29.01.1964
Efri deild: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Glaðir og bjartsýnir voru um áramótin 1959–1960 menn þeir, sem mynduðu núv. ríkisstj. Þeir töldu hægt að horfast í augu við allan vandann í einu, eins og forustumaður þeirra komst þá að orði, og merkti það líkindamál, að þeir væru vandanum vaxnir og „hvergi hræddir hjörs í þrá, hlífum klæddir sínum.“ Sumir þeirra eða nánar til tekið Alþfl.-menn minntu kannske eilítið á þá, sem frelsast skyndilega í trúmálum. En svo ekki meira um það. Ríkisstj. gaf út bók sína, Viðreisn, með skjaldarmerki ríkisins á, auðvitað á kostnað landsmanna, en af svo mikilli rausn samt, að hún skenkti hana ókeypis öllum heimilum landsins í nokkurs konar nýársgjöf. Bókin hófst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stefnuyfirlýsingu þeirri, sem ríkisstj. birti, þegar hún tók við völdum í nóv. s.l., taldi hún það höfuðverkefni sitt að koma atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll. Hefur síðan verið unnið að athugun á þessum málum. Þótt ekki séu nema rúmir tveir mánuðir, síðan ríkisstj. hóf störf sín, er nú lokið þeim rannsóknum, sem taldar voru nauðsynlegar.“ Þvílíkur dugnaður! „Þegar stjórnin og stuðningsflokkar hennar,“ heldur þar áfram, „höfðu kynnt sér þessar athuganir og niðurstöður,“ — það var nú ekki lengi gert á þeirri tíð af morgunglöðum mönnum, — „var ákvörðun tekin um, að ríkisstj. skyldi beita sér fyrir gagngerðri stefnubreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar, og nauðsynleg frv. samin, þar sem hin nýja stefna er mörkuð. Hér er ekki um að ræða ráðstafanir sama eðlis og tíðkazt hafa “ segir þar, nei, ónei, „heldur algera kerfisbreytingu.“ Það er skýrt tekið fram. Svo komu fyrirsagnir í bókinni eins og: „Heilbrigður grundvöllur“, „Bótakerfið afnumið“, „Jafnvægi í peningamálum“ o.s.frv.

Þetta var borið fram þá sem gleðiboðskapur. Hæstv. ríkisstj. kynnti sig sem frelsara í verklegum efnum a.m.k., og stuðningsmenn sína á þingi kynnti hún auðvitað sem postula, enda munu þeir hafa talið sig hafa postullegar skyldur við hana. Stjórnin skýrði stefnu sína „viðreisn“, minna mátti það ekki vera. Til þess að vera ofur lítið raunhæf og líka til þess að gera ekki of lítið úr afrekum sínum, sagði stjórnin, að fyrst í stað kynni viðreisnin að kosta almenning nokkra áreynslu, en ef ekki kæmu alveg óviðráðanleg og ófyrirsjáanleg óhöpp fyrir, þá mundi fljótt skipta um, allt færi eftir skamma stund að leika í lyndi. Hið nýja efnahagskerfi væri nefnilega svo hagfræðilega fullkomið og sjálfvirkt, að þetta gæti eiginlega alls ekki brugðizt. Það leysti allan vanda efnahagsmála á einu bretti og gengi eins og klukka, þegar það væri komið af stað, — góð klukka, ný klukka.

En þetta mikla sigurverk reyndist hinn mesti gallagripur, þegar til kom. Ekki var óviðráðanlegum óhöppum um að kenna, síður en svo. Metaflagóðæri féllu þjóðinni í skaut. Þá var líka blásið í lúðra í stjórnarherbúðunum og hrópað: Viðreisnin hefur lánazt, sjáið árangur hennar! En það kom á daginn, að metaflinn nægði engan veginn. Dýrtíðareldur viðreisnarinnar sá fyrir því. Um hjón, sem hétu Ísfeld og Herdís, var á sínum tíma kveðin þessi lífseiga vísa:

Ísfeld veiðir og heim reiðir,

eins og beiðir þörfin frek.

En Herdís eyðir skörp á skeiði

skjótar en seyðir eldur sprek.

Þjóðin vann og veiddi eins og Ísfeld, en viðreisnin sá um hlutverk Herdísar, konu hans, að brenna og eyða því, sem aflað er og var, og er enn mjög skörp á því skeiði.

