19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í D-deild Alþingistíðinda. (3333)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að frumskilyrðið til þess, að menn geti fjallað um þessi síldariðnaðarmál og síldarniðurlagningarmál af einhverri fyrirhyggju og viti, sé, að menn skilji, hve feikilega mikils virði síldariðnaðurinn er fyrir Ísland í dag og hlýtur að verða. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að hæstv. ráðh. skilji þetta alveg nógu vel, ef marka má það, sem fram kom í ræðu hans hér áðan. Ég vil aðeins minna á, að við niðurlagningu á síld fimmfaldast verðmæti síldarinnar, og á því má sjá, hversu gífurlegur hagnaður það er fyrir þjóðarbúið, ef tekst að byggja upp voldugan síldariðnað á Íslandi. Niðurlagning á 10 þús. síldartunnum er talin munu geta veitt 90 stúlkum og 20 karlmönnum vinnu í rúma 8 mánuði á ári, en auðvitað geta slíkar verksmiðjur verið af ýmsum stærðum. Af þessu má líka sjá, hve feikileg atvinnuaukning er að uppbyggingu síldariðnaðar, sérstaklega þegar þar kemur til viðbótar, að slíkar verksmiðjur yrðu reistar þar, sem nú er mjög erfitt atvinnuástand, og þannig væri hagnýtt ónotað vinnuafl víða á Norður- og Austurlandi. Það er því ljóst, að það verður að gera allt — bókstaflega allt — til þess að það geti heppnazt að byggja upp traustan síldariðnað á Íslandi.

Hæstv. ráðh. lagði á það áherzlu í upphafi máls síns, að hér hefði verið um tilraun að ræða. Hann sagði, að þetta hefði verið tilraun og mikið hefði oltið á því, hvort hún heppnaðist í upphafi, en það var á honum að skilja, að það hefði ekki verið. Ég vil leggja á það áherzlu, að hér var um tvenns konar tilraun að ræða. Það var í fyrsta lagi tilraun með framleiðsluna sjálfa, og það var í öðru lagi tilraun með sölu á þessari framleiðslu. Það getur enginn neitað því, að þessi framleiðslutilraun á síld hefur tekizt með miklum ágætum, og allir munu sammála um, að þetta er einhver mesta afbragðsvara, sem hér hefur verið framleidd, og yfirleitt ein bezta síldarvara, sem framleidd er í heiminum. Að því leyti hefur tilraunin heppnazt alveg prýðilega. Því getur enginn mótmælt. Hitt er rétt, að tilraunin með að selja síldina hefur gersamlega misheppnazt. Finnst mönnum ekki nokkur mótsögn í því fólgin, að svo ágæt síld, sem öllum kemur saman um að sé fyrsta flokks verðmæti, skuli ekki seljast? Jú, auðvitað er skýringin á þessari mótsögn eingöngu í því fólgin, að tilraunin með sölu á síldinni hefur misheppnazt vegna þess, að ekki hefur nægilega verið unnið að því. Það er ljóst, að aldrei verður unnt að selja síldina, nema ákveðin stjórn taki að sér að einbeita sér að þessu verkefni. Þessi stjórn þarf t.d. að fá upp í hendurnar 2 millj. á hverju ári í t.d. 5 ár til þess að brjótast inn á nýja síldarmarkaði. Það er öllum ljóst, að þetta er gífurlegt átak. Það er öllum ljóst, að það hefst ekki með því að senda nokkrar dósir á ákveðinn stað í Ameríku og aðrar til Englands eða annarra landa og fylgja ekki nægilega eftir með miklum mannafla og öðru því, sem til þarf. Það er áreiðanlegt, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur ekki verið í neinni aðstöðu til þess að vinna þetta brautryðjendastarf sitt, vegna þess að hún hefur ekki haft fjármuni í höndum til þess að vinna verkið.

Hæstv. ráðh. sagði, að það gæti vel verið, að hér væri um ódugnað að ræða, og ég vil aðeins undirstrika það. Það er svo. Hér er um ódugnað að ræða, og hér verður að verða breyting á, ef á að takast að vinna upp þennan síldariðnað. (Forsetl: Ræðutíminn er búinn.) Já. Ég virðist nú hafa tekið eftir því hér í umr. um fsp., að menn fá kannske eina mín. eða tvær fram yfir sinn venjulega ræðutíma, og ef forseti mótmælir því ekki, þá treysti ég því, að mér verði leyft það einnig. Er mér heimilað það? (Forseti: Örstutt.) Ég vil aðeins undirstrika það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það sé ekki tímabært að setja upp sérstaka stjórn, þar sem ekki hefði tekizt að selja síldina. Ég vil aðeins undirstrika, að það er eitt af skilyrðunum til þess, að hægt verði að selja þessa síld, að sett verði upp sérstök stjórn fyrir verksmiðjuna og unnið að síldarsölunni af einbeitingu og dugnaði.

Að lokum vil ég aðeins minna á það, hvort eigi að eyðileggja þessa framleiðslu að verðmæti 1.2 millj. Því spursmáli svaraði ráðh. á þann máta, að ríkisstj. réði ekki við þetta, Austur-Þjóðverjarnir skulduðu það mikið og við hefðum ekki keypt nægilega mikið af þeim. Þar af leiðandi gætum við ekki selt heim þetta litla magn af síldarmjöli. Ég vil aðeins benda á, að ríkisstj. sjálf hlýtur að ráða nokkru um það, hvernig háttað er viðskiptum okkar við Austur-Þýzkaland, og mér dettur ekki í hug að sleppa því hér í þessum umr., að þetta ástand, sem skapazt hefur í viðskiptum okkar við Austur-Þýzkaland, er áreiðanlega ekki eingöngu Austur-Þjóðverjum að kenna, heldur kemur þar einnig til afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar. Það segir sig sjálft, að fjöldamargt er unnt að kaupa af Austur-Þjóðverjum, ef einhver vilji er fyrir hendi. Og ég vil aðeins undirstrika, að síldariðnaðurinn íslenzki er allt of mikið stórmál til þess, að ein 600 tonn af síldarmjöli megi þar vera til fyrirstöðu. Ef okkur tekst í þetta sinn að taka þessu tilboði Austur-Þjóðverja og selja þetta síldarmagn, þá skapast miklir möguleikar á því, að unnt verði að halda þessum viðskiptum við Austur-Þjóðverjana áfram.