11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú aðeins örlítið. — Hv. 3. þm. Norðurl. e. ætlaði að reyna að fara að telja hv. þm. trú um það, að ég vissi ekki, hvenær verðlagsárið byrjar og hvaða verð raunverulega væri í gildi þann dag, sem Tíminn talaði við þennan nefnda mann. Viðtalið var 10. des. s.l. Verðgrundvöllurinn nýi byrjaði 1. sept. Og það var þess vegna verðlagið, sem ákveðið var 1963, sem var þá í gildi og bændur fá fyrir sauðfjárafurðirnar frá s.l. hausti, — ekki það verð, sem ákveðið var haustið 1962, heldur það verð, sem ákveðið var í sept. 1963. Þess vegna er það vitanlega algerlega rangt að bera saman verðið, sem gilti 1962, þegar talað er um aðstöðu bænda í des. 1963, borið saman við það, sem var 1958. Það er verið að bera saman kjör bændanna 1958 og 10. des. 1963, þegar viðtalið fer fram, annars vegar er talað um verðlagið 1958, en hins vegar verðlagið 1962. Út úr þessu kemur skökk útkoma.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. vildi helzt ekki við það kannast, að framsóknarmenn hefðu vitnað í þessar tölur og byggt á þessum forsendum ræður og ritgerðir um landbúnaðarmál. Ég hef séð í Tímanum vitnað í þetta og lagt út af þessu á þennan veg. Og það er það, sem gaf mér tilefnið. Ég hef einnig heyrt framsóknarmenn tala um þessi mál með því að byggja á þessum forsendum. Það er aðeins þess vegna, sem þetta hefur komið fram í umr. um þessi mál, og algerlega án þess að meiða þennan mann, sem fjarverandi var. Það eru þeir, sem vitnað hafa í þessar tölur og þennan samanburð, sem ekki er réttur, sem eru valdir að því, að í umr. um þessi mál hér á hv. Alþingi hefur verið vitnað í þær tölur. Og hv. 3. þm. Norðurl. e. vefengir ekki, — að þær tölur, sem ég hef lesið um hækkun landbúnaðarvara síðan 1958, séu réttar. Og með því finnst mér, að hann hafi í rauninni viðurkennt, að það, sem ég hef sagt um þessi mál, sé rétt.