28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er alkunn staðreynd, að því hæpnari málstað sem menn hafa að verja, því háværari verða þeir og illyrtari, og mér fannst hvort tveggja sannast mjög vel á hv. 5. þm. Vestf. í þessari síðustu ræðu hans. Hann var mjög hávær og mjög skömmóttur, og það bendir hvort tveggja til þess, að mínu viti, að samvizkan hafi ekki verið í sem beztu lagi. Hann notaði stór orð eins og óskammfeilni og ósannindi og ýmislegt fleira þess háttar, en ég held, að það hafi verið hávaðinn, sem átti að breiða yfir það, að þessi orð hvor tveggja voru ekki sanngjörn. Hann kallaði það óskammfeilni af mér að minnast á, að hann hefði verið í ríkisstj., sem félmrh., meira að segja, að vísu án þess að fara með tryggingamálin, — ég veit það og hef alltaf vitað það, — en án þess í 2 ár a. m. k., svo að maður segi nú ekki meira, að hann íaði að því, að þessum lögum yrði breytt til batnaðar fyrir bótaþegana. Og mér hefur verið tjáð, — ég endurtek það aftur, og ég skal bæta við: af ráðh. Alþfl., sem voru í vinstri stjórninni 1956–1958, að þeir hafi oft orðað það, hvort ekki ætti út í þessar hækkanir eða breyt. til bóta að fara, en það hafði engan hljómgrunn fengið í ríkisstj., og a. m. k. er það víst, að engin till. kom frá henni í þessa átt, engin till. Ráðh. Alþfl. taldi ekki, að hann gæti borið fram þessar till., þegar ekki fékkst samstaða um það í ríkisstj. Þetta mun vera sannleikurinn í málinu. Ég var ekki í ríkisstj. þá og vissi ekki, hvað fram fór, en ég hef enga ástæðu til þess að efast um þetta. Ég er ekki að segja, að það hafi verið eðlilegt, og hef aldrei sagt, að það væri eðlilegt, að hv. þm. hefði á Alþ. haft frumkvæði að því, að þessar breyt. kæmu fram, en hann átti ekki a. m. k. að standa á móti því, að ríkisstj. eða sá maður í ríkisstj., sem fór með þessi mál, flytti þau. (HV: Það hef ég aldrei gert.) Ja, á það skal reynt.

Hv. þm. vildi líka segja, að hann hefði ekki stutt verkfræðinga, lækna og flugmenn í kröfum þeirra fyrir hækkuðum launum, en þeir eru, eins og kunnugt er, einir hæst launuðu menn í landinu. En hann sagði ekki nema hálfan sannleikann. Hann sagðist aðeins hafa verið á móti því hér á Alþ., að kjör þeirra yrðu afgreidd með gerðardómi, og hvað læknana snerti með brbl., því að í þeirri umr, man ég eftir, að hv. ræðumaður tók þátt, því að ég flutti þau lög, og hann vítti það ákaflega, að út í það hefði verið farið að stöðva hækkunina með brbl., alveg eins og hann vítti það um hina aðilana, að það hafði verið komið í veg fyrir þeirra hækkanir með opinberum aðgerðum. En hvað þýddi þetta og hvað var á bak við þetta? Þegar brbl. um stöðvun hækkananna voru sett, var það gert til þess að koma í veg fyrir, að hækkun næði fram að ganga, sem þeir voru um það bil að semja sig til. Það var talið óheilbrigt, að kjör þessara manna hækkuðu meira en orðið var, og þess vegna yrði að tryggja það, að það yrði ekki, og koma í veg fyrir það með lögum. Og það var þetta, sem verið var að gera, það var verið að koma í veg fyrir hækkunina með lagasetningunni. En á móti lagasetningunni var hv. þm., og það þýddi þá auðvitað, að hann hafði verið með því, að hækkun þeirra hefði náð fram að ganga. Það er alveg ljóst, að þegar hann er á móti því að stöðva hækkunina með lagasetningu, er hann um leið með því, að hækkunin hefði náð fram að ganga með samningum, eins og hún var á góðum vegi með að gera. En hvað þýðir það, ef þessir hæst launuðu menn fá hærri laun en — við skulum segja — góðu hófi gegnir? Það þýðir, að til þessara manna er skorin vænni sneið af þjóðarkökunni, ef ég má orða það svo, en svo, að þeir, sem á eftir koma og lægra launaðir eru, geti fengið eins mikið. Það, sem þessir menn fá, er frá þeim lægst launuðu tekið. Þess vegna, þó að hv. þm. vilji í dag gera lítið úr umhyggju núv. ríkisstj. fyrir þeim lægst launuðu í landinu, þá ber hún þó svo mikla umhyggju fyrir þeim, að hún vildi ekki, að þeir, sem hæst launaðir væru í landinu, tækju frá þeim þann möguleika, sem þeir höfðu til hækkunar, en það vildi hv. þm., forseti Alþýðusambandsins. Hann orðaði þetta á mjög viðkunnanlegan hátt, má segja. Hann orðaði það þannig, að hann vildi virða rétt stéttarfélaganna til þess að afgera mál sín með samningum. En hvað þýðir það, ef stéttarfélög hálaunamanna fá í friði með samningum að koma fram þeim launahækkunum, sem svo eru miklar, að það verður ekki mikið eftir til skiptanna handa hinum þjóðfélagsþegnunum?

