30.01.1964
Efri deild: 41. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. flytur till. um, að af hækkun söluskattsins skv. þessu frv. skuli 1/5 hluti renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hann lýsti því fögrum orðum, hversu gott verk það hefði verið og vinsælt 1960 að ætla sveitarfélögunum hluta af söluskattinum, sem þá var lögleiddur, en þá var ákveðið, að sveitarfélögin skyldu fá 20% af hinum nýja söluskatti. Á síðasta þingi var ákveðið, um leið og innflutningssöluskatturinn var niðurfelldur, að sú skipan skyldi verða á þessum málum, að jöfnunarsjóður sveitarfélaganna skyldi fá fimmtung af 3% smásöluskattinum og 5% af verðtollinum skv. nýju tollskránni. Skv. þessu er gert ráð fyrir í gildandi fjárl. fyrir 1964, að sveitarfélögin fái um það bil 140 millj. til úthlutunar milli sveitarfélaga.

Sú fjáröflun, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., 2½% söluskattur, er ætlað að standa undir alveg tilteknum útgjöldum, sem að mjög litlu leyti snerta sveitarfélögin. Með þessu frv. er áformað að afla tekna, sem mundu nema á þessu ári u.þ.b. 260 millj., eða nánar tiltekið er áætlunin 262 millj. af þessum 2½%. Í hvað eiga svo þessar tekjur að fara? Skv. frv. eiga þær að fara, fyrst og fremst skv. 1. gr., í endurbætur hjá frystihúsunum eða hagræðingu, 43 millj., sveitarfélögin eiga ekki að taka neinn þátt í þeim kostnaði. Í öðru lagi eiga að fara 55 millj. til togaranna, sumpart í rekstrarstyrki og sumpart til fiskileitar. Sveitarfélögin eiga ekki að taka neinn þátt í þeim kostnaði. Í þriðja lagi eiga 30 millj. að ganga til fiskveiðasjóðs. Sveitarfélögin eiga ekki að taka neinn þátt í því. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir, að um 52 millj. gangi til hækkunar á fiskverðinu. Sveitarfélögin taka engan þátt í þeim tilkostnaði. Í fimmta lagi eru svo 55 millj. til að standa undir niðurgreiðslum þeim, sem komið hafði til orða að lækka, en nú er ákveðið að haldi áfram fyrst um sinn. Sveitarfélögin taka ekki þátt í útgjöldum vegna niðurgreiðslna. Þarna eru samtals 235 millj. af þessum 262. Sjötti liðurinn eru svo almannatryggingarnar, en það er gert ráð fyrir, eins og frv. liggur nú fyrir þinginu, að bætur almannatrygginga hækki um 15% til samræmis við kauphækkanirnar í des. Nú er það að vísu rétt, að vegna kauphækkana og hækkana á útgjöldum almannatrygginga aukast útgjöld sveitarfélaganna nokkuð. Hér er þó ekki um að ræða nema örlítið brot af þeim heildarútgjöldum, sem þetta frv. er miðað við og á að afla tekna til. Enn fremur má geta þess, að með hækkandi heildartekjum útsvarsgreiðenda, en það er auðvitað kunnugt, að heildartekjur útsvarsgreiðenda verða allmiklu hærri á árinu 1964 en 1963, þá hækka líka tekjur sveitarfélaganna af útsvörum töluvert að óbreyttum útsvarsstigum.

Að öllu þessu athuguðu er ekki sjáanlegt, að nein gild rök liggi til þess að ætla sveitarfélögunum hluta af þeim söluskatti, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þar sem sveitarfélögin taka yfirleitt ekki þátt í þeim útgjöldum eða tilkostnaði, sem frv. fjallar um.