02.04.1964
Efri deild: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

131. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 404, hefur meiri hl. landbn. lagt til, að frv. um breyt. á jarðræktarl. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur hér fyrir þessari hv. d., komið frá Nd.

Í þessu frv. felast einkum tvær veigamiklar breytingar á gildandi jarðræktarlögum. Í fyrsta lagi styrkur til plógræsa, sem er ný gerð af holræsum, gerð með nýju tæki, sem er búið að nota eitthvað um tvö ár hér á landi og þykir hafa gefizt vel, kr. 0.20, þ.e.a.s. 20 aurar á metra, sem umreiknast síðan með þeirri vísitölu, sem jarðræktarstyrkir eru annars reiknaðir eftir. Í öðru lagi er það styrkur til súgþurrkunarkerfa, sem nú er lagt til að verði allverulegur, eða 12 kr. að viðbættri þeirri hækkun, sem jarðræktarstyrkur er reiknaður eftir, á fermetra í súgþurrkunarkerfi, sem ekki er fasttengt við blásara, og í öðru lagi 18 kr. á súgþurrkunarkerfi fasttengt við blásara. Þessi styrkveiting er hugsuð sem hvatning til banda að koma upp súgþurrkunarkerfum til þess að auðvelda heyverkun, og er það reynsla allra bænda um allt land, sem notað hafa súgþurrkun, að þetta auðveldar mjög heyþurrkun og sparar vinnu, svo að óþurrkar, síðan þessi aðferð kom til, koma miklu minna við þá, sem heyja þurfa að afla. Að öðru leyti gerir þetta frv. ekki ráð fyrir að hreyfa teljandi við gildandi jarðræktarlögum, en hinsvegar hefur verið lagt fram samhliða því annað frv., sem er sérstakt mál, breyt. á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, og í því felast einkum veigamiklar breytingar á styrkveitingu til jarða, sem hafa tún innan við 25 ha.

Landbn. varð ekki að öllu leyti sammála um þetta frv. til breyt. á jarðræktarl. Öll n. var þó á einu máli um það, að breyt. þessar væru til bóta, en 2 nm. töldu, að breyta þyrfti öllum jarðræktarlögunum til verulegrar hækkunar, og hafa þeir skilað séráliti og koma fram með brtt. við þetta frv. Það er að sjálfsögðu hægt að halda því fram, að þörf sé á að breyta fleiri ákvæðum í jarðræktarlögunum. En þegar það er athugað, að samhliða þessu frv. liggur fyrir annað frv., sem er mjög til hækkunar á jarðræktarstyrk fyrir ræktun á þeim jörðum, sem ekki hafa náð 25 ha. túnstærð, má segja, að það frv. komi að nokkru leyti fyrir það eða á máti því, að ekki er nú hreyft við hinum eiginlega jarðræktarstyrk, sem mun þá verða, ef þessi frv. verða bæði samþykkt, óbreyttur á tún, sem eru stærri en 25 ha.

Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að styrkja ræktun sem mest, því að hún er undirstaða alls búskapar í landinu, og búskapurinn og ræktunin og framleiðsla landbúnaðarins er að sjálfsögðu mjög nauðsynleg allri þjóðinni vegna matvælaframleiðslu og einnig það að dreifa fólkinu um landið við nauðsynleg störf og framleiðslu. En ég er á því, að eins og nú standa sakir, sé mest þörfin á því að koma verulega til móts við smærri bændurna og smærri býlin og efla þau eins og framast þykir fært með fjárframlögum til þess að stækka og til þess að fleiri bændur geti komið undir sig fótum og búið á búum, sem séu það stór, að þar sé hægt að hafa lífvænlega afkomu af búrekstri. Að því leyti ganga bæði þessi frv. samanlagt mjög til réttrar áttar, og ég vænti þess, að þau muni verða til að lyfta verulega undir með þeim, sem erfiðasta eiga aðstöðuna.

Það má einnig geta þess í sambandi við jarðræktarlagafrv., að jarðræktarlögin hafa verið endurskoðuð nú fyrir stuttu, og liggja fyrir till. um breyt. á þeim í heild, sem munu ganga í þá átt, eftir því sem áætlað er, að framlög til jarðræktar hækki í kringum 15 millj. kr. En þegar athuguð er niðurstaðan af áætlunum um þessi frv. tvö, sem hér liggja fyrir, og ég er nú sérstaklega að mæla fyrir öðru þeirra, þá telst glöggum mönnum og þeim, sem nærri fara um áætlanir í þessum efnum, að þau muni valda í kringum 20 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð, eða talsvert meiri styrkjum til ræktunar samanlagt heldur en jarðræktarfrv. eitt hefði gert, ef sú leið hefði verið tekin að taka það eitt fyrir og afgreiða það á þessu þingi. Þá verður hver og einn að gera það upp við sjálfan sig, hvort muni vera betra fyrir bændastéttina í heild, að fá þessi frv. bæði afgreidd eða annað þeirra, þ.e.a.s. jarðræktarfrv. Og ef um það tvennt væri að gera að fá annaðhvort fram, en ekki hvort tveggja, eins og ég tel að hér liggi fyrir, þá tel ég, að það muni vera happasælla fyrir bændastéttina að fá þessa tvöföldu breytingu, aðra á jarðræktarl., og aðra á stofnlánadeild landbúnaðarins, heldur en þó að jarðræktarlögin hefðu verið afgreidd hér á þessu þingi. Um þetta geta að sjálfsögðu verið nokkuð skiptar skoðanir. Það kemur auðvitað ekki alveg í einn og sama stað niður, útkoma á þessum breytingum. Það fer eftir því, hvort bóndinn er lítill, þ.e.a.s. hefur litla jörð á að búa og litla ræktun, eða það eru stærri bændur, sem eru komnir yfir 25 ha., sem fá ekki aðstoð eftir þessum frv., sem hér eru til umr., heldur er stefnan, eins og ég sagði, að styðja meira við þá, sem versta hafa aðstöðuna, en hinir verði þá frekar að bíða eitthvað.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Í n. var samstaða um, að þetta frv. væri til bóta, og allir nm, styðja það, svo langt sem það nær, en minni hl., eins og ég sagði, hefur góðar óskir um það og frómar, að meira verði gert en þetta frv. gerir ráð fyrir, að því er snertir breyt. á jarðræktarlögunum, og gerir að sjálfsögðu grein fyrir sinni afstöðu í nál.