05.05.1964
Efri deild: 81. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

33. mál, skipulagslög

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. (AG) hefur gert hér grein fyrir brtt., sem hann flytur við frv., og einnig rætt nokkuð um frv. almennt. Því, sem hann sagði um skipulagssjóði, endurbyggingu, byggingarmál, er nú þegar svarað, eins og hann enda tók fram, við 1. umr. af hæstv. ráðh.

Hv. þm. ræddi sérstaklega um Arkitektafélagið í þessu sambandi og gerði það að till. sinni, að frv. yrði, áður en það kæmi til 3. umr., vísað til Arkitektafélagsins. Ég held, að það sé nú nokkurn veginn ljóst, að það mundi þýða það, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi, ef hafa ætti þann hátt á, og legg ég því eindregið gegn því, að svo verði gert. Eins og ég gat um í framsöguræðu fyrir nál. heilbr: og félmn., barst n. erindi frá Arkitektafélaginu, þar sem, eins og hv. 9. þm. Reykv. reyndar gat um, er kvartað undan því, að frv. hafi ekki verið sent félaginu til umsagnar, og nefnd, sem af hálfu félagsins fjallar um skipulagsmálin, telur, eins og þeir segja og ég les hér upp, með leyfi hæstv. forseta, „að ný skipulagslög verði að byggja á öðrum grundvelli en þeim, sem frv. þetta byggist á,“ svo að ef vísa ætti frv. til n., mundi það sjálfsagt þýða, að hennar umsögn legði til algera byltingu á frv. Þá vil ég geta þess, að Arkitektafétagið sendi ýmsar aths. við frv., eins og það liggur fyrir, og n. hefur athugað þessar aths. arkitektanna og hefur ekki sýnzt ástæða til þess að taka þær upp, nema þá að mjög takmörkuðu leyti.

Þá skal ég víkja að brtt. hv. 9. þm. Reykv. 1. brtt. hans er sú, að í stað orðanna „ganga frá skipulagsuppdráttum“ í upphafi 3. mgr. 1. gr. komi: dæma um skipulagsuppdrætti. Það má segja, að þetta orðalag, að ganga frá skipulagsuppdráttum, sé e.t.v. ekki alls kostar heppilegt, en líklega verður þó að líta svo á, að það sé nokkru rýmra en að „dæma um skipulagsuppdrætti.“ Það má segja, að verkefni skipulagsstjórnarinnar sé ekki eingöngu að dæma um skipulagsuppdrætti, heldur líka gefa ábendingar um breytingar, sem hún æskir að séu á þeim gerðar, og svo er þar fyrir utan að skrifa upp á uppdrætti, sem hún samþykkir, og koma þeim áleiðis. Ég held nú, að þó að, eins og ég sagði áðan, orðalag þetta sé ekki kannske beinlínis heppilegt, þá sé það þó, eins og það er í frv., nokkru rýmra en brtt. gerir ráð fyrir og sé eftir atvikum rétt að halda sér við það.

Þá er 2. brtt. hv. þm., sem gengur í þá átt, að skipulagsstjóri skuli vera sérmenntaður í skipulagsmálum. Þegar talað er um sérmenntun í skipulagsmálum, mundi það einvörðungu taka til arkitekta, eða svo er mér tjáð. Það mun hafa verið þannig, a.m.k. hér í okkar nágrannalöndum, að sú sérmenntun í skipulagsmálum, sem arkitektar öfluðu sér, hafi verið yfirleitt um hálfs árs nám eða hálfs vetrar nám, en nú mun sú breyting vera á orðin, að þetta nám taki yfirleitt um það bil 11/2 ár, en það ætla ég að liggi ljóst fyrir, að ekki muni vera aðrir en arkitektar, sem muni geta talizt sérmenntaðir í skipulagsmálum. Þá mundi sem sé ákvæði eins og það, sem hv. þm. flytur hér brtt. um, þýða það, að skipulagsstjóri hlyti að vera arkitekt. Nú skal ég ekki um það dæma, hvort ekki gæti komið líka alveg eins til greina, að skipulagsstjóri væri t.d. verkfræðingur. En hitt veit ég, að annars staðar mun það víða vera svo, að þeir menn, sem bezt orð hafa getið sér í skipulagsmálum og gegna mestum ábyrgðarstöðum, þurfa ekki að vera arkitektar. Ég vil líka benda í þessu sambandi á eitt atriði, sem hefur komið mjög glöggt fram í sambandi við þá miklu vinnu, sem hefur verið lögð í skipulag Reykjavíkurborgar nú á undanförnum árum, sem sé það, hve öll skipulagning í þéttbýli hlýtur óhjákvæmilega að byggjast á umferðarkönnun og áætlun í þeim efnum, áætlun og rannsókn, og sú vinna er yfirleitt unnin af verkfræðingum og það er talið vera verkefni þeirra að fjalla um þá hlið málanna. Ég tel því, að í sambandi við skipulagningu megi a.m.k. í þéttbýlinu, eins og ég áðan sagði, maður horfast í augu við þá staðreynd, að það verði kannske alveg eins mikið að byggja á starfi verkfræðinga og arkitekta. Ég tel, að það væri varhugavert að samþykkja þessa brtt., þar með slá þessu föstu, og þar fyrir utan gæti líka verið óeðlilegt að mæla svo fyrir, að fram hjá arkitektum, sem hafa árum eða áratugum saman unnið að skipulagsstörfum, hafa fengið í þeim málum svo mikla þjálfun, að sanngjarnt væri að leggja til jafns við sérmenntun í námi, og eru þar að auki nákunnugir öllum staðháttum og aðstæðum á hlutaðeigandi stöðum, sem er gríðarlega mikið atriði í sambandi við alla skipulagningu, — að fram hjá þeim yrði að ganga, ef til væru arkitektar með sérmenntun; sem væru kannske jafnvel nýkomnir frá námi og með litla reynslu. Með tilvísun til þess, sem ég hef sagt, get ég ekki fallizt á þessa brtt. hv. þm.

