06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

218. mál, stóreignaskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki miklu við að bæta. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ólíku saman að jafna. Menn færu svo oft í mál út af útsvarinu sínu og tekjuskattinum, það væri ekki hægt að biða eftir öllum þeim sæg af málum. En þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Það er ekki venja manna, heldur hitt, að kæra útsvörin og tekjuskattinn. En það er samt oft í gangi fjöldamargt af málum út af prinsip-atriðum í sambandi við tekjuskattsl. eins og prinsipatriðum í sambandi við stóreignaskattsl., og dettur samt engum manni í hug að bíða eftir því með innheimtur, að þar sé algerlega hreint borð. Það er þetta, sem máli skiptir.

Hæstv. ráðh. segir, að stóreignaskattsl. frá 1957 séu í mörgum meginatriðum öðruvísi en stóreignaskattsl. frá 1950. Þetta er algerlega rangt hjá hæstv. ráðh., eins og ég upplýsti áðan, því að í l. frá 1957 eru í öllum aðalatriðum, bæði að því er varðar skattlagningu á eignir í félögum og eins að því er varðar matið á eignum til skatts, hliðstæð ákvæði og í flestum Þeim atriðum alveg eins ákvæði og l. frá 1950. Hitt er svo annað mál, að menn fundu upp á því að reyna að nota alls konar undanbrögð til að komast hjá því að greiða skattinn eftir l. frá 1957, sem mönnum hafði ekki verið eins ríkt í huga 1950.

Ég hef aldrei sagt, að það hafi átt að innheimta skattinn með harðri hendi, áður en prinsip-dómurinn gekk um matið á hlutabréfunum, eins og hæstv. ráðh. vildi halda fram að ég hefði sagt. Ég sagði þvert á móti, að ég teldi, að það hefði verið eðlilegt að bíða eftir þeim dómi, vegna þess að hann var svo stórkostlegt atriði og gat raskað grundvellinum svo mjög. En þegar sá dómur var kominn, átti að mínu viti að ganga í eðlilega innheimtu á þessum skatti, eins og gert er, þegar hliðstætt stendur á í sambandi við tekju- og eignarskattinn.