04.02.1964
Neðri deild: 51. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. dró í efa, að þessar hækkanir á lífeyrisgreiðslum samkv. almannatryggingalögunum væru til jafns, að mér skildist, við þá almennu launahækkun, sem orðið hefur í landinu á þessu tímabili. Hækkunin á bótunum hefur orðið nú með þessu frv. tvisvar sinnum 15%, eða samtals í kringum 32%. Hann taldi ekki ástæðu til í þessu sambandi að minnast á ýmsar aðrar breytingar, sem orðið hafa á tryggingalögunum, eins og t.d. þær, að landið hefur verið gert að einu verðlagssvæði, og þær bætur, sem menn á öðru verðlagssvæði hafa fengið á þessu tímabili, hafa verið miklu meiri en sem svarar þeim hækkunum, sem orðið hafa á verðlagi. En ég vil líka benda á, að þær hækkanir, sem orðið hafa á almennu verðlagi í landinu á árinu 1963, eru minni og það verulega minni en 32%..

Hann sagði, að opinberir starfsmenn hefðu fengið 45% hækkun, og það mun vera rétt. En í því sambandi vil ég benda á, að sú hækkun, þessi 45%, er fyrst og fremst fram komin vegna þess, að hærri launaflokkur opinberra starfsmanna hafa fengið verulega meiri hækkun í sinn hlut en almenningur hefur fengið í landinu, vegna þess að mismunurinn á milli þeirra hæst launuðu og þeirra lægst launuðu var ekki eins mikill og ástæða hafði verið til að hann væri, og það gerir þessa hækkun svo mikla eins og hann nefndi eða 45%.

Hann minntist líka á verzlunarfólkið. Um þá hækkun, sem það fær, vitum við ekki neitt á þessu stigi málsins og þess vegna ekki eðlilegt, að það sé dregið inn í umr. En ég vil halda því fram, að sú hækkun, sem fengizt hefur á lífeyrisgreiðslum almennings í landinu á s.l. árum, hafi vaxið miklu meira en dýrtíðaraukningin hefur orðið. Þó að hækkanir hafi orðið á dvalarkostnaði elliheimila á þessu tímabili og alveg sérstaklega á dvalarheimili aldraðs fólks á elliheimilinu Grund, þá segir það út af fyrir sig ekki mikið, vegna þess að þeir, sem þar dveljast, fá sinn dvalarkostnað venjulegast og ég vil segja flestir á þann hátt, að hann er greiddur að fullu af almannatryggingunum og hlutaðeigandi sveitarsjóði, þannig að þeir koma ekki til með að greiða neinn hluta af sínum dvalarkostnaði á sjúkrahúsinu, vegna þess að það er heimild í tryggingalögunum til þess, að bæturnar séu hækkaðar allt upp í 100% handa þeim, sem rúmliggjandi eru eða dvalarmenn á elliheimilunum.

Hv. þm. vildi með þessu reyna að gera lítið úr þeim hækkunum, sem ríkisstj. hefur ætlað þessu fólki, en geta vil ég þess þó í lokin, að Framsfl. bar fram, þegar 15% hækkunin var ákveðin fyrir nýár, till. um, að þessi kostnaður yrði hækkaður, ekki um 32%, heldur um 25% og stjórnarandstaðan hefur í hv. Ed. borið fram frv. um 15% hækkun, alveg nákvæmlega eins og ríkisstj. hefur borið fram, þannig að ég ætla, að með þessari hækkun sé ekki ósanngjarnlega í sakirnar farið og að þeir, sem bótanna eiga að njóta, séu ekki verr haldnir, og ég vil segja að sumu leyti talsvert betur með þessari hækkun en þeir voru áður.