10.02.1964
Neðri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. við það frv., sem hér er til umr., og þó að það sé ef til vill ekki venja að mæla fyrir brtt. við 1. umr. málsins, þá er það nú svo, að þessi till. hefur legið á borðunum hjá hv. alþm. í nokkra daga, og þess vegna hef ég kosið að mæla nú þegar nokkur orð um hana. En hún er á þskj. 241 og fjallar um breytingu á einni gr. í lögunum um stofnlánadeild landbúnaðarins, sem er að vísu allt annars eðlis en það meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir, en á það sammerkt, að það er breyting við sömu lög. En aðalinntak þessarar brtt. er að setja inn í lögin nýtt form fyrir bústofnslán.

Eins og oft hefur komið fram að undanförnu, er það eitt af vandamálum búskaparins, þetta með bústofn handa þeim, sem eru að hefja búskap, þ.e. á hvern hátt þeir geti komið sér upp bústofni. Í núgildandi lögum er heimild fyrir stofnlánadeild Búnaðarbankans að veita lán í þessu skyni, en það hefur hins vegar enn þá ekki verið annað en heimild, það hefur ekki fundizt, að ég hygg, neitt form, sem talið væri framkvæmanlegt til að láta þessi ákvæði ná gildi.

Ég hef verið að velta þessu máli fyrir mér raunar í nokkur ár að undanförnu, og sú hugmynd, sem hér er sett fram í tillöguformi, er í raun og veru mótuð út af framkvæmd á þessu formi í a.m.k. tveimur hreppsfélögum á Austurlandi. Upphafið á þessu má ef til vill rekja til þess, að einn framsýnn aldraður bóndi í Fellahreppi gaf fyrir nokkrum árum 100 gimbrar til að mynda slíkan bústofnsleigusjóð í sínu hreppsfélagi, og síðan hefur þessi litli vísir að bústofnsleigusjóði verið þar til, og þessar gimbrar hafa myndað ofur lítinn hluta af bústofni nokkurra manna, sem þar voru að hefja búskap. Að því er ég bezt veit, var sett sérstök skipulagsskrá fyrir þennan sjóð, sem mun vera eða átti a.m.k. að birta í Stjórnartíðindum, en ég hef hins vegar ekki séð aðalinntak þeirra reglna, en það skiptir ekki svo miklu máli. Aðalatriðið er, að þarna er í raun og veru að leita fyrirmyndanna að þeirri till., sem ég hef hér leyft mér að flytja. Þetta var svo einnig tekið upp í öðrum nágrannahreppi á Héraði, og var það þá hreppsfélagið sjálft, sem myndaði þennan sjóð. En í þessari till. er gert ráð fyrir, að stofnlánadeildinni sé heimilt að lána í hreppsfélag, þar sem slíkur sjóður hefur verið stofnaður, einhverja upphæð gegn þeirri tryggingu, sem sjóðstjórnin metur gilda, og er þá hér sérstaklega nefnt annars vegar fasteignaveð, sem er hin algengasta trygging, sem stofnlánadeildin tekur. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að sýsluábyrgð geti komið þarna til greina.

Ég taldi rétt að láta fylgja nokkur höfuðatriði, sem ég tel að þurfi að vera í reglum bústofnsleigusjóðanna, sem myndaðir kynnu að verða í hreppunum, og væru þá skilyrði þess, að það væri rétt fyrir stofnlánadeildina að veita þessi lán. Og þessi höfuðatriði, sem ætlazt er til að séu í reglum bústofnsleigusjóða hreppanna, eru í fyrsta lagi, að það sé hreppsnefnd, sem hafi á hönd stjórn sjóðsins, í öðru lagi, — og það er nokkuð sérstætt einmitt fyrir þetta, — að höfuðstóllinn sé hafður aðeins í lifandi peningi, annaðhvort haustlömbum, gimbrum eða kelfdum kvígum. En eins og allir vita, þá er bústofn íslenzkra bænda svo að segja eingöngu í þessum tveim búfjártegundum. Það er að vísu hesturinn, þriðja búfjártegundin, sem ávallt hefur verið til í íslenzkum búskap, en aðalundirstaðan að afkomu og tekjuöflun búanna er í þessum tveim búfjártegundum. Þá er þriðja atriðið, að þessi höfuðstóll, þessi búpeningur, hann sé leigður frumbýlingum í hreppnum, fyrst og fremst frumbýlingum, en einnig geti komið til greina, að bændur, sem kynnu að verða fyrir einhverjum sérstökum óhöppum, t.d. af skepnumissi, geti einnig fengið leigðan slíkan bústofn, ef á því eru tök, ef t.d. væri ekki um að ræða neinn frumbýling, sem frekar ætti að sitja fyrir.

