07.04.1964
Neðri deild: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er fullkomlega rétt hjá hæstv. ráðh., að hér er um nýmæli að ræða, og þegar af þeirri ástæðu slæmt, að þetta frv. skuli koma fram svona seint á þinginu og þess vegna minni tími til þess að athuga það og það, sem á bak við það liggur, ofan í kjölinn.

Áður en ég vík að efni frv, og öðru, sem kemur upp í hugann í sambandi við það, vil ég minna á, að eftir því, sem ég veit bezt, varð þetta mál fyrst að þingmáli á Alþingi 1958–1959 og var þá samþykkt þáltill. um málið, sem flutt var af Karli Kristjánssyni um vinnslu kísilleirs við Mývatn og í Aðaldal, og var sú ályktun þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar á þessu ári ganga til hreins um það með fullnaðarrannsókn og áætlunum, hvort arðvænlegt sé að vinna til útflutnings kísilleir þann, sem er á botni Mývatns og meðfram Laxá í Aðaldal. Komi í ljós að fullathuguðu máli, svo sem líkur virðast benda til, að vinnsla leirsins sé arðvænleg, leiti ríkisstj, úrræða til þess, að vinnslan verði hafin sem allra fyrst.“

Þetta var upphaf málsins á Alþingi, eftir því sem ég bezt veit, og síðan hefur verið unnið að þessu máli nokkuð, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. En áður en þessi þáltill. var samþykkt á Alþingi, höfðu íslenzkir Sérfræðingar unnið í þessum málum mjög merkilegt starf, sem hæstv. ráðh. kom að nokkru inn á.

Nú standa þessi mál þannig, eftir því sem hæstv. ríkisstj. upplýsir í frv., að hún leggur fram frv. til 1., sem gerir ráð fyrir ýmsum heimildum henni til handa til frekari framkvæmda í málinu. En í raun og veru standa þessi :mál í dag á því stigi, sem segir í upphafi grg., því að þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En er margt óunnið í þessu máli, og traustar niðurstöður um líklega rekstrarafkomu fyrirtækisins fást ekki, fyrr en hið fyrirhugaða undirbúningsfyrirtæki hefur lokið lokaáætlunum sínum.“

