12.03.1964
Efri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

131. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd. og var talsvert rætt þar. Þar var gerð ein lítils háttar breyting á 1. mgr., eins og greinir á þskj. 359, sem hv. þm. hafa væntanlega fyrir framan sig.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að bæta nýjum lið inn í jarðræktarlögin, þ.e. plógræsi, að styrkur á þau verði að grunntölu 20 aurar á m. eða rúml. 1.20 kr., þegar vísitala er lögð við. Í jarðræktarlögunum er þessi liður ekki, vegna þess að plógræsi eru alveg ný. Það er ekki fyrr en finnski plógurinn kemur og er tekinn í notkun á s.l. ári, að um þetta er að ræða, svo að nokkru nemi. En hann vann á s.l. sumri allmikið, og er gert ráð fyrir, að notkun finnska plógsins geti valdið byltingu í framræslu og uppþurrkun hinna blautu mýra. Það er gert ráð fyrir, að á komandi vori verði teknir í notkun 1 eða 2 finnskir plógar til viðbótar.

Með því að þurrka mýrarnar notast þær mun betur en áður, en hinar blautu mýrar hafa yfirleitt ekki notazt sem bithagi eða slægjur, eins og kunnugt er. Það hefur sprottið mikið gras að vísu, en þannig, að búfé hefur naumast lagt sér það til munns. Við skulum vona, að þessi framkvæmd bregðist ekki vonum manna. En verði það svo, að vonirnar rætist, sem á þessu eru byggðar, þá mun það, eins og ég áðan sagði, valda byltingu í framræslu. Hún verður ódýrari en áður, miklu fljótvirkari og landið verður mun betra en áður hefur verið.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að hækka styrk á súgþurrkunarkerfi í þurrheyshlöðum miðað við gólfflöt, 12 kr. grunngjald, sem gerir 73 kr., ef fasttengdur blásari er ekki með, en sé blásarinn fasttengdur, er grunngjaldið 18 kr. eða 110 kr. á fermetra. Þetta er stór aukning frá því, sem verið hefur, og nokkru meiri en gert var ráð fyrir í jarðræktarlagafrv., sem mþn. búnaðarþings samdi, og það er ætlazt til, að ef þetta verður lögfest, geti flestir bændur komið sér upp súgþurrkunarkerfi. Og það er vitanlega mikið atriði að tryggja sig þannig gegn rigningum og rosa, sem oft hefur skemmt heyið, eins og kunnugt er. Bændur leggja árlega mikið í kostnað við ræktunina og við áburðarkaup, og þess vegna er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir, að grasið verði ónýtt, eftir að það hefur verið slegið. Með þessu frv. er stefnt að því, að svo geti orðið.

Ég býst við, að sumir spyrji: Hvers vegna er ekki einnig hækkaður styrkur á votheyshlöður eða votheysturna? Sú spurning er að vísu ekki óeðlileg, en það má þó segja, að hitt sé nauðsynlegra, að hafa styrkinn ríflegan á súgþurrkunarkerfi, því að það er vitað, að margir bændur hafa þegar komið upp hjá sér votheysgeymslum, og einnig er vitað, að ef súgþurrkunarkerfi kemst yfirleitt til bændanna, minnkar þörfin fyrir votheysgeymslurnar. Ég er hins vegar reiðubúinn að taka það til athugunar á seinna stigi, hvort nauðsyn beri til að hækka styrk á votheyshlöður, og er nú verið að safna skýrslum um, hvernig því er varið, hversu margir bændur hafa komið upp hjá sér votheysgeymslum, hversu margir eiga það eftir. Og þegar það liggur fyrir, væri hægt að taka afstöðu til þess, hvort eðlilegt þætti að hækka styrkinn hvað það snertir.