Nú eru 4 ár liðin, síðan hinir morgunglöðu menn gáfu út bókina Viðreisn, brosandi móti sínum nýja stjórnardegi. Ekki leynir það sér, að dimmt er þeim orðið fyrir augum og horfin eru stóryrðin um hið óbrigðula efnahagskerfi frá 1960, enda má heita, að orðið viðreisn sé ekki nefnt meðal almennings nema í þeim tón, að háðsmerki fylgir.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl., ásamt grg. og ræðum þeim, sem því hefur verið fylgt úr hlaði með hér á Alþingi, er glögg sönnun um breytta útsýn. Í framsöguræðu sinni í hv. Nd. núna fyrir helgina boðaði hæstv. forsrh. eftir 4 ára viðreisnarstörf, að voði vofði yfir. Hann talaði um voða, sem yfir vofði. Á honum mátti glöggt heyra í þeirri ræðu og skilja, að hann taldi úrræði frv. aðeins til bráðabirgða og gerð af því, að ráðrúmstíma þyrfti að fá til að íhuga og kanna til hlítar, hvort unnt sé að finna sameiginleg úrræði, sem aðilar geti eftir atvikum unað við. Þetta var dapurleg ræða á fjögurra ára afmæli viðreisnarstjórnarinnar, og í henni var myrkur. Það bar minna á þessu í ræðu hæstv. ráðh. áðan hér í þessari hv. d., enda forðaðist hann í raun og veru að fara inn á þau almennu svið, en útskýrði einstök atriði frv. og lét við það sitja.

Ef hinir morgunglöðu menn 1960 hefðu heyrt þessa ræðu hæstv. forsrh, í hv. Nd. fram fyrir sig 1960, þá mundi þeim hafa brugðið í brún. En ætli þeir hefðu hikað? Auðvitað ætti ekki að þurfa að spyrja þannig, hik hefði verið skylda. En ég spyr af því, að enn halda þessir menn áfram í sömu stefnu þrátt fyrir ræðuna. Það sýndu atkvgr. í sambandi við frv. í hv. Nd. í gær.

Þá liggur líka fyrir játning frá mektarmanni úr hinum stjórnarflokknum, hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, ritstjóra Alþýðublaðsins. Hann skrifaði í Alþýðublaðið um síðustu helgi um þetta frv. og gildi þess. Greininni lauk hann með þessum orðum:

„Rétt er að minnast þess, að þessar aðgerðir, sem frv. felur í sér, eru aðeins lausn á þeim vanda, sem þegar hefur skapazt. Vandi framtíðarinnar er enn óleystur.“

Viðreisnarstjórnin fullyrti með ýmsum stórum orðum 1960, að hún hefði ráð á að leysa efnahagsvandamál þjóðarinnar til frambúðar, koma efnahagslífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll. Nú segir þm. og ritstjóri viðreisnarinnar eftir 4 ár í helgidagsgrein sinni: „Vandi framtíðarinnar er enn óleystur“. Þetta er þung stuna og ótvíræð játning.

Okkur framsóknarmönnum vekur það enga furðu, þótt niðurstaðan af hinni svokölluðu viðreisn hafi orðið eins og raun ber vitni. Við vöruðum stjórnarflokkana við þessari stefnu, strax og þeir hófust handa um að framkvæma hana. Og við höfum varað við henni öll þessi 4 ár og höfum flutt óteljandi till. til breytinga á henni, þótt fæstar þeirra hafi verið teknar til greina. Okkur duldist ekki, að stefnan hlaut að leiða til ófarnaðar, auka vanda efnahagsmála þjóðarinnar í stað þess að leysa vandann. Þakka má metaflaárunum fyrir það, að ekki hefur farið verr en orðið er.

„Voði vofir yfir,“ segir hæstv. forsrh. En hvað ætli hefði mátt segja, ef náttúran hefði ekki gefið góðæri?

Viðreisnarstefnan er fædd til að mistakast. Hún hentar ekki íslenzkri þjóð og íslenzkum landsháttum. Okkar litla þjóð, nýrisin úr umkomuleysi fátæktar, framgjörn samt og ung í allerfiðu landi, þarf miklu frekar að taka sér til fyrirmyndar stóra, samhenta fjölskyldu en framandi risaþjóðir, eins og viðreisnarstefnan vill þó vera láta. Hámenntaður maður sagði í grein, sem birt var í Stúdentablaðinu 1. des. í v etur: „Við eigum það sífellt á hættu, að þjóðfélagsfræðingar menntaðir erlendis flytji heim með sér meira og minna ómeltar þær skoðanir, þær kenningar og þau þjóðráð, sem sprottin eru upp úr allt öðrum þjóðfélagsháttum en hér ríkja og runnin af allt öðrum sögulegum rótum.“