Og síðar í gr. er upplýst, að stofnkostnaðaráætlanir liggi raunar ekki fyrir enn nema mjög lauslegar og mörg önnur atriði í málinu séu óljós. En það, sem menn vita, sé þó þannig, að ástæða sé til að ganga fastar að, setja undirbúningsstarfið í fastari skorður en verið hefur og afla heimilda til að reisa verksmiðju, ef niðurstöðurnar verða jákvæðar að lokum. Þannig stendur málið í dag að þessu leyti til. Ég vil láta í ljós þá von, að björtustu vonir um möguleika til að koma þarna á fót merkilegu fyrirtæki rætist og þannig verði lokaniðurstaðan af þeim athugunum, sem enn eiga eftir að eiga sér stað. En í því sambandi langar mig til að setja strik undir það, sem kemur fram í þessu máli, og benda á, hvað það er ánægjulegt, að í þessu máli virðist tækniforustan alveg tvímælalaust hafa verið íslenzk og það svo greinilega, að eins og kemur fram í þeim gögnum, sem lögð eru fram um málið, var málið algerlega strandað af tæknilegum ástæðum, þangað til íslenzkur tæknimaður fann þau úrræði, sem komu aftur hreyfingu á málið og við vonumst eftir að verði til þess, að endanlega rísi þarna merkilegt fyrirtæki. Það er ástæða til þess að láta í ljós sérstaka ánægju yfir þessu, og því á auðvitað sá maður, sem forustuna hefur haft í þessu efni, Baldur Líndal, mestar þakkir skilið, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh: En þetta er sérstaklega ánægjulegt að minna á, því að þetta sýnir okkur á einhvern hinn skemmtilegasta hátt, sem verið getur, hvað langt er hægt að komast, jafnvel meðal lítillar þjóðar, í því að eignast góða tæknimenn. Það fer ekki allt eftir höfðatölunni. Ætti þetta að auka okkur kjark til að leggja meira í tæknimálin, meira í kostnað til þess að Íslendingar geti sjálfir séð sér farborða tæknilega skoðað, því að sannleikurinn er sá, sem kemur einmitt fram í sambandi við þetta mál, vissa þætti í því, sem ég kem að síðar, að algert sjálfstæði okkar í framtíðinni byggist kannske meira á því en flesta okkar grunar í dag, að við getum staðið tæknilega séð á eigin fótum, að við eigum mönnum á að skipa, sem geta fundið úrræði í atvinnumálum okkar, og við getum því verið raunverulega sjálfstæðir, en þurfum ekki að láta fjöregg okkar fyrir tæknikunnáttu annarra.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að nú kemur fram, hversu óheppilegt það er að haga undirbúningi stórfelldra nýmæla á þann hátt, sem nú er farið að tíðkast allt of mikið, en það er, að málin séu lögð í hendur manna, sem valdir eru einhliða pólitískt og þá með það fyrir augum, að eingöngu komi þeir til greina, sem fylgja stjórninni að málum þá og þá. En það er svo með þetta mál, að þó að það ætti náttúrlega ekki að vera málefni, sem þyrfti að fjalla um eftir pólitískum línum, a.m.k. ekki tæknihlið málsins né fjármálahlið, þá hefur það verið haft á vegum stóriðjunefndarinnar, en hún er valin á þann hátt, sem ég lýsti. Þess er gætt, að þar komi engir nærri aðrir en þeir, sem eru á sömu „línu“ sem kallað er og ríkisstj. Þar fá ekki önnur sjónarmið að koma til greina. Þeir, sem kvaddir eru til þar umfram, eru þá embættismenn eða tæknimenntaðir menn, sem búa vitanlega við þagnarheit um þau efni, sem þarna er um fjallað, og ber að líta eingöngu á hina tæknilegu hlið málanna. Þetta verður svo til þess, að ýmsar þýðingarmiklar ákvarðanir eru teknar, jafnvel um alger nýmæli, án þess að sjónarmið þeirra fái að koma til greina, sem þá og þá eru í stjórnarandstöðunni. Sjónarmið þeirra eru þá aldrei skoðuð einu sinni, það er ekki grennslazt eftir, hver þau eru, hvort þeim geti dottið í hug eitthvað, sem væri nauðsynlegt að taka til greina, þegar um algerar nýjungar er að ræða. Ekkert slíkt getur komizt að, ekkert slíkt getur komið til greina. Og oft fer svo þannig, að áður en málin eru lögð fram til íhugunar á hv. Alþingi, þá er búið að taka þýðingarmestu ákvarðanirnar, og e.t.v. er þannig ástatt einmitt um þetta mál, að það sé í raun og veru búið að taka í þessu máli þýðingarmestu ákvarðanirnar, þegar það er lagt hér fram til meðferðar á hv. Alþingi.

Það er auðvitað nauðsynlegt stundum, að ríkisstj. hafi aðeins þá, sem kalla mætti sína eigin menn, við að útbúa pólitísk mál í vissum farvegi. Það getur komið fyrir, að þetta sé algerlega eðlilegt. En það er ekki eðlilegt, að við venjum okkur á að hafa þennan háttinn á, þegar um er að ræða að þreifa sig áfram með algerar nýjungar, eins og hér er ástatt t.d., og yfirleitt að því er varðar stóriðju og spursmálið um það, hvernig semja skuli við útlendinga í sambandi við erlent fjármagn og atvinnurekstur á Íslandi.

Öll þessi mál eru þannig vaxin, að það er áreiðanlega lífsnauðsyn og þar af leiðandi á allan hátt eðlilegt, að þessi mái séu skoðuð á frumstigi þeirra gaumgæfilega alveg ofan í kjölinn á talsvert viðtækum grundvelli, þannig að þar geti öll sjónarmið komizt að. Þessi mál eru áreiðanlega nægilega vandasöm og í þeim eru það mörg hættuleg atriði, að það væri fult ástæða til þess.

