04.02.1964
Neðri deild: 51. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. í tilefni af því, sem hæstv. félmrh. sagði um till. þá, sem við framsóknarmenn fluttum um hækkun bóta samkv. almannatryggingunum fyrir jólin, var hún miðuð við það ástand, sem þá var. Að sjálfsögðu var gert ráð fyrir því, að ef hækkanir yrðu á kaupgjaldi frá þeim tíma, sem sú till. var flutt, þá kæmi það til viðbótar síðar meir, og meira að segja var hún miðuð við, að það kæmi þá 25% hækkun á þær uppbætur, sem launþegar fengju fyrir nokkurn hluta s.l. árs, í staðinn fyrir það, að þeir fengu ekki nema 15% samkv. till. ríkisstj. Það var skýrt tekið fram hér í umr. af hálfu þeirra manna, sem fluttu þessa till., sem framsóknarmenn stóðu að, að þetta væri eingöngu miðað við þær kauphækkanir og dýrtíðarhækkanir, sem þá voru orðnar, en svo að sjálfsögðu yrði að bæta að nýju, ef frekari kauphækkanir og verðhækkanir yrðu síðar, þannig að ef það hefði verið farið að okkar till., hefði komið 25% hækkun strax þá og 15% nú samkv. því frv., sem nú liggur fyrir og við styðjum. En hins vegar hefur verið talið tilgangslaust að vera að flytja frekari hækkun að þessu sinni, eins og gert var seinast, vegna þess að það er orðið greinilegt, hvað hæstv. ríkisstj. vill, og þess vegna tilgangslaust að vera að flytja hér slíka till. Hins vegar var vert að reyna að freista þess á s.l. hausti, hvort ekki væri hægt að þoka neinu áleiðis í þessum efnum frá því, sem hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir þá.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um elliheimilið Grund, vit ég enn á ný geta þess, að ég hef tekið þetta dæmi vegna þess, að ég tel það nokkuð ljóst um það, hvernig dýrtíðin hefur þróazt í landinu á undanförnum árum. Það skiptir ekki neinu sérstöku máli í þessum efnum, hvort sumt af því fólki, sem er á Grund eða öðrum elliheimilum, nýtur einhvers frekari styrks en ellilífeyris. Það, sem er aðalatriðið, er það, að þessar hækkanir, sem hafa orðið á dvalarkostnaði Grundar, sýna nokkurn veginn þá almennu þróun, sem hefur átt sér stað í landinu í þessum efnum, og svipaðar hækkanir hafa að sjálfsögðu átt sér stað á framfærslukostnaði þeirra, sem ekki eru á elliheimilum, því að sá framfærslukostnaður hefur að sjálfsögðu lotið sams konar lögmálum. Og ég tel það miklu öruggara að leggja til grundvallar áþreifanleg dæmi um það, hve framfærslukostnaðurinn hefur hækkað í landinu á þessum árum, heldur en þótt það sé lagt til grundvallar, hvað hægt er að lesa út úr tilbúnum tölum um þetta efni, eins og t.d. framfærsluvísitalan gerir.

Það er líka alrangt, sem hæstv. félmrh. hélt fram, að það nægi til að bæta dýrtíðina að fullu, ef bæturnar hækka prósentvís eins mikið og framfærsluvísitalan. Þetta stafar einfaldlega af því, að bæturnar samkv. almannatryggingalögunum koma ekki niður nema á nokkurn hluta framfærslukostnaðarins, eða eitthvað í kringum 40%. Ef það væri þannig, eins og ég hef verið að benda á, að uppbæturnar ættu að ná til alls framfærslukostnaðarins, þyrftu þær að sjálfsögðu að vera miklu hærri en hér er gert ráð fyrir, því að bæturnar ná núna aðeins til nokkurs hluta framfærslukostnaðarins, eða eitthvað í kringum 40% hjá gamla fólkinu, eftir að þessi hækkun hefur átt sér stað. Og þó að hægt sé að benda á það, eins og ráðh. gerði, að uppbætur samkv. almannatryggingum hafi hækkað eitthvað meira en framfærsluvísitalan hækkaði á s.l. ári, liggur í augum uppi, að það nægir ekki til þess að bæta að fullu þá hækkun, sem hefur orðið á framfærslukostnaði, þar sem bæturnar ná aðeins til ákveðins hluta hans.

