandi löggjöf, tryggi það betur en núgildandi löggjöf, að íslenzk framleiðsla og íslenzkur atvinnurekstur verði raunverulega framvegis í höndum Íslendinga sjálfra, nema í alveg einstökum tilvikum, þar sem Alþingi setti þá sérákvæði með sérstakri löggjöf í hvert skipti og sérstökum samningum. Þetta þyrfti að verða stefnan, sem framfylgt væri. En þá þarf áreiðanlega að endurskoða íslenzka löggjöf að þessu leyti og gera hana betur úr garði en nú er, og eru raunar till. um það hér liggjandi fyrir hv. Alþingi, sem ég vona að verði samþykktar.