Ég vil í þessu sambandi ekki láta hjá líða að minnast á aths., sem hv. þm. af lítilli smekkvísi lét sér hér um munn fara áðan, þar sem hann beindi til barnaverndarnefndarinnar hér í Reykjavík heldur óskemmtilegri aðdróttun, tók það sem dæmi til samanburðar í sambandi við þessa brtt. sína, talaði um það, að þegar barnaverndarnefndinni hafi boðizt sálfræðingur til aðstoðar í störfum, hafi hún ekkert viljað af honum vita. Ég vil leiðrétta þetta, úr því að þetta er á annað borð komið hér fram á þingfundi, en ég man ekki betur en það væri svo, að barnaverndarnefndin teldi, að það væri ekki þörf fyrir svo mikið starf að fastráða sálfræðing til n., heldur mundi hún leita til sálfræðings í þeim tilfellum, sem talið væri, að þörf væri á að fá aðstoð slíks sérfræðings. — Þetta var nú útúrdúr.

En þá kem ég að 3. brtt. hv. þm. Hann tók fram réttilega, að í 34. gr. frv., 2. mgr., er gert ráð fyrir, að sveitarstjórn geti annazt fyrir eigin reikning undirbúning og gerð skipulagsuppdrátta með samþykki skipulagsstjórnar og undir yfirstjórn hennar. Mér skildist helzt á hv. þm., að það mundi þá ekki vera heimilt fyrir sveitarfélögin að kjósa skipulagsnefndir, en að sjálfsögðu er ekkert, sem bannar sveitarfélagi, sem á annað borð notar sér heimildina í 2. mgr. 34. gr., að kjósa skipulagsnefnd, eins og er t.d. hér í Reykjavík og verður hér að sjálísögðu áfram. Ábending um breytingu í þessa átt ætla ég að hafi komið frá skipulagsnefnd Sambands ísl. sveitarfélaga, og sömuleiðis komu frá þeirri nefnd tili., sem ég ætla að séu svo til samhljóða 5., 6. og 7. brtt. hv. þm. Ég vil aðeins segja það, að þessar till. lágu allar fyrir heilbr.- og félmn. Nd., þegar hún hafði frv. til meðferðar, og n. gat ekki á þessar till. fallizt eða vildi ekki taka þær upp, og ég held því, að verði slíkar till. samþ. hér, sem mundi þýða það, að frv. færi þá aftur til Nd., væri því teflt algerlega í tvísýnu, að frv. hlyti afgreiðslu hér á þessu þingi. En um það ætla ég, að menn geti orðið sammála, að með því vinnst það mikið, að ríka áherzlu sé ástæða til að leggja á það, að frv. hljóti nú afgreiðslu, jafnvel þótt menn kunni að greina eitthvað á um einstök ákvæði þess. Og með tilvísun til þess, sem ég sagði um þessar brtt. hv. þm., 3., 5., 6. og 7. brtt., get ég ekki mælt með samþykkt þeirra, þó að vissulega sé ýmislegt í þeim, sem ekki sé ósanngjarnt, að farið sé fram á.

Þá er það loks 4. brtt, hv. þm. Hún er við 5. gr. frv. og er um það, að 2, mgr. hennar falli niður. Eins og hv. þm. sagði, bárust heilbr.- og félmn. ábendingar í þessa átt einnig frá Arkitektafélaginu. Þetta atriði eins og önnur, sem komu frá Arkitektafélaginu, var rætt töluvert í n., og n. sá ekki ástæðu til þess að mæla með slíku, að fella niður 2. mgr. 5, gr. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hata vissan sveigjanleika til í skipulagi, að það sé ekki allt rígskorðað og fastneglt. Það getur skapað það ástand, sem sé mjög erfitt fyrir bæði einstaklinga og sveitarfélög að sætta sig við. Við skulum taka t.d. skipulagsskyldan stað einhvers staðar úti á landi, sem ekki er búið að ljúka við skipulag á, og ég ætla, að það hafi komið fram við 1. umr. málsins hjá hæstv. ráðh., að af 72 skipulagsskyldum stöðum á landinu hefði um það bil helmingur verið skipulagður þannig, að staðfestingu hefði hlotið, en við skulum nú taka það dæmi, að það væri skipulagsskyldur staður, sem ekki væri búið að ljúka skipulagi á, þar hefði verið ákveðið að koma upp einhverju fyrirtæki til þess að auka atvinnu, t.d. verksmiðju, síldarverksmiðju eða einhverju slíku, og þá ætti ekki að vera hægt að leyfa það, fyrr en búið væri að ganga alveg frá skipulagsuppdrætti. Ég tek þetta sem dæmi. Það yrði ekki hægt að leyfa það, ef niður yrði felld 2. mgr. 5. gr. frv.

Ég held, að ég hafi nú svarað þeim atriðum, sem fram komu í ræðu hv. þm., og gert grein fyrir afstöðu minni og að ég ætla n. til brtt.