Ég minni aðeins á þetta. Það verður ekki tekið aftur, sem búið er að gera, en ég minni samt á þetta í sambandi við þetta mál, sem nú hefur verið lagt fyrir. Þetta veldur oft alveg ónauðsynlegri tortryggni. Oft steyta menn líka bókstaflega á skerjum, vegna þess að þetta er ekki gert. Öll einangrun veldur tortryggni, ekki sízt af þessari gerð, og þetta getur gert málin helmingi erfiðari viðfangs en þau þyrftu að vera á marga lund. Og það veit ég, að allir sjá, sem vilja íhuga þetta af sanngirni.

Eftir þennan örstutta inngang vil ég víkja að málinu, sem fyrir liggur. Það er gert ráð fyrir því, eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, að stofna undirbúningsfélag, sem svo mætti kalla og þannig er kallað í frv., til þess að halda áfram nauðsynlegum rannsóknum, gera endanlegar kostnaðaráætlanir og yfirleitt kryfja til mergjar, hvort hér getur orðið um að ræða að byggja verksmiðju. Enn fremur er ætlazt til þess, að ríkisstj. fái heimild til að leggja fram allt að 50 millj. kr. af ríkisfé sem hlutafé í félagi, sem kynni að verða stofnað til þess að reisa verksmiðju til að vinna kísilgúr. Enn fremur er þarna heimild til þess að byggja hitaveitu vegna verksmiðjunnar við Mývatn, að selja verksmiðjunni hráefni úr kísilgúrnámunum utan netlaganna, þ.e.a.s. af þeim kísilgúr, sem talið er að ríkið eigi.

Það er gert ráð fyrir því, að ríkið eigi meiri hluta bseði í undirbúningsfélaginu og hlutafélaginu, sem reisir á sínum tíma verksmiðjuna, ef í það verður ráðizt, sem við skulum vona að verði.

Ekkert af því, sem ég nú þegar hef talið, er í raun og veru sérstaklega nýstárlegt, nema það, að ráðgert er að vinna þarna nýtt efni, og það er nýstárlegt og stórt mál. En ekkert er að öðru leyti nýstárlegt við það, sem ég þegar hef talið um efni frv. En það nýstárlega við fyrirkomulagið er ótalið, og það er, að gert er ráð fyrir þátttöku erlendra aðila í þessum félögum, bæði undirbúningsfélaginu og eins félaginu, sem reisir verksmiðjuna. Þessum erlendu aðilum er þó ekki ætlað að leggja verulegt fjármagn í þetta fyrirtæki. Ef hlutafé verksmiðjunnar verður 30 millj., eins og ráðgert er, sem ekki er ósennilegt, samkv. frv., þá mundi erlendi aðilinn, sem á að eiga þarna hlut að máli, leggja til 3–6 millj. kr. eftir ástæðum, getur leikið á 10—20%, — eitthvað dálítið meira, ef hlutaféð verður hærra. M.ö.o.: það eru ekki neinir verulegir fjármunir, það er ekki neitt, sem máli skiptir, sem erlendu aðilunum er ætlað að leggja í þetta fyrirtæki, því að við gerum ráð fyrir því, að það, sem ekki yrði hlutafé, yrði tekið að láni.

Íslendingum sjálfum er ætlað að eiga skýlausan meiri hluta í þessu fyrirtæki, og ríkinu sjálfu er meira að segja einu ætlað að eiga meiri hlutann í því. Útlendingunum er ætlað að eiga lítinn minni hluta, sem engu máli skiptir frá því sjónarmiði að afla fjár til fyrirtækisins. Þetta er alveg augljóst, enda eru þeim þá líka að sjálfsögðu ætluð minni ráð í félaginu, og verður framleiðslufélagið á vegum Íslendinga að þessu leyti til. Þetta sýnist liggja augljóslega fyrir af frv. sjálfu.

En þá er þess að gæta, að frv. sjálfu fylgir samningur eða samningsuppkast a.m.k., sem stóriðjunefndin hefur gert fyrir hönd ríkisstj. og ríkisstj. fyrir sitt leyti, að því er helzt verður skilið, fallizt á, og sýnir, hvernig hún hugsar sér að framkvæma stofnun kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn og rekstur hennar. Og það er þessi samningur, sem mér sýnist sérstök ástæða til þess að skoða og fá upplýsingar um.

