12.03.1964
Neðri deild: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

20. mál, loftferðir

Siguvin Einarsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál að þessu sinni. Ég hef átt sæti í samgmn., sem fjallaði um þetta frv., og þar hefur verið lögð allmikil vinna í þetta mál. Hv. frsm, hefur gert grein fyrir störfum n. og þeim brtt., sem hún flytur, og er þar að sjálfsögðu rétt skýrt frá öllu um afstöðu n. og einstakra nm, til málsins. En af því að þess er getið í nál., að til nokkurra atriða, sem fullkomið samkomulag ríkir ekki um, hafi n. ekki tekið endanlega afstöðu, vil ég við þessa umr. aðeins láta þess getið, hvað það er m.a., sem ég legg áherzlu á að fá breytt umfram það, sem þegar eru fluttar brtt. um, svo að það valdi ekki neinum misskilningi, að ég er ekki samþykkur frv. eins og það er.

Það, sem ég legg nokkra áherzlu á að verði lagfært, er 7. gr. frv., þar sem er skilgreining á því, hvað séu íslenzkir aðilar, sem mega eiga loftfar á Íslandi. Ég tel fulla nauðsyn á, að það sé skýrt tekið fram, hverjir teljist íslenzkir aðilar, en ég tel aftur á móti, að í þeirri grein sé fjarri því, að það sé víðunandi skilgreining á því, hvað íslenzkir aðilar séu. Ég skal til dæmis nefna einn lið, f-lið, með leyfi hæstvirts forseta:

„Íslenzkir aðilar teljast“ — og f-liðurinn hljóðar svo: „Hlutafélög, sem hlíta stjórn íslenzkra ríkisborgara einna, er aðsetur hafa á Íslandi, enda eigi íslenzkir ríkisborgarar eða aðrir, sem verða samkvæmt grein þessari settir á bekk með þeim. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi. Ég tel þetta ekki viðunandi orðalag og vil fá þessu breytt, því að ég tel, að þarna eigi að vera alveg skýlaust, hverjir eru þeir íslenzku aðilar, sem mega eiga loftfar skrásett á Íslandi.

Annað atriði, sem ég vil strax nefna um að ég er ósamþykkur, er refsiákvæði þessa frv. Það er XIII. kafli frv., og það munu vera yfir 30 gr., sem fjalla um refsingar. Ég tel, að þarna eigi ekki að vera upptalning um hvert einasta brot, hvernig eigi að refsa fyrir það, mér finnst vera handahóf í þessu mati á refsingunum í þessari upptalningu. Ég skal nefna dæmi, sem er í 160. gr., en síðari mgr. þeirrar gr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú lætur flugverji á flugfari undir höfuð leggjast án gildra ástæðna að koma til starfa á réttum tíma eða fer frá starfa án leyfis, og skal hann þá sæta sektum eða varðhaldi allt að 5 mánuðum.“

Þarna er bókstaflega lagt til að setja menn í 5 mánaða varðhald fyrir að vera óstundvísir til vinnu. Ég sætti mig ekki við svona löggjöf. Fleira er það í þessum kafla, sem ég er ósamþykkur. Nú fullyrði ég ekkert um það, nema það kunni að nást samkomulag í n. um þetta, en ég vil taka það strax fram, að þarna er atriði, sem ég get ekka sætt mig við óbreytt.

Í þessu frv. er meira og minna af hugtökum og orðalagi, sem mér finnst sérvikulegt og óvenjulegt og vildi fá breytt, en fékk það ekki, svo að það mun standa, en það er minna atriði og ég geri engan hávaða út af slíku. En að sjálfsögðu fylgi ég frv. með þeim breyt., sem n. hefur flutt, til 3. umr., og eins og hv. frsm. sagði, verður þá leitazt við að ná samkomulagi um frekari breytingar á því.