05.05.1964
Efri deild: 81. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

20. mál, loftferðir

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. í nál. samgmn. um þetta mál er það tekið fram, að einstakir nm. áskilji sér rétt til að flytja brtt. við frv. og fylgja brtt., sem frsm kynnu að koma. Í samræmi við þetta hef ég ásamt hv. 1. þm. Vesturl. borið fram á þskj. 564 nokkrar brtt. við frv. Þessar brtt. voru einnig lagðar fram í hv. Nd. og fengu mikið fylgi við atkvgr, þar, þótt þær yrðu reyndar ekki samþykktar.

Fulltrúar atvinnuflugmanna ásamt lögfræðingi, sem hefur verið þeim til aðstoðar við athugun á þessu máli, komu á fund n., þegar frv. þetta var þar til umr. og athugunar, og lögðu þeir áherzlu á, að þær breytingar fengjust á frv., sem við leggjum til á þskj. 564. Hv. frsm. heftu nú gert þessar till. að umtalsefni og rakið nokkuð, hverju þær breyta frá ákvæðum frv., og get ég þess vegna farið fljótt yfir sögu. En allar miða þessar till. að því að skapa aukið öryggi í sambandi við flugþjónustuna.

1. till. er um breyt. á 52. gr. frv. og er um það, að flugmaður skuli ekki neyta áfengis, æsandi eða deyfandi lyfja næstu 5 klukkutíma eftir að starfa hans í loftfari lauk, enda hafi hann ástæðu til að ætla, að opinber rannsókn verði hafin um atferli hans við starfann. Hér viljum við fá þá breytingu á orðalagi; að aðili, sem í hlut á, hafi fengið aðvörun um það, áður en vakttíma hans lýkur, að ástæða sé til að ætla, að opinber rannsókn verði hafin um atferli hans við starfann. Þetta er í samræmi við það, sem algengt er í réttarfarsmálum, að frumkvæðið sé ekki hjá aðila eða segja má sakborningi sjálfum, heldur hjá öðrum aðila, þegar ástæða þykir til um rannsókn á atferli manns.

B-liður þessarar till, er um það, að við viljum fá þá breyt. á frv., að flugmaður gegni ekki flugþjónustu næstu 12 klukkustundir á eftir að honum hefur verið tekið blóð vegna rannsóknar á meintu broti. Þetta þykir rétt að setja í lög, þetta ákvæði, af öryggisástæðum, því vað sé manni tekið blóð, getur það haft líkamleg áhrif á hann, t.d. að handleggur bólgni, en þau áhrif komi ekki fram fyrr en nokkrar klukkustundir séu liðnar frá læknisaðgerðinni, og enn fremur sökum þess, að slík læknisaðgerð hafi oft sálræn áhrif á menn og það þurfi að vera öruggt, að menn gegni ekki þjónustu sem flugmenn, á meðan þeir séu í geðshræringu eða hugur þeirra ekki í jafnvægi sökum árekstra og aðgerða, sem orðið hafi fyrir stuttum tíma.

2, brtt. á þskj. 564 er um það, að lögákveðinn verði hámarksstarfstími flugmanna. Þessi ákvæði, sem í brtt. standa, eru í samræmi við það, sem gildir í brezkri löggjöf um þessi mál, eftir því sem greint var frá, þegar n. hafði þetta mál til athugunar. Í frv. er gert ráð fyrir, að ákvæði um þetta efni séu sett í reglugerð, og nú munu samsvarandi ákvæði vera í samningum, sem flugmenn eða félag atvinnuflugmanna gerir við flugfélögin. En í þessu sambandi er þess að gæta, að samningar eru miklu hreyfanlegri en löggjöfin sjálf. Svipað er raunar að segja um reglugerðarákvæði, og ég vil í þessu sambandi sérstaklega benda á, að hér á landi eru nú þegar allmargir flugmenn, sem starfa ekki hjá flugfélögunum hinum stærri, heldur gegna flugþjónustu á einkaflugvélum og falla því ekki undir þá samninga, sem um þetta hafa verið gerðir. En að setja þessi ákvæði í löggjöf mundi vissulega veita öllum flugmönnum mikið aðhald.

Þá kem ég að þeirri brtt. okkar, sem er mikilvægust, en það eru töluliðirnir 3–7, sem má skoða sem eina heild í þessu sambandi. Þar er svo kveðið á, að skipaður skuli loftferðadómstóll. Dómsmrh. skipar menn í dóminn og dómurinn sé skipaður til 4 ára í senn. Formaður dómsins og varaformaður skulu fullnægja sömu skilyrðum og hæstaréttardómarar, en auk formanns og varaformanns skulu skipaðir í loftferðadómstólinn 5 menn, sem hafa sérþekkingu á starfsgreinum í flugi og flugmálefnum. Við dómsstörf skulu tveir hinna sérfróðu manna starfa með formanni dómsins, og skal við val þeirra tekið tillit til þess, hvert verkefnið er og hverrar sérþekkingar helzt er þörf. Okkur er það kunnugt, að flugslys hafa orðið þó nokkrum sinnum hér á landi. Og einnig ber að líta á það, að flugið er í mjög örum vexti. Það virðist því eðlilegt, þegar þessi heildarlöggjöf er sett, að litið sé til hins öra vaxtar í flugþjónustunni og ákvæði um loftferðadómstól lögleidd. Það getur ekki orkað tvímælis, að það er hin fyllsta ástæða til þess, hvenær sem flugslys verður, að það sé rannsakað eins nákvæmlega og nokkur kostur er á. Sú rannsókn mun raunar oft litlu fá bjargað frá því, sem þegar er orðið. En hún getur orðið til lærdóms og viðvörunar síðar og átt þátt í því að koma í veg fyrir, að slys af sams konar eða svipuðum orsökum endurtaki sig. Og á þetta verður naumast lögð of mikil áherzla, að fyllstu varúðar sé gætt í þessu efni.

Í frv., eins og það kemur frá Nd., er gert ráð fyrir því, að ráðh. geti hverju sinni, sem flugslys verður, skipað rannsóknarnefnd kunnáttumanna til að rannsaka orsakir flugslyss, ef manntjón hefur orðið. En við, sem stöndum að þessum brtt., teljum miklu meira öryggi í því fólgið, að starfandi sé fastur dómstóll, sem hafi það verkefni að fjalla um mál af þessu tagi. Þá eru þar alltaf viðbúnir starfi hverju sinni menn, sem ber skylda til að framkvæma slíka rannsókn, og það á ekki að þurfa að valda neinum töfum að ná til þeirra, svo að þeir geti þegar gengið hiklaust að sínu starfi og haft sér til stuðnings þá reynslu, sem þeir öðlast í starfinu. Hitt sé ekki eins líklegt til árangurs, að þurfa að leita að mönnum í rannsóknarnefnd hverju sinni, sem óhapp verður við flugþjónustuna.

Við, sem flytjum þessar brtt., leggjum ríka áherzlu á, að þær verði samþykktar, og teljum þó tillögurnar um loftferðadómstólinn mikilvægastar.