Við tökum eftir því, að eins og málið liggur fyrir, þá er það augljóst, að Íslendingar þurfa ekki að sækja fé til annarra. Þeir þurfa ekki að hleypa neinum í meðeign með sér í þessu fyrirtæki til þess að útvega fé. Þetta er ekki stærra fyrirtæki en svo, að það er vel viðráðanlegt Íslendingum einum, enda sjáum víð, að þær fjárhæðir, sem ætlazt er til að útlendingar leggi fram, skipta nálega engu máli.

Við sjáum einnig af því, sem liggur fyrir í málinu, þó að það sé ekki að öllu leyti sundurliðað í einstökum atriðum, að tæknikunnáttu þarf ekki heldur að kaupa inn í þetta fyrirtæki með því að tengja það útlendingum. Það virðist liggja alveg augljóslega fyrir, að okkar eigin forustumaður í þeim efnum hefur leyst aðalhnútinn, og ég sé ekki betur af því, sem hér liggur fyrir, en það, sem á hefur vantað tæknilega séð, hafi verið keypt erlendis, eins og reyndar líka er viðurkennt í grg, frv. Eru það því hvorki tæknilegar né fjárhagslegar ástæður, sem gera það að verkum, að hér er ráðgerð þátttaka útlendinga í þessu félagi, þátttaka útlendinga, sem að vísu í sjálfu verksmiðjufélaginu er svo lítil, að hún út af fyrir sig hefur auðvitað enga hættu í för með sér.

En þú er samningurinn, sem fylgir og er þannig vaxinn, að hann þarf að athuga betur. Þar er gert ráð fyrir því, að þessi verksmiðja skuli ekki sjálf selja sínar vörur erlendis, eins og íslenzk framleiðslufyrirtæki gera yfirleitt, heldur skuli afhenda vörurnar, þegar þær hafa verið framleiddar, öðru fyrirtæki, sem er erlent fyrirtæki, úti í Hollandi. Og í þeim samningi, sem hér liggur fyrir, ef þetta er þá samningur, ef þetta er ekki útdráttur úr samningi, stendur, að þetta hlutafélag, sem er tvímælalaust og óumdeilanlega erlent hlutafélag, skuli eitt hafa rétt til þess að selja framleiðslu kísilgúrfélagsins við Mývatn utan Íslands. Eins og þetta liggur fyrir eftir orðanna hljóðan, virðist þarna vera gert ráð fyrir því, að íslenzka félagið afhendi þessu félagi allan útflutningskísilgúr til sölu og það skuli eitt hafa hann með höndum.

Enn fremur segir, að félögin tvö skuli gera með sér samkomulag, er tryggi sanngjarna skiptingu hagnaðar milli félaganna. Nú er það mjög óljóst fyrir mér og þarf skýringar við og skoðunar, hvað átt er við með hagnaði í þessu tilfelli. Hvaða hagnaði á að skipta á milli félaganna? Framleiðslufélagið er íslenzkt félag og framleiðir kísilgúrinn. Hitt á að vera sölufélag og selja kísilgúrinn. En hvaða hagnaði á þá að skipta á milli félaganna? Á erlenda félagið að fá hluta af hagnaðinum við að reka verksmiðjuna við Mývatn? Er átt við það með þessu? Ég hafði hugsað, að þetta hlyti að eiga að byggjast upp þannig, að tæki félag að sér að selja vöru fyrir framleiðslufyrirtæki á Íslandi, þá mundi það fyrirtæki fá sín sölulaun fyrir að selja vöruna. Og þannig hélt ég sannast að segja alla slíka samninga byggða upp, að það fyrirtæki fengi sölulaun fyrir að selja vöruna, en ekki fylgdu samningar um, að sölufyrirtækið fengi hluta af þeim hagnaði, sem kynni að verða á framleiðslunni hér í landinu. Það væri hliðstætt því, að frystihús, sem fengi firma erlendis til þess að selja fyrir sig, léti af hagnaði sínum í uppbót á sölulaun, það væri sett upp af hendi þess, sem ætlaði að selja vöruna, að hann fengi hluta af hagnaði frystihússins í ofanálag á sölulaunin.