Þá er gert ráð fyrir samkv. 3. gr. að hækka hinn beina jarðræktarstyrk á tún, sem er undir 25 ha., hækka hann úr 1230 kr., sem hann er nú, um 1500 kr. eða í 2730 kr. En býli, sem hafa tún meira en 25 ha., fá ekki þessa hækkun samkv. l. Ég býst við, að ýmsir vildu halda því fram, að þetta takmark sé óeðlilegt, og út í það skal ekki farið að þessu sinni. Hitt er þó ljóst, að þar sem túnin eru minnst, er þörfin mest á aukningu og mest fyrir, að styrkurinn verði hækkaður þar. Og þess má geta, að það eru 3800 jarðir í landinu, sem hafa tún undir þessari stærð. Og ef gert er ráð fyrir, að það séu 5500 býli í landinu, er það þó mikill meiri hl. jarða, sem nýtur þessa hækkaða styrks.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er annað frv. samferða þessu frv., frv. um breyt. á l. um stofnlánadeild, sem gerir ráð fyrir hækkuðum styrk til jarða, sem hafa tún undir 25 ha. Og þegar tekið er tillit til þessara beggja frv., verður jarðræktarstyrkurinn hjá þeim bændum, sem hafa túnstærð undir þessu marki, 5500 kr. á ha. auk framræslukostnaðarins. Hér er um verulega hækkun að ræða, sem mun verða þess valdandi, að ræktunin eykst, og það er það, sem ber að keppa að. Og ég veit, að hv. þm. eru mér sammála um það, að með því að leggja megináherzluna á ræktunina, þar sem túnin eru minnst, og á þeim jörðum, sem hafa orðið aftur úr, er verið að stuðla að því, að sem flestar eða allar jarðir, sem núna eru í ábúð, verði ábúðarhæfar. Það er verið að stuðla að því, að þeir bændur, sem nú reka búskap á hinum smærri jörðum, þurfi ekki að hrökklast í burtu og hætta búskap, en það hefur borið við mörg undanfarin ár vegna þess, hversu búin eru smá og ræktunin lítil.

Það eru enn mörg býli í landinu með aðeins 5–10 ha. túnstærð. Það eru enn margir bændur í landinu með aðeins 100–120 kindur og 2–3 kýr. Og það er eðlilegt, að þessir bændur hafi lágar tekjur, hafi lág laun. Það er eðlilegt, ef fjöldi bænda hefur ekki meiri tekjur en þetta, að þá séu meðaltekjur bændanna lágar samanborið við aðrar stéttir. Og það er eðlilegt, að þessir menn kvarti og telji lífsafkomuna lélega. Með þessum tveim frv., sem hér er um að ræða, er verið að stuðla að því að bæta lífsafkomumöguleika þessara bænda, gera þeim mögulegt að stækka búin, að auka ræktunina, sem er vitanlega undirstaðan undir landbúnaðarframleiðslunni.

Það er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta frv. Það skýrir sig sjálft. En í hv. Nd. var allmikið rætt um jarðræktarlögin, landbúnaðarmálin, landbúnaðarframleiðsluna, og hv. framsóknarmenn þar lýstu óánægju sinni yfir því, að frv. til jarðræktarlaga, sem mþn. búnaðarþings hafði samið og ríkisskipuð nefnd hafði endurskoðað, skyldi ekki hafa verið flutt. Með því frv. var gert ráð fyrir að hækka jarðræktarstyrkinn árlega um 15 millj. kr. Með þessu frv. hækkar jarðræktarstyrkurinn fyrir árið 1963 um 4–5 millj. kr., en eftirleiðis um 7–8 millj. kr. eða kannske meira. Frv. um breyt. á l. um stofnlánadeildina gerir ráð fyrir árlegri útgjaldaaukningu um 13 millj. kr., þannig að bæði þessi frv. gera ráð fyrir um 20 millj. kr. eða þar yfir í árlegri aukningu á jarðræktarstyrk og byggingarstyrk, eða allmiklu meira en fólst í hinu frv.

Nú skal ég viðurkenna, að það er eðlilegt, að það sé athugað nánar, hvort nauðsyn beri til að endurskoða jarðræktarlögin í heild. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að 25 ha. túnstærð sé eitthvert lokatakmark. Ég er sannfærður um, að það líða ekki mörg ár þangað til sú túnstærð þykir of lítil og það þykir sjálfsagt að setja markið hærra. En að þessu sinni má segja, að vel hafi tekizt að keppa nú að því með auknu fjárframlagi frá ríkissjóði að koma túnstærðinni á öllum jörðum upp í 25 ha., gera allar jarðir búsetuhæfar með því að láta þær fá hæfilegt af ræktuðu landi til umráða, og ég er sannfærður um, að þetta mun sýna sig og sannast að verða stærsti þátturinn í því að koma í veg fyrir, að smábændur flosni upp, eins og þeir hafa gert mörg undanfarin ár. Og þótt stjórnarandstaðan e.t.v. hér í hv. Ed. telji sjálfsagt að ganga lengra en hér er lagt til, tel ég ástæðu til að minna á, að með þessum tveimur frv., sem hér um ræðir, er stigið stærra skref í stuðningi við ræktunarmálin en gert hefur verið nokkru sinni áður, síðan jarðræktarlögin voru sett.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.