28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkrar aths. í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram.

Ég vil þá fyrst víkja að því, sem hæstv. félmrh. hefur endurtekið hér í þessum umr., að hann segir, að sér hafi verið sagt frá því, að ráðh. Alþfl. hafi í vinstri stjórninni ekki fengið fram till. sínar um bætur á tryggingalöggjöfinni. Ég hef áður hér í umr. vikið að þessu og lýst því þá yfir, að þetta er með öllu rangt. Mér er vel kunnugt um það, hvaða till. voru lagðar fram í þeirri stjórn, og ég veit, að engar slíkar till., hvorki beinar né óbeinar, komu fram frá hendi Alþfl., og það er með öllu rangt, að t.d. við ráðh. af hálfu Alþb, eða af hálfu Framsfl., þannig að ég yrði var við, hefðum staðið á móti nokkrum till. til þess að bæta þá löggjöf. Og vegna þess að hæstv. ráðh. hefur endurtekið þetta hér í þessum umr., vildi ég nú alveg sérstaklega skora á hann að fara fram á það við þá fulltrúa Alþfl., sem voru í þessari ríkisstj., að þeir gerðu grein fyrir þessum till. sínum, hverjar þær voru, hvenær þær voru lagðar fram. Ég trúi því ekki enn þá, að þeir komi til með að fullyrða þetta sjálfir. Nei, ég hygg, að hið rétta í þessu máli sé það, að þegar hæstv. félmrh. og fleiri flokksmenn hans eru búnir að vaða reyk í þessum málum með því að endurtaka það hvað eftir annað, m. a. í útvarpsumr., að illa hafi verið staðið að framkvæmdum í almannatryggingamálum í tíð vinstri stjórnarinnar og hugðust þá vera að skamma Hannibal Valdimarsson, sem hefði haft með þau mál að gera, en mundu ekki, að það hafði einmitt verið Alþfl.-maðurinn, Guðmundur Í. Guðmundsson, sem var ráðh. þessara mála, — eftir að þeir höfðu gert þessa skyssu í málflutningi sínum, finna þeir þetta sem útúrleið að láta nú liggja orð að því, að Guðmundur Í. Guðmundsson hafi ekki getað fengið till. sínar samþykktar í ríkisstj. um bætur á þessari löggjöf.

Það voru svo nokkur önnur atriði, sem ég vildi gera aths. við.

Það var í fyrsta lagi það, að þær umbætur, sem ráðgerðar eru nú á almannatryggingalögunum með þessu frv., eru að mínum dómi harla seint á ferðinni. Það liggur alveg ótvírætt fyrir, að sú 15% hækkun á bótagreiðslum, sem lögð er til í þessu frv., á að vera til þess að jafnast á við þær kauphækkanir, sem almennt hafa orðið í landinu á yfirstandandi ári. Það er kunnugt, að kaupið hækkaði mjög almennt í landinu um 5% strax í janúarmánuði á þessu ári og síðar urðu almennar launahækkanir í júnímánuði, sem námu 7½%, þessar samanlögðu launahækkanir munu því nema réttum 13%, af því að 7½% hækkunin kom einnig ofan á 5% hækkunina, sem samþykkt var í janúar. En nú er hins vegar gert ráð fyrir því að hækka bætur almannatryggingalaganna um 15% og hækkunin skuli gilda frá 1. júlí. Þessi hækkun er því rétt aðeins til þess að vega upp þessa almennu launahækkun, sem orðið hefur á árinu. Auðvitað hefði hæstv. félmrh, átt að vera búinn að gera ráðstafanir til þess, að ellilaunafólk og öryrkjar í landinu væru búnir að fá þessar launabætur fyrir löngu, ef eins hefði verið haldið á málinu í þetta skipti og jafnan áður. Núna er þessi leiðrétting alveg óvenjulega seint á ferðinni. Hið sanna er líka það, sem hæstv. félmrh. varð að viðurkenna hér, þegar hann talaði fyrst fyrir þessu máli, að venjan hefur verið sú á undanförnum árum, að bætur almannatryggingalaganna til gamla fólksins og til öryrkja, allar hækkanir á þessum bótum hafa verið látnar fylgja launabreytingum opinberra starfsmanna, hafa verið látnar fylgja þeim launabreytingum, sem orðið hafa hjá ríkinu sjálfu. Þetta kemur glöggt fram, þegar þær hækkunarbreytingar eru skoðaðar, sem hér hafa verið samþykktar á undanförnum árum. Það er svo hins vegar rétt, að þessar hækkanir til opinberra starfsmanna hafa allajafna verið mjög svipaðar því, sem verkalýðssamtökin hafa fengið í sínum samningum áður. En nú er með þessu frv. farið inn á nýja braut, því að nú á hækkunin til gamla fólksins og öryrkjanna ekki að fylgjast með launabreytingum opinberra starfsmanna, heldur á nú aðeins að hækka bæturnar til þessara aðila í samræmi við þær launahækkanir, sem þeir lægst launuðu í landinu hafa fengið, og það fyrir alllöngu. Ég álít því, eins og fram hefur komið í þessum umr., að það eigi að breyta þessu frv. á þá lund, sem yrði þá til samræmis við það, sem við Alþb.-menn höfum lagt til með sérstöku frv., sem flutt hefur verið í Ed., að bæturnar yrðu nú hækkaðar ekki um 15%, heldur a. m. k. um 40%, það yrði miklu nær því að vera í samræmi við það, sem opinberir starfsmenn hafa almennt fengið, og þá yrði farið miklu nær þeirri reglu, sem gilt hefur í þessum efnum.