Mér finnst líka rétt að benda á það í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. er strax byrjuð á því að taka aftur nokkurn hluta þeirrar hækkunar á bótum, sem felst í þessu frv. Nú fyrir nokkrum dögum voru afgr. hér á Alþingi lög um verulega hækkun á söluskatti. Þessi hækkun á söluskattinum er það mikil, að þó að aðeins sé miðað við þá áætlun, sem er nú í fjárl., þá nemur þessi hækkun um 1600 kr. á hvert mannsbarn í landinu, þegar þessi hækkun er að fullu komin út í dýrtíðina. Í þeim efnum dugir ekki að benda á það, hvað vísitalan hækkar í fyrstu vegna söluskattshækkunarinnar, því að söluskattshækkunin á síðar eftir að koma inn í framfærslukostnaðinn á margan annan hátt en sést á framfærsluvísitölunni til að byrja með. En það er kannske mælikvarðinn á það, hvaða áhrif söluskattshækkunin hefur á framfærslukostnaðinn, að deila þessari hækkun nokkurn veginn jafnt á hvert mannsbarn í landinu, og þá sést, að þessi hækkun verður um 1600 kr. á mann. Bara með þessari einu stjórnarráðstöfun er tekinn aftur nokkru meira a.m.k. en helmingurinn af þeim uppbótum, sem gamla fólkið fær samkv. því frv., sem hér er verið að afgreiða, og eru þó margar aðrar hækkanir, sem verða á þessu ári og leiðir af því, sem gert var á síðasta ári, óframkomnar, þannig að það er nokkurn veginn ljóst, að þær uppbætur, sem bótaþegar almannatrygginganna fá samkv. þessu frv., er búið að éta upp og miklu meira með söluskattshækkuninni og öðrum slíkum ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur átt þátt í og unnið að að undanförnu.

Það dæmi, sem ég hef hér nefnt um elliheimilið Grund, sýnir, svo að ekki verður á móti mælt, að hinn almenni framfærslukostnaður í landinu hefur hækkað mun meira hlutfallslega undanfarin 5 ár en svarar til þeirra bóta, sem almenningur hefur fengið, þrátt fyrir þær krónuhækkanir, sem hafa orðið á bótunum. En það er alls ekki rétt hjá þessum hæstv. ráðh., að ég hafi verið að gera nokkuð lítið úr þeim hækkunum, sem hafa átt sér stað í þessum efnum að undanförnu. Það er síður en svo. Ég álit, að þær hafi stefnt í rétta átt. En þær breyta hins vegar ekki því, að vegna þeirrar stjórnarstefnu, sem hefur verið fylgt í landinu á undanförnum árum, hefur dýrtíðin vaxið þannig, að hún hefur gleypt hinar auknu bætur að fullu og raunar miklu meira, þannig að bótaþegar hafa staðið verr á eftir en áður þrátt fyrir þær hækkanir, sem hafa orðið. Þess vegna þyrftu þessar hækkanir að verða talsvert meiri, ef aðstaða bótaþega ætti ekki að vera lakari en áður var. Þessari staðreynd er ekki hægt að hnekkja, og við hana verður hæstv. ríkisstj. að sætta sig, og þess vegna er það ekki hægt fyrir hæstv. félmrh., þótt hann hafi átt sinn þátt í þessum hækkunum á bótunum, að vera neitt sérstaklega státinn yfir þeim, vegna þess að hann hefur átt þátt í því á öðrum sviðum, að dýrtíðin hefur vaxið svo mikið, að þessar bætur hafa verið gerðar að engu og bótaþegarnir staðið verr eftir en þeir áður gerðu. Þetta er mikil sorgarsaga, og það eru ekki neinar horfur á því, að þetta sé neitt að breytast, eins og sést á söluskattshækkuninni, sem hér átti sér nýlega stað, þar sem með þeirri einu aðgerð er tekinn aftur af bótaþegum, t.d. gamla fólkinu, meira en helmingurinn af þeirri hækkun, sem felst í þessu frv.