Viðreisnarstefnan tók upp slík innflutt ómelt þjóðráð, og af því hefur illt hlotizt. Hjá okkur, þar sem segja má nærri því, að einn þekki alla og allir þekki einn og jafnréttiskröfur séu sérstaklega ríkar, blessast ekki efnahagsmisrétti og þjóðfélagslegar ráðstafanir, sem stuðla að því, að sá ríki verði ríkari en hinn fátæki fátækari, eins og viðreisnarstefnan hefur því miður gert. Valdstjórn á ekki heldur við hjá íslenzku þjóðinni, sem hlaut lýðræði í vöggugjöf, fékk beiska sögulega reynslu af að glata því aftur og þekkir bæði fögnuð og árangur af endurheimt þess.

Viðreisnarstjórnin hefur m.a. gert sig seka um einræðislegar aðgerðir og tilraunir til slíkra aðgerða. Hún felldi gengi krónunnar til þess að ónýta frjálsa, hóflega kaupgjaldssamninga 1961, mjög lýðræðislega samninga. Hún ætlaði að binda kaupið í nóv. í vetur, og enn örlar á einræðislegum ákvæðum í stjfrv. því, sem hér liggur fyrir. Á ég þar sérstaklega við 6. gr. þess.

Skal ég nú víkja beint að frv.

Við framsóknarmenn erum sammála því, að skjótra ráðstafana þurfi með vegna sjávarútvegsins og vinnslustöðva sjávarafurða. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 43 millj. kr. á þessu ári, er verja skuli til framleiðniaukningar og annarra endurbóta á framleiðslu freðfisks. Nú vita allir, að hér er farið rakleitt inn á bótakerfisbrautina, sem hæstv. núv. ríkisstj. fordæmdi í morgungleði sinni. Þessum styrk er ætlað að koma á móti síðustu kauphækkunum, og kallar það brátt að. Verður þess vegna ekki þessu fé úthlutað til þeirra, er framleiða freðfisk, í hlutfalli við athafnir þeirra til framleiðniaukningar um leið, enda hafa hæstv. ráðh., sem útskýrt hafa frv., sagt, að við úthlutun mundi verða miðað við vörumagn.

Það er vitanlega dálítið broslegt, að hæstv. ríkisstj. talaði um þetta bótaframlag sem fé til framleiðniaukningar, ekki af því að framlag til framleiðniaukningar sé broslegt, síður en svo, en hæstv. ríkisstj. er það auðheyranlega feimnismál eftir allt, sem hún hefur sagt um, að hún ætlaði að afnema bótakerfið, að nefna þetta framlag réttu nafni. Lofum henni að breiða yfir það þessar gagnsæju silkislæður. Það skiptir í raun og veru mjög litlu máli. Hins vegar má enginn halda, að þetta ákvæði sé nokkur lausn á þeirri þjóðarþörf, að ríkið geri ráðstafanir til framleiðniaukningar. Þar verður að gera sérstök, yfirskinslaus og sterk átök, eins og lagt er til í frv. því, sem við framsóknarmenn höfum lagt fram hér í þessari hv. d. og fór til n. nokkru fyrir jól í vetur og bíður þar afgreiðslu.

En þótt orðalag 1. gr. í frv. hæstv. ríkisstj. skipti ekki verulegu máli, heldur framkvæmdin, þá skiptir það máli, að fjárhæðin er of lág sem styrkur, 43 millj. Enn fremur er þar ekki hugsað fyrir bótum til annarra en freðfisksframleiðenda. Hækka verður þessa fjárhæð og láta bæturnar líka ná til þeirra, er framleiða saltfisk og skreið. Þá aðila má alls ekki sniðganga. T. d. eru sumir, sem framleiða saltfisk, þannig settir, að þeir hafa ekki önnur úrræði vegna einangrunar en saltfiskinn, hafa enga frystihúsaðstöðu eða aðstöðu til að ná til frystihúss. Það væri mikil fjarstæða að afskipta þessa aðila. Nauðsynlegt er einnig að mínu áliti að ætla fé til þess að greiða sérstaklega styrk þeim vinnslustöðvum, sem hafa lakasta rekstraraðstöðu, vegna þess að hráefni þeirra er sérstaklega dýrt í vinnslu og nýtist verr en í meðallagi, eins og er um smáfiskinn. Þetta gerir það að verkum, að hækka verður til muna fjárhæð 1. gr.