Þetta þarf frekari skýringar við, og ég var satt að segja hissa, þegar ég sá þetta, vegna þess að ég gerði ráð fyrir því, að hér ætti að vera um hreina og skýra verkaskiptingu að ræða: annars vegar framleiðslu, sem væri seld með ákveðnu verði, og hins vegar sölu, sem væri goldin með ákveðnum sölulaunum. Ef þetta er ekki réttur skilningur hjá mér, þá er hér í raun og veru um samrekstur að ræða, einhvers konar samrekstur hugsaður, án þess þó að þetta sölufélag eigi nokkuð í verksmiðjunni. Þarf þetta þá allt miklu nánari athugunar við. Þá er hér í raun og veru tæpast um tvö fyrirtæki að ræða eða hvernig menn vilja orða það, þá er ekki þarna um hreina framleiðslu annars vegar að ræða og sölumennsku hins vegar. Annað atriði í þessum samningum er það, að hlutafélagið erlenda skuli eitt hafa rétt til þess að selja framleiðslu kísilgúrfélagsins við Mývatn utan Íslands. Það kemur ekki fram í þessu sambandi hve lengi. Ég veit, að það er öllum hv. þm. ljóst, að Íslendingar hafa ævinlega lagt höfuðáherzlu á að reyna að byggja sér upp markaði erlendís sjálfir. Það ætti ekki að þurfa að halda langan fyrirlestur um, hversu geysilega þýðingarmikið það er og hvar værum við staddir, ef það hefði þó ekki tekizt að byggja upp sölukerfi erlendis fyrir hraðfrysta fiskinn? Ef við þyrftum að afhenda hann erlendum aðilum óseldan og sæta því verði, sem þeim sýndist að skammta okkur fyrir, hvernig værum við settir, ef við hefðum þannig aðstöðu með afurðir eins og fiskinn? Og ég veit, að það er öllum mönnum ljóst, hversu geysilega þýðingarmikið þetta atriði er, að geta byggt upp sinn eigin markað og haft fullt vald á vörunni. Á hinn bóginn geri ég ráð fyrir því, að það séu stundum notaðar þær aðferðir, vegna þess að menn sjái ekki aðrar tiltækar, að semja við vissa aðila um einkarétt til að selja afurðir tiltekinn tíma eða á meðan menn telja hyggilegt að fara þannig að. Og ég vil í lengstu lög vona, að það sé þetta, sem hér er í raun og veru ætlunin að gera, og menn hugsi sér ekki að ganga lengra en það að semja við fyrirtækið erlendis um að hafa söluna með höndum á þann hátt.

En þá vil ég leyfa mér að spyrja: Hvers konar uppsagnarákvæði er í þessum samningi? Ég get ekki séð, að í því, sem hér er birt, sé neitt uppsagnarákvæði, og þar kemur ekkert fram, til hve langs tíma menn hugsa sér eða hafa hugsað sér að semja við þetta erlenda fyrirtæki um, að það eitt geti ráðstafað afurðum verksmiðjunnar. En það hlýtur þó að vera hugsunin, að slíkt ákvæði verði að vera uppsegjanlegt og það verði að vera á valdi þeirra, sem framleiða vöruna, að eiga sér einhverjar útgöngudyr aðrar en þær að afhenda vöruna einu tilteknu fyrirtæki og þá vitaskuld raunverulega með því verði, sem það fyrirtæki sér sér fært að borga fyrir hana. Það hlýtur að vera meiningin, að í þessu efni séu einhverjar útgöngudyr til tryggingar þeim aðila, sem framleiðir vöruna, til þess að hann geti haft aðstöðu til þess að vera ekki algerlega öðrum háður í þessu tilliti. Ég veit, að allir sjá það í hendi sér, að ef fyrirtæki, sem framleiðir vöru, er skuldbundið um aldur og ævi óuppsegjanlegs til að afhenda vöruna öðru fyrirtæki, þá er það fyrirtæki alveg á valdi þess síðarnefnda. M.ö.o.: ef erlent fyrirtæki ætti að hafa einkasölurétt á vöru eins og kísilgúr, óuppsegjanlegan um aldur og ævi, hvernig sem til tekst, og framleiðsluverksmiðjunni óheimilt að breyta til, óheimilt að leita sér annarra úrræða, þá hefur erlenda fyrirtækið, í þessu falli erlenda fyrirtækið í Hollandi, öll ráð verksmiðjunnar á Íslandi í hendi sér og þar með í raun og veru nálega öll ráð þess byggðarlags, sem mundi koma upp við Mývatn, því að okkur er það auðvitað ljóst, að það hlýtur að koma upp þéttbýlissvæði í kringum þessa merkilegu verksmiðju, ef okkur tekst að koma henni á fót.

