11.11.1963
Neðri deild: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

21. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta er um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga, og hefur slíkt frv. verið samþykkt á þingum undanfarið alllengi eða á annan áratug. Aðalefni þess er að heimila að innheimta á næsta ári með viðauka stimpilgjald, leyfisbréfagjöld, gjald af innlendum tollvörutegundum, bifreiðaskatt og innflutningsgjald af hjólbörðum og gúmmíslöngum á bifreiðar. Frv. er að þessu leyti samhljóða lögum, sem samþykkt hafa verið á mörgum undanförnum þingum. Hins vegar eru felld niður ákvæði um álag á verðtoll og vörumagnstoll og um bráðabirgðasöluskattinn, en ákvæði um þetta eru í tollskránni, sem tók gildi 1. maí síðastliðinn.

Þetta frv. lá fyrir Ed. og var afgr. þar ágreiningslaust. Ég vænti þess, að frv. fái sömu afgreiðslu í þessari hv. deild, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.