Hjá styrk til togararekstrarins, eins og 2. gr. gerir ráð fyrir, verður sjálfsagt ekki komizt, eins og sakir standa. Verðbótagreiðslur, sem 2. gr. mælir fyrir um að gangi til fiskileitar, tel ég nauðsynlegar viðbótargreiðslur við það, sem ætlað var á fjárl., og veitir ekki af. Sjálfsagða tel ég í sambandi við þessa lagasetningu framlagsgreiðslu til hækkunar á fiskverði frá úrskurði yfirnefndar 20. þ. m. Innskot í frv., sem gert var í hv. Nd., að till. meiri hl. fjhn., þar sem framlag til verðhækkunar er ákveðið 6%, tel ég of lítið. Þá tel ég við eiga, að inn í þessa löggjöf verði felld ákvæði um lækkun vaxta af afurðalánum og enn fremur ákvæði um afurðalánin, bæði vegna sjávarútvegs og landbúnaðar, sem sé það, að afurðalánin verði hækkuð frá því, sem þau eru nú.

Lækkun útflutningsgjaldanna samkv. 3. gr. er spor í rétta átt, þótt stutt sé stigið.

5. gr., um hækkun hins almenna söluskatts úr 3% í 5½%, er ósvinna. Þessi hækkun nemur um 300 millj. á heilu ári og verður þá um það bil 1/10 af álöguþunga allra gjalda til ríkisins, eins og þau eru ákveðin, það sem af er þessu ári. Enginn veit vitanlega, hve oft koma fram frv. til að bæta á álöguþungann, þetta eru í raun og veru 3. fjárlögin, eins og bent var á í hv. Nd. Þriðja stigs söluskatturinn er skattur án tillits til efnahags og því löngum í algerlega öfugu hlutfalli við gjaldgetu fólks. Hann heimtist illa oft og einatt, þannig að það, sem ríkið á að fá, verður eftir í vasa milliliðarins, sem innheimtir skattinn hjá almenningi. Skattur þessi er, þegar um dýrtíð er að ræða, eitt allra viðsjálasta álöguform. Þessa skatthækkun á að fella úr frv. Ríkissjóður hefur haft mikinn greiðsluafgang tvö síðustu ár vegna frekra gjaldaálagninga. Enn er í fjárl. þessa árs stefnt að slíkri niðurstöðu. Ríkissjóður getur því vel án söluskattshækkunarinnar tekið á sig að standa straum af þeim útgjöldum, sem leiðir af þessu frv. Hvers vegna ætti ríkissjóður að hrúga upp sjóðum, þegar framleiðsla landsmanna, undirstaða efnahagsins, á í slíkri vök að verjast sem hæstv. ríkisstj. staðfestir með þessu frv. sínu?

Ég minntist áðan á efni 6. gr. frv. Þar fer hæstv. ríkisstj. fram á að fá heimild til að mega fresta til næsta árs verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til á fjárl. yfirstandandi árs. Sama gildir um greiðslur framlaga til framkvæmda annarra aðila, sem ákveðin eru í fjárl. þessa árs. Með þessu vill hæstv. ríkisstj. fá einræðisvald á þessu sviði. Hún vill fá að ráða því algerlega, hvort unnið verður að vegalagningu, brúagerð, hafnargerðum, skólahúsabyggingum, sjúkrahúsabyggingum, rafvæðingarframkvæmdum o.s.frv. á þessu ári, eins og nýafgreidd fjárlög gera ráð fyrir, eða ekkert unnið. Og hún vill hafa vald til að gera upp á milli framkvæmda, láta t.d. ekki vinna að þessu, þótt unnið sé að hinu. Þetta nær engri átt.

Hins vegar eiga fjárfestingarframkvæmdir annarra aðila, sem yfir fjármagni ráða, að leika lausum hala, þeir mega byggja stórhýsi og gera hvað sem er. Aðeins hefur því verið skotið inn í frv. af stjórnarliðinu í hv. Nd., að ríkisstj. eigi að leita samstarfs við lánastofnanir, sjóði, sveitarstjórnir og einkaaðila um að halda fjárfrekum framkvæmdum innan hóflegra takmarka árið 1964. Lengra er ekki þar gengið og þetta sett inn í frv. til málamynda, eftir að gagnrýni var fram komin. Þarna er eðli stjórnarstefnunnar grímulaust og berhöfðað á ferðinni.