Ég sé ekki betur, ef svona væri gengið frá, en að þá gæti erlendi aðilinn skammtað sér verðið, sem hann fær vöruna á, og tekið í framkvæmdinni til sín þann ágóða, sem kynni að vera hægt að kreista út úr þessu, án þess að leggja nokkurt fjármagn fram af sinni hendi. Ég segi þetta vegna þess, að ég sé ekki á þessu, sem hér liggur fyrir, hvernig þetta er hugsað, þess vegna er ég að taka þetta fram. En vitanlega hlýtur að verða ákvæði í þessum samningi til þess að tryggja verksmiðjuna sjálfa og þar með Íslendinga á þennan hátt.

Ef slaknar á sölunni hjá erlenda fyrirtækinu vegna meiri áhuga fyrir öðru en því að sinna einmitt þessu eða af öðrum mýmörgum ástæðum, sem geta komið til greina, ef slaknaði á og þjónustan yrði ekki eins og hún ætti að vera, þá gæti framleiðsluverksmiðjan enga björg sér veitt, ef hún væri um aldur og ævi bundin við þetta eina úrræði. Þetta veit ég raunar að allir sjá, en það verður að taka þetta fram, til þess að fyrir þetta verði rækilega girt, ef það hefur ekki nú þegar verið gert í þeim samningi, sem gerður hefur verið. Það kemur sem sé ekki fram alveg skýrt, hvort það, sem hér er prentað í grg., er í raun og veru þýðing á samningi alveg að fullu eða útdráttur. En náttúrlega kemur fyrir nefndina, sem fjallar um mélið, sá samningur, sem gerður hefur verið um þetta mál.

Yfirleitt vil ég mega vænta þess, að góð samvinna verði um að tryggja stöðu Íslendinga að þessu leyti. En hér er um mjög merkilegt mál að ræða að öllu leyti. Bæði er það ákaflega þýðingarmikið, ef tekst að koma upp verksmiðjunni. Enn fremur er það, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, ákaflega þýðingarmikið fordæmi, sem hér er verið að efna til, um eina tegund samvinnu við erlenda aðila.

Það kemur hér fram í grg. og plöggunum, að það hefur verið talsverð samvinna við þetta erlenda fyrirtæki, sem ég vil nú — með leyfi hæstv. forseta — kalla Eim, það er tilraun til þess að bera fram skammstöfunina sem heiti, en hún er AIME. Eim hefur haft áhuga fyrir því að leggja til þessara mála. En það er sýnilegt á öllu, að aðaláhugi þess virðist stafa af því, að það vill fá þessa vöru til sölumeðferðar. Það kemur ekki hér fram, hvers konar fyrirtæki þarna er um að ræða. En mig langar til þess að spyrja um í því sambandi: Hvers konar firma er þetta? Hefur þetta firma reynslu í því að selja kísilgúr og eitthvað sérstakt fram að leggja vegna reynslu sinnar í því að selja kísilgúr, t.d. dreifingarkerfi, sem sé sérstaklega heppilegt fyrir kísilgúr? Þetta hefði verið fróðlegt að fá upplýst, a.m.k. í þeirri n., sem tekur þetta til meðferðar. En mér sýnist það koma augljóslega fram, að tæknikunnáttu hefur þetta firma ekki getað lagt til, því að það sýnist ekki vera tæknifirma. Tæknikunnáttan er tekin hér heima fyrir að mestu og svo til viðbótar sumpart hjá þýzkri ríkisstofnun og sumpart hjá hollenzkri ríkisstofnun.