Þá vildi hv. þm., að viðmiðun sú, sem höfð er í þessu frv. um hækkun á bótagreiðslum almannatrygginganna, yrði miðuð við þá hækkun, sem opinberir starfsmenn hafa fengið. Ég sagði áður, og hann staðfesti það í sinni ræðu, að sú hækkun, sem bótagreiðslur almannatrygginganna hafa verið miðaðar við að undanförnu, er hækkunin, sem orðið hefur á almennum launakjörum í landinu. Það er rétt, að á eftir þeim almennu launahækkunum, sem orðið hafa, hafa komið nokkrar hækkanir til opinberra starfsmanna, stundum skömmu síðar og stundum nokkru síðar, en yfirleitt var áður þessi hækkun til opinberu starfmannanna miðuð við þær hækkanir, sem orðið höfðu hjá hinum almennu launþegum. Á þessu varð breyting í ár, vegna þess að samkv. kröfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem ég ætla að stjórnað sé af flokksbræðrum hv. 5. þm. Reykv. og 5. þm. Vestf., voru launakjör opinberra starfsmanna tekin upp til róttækrar endurskoðunar og gerður meiri munur en áður hafði verið á hinum hæst og lægst launuðu. Og þar voru sannarlega ekki flokksmenn þessara hv. þm. að klípa við nögl. Og þó að þessum hæst launuðu hafi verið veitt með kjaradóminum mikil hækkun, sem ég persónulega er á að í mörgum tilfellum hafi verið of mikil, voru kröfurnar, sem gerðar voru af þessum aðilum og flokksbræðrum þessara hv. þm., svo miklu hærri en þarna kom til greina, að til stórkostlegra gagnráðstafana hefði orðið að grípa. Það var alveg gefið. Þessar breytingar, sem gerðar voru á launakjörum opinberra starfsmanna, voru — a. m. k. var það haft á orði — miðaðar við það, að mönnum í ábyrgðarmiklum stöðum og með nokkuð mikla menntun yrði greitt miklu betur en áður var. Hin almennu launakjör í landinu gátu ekki miðazt við þetta, það var alveg ljóst. Það kemur ekki til mála, þó að hækkunin hjá opinberum starfsmönnum hafi orðið eins mikil og hún hefur orðið, sem ég tel, eins og ég sagði áðan, of mikla á mörgum sviðum, að hún geti farið út í það almenna kaupgjaldskerfi í landinu, án þess að til mjög róttækra gagnráðstafana þurfi að grípa. Þetta veit ég að hv. þm. veit og skilur. Það er þess vegna ekki að vænta þess, að við þær launabreytingar, sem til framkvæmda kunna að koma á næstunni, verði viðmiðun höfð af þessu fólki. Þar kemur allt annað til greina. Það er verið að bæta upp margra ára ranglæti, að því er fullyrt er af hinum opinberu starfsmönnum. En launakerfið almennt í landinu þolir ekki þá breytingu. Viðmiðun bótagreiðslna hefur áður verið höfð við það almenna launakerfi í landinu. Það hefur fengið í ár 5 plús 7½% í uppbót, og frv., sem hér liggur fyrir, miðar við það, eða 15%, og lofar því í viðbót, að ef almennar hækkanir verða meiri, muni málið á ný verða tekið til athugunar.

Ég held, að ég sé svo ekki að munnhöggvast við hv. þm. öllu meira. Ég fann, að hávaðinn og illyrðin áttu rót sína að rekja til vonds málstaðar og slæmrar samvizku. En ég skal ekki fara frekar út í það, hann má hafa hvort tveggja fyrir mér, ef hann vill, og hafa þann hávaða um, sem honum er lagið. En ég vil aðeins segja, að það fer illa á því að hafa dulið þennan mikla áhuga, sem hv. þm. telur sig nú hafa fyrir bótagreiðslum til bótaþega almannatrygginganna, eins rækilega og hann gerði meðan hann sat í ríkisstj. fyrir nokkrum árum.