06.12.1963
Efri deild: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frsm. minni hl. heilbr.- og félmn. hefur nú gert grein fyrir nál. minni hl. og brtt., sem flutt er af minni hl. Hv. þm. vék að því, að þótt hækkanir og verulegar hækkanir hefðu orðið á ellilífeyri, þá væri hitt eftir, að bæta gamla fólkinu upp það, sem það þyrfti nú vegna vaxandi og aukinnar dýrtíðar að leggja af mörkum auk ellilífeyris til þess að hafa nóg sér til lífsviðurværis. Hann nefndi í því sambandi það, að margt gamalt fólk hefði lagt upp einhverjar fúlgur til elliáranna og nú hefðu þessir peningar rýrnað svo, að þeir yrðu gamla fólkinu að takmörkuðu leyti að gagni til þess að greiða það, sem þyrfti til þess að brúa bilið milli þess, sem ellilífeyririnn gefur, og hins, hvað kostar að framfleyta lífinu. Ég verð nú að segja við hv. þm., að þessi aths. hefði mátt eiga við allt síðan lögin voru sett. Við vitum það, að einfaldur lífeyrir hrekkur ekki fyrir öllum brýnustu nauðsynjum lífeyrisþegans. Og hann hefur aldrei gert það, síðan lögin voru sett. Það er að sjálfsögðu æskilegt, og vissulega verður að því stefnt að auka, eftir því sem hægt er, bæturnar og þar á meðal lífeyri, svo að hann komist sem næst því eða til jafns við það, sem framfærslukostnaðurinn er. En hvorki hefur núv. ríkisstj. né þeim ríkisstj. öðrum, sem hér hafa setið að völdum, síðan almannatryggingalögin voru sett, tekizt að finna leiðir til þess að bæta svo vel hag ellilífeyrisþeganna, að fyrir þessu væri séð.

Það er nú svo, að því miður er langt frá því, að allir þeir, sem ellilífeyris njóta, séu svo vel staddir, að þeir hafi getað lagt einhverja upphæð til hliðar til elliáranna. Þegar hv. þm. talaði um það, að þetta hefði þurft að laga, og lét í það skína, að þetta væri atriði, sem þyrfti að laga og bæta ellilífeyrisþegunum þessa rýrnun á þeirra samanspöruðu aurum, verðgildi þeirra, þá hefði slík aths. vissulega getað átt sér stað alla tíð frá því, að almannatryggingalögin voru sett, því að öllum er kunnugt, að dýrtíðin hefur verið sívaxandi síðan. Hvað þetta atriði snertir, sýnist mér, að það muni frekar snerta verðtryggingu sparifjár, spurninguna um verðtryggingu sparifjár, heldur en almannatryggingalögin.

En ég vil aðeins minna á eitt, þegar talað er um sparifé gamla fólksins. Ég vil minna á það, að þær vaxtahækkanir, sem orðið hafa í tíð núv. ríkisstj., hafa einnig leitt til stórfelldrar hækkunar á innlánsvöxtum, og nú er það alkunna, að hv. stjórnarandstæðingar hafa barizt með hnúum og hnefum móti vaxtahækkuninni og talið hana til mikillar bölvunar fyrir þjóðina, lagt það út á sinn hátt. En um leið hafa þeir reyndar einnig verið að berjast á móti hækkun á innlánsvöxtum, því að þetta tvennt hlýtur þó að haldast í hendur.

Hv. þm. minntist á afnám skerðingarákvæðanna og sagði, að þar hefði ekki verið stór hlutur ríkisstj., því að það hefði verið ákveðið af öðrum áður, 1956, að skerðingin skyldi falla úr gildi á tilteknum tíma. Ég vil aðeins minna á það, að ríkisstj. hafa áður frestað því ár eftir ár að nema burt að fullu skerðingarákvæðin, og það hefði viðreisnarstjórnin einnig getað gert, að fresta þessu, en það var hún, sem ekki gerði það, og því ber fyrst og fremst að þakka henni það, að skerðingarákvæðin voru afnumin, svo oft sem maður var búinn að horfa upp á frestun á afnámi ákvæðanna.

Það var annað, sem undraði mig nokkuð, í því, sem hv. þm. sagði um þetta atriði, um afnám skerðingarákvæðanna. Hann gerði heldur lítið úr því. Hann sagði, að það kæmi aðallega til bóta þeim, sem betur væru settir.

