18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í D-deild Alþingistíðinda. (3397)

807. mál, vörukaupalán í Bandaríkjunum

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur það tíðkazt seinustu 7 árin, að hæstv. ríkisstj. hefur hlotið ákveðinn skerf af offramleiðslubirgðum Bandaríkjanna í formi vörukaupalána, sem bera heitið PL-480. Ég hef leyft mér að bera hér fram fsp. í 4 liðum um þessi vörukaupalán, og hljóða spurningarnar þannig:

„1. Hve miklu nema svonefnd PL-480 lán, sem tekin hafa verið í Bandaríkjunum, þ.e. andvirði keyptra vara, sundurliðað frá ári til árs, ásamt ónotuðum kaupheimildum?

2. Hverjum hafa lán þessi verið framlánuð? 3. Hve miklu nema þær greiðslur samanlagt, sem Bandaríkin hafa fengið endurgreiddar í íslenzkum peningum fyrir Marshallfé og PL-480 lán og þau mega ráðstafa að vild sinni hér á landi?

4. Er ríkisstj. kunnugt um, hvernig Bandaríkjastjórn og bandaríska sendiráðið hafa ráðstafað þessu fé hér á landi?“

Eins og sjá má af þessum spurningum, er hér fyrst og fremst um tvö mál að ræða. Annars vegar er spurt um sjálf lánin, upphæð þeirra, bæði sundurliðuð og samanlagt, og hvernig þeim hafi verið ráðstafað. Hins vegar er spurt um þann hluta af mótvirði vörulánanna, sem fallið hefur í hlut Bandaríkjastjórnar hverju sinni og hún hefur heimild til að ráðstafa að sinni vild hér á landi með aðstoð bandaríska sendiráðsins.

Um fyrra atriðið hefur áður verið spurt hér í þinginu, fyrir tæpum 4 árum. Hæstv. fjmrh. veitti þá upplýsingar um andvirði þeirra vara, sem þá höfðu verið keyptar, hve miklu af þessu fé mætti ráðstafa til útlána hér innanlands og til hvaða framkvæmda því hefði verið varið. Þar sem vörukaupalán munu árlega hafa verið tekin í Bandaríkjunum, er fróðlegt að fá nú nýjar upplýsingar um stöðu þessara mála í dag.

Síðara atriðið, sem fólgið er í 3. og 4. spurningunni, hefur ekki komið beint til umr. í hv. Alþingi, svo að mér sé kunnugt um. Að vísu var það upplýst á sínum tíma, fyrir tæpum 10 árum, að Bandaríkjastjórn fengi að ráðstafa 5–10% af mótvirði Marshallfjárins til eigin Þarfa á Íslandi, og vissu menn, að þessi upphæð skipti tugum millj. í íslenzkum peningum. Hins vegar er mér ekki kunnugt um, að komið hafi fram opinberlega, hvaða hliðstæð ákvæði gildi um hin árlegu PL-480 lán. En þó kann að vera, að þetta standi í samningnum, en ég hef ekki séð hann. Með þriðju spurningunni er spurt um, hve há sú fjárhæð sé orðin, sem Bandaríkjamenn hafa fengið greidda aftur í íslenzkum peningum og þau hafa mátt ráðstafa hér á landi að eigin geðþótta, annars vegar fyrir Marshallframlögin og hins vegar fyrir PL-480 lánin. Á sínum tíma var vitað, eins og ég sagði, að upphæðin, sem bandaríska sendiráðið hafði til ráðstöfunar, skipti tugum milljóna, en nú væri fróðlegt að vita, hvort sú upphæð væri farin að telja hundruðin. Loks er spurt, hvort ríkisstj. sé kunnugt um, hvernig bandaríska sendiráðið hafi ráðstafað þessu fé.

Engum heilvita manni mun til hugar koma, að öllu þessu fé hafi verið eytt í skrifstofukostnað sendiráðsins, og þó að hugsanlegt væri, að eitthvað af þessu fé hefði runnið til hernámsframkvæmda, er það ekki verulega líklegt, enda eru slíkar framkvæmdir yfirleitt kostaðar af sérstökum fjárframlögum til Bandaríkjahers. Hins vegar hefur það verið á almannavitorði, að Bandaríkjamenn hafa styrkt með einhverju af þessu fé ýmsa þá starfsemi hér innanlands, sem þeim hefur verið sérstaklega að skapi. Því er spurt, hvort ríkisstj. hafi ekkert eftirlit með því, til hvaða aðila hér innanlands þessar miklu fjárhæðir fara, og sé svarið neitandi, hlýtur hæstv. ráðh. að svara því, hvort hæstv. ríkisstj. finnist ekki bæði óeðlilegt og óheilbrigt, að erlent sendiráð hafi tugi og jafnvel hundruð millj. Í íslenzkri mynt umfram venjulegar Þarfir til hömlulausrar ráðstöfunar í íslenzku efnahagslífi og íslenzkum stjórnmálum.