13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

20. mál, loftferðir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar en orðið er. Ég vil aðeins geta þess, að frá því að þetta frv. til l. um loftferðir var til umr. síðast hér í hv. þd., hefur samgmn. d. haldið fund með sér og athugað þær brtt., sem fyrir liggja. N. varð sammála um að mæla með, að samþykkt yrði brtt. á þskj. 395 frá Sigurvin Einarssyni og Benedikt Gröndal, þar sem lagt er til, að felld verði niður síðari mgr. 160. gr. Það hefur verið gerð efnislega grein fyrir þeirri brtt. Efni hennar er það að fella niður ákvæði, sem þykir allharkalegt gagnvart flugmönnum, sem ekki mæta til vinnu. N. mælir sem sagt með, að sú brtt. verði samþ. Enn fremur mælir n. einróma með því, að samþ. verði 2. brtt. á þskj. 413, þ.e.a.s. a-liðurinn, en þar segir á þessa leið:

„Nú veikist eða slasast flugverji fjarri heimili sínu og fjarvistin er vegna starfs hans. Ber þá vinnuveitanda að greiða allan kostnað við læknishjálp, sjúkrahúsvist og flutning sjúklings til heimilis hans.“

N. þykir eðlilegt, að þetta ákvæði verði tekið upp í lög, enda þótt gert hafi verið ráð fyrir því af þeim, sem frv. sömdu, að eðlilegra væri, að það yrði tekið upp í samninga milli aðila.

Í þriðja lagi varð samkomulag um það í samgmn., að n. flytti brtt. eða viðbótartill. aftan við 52. gr. frv., en í henni segir á þessa leið, þ.e.a.s. síðustu mgr. 52. gr., eins og hún er nú, eftir þá brtt., sem samþykkt var frá samgmn. við þessa gr. við 2. umr. málsins:

„Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til að tryggja fyllsta öryggi.“

Þessi brtt. var samþ. frá n. við 52. gr. við 2. umr. En aftan við þessa mgr. leggur n. nú til að bætist: „að fengnum till. félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar.“ Þessi brtt. skýrir sig sjálf og er flutt til þess að koma til móts við fyrst og fremst félagssamtök flugmanna. Vildi ég leyfa mér að biðja hæstv, forseta að leita afbrigða fyrir þessari till.

Í fjórða lagi vildi ég geta þess, að samgmn. mælir ekki með samþykkt annarra brtt., sem fluttar eru á þskj. 413 og hv. 8. þm. Reykv. gerði hér grein fyrir áðan. Ég tel ekki þörf á því að fara að ræða þessar brtt. og svara ræðu hans. Það hefur í raun og veru verið gert af hæstv. flugmálaráðh., sem ræddi þær allýtarlega hér í hv. þd. fyrir skömmu. Ég vil þó bæta því við þessi ummæli mín, að frv. þetta er sniðið eftir norskum og dönskum loftferðalögum, sem þykja mjög fullkomin og nýtízkuleg á sínu sviði. Og við vitum, að það hefur verið háttur okkar Íslendinga að fylgja einmitt fordæmi frændþjóða okkar á Norðurlöndum á fjölmörgum sviðum löggjafarmálefna. Hefur það þótt vel gefast. Að sjálfsögðu ber okkur að líta sjálfstætt á okkar aðstæður og miða löggjöf okkar við þær sérstöku aðstæður, sem kunna að vera fyrir hendi í hinum ýmsu tilfellum hér hjá okkur. En yfirleitt hefur það þótt mjög vel gefast að sníða íslenzka löggjöf eftir fyrirmyndum frændþjóðanna á Norðurlöndum. Enn fremur má geta þess, að þetta frv. til loftferðalaga er samið af Gizuri Bergsteinssyni hæstaréttardómara, einum færasta og traustasta lögfræðingi landsins. Enn fremur hefur það verið yfirfarið af Hákoni Guðmundssyni hæstaréttarritara og Jónasi G. Rafnar alþm. Það fer því víðs fjarri, að hægt sé að segja með minnstu rökum, að kastað hafi verið höndunum til undirbúnings þessa frv. Það má enn fremur geta þess, að ég held, að samgmn. hafi um örfá mál fjallað jafnnákvæmlega og um þetta frv., enda er það geysiefnismikið og nauðsynlegt að setja sig inn í fjölmargar nýjungar, sem í því felast.

Ég vil loks geta þess, að það er ekki rétt, að ekki hafi verið sinnt ósk um það, að fulltrúar flugmanna gætu skýrt sjónarmið sín fyrir samgmn. Þetta er beinlínis rangt. Fulltrúi flugmanna mætti í n. og fékk mjög gott tækifæri til þess að skýra þau ýtarlegu skriflegu erindi, sem fyrir n. lágu. Ég skil ekki, hvað hv. 1. flm. þessara till. gengur til að vera að rangherma um slíka hluti, því að honum hlýtur að vera það ljóst, að lögfræðingur atvinnuflugmanna mætti hjá n. og átti þar að auki tal viti einstaka nefndarmenn utan funda oftar en einu sinni.

Að lokum vil ég segja það, að ég tel, að það hafi verið komið í till. n. nokkuð til móts við óskir flugmanna, og því fer víðs fjarri, að n. hafi haft minnstu ástæðu til annars en að líta með fyllstu góðvild og skilningi á þær ábendingar, sem fram hafa komið, bæði hjá fulltrúum samtaka flugmanna og ýmsum aðilum öðrum, sem hún leitaði álits hjá um þetta þýðingarmikla frv.

Um loftferðadómstólinn og brtt. fjórmenninganna um, að tekið verði upp ákvæði í l. um hann, vil ég aðeins segja það, að auðvitað er mikið álitamál, hvort það skipulag eigi að taka upp í þessum efnum eða það, sem gert er ráð fyrir í frv. Það, sem mestu réð í okkar huga, í samgmn., var það; að n. taldi, að þetta mundi verða of þungt í vöfum, ef ætti að fara að setja hér upp sérstakan loftferðadómstól. Þar að auki höfum við ekki á að skipa þeim fjölda sérfræðinga á þessu sviði, sem nágrannaþjóðir okkar eiga á að skipa. En til þess að koma nokkuð til móts við það sjónarmið, sem felst í raun og veru í till. um loftferðadómstól, var við 2. umr. samþ. till. frá samgmn. svo hljóðandi, sem var tekin upp í 140. gr. frv.:

„Skylt er flugmálaráðh. að skipa rannsóknarnefnd kunnáttumanna til að kanna orsakir flugslyss, ef manntjón hefur orðið.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því, ef um meiri háttar flugslys er að ræða, að þá sé flugmálaráðh. ekki aðeins rétt, heldur skylt að skipa sérstaka rannsóknarnefnd kunnáttumanna til að kanna orsakir flugslyss.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en n. mælir með því, að það verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef hér skýrt frá.