09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur vikið að þeirri breyt., sem gerð var á þessu frv. í hv. Nd. í sambandi við ávöxtun skyldusparnaðarfjár, sem til fellur frá fólki búsettu í sveitum. Ég vil taka það fram, að sú breyt., sem þar var gerð á frv., er skv. ósk stjórnar Búnaðarbankans og af mjög eðlilegum ástæðum, því að sannast sagna hygg ég, að menn hafi lítið gert sér grein fyrir því, þegar þetta ákvæði var sett upphaflega í sambandi við skyldusparnaðinn, hvaða áhrif það hefði að afhenda Búnaðarbankanum þetta fé til ráðstöfunar með þeim hætti, sem þá var gert. Það var ákveðið í þeim lögum, að þetta fé skyldi renna til veðdeildar Búnaðarbankans, og að vísu ákveðið svo, að því skyldi varið til bústofnunar í sveit. Þessum ákvæðum hefur aldrei verið hægt að fullnægja, þ.e.a.s. seinna atriðinu, vegna þess, svo sem öllum hv. þm. er kunnugt, að veðdeild Búnaðarbankans er ekki sérstaklega til þess fallin að lána slík lán, ekki sízt ef það hefur verið hugsað sem bústofnslán, þá er alls ekki gert ráð fyrir, að hún reki slíka starfsemi. En það, sem var þó verst af öllu, var, að þetta fé var afhent veðdeildinni með þeim kjörum, að veðdeildin skyldi bera vísitöluhalla af þessu fé, en hins vegar engin heimild fyrir hendi til þess að endurlána féð með vísitöluáhættu, þannig að þetta var sannarlega hinn mesti bjarnargreiði við veðdeild Búnaðarbankans og hefur valdið því, þar sem hún lánar þetta fé út með 8% vöxtum, að með vísitöluuppbótunum, sem nú eru komnar á, mun láta nærri, að hún muni verða að borga 20% í vexti af þessu fé til þeirra, sem það eiga, þannig að það gefur auga leið, að hér er auðvitað um svo fráleita skipan mála að ræða, að það er ekki hægt fyrir neina bankastofnun að taka á móti slíku fé. Það var því ekki um annað að ræða en að gera á þessu breyt., og þessi breyt. var tvíþætt: Annars vegar, að féð rynni til stofnlánadeildar landbúnaðarins, sem er miklu eðlilegri aðili, ef hugsunin væri sú að miða þetta fé sérstaklega við lánveitingar til bústofnunar, eins og í lögunum réttilega segir, því að í stofnlánadeildarlögunum er gert ráð fyrir mjög viðtækum heimildum til lánveitinga og þá ekki hvað sízt í sambandi við slíka hluti. Hitt ákvæðið er svo sett inn í frv., að þetta fé verði ekki endurlánað nema með vísitölutryggingu, og það er að sjálfsögðu ekki verið að mismuna einum né neinum með því, vegna þess að allt það fólk, sem fær það fé, sem er andvirði skyldusparnaðar hjá ungu fólki í bæjum, verður að greiða vísitölutryggingu á þeim skuldum sinum, og hefur með þeim hætti tekizt að forða því, að það fari eins um þetta fé hjá húsnæðismálastofnuninni og það hefur gert hjá Búnaðarbankanum. Ég verð því að halda því fram, að það sé síður en svo, að það sé verið að mismuna einum né neinum með þessu, heldur er verið að koma hér á skipan mála, sem við hljótum öll að vera sammála um að er óumflýjanleg, og hitt getur ekki verið neinum til góðs, því að á stuttum tíma mundi það ríða veðdeild bankans að fullu, ef hún ætti að halda áfram ávöxtun slíks fjár.

Varðandi það, að með þessum ákvæðum sé verið að mismuna einhverjum og gera lítinn hlut þeirra, sem eru að stofna bú í sveit, þá er því að svara, að með lögunum, eins og þau voru, var það á engan hátt tryggt, og þetta fé hefur alls ekki verið notað í því skyni sérstaklega að lána því fólki, sem hefur sparað þetta fé, þannig að það hefur þá fyrst og fremst verið mismunun til þess, sem þar hefur átt sér stað.