Ég man nú ekki eftir að hafa heyrt þann málflutning fyrr. Þar sem ég hef heyrt, bæði hér á hv. Alþingi og annars staðar, um það mál rætt, hafa allir talið það stórkostlegt hagsmunamál fyrir lífeyrisþegana, að skerðingarákvæðin væru afnumin, sem reyndar er ofur eðlilegt, meðan einfaldur lífeyrir nægir ekki fyrir framfærslukostnaði.

Hv. þm. undi því illa, að stjórnarliðar væru stöðugt að guma af því, hvað áunnizt hefði í tíð viðreisnarstjórnarinnar, og guma af eflingu almannatrygginganna þ. á m. Hann sagði í því sambandi, að stjórnarliðið hefði fellt umbótatill. stjórnarandstöðunnar þráfaldlega. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Það hefur ekki staðið á því, að stjórnarandstaðan flytti yfirboðstill. í hvert einasta skipti, sem breytingar og endurbætur hafa verið gerðar á almannatryggingalögunum í tíð núv. stjórnar. En það er bara ekki eftir því, sem menn verða dæmdir, hvaða yfirboðstill. þeir geta flutt, þeir verða dæmdir af verkum sínum, því, sem þeir létu eftir sig liggja, þegar þeir höfðu aðstöðu til að ráða hlutunum.

Hv. 9. þm. Reykv. hóf mál sitt hér áðan með því að segja, að margt hefði vissulega verið gert til bóta í tryggingamálunum í tíð ríkisstj. En hann sagði um það frv., sem hér er til umr., að engum dytti í hug að þakka það Sjálfstfl., þar hefðu aðrir staðið á verði fyrir þá, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Ég læt nú hv. þm. alveg um þessar hugleiðingar sínar. Ég vil minna hann samt á það, hvaða ríkisstj. það var, sem sat að völdum, þegar tryggingalögin voru sett, og ég vil minna hann á það, að undir forsæti Sjálfstfl. hafa, síðan viðreisnarstjórnin tók við völdum, orðið þær veigamestu breytingar, sem um getur, og endurbætur á almannatryggingalögunum, og að það hafi verið gert í harðri baráttu við Sjálfstfl., ég held, að honum gangi erfiðlega að sannfæra nokkurn mann um það, ef hann þá getur sannfært sjálfan sig.

Hv. þm. talaði um, að margir og stórir gallar væru enn á lögunum, og talaði um, að það ætti ekki að miklast af þeim, eins og þau væru orðin eitthvert alfullkomið mannanna verk. Ég vil segja hv. þm., að ég er honum alveg sammála um það. Það er ótalmargt, sem stendur til bóta á almannatryggingalögunum, og ég vænti þess, að lögin verði aldrei svo fullkomin, að það verði ekki hægt að bæta þar um á einn og annan hátt, og verður sjálfsagt að því unnið í framtíðinni að bæta almannatryggingalögin og efla tryggingar.

Hv. þm. flytur brtt., mælti fyrir brtt. um hækkun úr 15 í 40% á bótunum, öðrum en fjölskyldubótum þó, og enn fremur um verðtryggingu bótanna. Um það síðast talda vil ég segja það, að eins og alkunna er, voru með viðreisnarlöggjöfinni rofin tengslin milli framfærsluvísitölunnar og kaupgjalds og trygginga og annarra greiðslna, sem voru bundnar við framfærsluvísitöluna, og sé ég ekki ástæðu til, að léð sé máls á þessari brtt., meðan vísitalan er ekki tengd kaupgjaldinu í landinu. Hækkunartillögunum á hlutfallinu eða prósentunni, bæði hækkunartill. um, að 15 fari upp í 40%, og hækkunartill. hv. minni hl. heilbr: og félmn. um, að 15% fari upp í 25%, þeim báðum er ég andvíg og tel eðlilegt að halda sig við hlutfallshækkun í samræmi við það, sem almennt kaupgjald hefur hækkað í landinu á þessu ári, og vitna enn til þess, sem í aths. um frv. stendur um það, að verði frekari almennar kauphækkanir, þá muni bótaupphæðir einnig verða endurskoðaðar til hækkunar til samræmis við slíkar almennar kauphækkanir, ef verða.