Ég þori ekki að leggja dóm á það hér, því að þetta mál var fyrst lagt fram í gær, hvort það er eðlilegt eða óeðlilegt að semja við firma erlendis um að hafa á boðstólum sérstaklega þessa vöru, t.d. að eitt firma hafi hana á boðstólum, sem yrði þá að vera í takmarkaðan tíma. Ég þori ekki að dæma um það í dag, hvort ástæða er til að gera slíkt. Ég veit, að það eru geysilega miklir erfiðleikar því samfara að ryðja nýstárlegri vöru á markaðinn eða ryðja vöru inn, þar sem mikið framboð er af hliðstæðri vöru. Við höfum dálitla reynslu í þessu og þó nokkra reynslu. En samt sem áður tókst þetta á sínum tíma með frysta fiskinn. Þá var ekki látið undan þeirri freistingu að afhenda hann til annarra, heldur var baksað áfram, þangað til þessi þýðingarmiklu og stóru sölukerfi erlendis voru komin upp, sem við byggjum nú mjög á okkar sjálfstæðu tilveru í öllu tilliti, og þetta var ákaflega merkilegt.

Ég get ekki stillt mig um að benda á í þessu sambandi til athugunar fyrir menn, þó að ég vilji ekki útiloka, að þetta kunni að vera skynsamlegt eða nauðsynlegt, að í skýrslunni, sem hérna fylgir um markaðsrannsóknir, segir, að niðurstöður markaðsrannsóknarinnar voru þessar: Í fyrsta lagi: Öruggt má telja, að notkun síunargúrs í Evrópu, — og ég skal taka fram, að það er eingöngu síunargúr svokallaður, sem á að framleiða, — að notkun síunargúrs í Evrópu sé í örum vexti. Í öðru lagi, að horfur eru á hækkandi markaðsverði á síunargúr í Evrópu. í þriðja lagi, að fullvíst megi telja, að biksteinn og síunargúr hafi haslað sér völl hvor á sínu notkunarsviði og notkun beggja muni þróast í vaxandi mæli, án þess að áhrifa annars til lækkunar á verði hins gæti, svo að miklu nemi. Og í fjórða lagi, að unnt sé að selja minnst 12 þús. tonn af íslenzkum síunargúr í Evrópu á ári, án þess að það valdi verðlækkun á markaðinum. Þetta bendi ég á.

Ég veit, að annars staðar í þessu er talað almennum orðum um mikla erfiðleika á því að koma vörunni inn, og ég veit, að þeir eru vafalaust verulegir. Ég er á hinn bóginn að benda á þetta til að koma því á framfæri, að horfur virðast vera dágóðar í þessu efni eftir markaðsskýrslunni og þess vegna engin ástæða til að sæta nokkrum afarkostum í sambandi við hugsanlega sölu á vörunni.

Fjármagnið hef ég rætt um áður og tæknihliðina, og það virðist mega ráða af þessu, að engin ástæða sé til að sæta afarkostum í samningum varðandi sölu á þessari vöru, þess vegna hljóti að vera hægt að ganga þannig frá samningum um þau efni, að hagsmunir Íslendinga verði alveg tryggðir og hagur þessa nýja, merka fyrirtækis, sem við vonum öll að komist á fót.

