09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. skýrði frá, mælir öll nefndin með samþykkt frv. Hins vegar áskildum við hv. 1. þm. Vesturl. okkur rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt.

Aðalatriði frv. er. að skyldusparnaður sé hækkaður hjá ungu fólki úr 6% í 15%. Þetta tel ég ágætt. Ég minnist nöldursins, sem var í sjálfstæðismönnum, og mótspyrnunnar frá þeim, þegar 6% skyldan var lögleidd. Nú leggja þeir — og það sömu menn flestir — til, að skyldan sé 21/2 -földuð. Betur, að sjálfstæðismenn sæju að sér svo rækilega á fleiri sviðum. Hv. frsm. nefndarinnar rakti önnur atriði frv., þ. á m. að skyldusparnaður sveitafólksins, sem hefur gengið til veðdeildar Búnaðarbankans fram að þessu, eigi nú að ganga til stofnlánadeildar Búnaðarbankans. Ég fyrir mitt leyti er ekki viss Um, að þetta sé heppilegt. Þetta atriði var víst mikið rætt í hv. Nd., og fóru þar fram atkvgr. í því sambandi. Við hv. 1. þm. Vesturl. gerum engar brtt við þetta. En hitt er það, að við teljum sjálfsagt, að fólkið í sveitunum njóti sama réttar og fólkið í þéttbýlinu að því er forgangsrétt til lána snertir hjá þeim, sem hafa lagt inn eða átt inni skyldusparnað, en eftir frv. virðist það ekki eiga svo að vera. í 4. mgr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þeir, sem lagt hafa fé í stofnlánadeild landbúnaðarins og vilja stofna bú í sveit, skulu njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu um lán til bústofnunar úr stofnlánadeildinni, enda verði þau lán veitt með sams konar vísitölutryggingu og hin vísitölubundnu lán húsnæðismálastjórnar. Af orðunum, eins og þau hljóða hér, verður ekki annað ráðið en öll þau forgangslán, sem sveitafólkið á að eiga rétt á úr stofnlánadeildinni, eigi að vera lán með kvöð vísitölutryggingar. En í húsnæðismálastofnuninni er það þannig, að það eru B-lánin, sem eru vísitölutryggð, það er hluti af forgangsréttarlánunum, sem þannig er veittur og að vísu ekki fastákveðinn, og um þetta mun vera nokkuð breytileg framkvæmd, hvað hinn vísitölutryggði hluti er hár hverju sinni, en hann má þó aldrei vera hærri en 50%. Mér skilst, að eftir orðanna hljóðan í frv. eigi að miða öll lán til sveitafólksins, sem á að leggja sitt fé inn í stofnlánadeildina, við það, að þau séu vísitölutryggð, því að hér segir, að þau skuli „veitt með sams konar vísitölutryggingu og hin vísitölubundnu lán húsnæðismálastjórnar.“

Ég skil ekki, að nokkur geti talið réttmætt að gera þannig upp á milli sveitaæskunnar og kaupstaðaæskunnar í þessum efnum. Nóg er nú samt, sem dregur unga fólkíð úr sveitum, þótt það séu ekki beinlínis lagðar á það í þessum efnum þyngri kvaðir en þá, sem eru í kaupstöðum. Af þessum ástæðum höfum við 1. þm. Vesturl. ákveðið að leggja hér fram skrifl. brtt., sem ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa, en hún er við 1. gr., að í stað orðanna í 4. mgr.: „enda verði þau lán veitt með sams konar vísitölutryggingu og hin vísitölubundnu lán húsnæðismálastjórnar“ komi: „enda verði þau lán veitt að sama hluta með vísitölutryggingu og lán húsnæðismálastjórnar til skyldusparnaðarfólks“, — að þau verði veitt að sama hluta með vísitölubindingu, en ekki stærri hluta eða öllu leyti. Ég mun afhenda hæstv. forseta till. og tel ekki ástæðu til að reifa málið með lengri ræðu að sinni.