Leigutíminn er hér ákveðinn 6–10 ár. Þetta er atriði, sem mjög mikið má um deila, og ef til vill sýnir nánari reynsla, að annaðhvort þetta sé óþarft eða það þurfi einhverra breytinga við. En ég taldi þó heppilegra að hafa það einnig með í upphafi. Og síðan er það ákvæði, að það sé gert ráð fyrir, að lánin séu jafnan endurgreidd í sama formi og þau eru tekin, sem sagt í lifandi peningi. Og enn fremur eru ákvæði um það, hver eigi að vera leiga eða vextir af þessum bústofnslánum og vextirnir, leigan, skuli greidd í sama formi, í lifandi peningi, og komi þá einn gripur fyrir hverja 30, þ.e.a.s. fyrir hverja 30 á ári, en í því felst það nánar tiltekið, að vextir séu 31/3%.

Þetta ákvæði kann sumum að virðast dálítið óeðlilegt. Ég hef velt þessu atriði talsvert fyrir mér, og þau meginrök fyrir því, að þessir vextir eru ákveðnir allmiklu lægri en nú er í gildi almennt í lánastarfsemi, eru, að þessi höfuðstóll er verðtryggður, hann hefur það umfram venjulegar peningainnstæður, að hann breytist í svipuðum mæli og almennt verðlag í landinu. Og það er öllum ljóst, að þeir vextir, sem nú eru í gildi í þjóðfélaginu margir mundu segja: þeir háu vextir, sem nú eru í gildi í þjóðfélaginu, t.d. miðað við sparifé, þeir eru ákveðnir svona háir vegna þess, að þeir eiga að sumu leyti að vera verðtrygging fyrir sparifjáreigendurna. Það er svo önnur saga, hvort þeir uppfylla það að vera verðtrygging, en það er mjög mikill munur á því, hver vaxtakjör ættu að vera, ef höfuðstóllinn væri alltaf í svipuðu gildi, og það er mitt mat, að þetta séu hæfilegir vextir, sem þarna eru ákveðnir, af verðtryggðum höfuðstól.

Nú liggur það í augum uppi, að þetta lán, sem sennilega yrði 20 ára lán, eins og flest hin almennu lán úr stofnlánadeildinni, það kemur til með að rýrna fljótlega eða notagildi þess í sjóðum hreppanna, og ég hugsa þetta líka þannig, að þessir bústofnsleigusjóðir verði að fá nokkra blóðgjöf, ef svo mætti segja, heima fyrir úr hreppsfélögunum sjálfum. Það kann að vera, að mönnum sýnist misjafnt um það, hvort það sé rétt að gera ráð fyrir þessu, að hreppsfélögin vilji eiga þátt í að mynda slíka sjóði heima fyrir. En það er nú þannig með fjölda hreppsfélaga í þessu landi, að afkoma þeirra byggist fyrst og fremst á landbúnaði. Það eru bændur og þeir, sem að búskap vinna, sem aðalafkoma sveitarfélagsins byggist á. Það eru fjölmargir hreppar í landinu þannig settir, og ég fæ ekki betur séð en það sé mjög eðlilegt, að þau hreppsfélög a.m.k. veiti nokkurn stuðning til þess, að þessar stoðir, sem það byggist á, megi verða sem öflugastar.

