19.03.1964
Neðri deild: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar lögin um húsnæðismálastofnunina o.fl. voru sett 1957, var einn þátturinn í þeirri fjáröflun, sem lögin gerðu ráð fyrir, nokkur skyldusparnaður, sem skyldi lagður til hliðar og notaður til lána hjá húsnæðismálastjórn, samtímis sem vitaskuld þeim, sem lögðu þessa peninga til hliðar, var þar með gefinn kostur á að eignast nokkra upphæð, sem var laus til íbúðarkaupa eða íbúðarbyggingar, þegar viðkomandi hafði náð 26 ára aldri eða hafði gift sig og stofnað heimili. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að upphæð skyldusparnaðarins, sem var og er í 1. nú 6%, verði hækkuð upp í 15%. Það er í fyrsta lagi gert til þess að afla húsnæðismálastjórn nokkurra viðbótartekna við það, sem hún hefur. Það er líka meiningin með frv., að unglingarnir, sem leggja þessa peninga til hliðar, geti þar með verið betur undir það búnir að greiða vexti og afborganir af lánum, sem þeir þurfa að taka í sambandi við húsbyggingar, og vera þannig betur undir það búnir að geta staðizt þann kostnað, sem af því leiðir. Með þeim tilkostnaði, sem nú er á íbúðabyggingum, og þeim vöxtum, sem greiddir eru af lánum til þeirra, er oft og tíðum erfitt fyrir þá, sem litlar eða mjög takmarkaðar eignir eiga, að standa undir þessum gjöldum öllum, en það ætti að verða þeim léttara, þegar þessi upphæð verður hækkuð á þann veg, sem hér er gert ráð fyrir. Tekjur manna hafa upp á síðkastið vaxið verulega í krónutölu, og er þess vegna ekki ástæða til að ætla, að það valdi þessum ungmennum verulegum erfiðleikum að leggja þetta fé til hliðar, en með því er, eins og ég segi, sköpuð veruleg trygging fyrir þá, að þeir geti betur staðið að húsbyggingum, þegar til þess kemur.

Þessum skyldusparnaði fylgja nokkur og raunar mjög veruleg fríðindi. Ég vil fyrst nefna, að það fylgja honum þau fríðindi, að hann er vísitölutryggður, þannig að verði verðhækkun á þessu tímabili, sem peningarnir eru lagðir fyrir á, verða þeir greiddir út í lokin með þeirri hækkun eða viðbót, sem af hækkun vísitölu framfærslukostnaðar leiðir. Þetta er náttúrlega mjög þýðingarmikið atriði, því að þær verðbreytingar, sem verða nú og hafa orðið á undanförnum árum, eru mjög örar og hafa dregið úr gildi sparifjárins, en með þessu er komið í veg fyrir, að sparifé rýrni, en haldi þvert á móti sínu gildi, hvernig sem verðlagsbreytingarnar í landinu verða.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að þetta fé, sem sparað er á þennan hátt, sé undanþegið tekjuskatti og útsvari. Þetta eru líka talsvert mikil hlunnindi fyrir þá, sem þetta fé leggja til hliðar.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í þessu frv., að þeir, sem leggja fram fé á þennan hátt með skyldusparnaði, hafi skýlausan forgangsrétt að lánum hjá húsnæðismálastjórn. Í lögum þeim, sem um þetta gilda nú, er gert ráð fyrir, að þeir hafi forgangsrétt „að öðru jöfnu“. Hefur þetta ákvæði orðið til þess, að minna hefur orðið úr því, að þessi forgangsréttur væri notaður og þessir skyldusparendur gengju fyrir. Þessi orð „að öðru jöfnu“, eru nú numin úr l. með þessu frv., sem þýðir þá um leið, að þeir hafa forgangsrétt fram yfir aðra umsækjendur.

Í fjórða og síðasta lagi er svo gert ráð fyrir því, að þau lán, sem þessir menn fá hjá húsnæðismálastjórn, megi nema allt að 25% hærri upphæð en það, sem aðrir fá. Þessi fjögur atriði eiga að tryggja það, að menn, sem í þetta leggja og safna saman fé á þennan hátt, njóti mjög verulegra hlunninda samanborið við aðra sparifjáreigendur í landinu.

Ég held, að frv. sé svo einfalt, að ég þurfi ekki að hafa um það miklu fleiri orð, en ég legg áherzlu á, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi. Að vísu verður það að segjast, að með þessu er ekki vandi húsnæðismálanna leystur að fullu, það er langt í frá, heldur er þetta spor í þá átt að tryggja húsnæðismálastjórn meira ráðstöfunarfé en hún hefur haft.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv, heilbr.- og félmn.