19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í D-deild Alþingistíðinda. (3337)

804. mál, niðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Spurningin um, hvort okkur tekst með þessa niðursuðuverksmiðju, er raunverulega spurningin um bað, hvort okkur tekst að koma á nokkurs konar iðnbyltingu í okkar matvælaiðnaði og að gerbreyta smám saman þannig um, að við getum fjór- til fimmfaldað Það verðmæti af síldinni, sem við flytjum út. Hæstv. ráðh. gerir sér það í hugarlund, að þetta sé hægt og það sé reynt með eðlilegum hætti. Það er ekki mikið orðið eftir af eðlilegum hætti í viðskiptunum í heiminum núna, ef við eigum við eðlilega og frjálsa samkeppni upp á gamla móðinn. Í sósíalistísku löndunum eru það ríkisstj., sem hafa með þetta að gera, og þar verður að eiga í samningum við þær. Í kapítalístískum löndum eru það auðhringar, sem einoka nokkurn veginn þessa markaði. Og við vitum ósköp vel, að hvað snertir niðurlögðu síldina, eru mjög sterkir aðilar í Noregi, og núna er það ABA í Svíþjóð, sem hefur sameinazt í eitt. Þessir sterkustu hringar, sem hafa verið í þessu, hafa núna slegið sér saman og einokað svo að segja allan þennan markað og hafa öll sín sambönd út um allan heim, þannig að þegar við ætlum að fara að berjast á þessum mörkuðum, verðum við að skoða þetta eins og hverja aðra efnahagslega sjálfstæðisbaráttu, sem við erum að heyja, og leggja verulega mikið í sölurnar.

Hvernig höfum við farið að því að byggja upp t.d. í Bandaríkjunum söluskipulag Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna? Við höfum gert það á grundvelli þess, að í mörg ár hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna samið fyrir fram um 2/3 hluta af öllum freðfiskinum við Sovétríkin og önnur sósíalistísk lönd og fengið þetta borgað „kontant“ við afskipun og notað Þessa peninga til þess að byggja upp sölukerfið í Bandaríkjunum, þannig að um leið og verzlunarviðskiptin stöðvuðust 1960 við Sovétríkin, gátu hraðfrystihúsin svo að segja ekkert borgað út, eins og mikið var rætt hér um á Alþingi þá. M.ö.o.: við höfum reynt að taka upp þessa góðu reglu, að gera stórsamninga við sósíalistísk lönd, til þess að geta selt nokkurn veginn „kontant“, og nota þetta fé til þess að berjast með síðan í hinum löndunum. Svona held ég, að við þurfum að fara að, ef við setlum að vinna upp okkar framleiðslu í matvælaiðnaði eins og síldarniðurlagningunni. Við verðum að reyna að semja við Sovétríkin, Austur-Þýzkaland og önnur slík, tryggja okkur með fyrirframsamningi sölu á við skulum segja 2/3 af framleiðslunni til þess að vera vissir um að geta afskipað þessu jafnóðum, því að eins og við vitum, þolir þetta ekki geymslu nema upp á 6—9 mánuði, og geta síðan með hinum hluta framleiðslunnar, því sem við seljum ekki innanlands, barizt á útlendu, kapítalistísku mörkuðunum. Svona verðum við að skipuleggja þetta. Það er rétt, það getur verið erfitt um tíma viðvíkjandi Austur-Þýzkalandi, þegar við verðum að lána kannske heilmikið. En ég veit ekki betur en á sama tíma láni t.d. Rússar okkur stórfé, þannig að þótt Austur-Þýzkaland sé í einhverri skuld við okkur, þá munum við vera í stærri skuld við Sovétríkin, svo að við getum e.t.v. látið það mætast. En þarna er um þýðingarmikið mál að ræða, því að hverjar 100 þús. tunnur af síld, sem við flytjum út með þessu móti, fimmfaldast í verði.

Við höfum verið hráefnaframleiðendur fyrir sænska hringa í hálfa öld, og það er tími til kominn, að við losum okkur úr því. Fyrst við höfum loksins getað sýnt það, að við getum framleitt jafngóða vöru og þeir, og unnið þar stórsigur, megum við ekki gefast upp í þessu út af markaðsmálunum, og ef pólitík ríkisstj., verzlunarpólitík hennar, dugir ekki til þessa, verður að breyta þeirri verzlunarpólitík. Hún hefur verið vitlaus frá upphafi, og það er eins og hver önnur tálvon að gera sér það í hugarlund, að menn geti með almennri frjálsri samkeppni brotizt eitthvað áfram í heiminum núna. Nei, menn verða að gera það með því að skipuleggja sínar verksmiðjur, hagnýta allar aðstæður, skipuleggja m.a. innkaupin til Íslands öllsömun þannig, að við ráðum því, hvernig kaupgeta Íslendinga sé notuð, en ekki þessir útlendu auðhringar, sem geta notað íslenzka markaðinn eins og þeim þóknast án þess að kaupa nokkuð af okkur.

Með þeirri verzlunarpólitík, sem nú er rekin, svokallaðri frjálsri verzlun; drepum við niður hann iðnað, sem við þurfum að skapa sjálfir, og við getum margfaldað okkar verðmæti, ef við bara þorum að fara inn á rétta pólitík í þessum efnum. En ég skil það vel, að með þessum eðlilega hætti, sem hæstv. ráðh. talar um, drepum við síldarverksmiðjuna á Siglufirði, þá látum við síldarverksmiðju, ef Tryggvi Ófeigsson vill koma upp einni, standa ónotaða, þá drepum við síldarverksmiðjuna hjá Haraldi Böðvarssyni, þá höldum við niðri þróuninni í matvælaiðnaðinum íslenzka. Við ættum að geta komið hér upp einum 10—20 verksmiðjum á Íslandi til útflutnings, ef við aðeins þorum að skipuleggja þetta allt saman réttilega. Ég veit ekki betur en við kaupum inn í hópum báta núna hvert einasta ár frá Noregi og Svíþjóð, sem við hefðum getað keypt frá Austur-Þýzkalandi, ef þetta væri skipulagt, og ég efast um, að það séu betri bátar, sem við fáum þaðan, heldur en frá AusturÞýzkalandi. En við þurfum að hugsa petta fyrir fram, og við þurfum að skipuleggja það. Ég vildi þess vegna aðeins láta það koma fram, að það dugir ekki, þó að röng verzlunarpólitík hafi staðið í vegi fyrir því fram að þessu, að láta það drepa þróun þessa matvælaiðnaðar á Íslandi.