09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 585, hefur heilbr.- og félmn. athugað, og mælir n. með því, að frv. verði samþ. Frv. þetta er um breyt. á l. nr. 42 frá 1. júní 1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga o.fl.

Helztu breyt, frá núgildandi lögum, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, eru fólgnar í því í fyrsta lagi, að í stað þess, að nú er gert ráð fyrir, að öllum einstaklingum á aldrinum 16–25 ára sé skylt að leggja til hliðar 6% af launum sínum, sem greidd eru í peningum eða sambærilegum atvinnutekjum, í því skyni að mynda sér sjóð til íbúðabyggingar eða bústofnunar í sveit, er skv. frv. gert ráa fyrir, að í staðinn fyrir 6% komi 15%. Hér er um verulega hækkun að ræða, sem gerð er í því skyni að auka fjáröflun til íbúðarlána. Það er áætlað, að þessi hækkun muni nema fyrsta árið um 30 millj. kr., en fé það, sem þannig er aflað til íbúðalána, mun þó fara minnkandi með hverju ári sem líður vegna þeirra, sem ná 26 ára aldri og taka þá strax út skyldusparnað sinn.

Það er gert ráð fyrir samkv. núgildandi lögum, að fé það, sem á þennan hátt safnast, skuli ávaxta í innlánsdeild byggingarsjóðs fyrir alla þá, sem búsettir eru í kaupstöðum og kauptúnum, en í veðdeild Búnaðarbanka Íslands fyrir þá, sem búsettir eru í sveit. Skv. frv. því, sem hér liggur fyrir, stendur þetta ákvæði óbreytt að öðru leyti en því, að í staðinn fyrir veðdeild Bímaðarbanka Íslands stendur í frv.: Stofnlánadeild landbúnaðarins við

Búnaðarbanka Íslands. Þetta er sjálfsögð breyt. með tilliti til hlutverkaskiptingar hjá lánasjóðum landbúnaðarins.

Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir, að þeir, sem hlíta ákvæðum um skyldusparnað, skuli sitja fyrir um lán til íbúðabygginga að öðru jöfnu, eins og það er orðað í lögunum, frá húsnæðismálastjórn. Þetta ákvæði stendur óbreytt í frv. frá því, sem er í gildandi lögum, að öðru leyti en því, að felld eru niður orðin „að öðru jöfnu“, þ.e.a.s. að samkv. frv. Verður fortakslaus réttur þeirra, sem skyldusparnaðar njóta og fylla önnur skilyrði laga, að sitja fyrir lánum húsnæðismálastjórnar.

Í núgildandi lögum er hinn skilorðsbundni forgangsréttur til lána hjá húsnæðismálastjórn bundinn því skilyrði, að sparifjársöfnun þeirra, sem um er að ræða, nemi samanlagt a.m.k. 25 þús. kr. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessu sé breytt þannig, að um leið og forgangsrétturinn er aukinn, þá sé þessu lágmarki breytt úr 25 þús. kr. í 50 þús. kr.

Í núgildandi lögum er kveðið svo á, að fé það, sem safnast við skyldusparnaðinn, skuli ávaxta í innlánsdeild byggingarsjóðs ríkisins fyrir alla þá, sem búsettir eru í kaupstöðum og kauptúnum, og byggingarsjóður ríkisins veiti lán þessum aðilum. Á sama hátt er gert ráð fyrir því í núgildandi lögum, að þeir, sem búa utan kaupstaða og kauptúna og eiga fé sitt ávaxtað í veðdeild Búnaðarbankans og vilja stofna bú í sveit, skuli njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu um lán til bústofnunar frá deildum Búnaðarbankans. Hér er gerð í frv. sú breyt. frá þessum ákvæðum gildandi laga, að í staðinn fyrir, að talað er um lán til bústofnunar úr deildum Búnaðarbankans, að þá er í frv. talað um lán til bústofnunar úr stofnlánadeildinni. En auk þess er bætt ákvæði í frv., sem ekki er í gildandi lögum og er svo hljóðandi: „enda verði þau lán veitt,“ þ.e.a.s. úr stofnlánadeildinni, „með sams konar vísitölutryggingu og hin vísitölubundnu lán húsnæðismálastjórnar.“ Þetta þykir sjálfsögð breyt. frá gildandi lögum, því að skv. gildandi lögum hefur Búnaðarbankinn orðið að taka að sér skuldbindingar, sem eru vísitölutryggðar, vegna fjáröflunar í þessu skyni, en hann hefur ekki haft lagaheimild til að veita lán af þessu fé með vísitölutryggingu. Þetta hefur skapað vissa erfiðleika hjá Búnaðarbankanum og hann borið halla af þessari lánastarfsemi af þeim sökum, og því þykir eðlilegra að breyta þessu á þann veg, að Búnaðarbankanum sé veitt heimild til að veita vísitölutryggð lán á sama veg og byggingarsjóður ríkisins á að gera, eins og ákveðið er í gildandi lögum.

Ég hef hér vikið að þeim atriðum, sem fela í sér breyt. frá gildandi lögum. Ég ítreka það, sem ég hef áður sagt, að heilbr: og félmn. mælir með því, að frv. verði samþ., en tveir nefndarmanna, þeir hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 1, þm. Vesturl., hafa áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.