En svo er annað, sem kemur fram í sambandi við þessa ósk ríkisstj. um heimild til að fresta öllum verklegum ríkisframkvæmdum eftir geðþótta. Það er, hve hún telur ástandið hjá sér orðið kolsvart í lok 4 ára stjórnartímans, hve hún er svartsýn á framtíðina. Hún telur, að svo horfi, að grípa verði til þess að fresta verklegum framkvæmdum ríkisins, sem eru í mörgum tilfellum mjög aðkallandi þjónusta við atvinnulífið og í þágu brýnna þarfa heilla byggðarlaga víðs vegar um land. Hæstv. forsrh. sagði að vísu áðan, að ekki væri „sýnt eða öruggt“, að þessi heimild yrði notuð, en sterkara kvað hann ekki að orði. Geta má nærri, að sterkara hefði verið að orðið kveðið, ef það hefði þótt fært skv. stjórnarstefnunni.

Á árum seinna stríðsins mun hafa verið einu sinni eða tvisvar heimilað að fresta slíkum framkvæmdum að ¼ eða svo, ef nauðsyn krefði, vegna ástæðna af völdum heimsstyrjaldarinnar. Nú metur hæstv. ríkisstj. ástandið hjá sér þannig, að útlit sé fyrir, að fresta geti þurft öllum verklegum framkvæmdum ríkisins á þessu ári. Svo gífurlegt er hennar stríð og niðurstaða þess á 4 árum. Fyrr má nú rota en dauðrota. Ég tel fráleitt, að Alþ. veiti þessa heimild. Verði þörf á að fresta framkvæmdum, á Alþ. sjálft að taka um það ákvörðun. Það á alls ekki að afsala um þetta valdi sínu til hæstv. ríkisstj.

En þrátt fyrir það, þótt ég sé varla eins svartsýnn og ríkisstj. er eftir 6. gr. þessa frv. að dæma, þá er ég sammála því, sem hæstv. forsrh. sagði í hv. Nd., þegar hann mælti fyrir frv. Hann sagði: „Haldgóð úrræði fást ekki, nema um þau náist víðtækt samkomulag.“ Þetta eru hans orð: „Haldgóð úrræði fást ekki, nema um þau náist víðtækt samkomulag.“ Ég tel þetta mjög skynsamlega mælt. Því miður hefur hæstv. ríkisstj. ekki ástundað það á valdatíma sínum að ná víðtæku samstarfi. Ef hún hefði gert það, mundi betur hafa til tekizt. Þegar hún 1960 var að fara af stað með efnahagsmálabrölt sitt, fluttum við framsóknarmenn till. um, að skipuð yrði 8 manna nefnd, 2 frá hverjum þingflokki, til að leita víðtæks samkomulags um efnahagsaðgerðir. Hinir sjálfumglöðu menn á morgni stjórnarstarfsins felldu þá till. hiklaust. Þeir töldu sinn nauma meiri hluta víst nógu víðtækan. Við framsóknarmenn flytjum enn við umr. þessa neyðarúrræðafrv. hæstv. ríkisstj. sams konar till, og 1960. Við teljum okkur það skylt, ekki hæstv. ríkisstj. vegna, heldur þjóðarinnar vegna, því að við þykjumst þess fullvissir, að það sé rétt, sem hæstv. forsrh. sagði: Haldgóð úrræði fást ekki, nema um þau náist víðtækt samstarf. Þó að hæstv. forsrh. segði þetta ekki í framsöguræðu sinni áðan, sagði hann þetta í hv. Nd., og ég trúi því ekki, að honum hafi snúizt hugur á þeirri stund, sem síðan er liðin.

Nú eru hv. stjórnarflokkar reynslunni ríkari en þeir voru 1960. Nú er ekki bjart, heldur myrkt fyrir sjónum þeirra, eins og frv. ber með sér og mörg orð, sem þeir hafa látið falla. Meiri hl. þeirra er ekki síður naumur en 1960 og fenginn í kosningunum s.l. sumar út á rangar skýrslur um efnahagsástandið. Nú ættu þeir að samþykkja till. okkar um hið víðtæka samstarf við að leita úrræða í efnahagsmálavandanum. Stjórnarflokkarnir í hv. Nd. felldu till. að vísu í gær, en til þess er Alþ. í tveim deildum, að málin séu gerr athuguð og metin.