Varðandi brtt. þeirra hv. þm., sem hér hefur komið fram og lýst var af hv. 1. þm. Norðurl. e., er það að segja, að þessi brtt. er byggð, að ég hygg, að töluverðu leyti á misskilningi á þessu ákvæði, sem hér er um að ræða. Hér segir ekki neitt um það, hvort þessi lán, sem fólk fær að þessu leyti til til bústofnunar, eigi að öllu leyti að vera vísitölubundin eða ekki. Hér er aðeins það eitt sagt, að skyldusparnaðurinn, sem notaður er í þessu skyni, skuli vera vísitölubundinn. Það er það eina, sem felst í þessu lagaákvæði eða þessari breyt., sem samþykkt hefur verið í hv. Nd. inn í frv., þannig að eftir sem áður er það algerlega fyrirkomulagsatriði, hve stór hluti þetta verður af hverju einstöku láni, sem kann að verða veitt í þessu sambandi.

Ég get tekið það fram hér, af því að ég veit, að hv. þm. hafa borið mjög fyrir brjósti, að það yrði fundinn einhver möguleiki til bústofnslána, — það hefur hingað til ekki verið, m.a. af fjárskorti og einnig að vísu vegna hins, að það eru mikil vandkvæði á slíkum lánum, en í mörgum tilfellum er þó hægt að veita þau. Það er mjög tilfinnanlegt oft fyrir marga unga menn, sem eru að hefja búskap, sérstaklega á það sér stað í sambandi við yfirtöku á jörð og bústofni, sem henni fylgir, frá foreldrum eða vandamönnum, að þeir skuli ekki geta leyst til sín þennan bústofn. Þarna er um að ræða mjög brýnan vanda, sem þarf að leysa, og ég tel, að þann vanda þurfi að reyna að leysa. Þetta yrðu hins vegar lán, sem yrðu til stutts tíma, svo sem t.d. á sér stað með vélakaupalán, og ég álít, að það sé ekki hægt að endurlána með vísitöluáhættu lán, nema þau séu til skamms tíma, og þess ber að gæta, að vísitölulánin, sem lánuð eru fólki í bæjum, eru til miklu lengri tíma en ég tei að væri, gerlegt að lána þessi lán til fólks í sveitum, þannig að það er síður en svo, að það sé hugsuð nokkur mismunun á þessu í þessu sambandi. Ég mundi hins vegar telja það mjög óheppilegt að vera að ákveða í lögunum nein ákveðin hlutföll í þessu skyni, vegna þess að það þarf að athugast allt miklu nánar, og ég fullyrði aðeins það, að með þessu ákvæði út af fyrir sig er ekkert verið að segja um það, hvernig þessi einstöku lán skuli vera, þ.e.a.s. hve stór hluti þeirra skuli vera vísitölubundinn og hve stór hluti með öðrum kjörum. Að sjálfsögðu kemur það mjög til álita, að þessi lán yrðu þó með eitthvað lægri vöxtum, og ég er í engum efa um það, að fólk, sem hingað til hefur ekki átt þess nokkurn kost að fá t. d, bústofnslán, það mundi taka því með miklum þökkum að fá slík lán sem þessi, jafnvel þótt þau væru að fullu vísitölubundin. Og mér er ekki kunnugt um annað en það hafi jafnvel verið uppi raddir um það í sambandi við húsnæðislán, að til þess að auðvelda öflun fjár til þeirra, þá gæti vel komið til mála að auka þar vísitölubindinguna, og ég get búizt við, að það geti þurft að gera það með hliðsjón af því, að hér er gert ráð fyrir stórauknu fé við hækkun skyldusparnaðar.

Ég held, að þessi till. byggist að því leyti á misskilningi, að með lagaákvæðinu, eins og það er, þá er ekkert sagt til um það, í hvaða hlutföllum þetta sé skuli vera við annað lánsfé í þessu skyni, heldur það eitt sagt, að þetta vísitölutryggða fé skuli í heild lánast út með vísitölukjörum. Og þar sem ekki er komin endanleg niðurstaða um það, hvernig þessu fé yrði ráðstafað, og bankastjórnin hefur enga ákvörðun um það tekið, hvernig heppilegast væri að gera það, þá teldi ég óheppilegt, að það væri farið að binda þetta frekar en þarna er gert, því að ég álít, að allir hv. þm. eigi að geta treyst því engu að síður, að það verði ekki á neinn hátt notað til að mismuna einum né neinum.