Í þessum umr. tók ég eftir því, að hæstv. félmrh. brá fyrir sig hér einni tölu, sem ég hef heyrt hann og ýmsa Alþfl.-menn hafa yfir áður, þegar þessi mál eru rædd, og ég tel að gefi mjög ranga hugmynd um bætur tryggingakerfisins í heild. Hæstv. ráðh. sagði, að nú væri svo komið, að kostnaðurinn af almannatryggingakerfinu væri kominn upp í 600 millj. kr. og hefði því hækkað alveg gífurlega frá því, sem var fyrir nokkrum árum. Þessi tala gefur mjög villandi hugmyndir um það, hvað raunverulega hefur verið að gerast í útgjöldum trygginganna. Í fyrsta lagi er það nú svo, að útgjöldin eru alls ekki komin upp í 600 millj. kr. samkv. ríkisreikningi, sem liggur á borðunum hjá hv. alþm. og er fyrir árið 1962. Fyrir nýliðið ár var kostnaðurinn af almannatryggingunum ekki 600 millj. kr., heldur 359.5 millj, kr. Ríkisreikningurinn liggur fyrir hv. alþm. á borðinu, og talan sýnir sig alveg glöggt, og samkv. fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár, 1963, er gert ráð fyrir því, að öll útgjöld almannatryggingakerfisins verði 434 millj. kr., en ekki 600 millj. kr.

En hvernig er þá þessi tala til komin, sem hæstv. félmrh. notar gjarnan, þegar hann vill gera mikið úr því, hvað mikið sé búið að gera í þessum málum? Þar er um að ræða áætluð útgjöld á næsta ári, árinu 1964, þegar nýtt kerfi kemur hér til framkvæmda að verulegu leyti og þær breytingar eiga að taka gildi, sem samþykktar voru á s.l. vori. En þar er ekki aðeins um að ræða hreina útgjaldaaukningu á sambærilegum grundvelli og áður var, heldur er þar einnig að verulegu leyti um að ræða tilfærslu á greinum fjárlaga. Með þeirri breyt. var gert ráð fyrir því að fella niður hið svonefnda skerðingarákvæði og framkvæma tryggingalögin þannig, að allir aðilar geti fengið fullar tryggingabætur, þeir sem hljóta ellilaun eða örorkubætur, þrátt fyrir aðrar tekjur eða önnur laun, sem þeir aðilar kunna að hafa. Ellilaunin og örorkubæturnar hækka því allverulega hjá ýmsum aðilum frá því, sem áður var. En um leið eru hins vegar útgjöld ríkisins á 18. gr. fjárl. lækkuð stórkostlega, vegna þess að þar fengu ýmsir þessara aðila aukalaun eða önnur laun, sem verkuðu eins og beinn frádráttur í sambandi við greiðslu almannatrygginganna. Samanburðinn meira að segja, þegar um er að ræða útgjöldin fyrir árið 1964, er því ekki rétt að miða við útgjaldatölur almannatrygginganna fyrir liðin ár. En þessar aths. mínar sýna það alveg greinilega, að þessi mælikvarði, sem hæstv. félmrh. vill nota á það, hvað við séum nú komnir langt í sambandi við almannatryggingalögin, sýnir, að það er afar ófullkominn mælikvarði að miða við þessa útgjaldaupphæð.