Mér hefur dottið í hug að benda á í þessu sambandi, að það eru allmargir hreppar í landinu t.d., sem hafa nokkrar tekjur árlega af óskilafé. Þetta er að vísu óviss tekjustofn. Fjöldi hreppa hefur aldrei neinar slíkar tekjur, en þeir eru líka nokkuð margir, sem árlega hafa nokkrar tekjur af þessu svokallaða óskilafé, og það væri sannarlega ekkert óeðlilegt, þó að þessum tekjum, þar sem þær falla til, væri að einhverju eða verulegu leyti varið til að byggja upp slíka sjóði. Nú má að vísu segja, að þetta sé hægt að gera án þess, að til komi þetta ákvæði í lögunum um stofnlánadeild landbúnaðarins. En ég held, að það muni verða frekar til að vekja athygli á þessu og ýta undir, að þessi leið verði farin, auk þess sem það er tvímælalaust talsverður stuðningur við slíka sjóði í upphafi að geta átt kost á nokkru láni, þannig að það skapast þá frestur, þegar það er hægt á nokkuð mörgum árum að byggja slíkan sjóð upp með framlagi heima fyrir í hreppunum sjálfum.

Ég geri ráð fyrir því, að þetta form sé mun auðveldara í framkvæmd, þar sem bændur búa að mestu leyti við sauðfé. Mér er það alveg ljóst. En ég fæ þó ekki séð, að það sé með öllu útilokað, síður en svo, að það gæti einnig hentað í búskap, sem byggist aðallega á mjólkurframleiðslu. Sumir reka ef til vill augun í það, að þarna sé ekki talað um tryggingar fyrir sjóðina sjálfa í hreppunum heima fyrir. Ég sé ekki, að það sé nein nauðsyn í þessum lögum, vegna þess að vitanlega setja hreppsfélögin sjálf nánari reglur í sínar samþykktir um bústofnsleigusjóði, og ég tel, að það sé sanngjarnt og eðlilegt að leggja það í vald hreppsfélaganna, á hvern hátt þau vilja tryggja sig gagnvart hverjum einstaklingi í hreppnum, sem kynni að njóta þessara bústofnslána. En eitt er víst, og það er, að þetta bústofnsspursmál er í vaxandi mæli að valda erfiðleikum við stofnun búskapar fyrir frumbýlinga. Þetta var leyst hér og hefur verið leyst eiginlega um langa sögu í byggð Íslands að nokkru leyti með því, sem kölluð voru kúgildi og látin voru fylgja jörðunum. Það var skynsamleg tilhögun. Nú er hún mjög að hverfa, auk þess sem sú breyting hefur orðið, að 1–2 kúgildi voru fyrir 50–100 árum miklu meira virði fyrir mann, sem var að hefja búskap, heldur en þau eru orðin nú. Það þarf ekki að skýra það, en það liggur fyrst og fremst í því, að nú er hlutur fjármagnsins orðinn svo miklu stærri við stofnun bús en áður var, alveg eins í búskap og öllum atvinnurekstri yfirleitt. En ég vildi nú vænta þess, að enda þótt svo hafi verið núna síðustu árin, að stofnlánadeild landbúnaðarins hafi lánað allt það fé út, sem hún hefur haft til umráða, og í raun og veru kannske tæpast haft nægilega mikið til að fullnægja eftirspurn, þá sé rétt að opna þennan möguleika, sem að vísu er nýtt svið.

Það er framkvæmd á nýju sviði í þessari löggjöf, og liggur þá í því, að það hafi í för með sér eitthvað aukin útlán. Ég lít þó þannig á, að það séu ekki líkur fyrir því, að þar verði um stórar upphæðir að ræða til að byrja með, þannig að eins og stofnlánadeildin er byggð upp, þá er það vitað, að möguleikar hennar til útlána fara vaxandi ár frá ári, og ég tel þess vegna ekki ástæðu til að óttast það, þó að þessi möguleiki væri opnaður með þessari breytingu, að þá yrði það til að valda neinum sérstökum erfiðleikum fyrir stofnlánadeildina að geta valdið sínu ætlunarverki næstu ár. Aðalatriðið er það, að við verðum að fara að reyna að finna eitthvert form, sem mætti verða að nokkru liði til þess að leysa þetta vandamál, sem það er fyrir frumbýlinga sérstaklega að koma sér upp bústofni, þegar þeir hefja búskap í sveit. Ég vil þess vegna vænta þess, að þessi brtt. mætti fá góðar undirtektir hér á hv. Alþ.

Ég ætla ekki að þessu sinni að snúa mér neitt að aðalverkefni frv. Landbrh. hefur fylgt því ýtarlega úr hlaði, og þetta mál kemur væntanlega til meðferðar í landbrn. deildarinnar, sem ég á sæti í, þannig að ég mun slá á frest frekari umr. um málið í heild.