Annað verkar hér einnig á og um það munar mjög mikið. Með setningu efnahagslaganna frá 1960, þegar gengislækkunin mikla var ákveðin í febrúarmánuði, var tekin inn í almannatryggingalagakerfið mjög veruleg útgjaldaupphæð í auknum fjölskyldubótum, sem var yfirlýst af hálfu ríkisstj. á sínum tíma að væri engin venjuleg tryggingamálastarfsemi, heldur fyrst og fremst greiðsla til þess að standa undir vaxandi dýrtíð, sem þá átti að skella yfir. Og það hefur líka komið greinilega fram og kemur m. a. fram í flutningi þessa frv., að ríkisstj, telur, að það verði að fara með þessa upphæð á allt annan veg en aðrar tryggingabætur. En þessi upphæð, sem þá var tekin inn í útgjöld almannatrygginganna, nam í kringum 180 millj. kr. Þar var ekki verið að breyta í grundvallaratriðum á neinn hátt meginatriðum í tryggingakerfinu, sem voru bætur til gamalmenna og öryrkja og annarra slíkra, heldur var þar um ákveðið form á niðurgreiðslu á dýrtíð að ræða, — niðurgreiðslu, sem gekk jafnt yfir ríka og fátæka í þessu landi, því að þeir allra tekjuhæstu, sem til eru í landinu, fá ekki síður greiðslu af þessari upphæð en hinir fátækustu, því að vitanlega eiga hinir tekjuhæstu og efnamestu í landinu ekkert síður börn en hinir. Samanburður á þessum grundvelli, sem hæstv. ráðh. hefur því gert, er alrangur og segir ekkert eða afar lítið til um það, hvernig er búið að þeim tryggðu í aðalatriðum. Hitt er auðvitað miklum mun réttara, sem hér hefur verið sýnt fram á í þessum umr., að bera saman jafnmikil grundvallaratriði og ellilaunabæturnar og framfærslukostnaðinn fyrr og aftur nú, hvernig þetta hefur hreyfzt til, og ég hygg, að samanburður á þessu muni leiða í ljós, að framfærslukostnaðurinn hefur hækkað fyllilega eins mikið og bæturnar hafa hækkað um, t.d. til gamalmenna og öryrkja.

Í þessum efnum má svo ekki gleyma einu, að eitt er það, sem gerzt hefur einmitt í tíð núverandi ríkisstj. varðandi þessi tryggingamál, sem hefur verið hinum tryggðu til mikils óhagræðis, en það er það ákvæði, þegar samþykkt var að hætta að miða tryggingabæturnar við vísitölu framfærslukostnaðar. Afnám þessa ákvæðis hefur orðið til þess, að bæturnar til gamla fólksins og til öryrkjanna hafa alltaf orðið eftir á, dregizt aftur úr og hafa orðið verðminni og haft minna notagildi en þær hefðu haft, hefði það gamla ákvæði verið í gildi, sem verið hafði í gildi um langan tíma áður, en það var að miða tryggingabæturnar alltaf við framfærsluvísitölu.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég tel, að þegar það liggur nú fyrir, hvað þessi takmarkaða hækkun, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er seint á ferðinni, og miðað við þær breytingar, sem orðið hafa t.d. í launagreiðslum til opinberra starfsmanna og ýmissa annarra, þá eigi nú að breyta þessu frv. þannig, að bæturnar samkvæmt almannatryggingunum verði hækkaðar til fulls samræmis við það, sem orðið hefur í öðrum launagreiðslum frá hálfu ríkisins, og að það eigi einnig að taka upp í frv. gamla ákvæðið, sem lengi hafði verið í gildi, en það er að miða bæturnar jafnan við framfærsluvísitölu; eins og hún er á hverjum tíma.