Þá eru tvö atriði enn, sem ég vildi fara um örfáum orðum, nú við 1. umr., því að þetta fær allt sína skoðun í n. Annað er það, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. megi semja um lækkun aðflutningsgjalda af vörum til byggingar verksmiðjunnar. Þetta er mjög athyglisvert mál og stórt, og í grg. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Athugun hefur leitt í ljós, að miðað við núgildandi reglur mundu aðflutningsgjöld af innfluttum vörum til byggingar kísilgúrverksmiðju að líkindum hækka heildarbyggingarkostnað verksmiðjunnar um 20% og t.d. nema nálega 41% af fob-verði véla, en nálega 11% af heildarverði bygginga og um 26% af heildarverði flutningatækja og námavinnslutækja. Þótt tölur þessar séu áætlunartölur, má telja fullvíst, að þær séu ekki fjarri sanni.“ Síðan segir: „Slík tollun vara til stofnsetningar iðjuvera til útflutningsiðnaðar mun naumast nokkurs staðar þekkjast utan Íslands og getur því ráðið úrslitum um samkeppnishæfni iðjuvers, sem reist er hér á landi til framleiðslu á vörum til útflutnings. Endanlegt mat á því, hver greiðslugeta slíks fyrirtækis er í þessu efni, getur hins vegar ekki farið fram, fyrr en endanlegar kostnaðaráætlanir hafa verið gerðar,“ segir í grg. frv.

Ég vil taka undir þetta á þann hátt að benda á, að það er ekki aðeins fyrirhuguð verksmiðja til þess að vinna úr kísilgúr til útflutnings, sem verður að búa við þessi tollakjör á vélum og efni til stofnkostnaðar, þó að ég hafi ekki við höndina upplýsingar um þá tolla, sem þarf að greiða af ýmsu því, sem fer t.d. til fiskiðnaðar og iðnaðar yfir höfuð í landinu. Það er út af fyrir sig spurning, hvort það er viðeigandi að lækka sérstaklega tolla fyrir eitt tiltekið fyrirtæki. Það er atriði, sem að sjálfsögðu má skoða. Ég fyrir mitt leyti mundi ekki vilja láta stranda á því, ef um það væri að ræða, hvort menn treystu sér eða ekki til að leggja í merkilegt útflutningsfyrirtæki. Mundi það ætla að stranda vegna tollanna, þá mundi ég hiklaust vera með því að létta af tollunum eins og þyrfti, til þess að hægt væri að koma fyrirtækinu af stað. Ég segi þetta alveg hiklaust og tek á þann hátt undir þetta í frv.

En ég bendi á í þessu sambandi, að þetta sýnir okkur, að það þarf að endurskoða aðflutningsgjaldakerfið með tilliti til þess mikla stofnkostnaðar, sem orðinn er yfirleitt í landinu, ekki sízt í iðnaði. Ég mundi vilja, að þetta, sem rifjast nú svona rækilega upp fyrir okkur einmitt í sambandi við þetta mál, yrði til þess, að við tækjum okkur til hér á hv. Alþingi og létum fara fram athugun í framhaldi af þessu á þessu stórkostlega máli.

Það hefur sagt við mig maður, sem er ákaflega vel kunnugur sjávarútvegi og fiskiðnaði, að það mundi verða algerlega ókleift að koma hér upp nýtízku heppilega vélvæddum iðnaði; ef menn þyrftu að greiða jafnhá aðflutningsgjöld af því, sem kaupa þarf til fiskiðnaðarins, vélum og öðru þess konar, og nú er ætlazt til. Hann tók þetta djúpt í árinni, að hann sagði beinlínis, að þessar geysiháu tollgreiðslur af vélum stæðu í vegi fyrir því, að framleiðnin gæti batnað, eins og hún þyrfti að gera í sjálfum fiskiðnaðinum.

Ég vil taka undir þá stefnu, sem kemur fram í þessu lagaákvæði og þessari grg., og skora á meiri hl. á Alþingi að taka sig til og efna til breytinga á þessu.

Loks er það svo ákvæðið um skattgreiðslu þeirra útlendinga, sem kunna að eignast hluta í kísilgúrverksmiðjunni. Það er hér í 8. gr. Þar er gert ráð fyrir tilteknu fyrirkomulagi í því efni. Það skiptir engu máli peningalega séð, hvernig skattur verður greiddur af þessu, því að þarna er um mjög lágar fjárhæðir að ræða. Það eru örsmáar fjárhæðir, sem gert er ráð fyrir að útlendingarnir eigi í verksmiðjunni sjálfri, og maður vonar náttúrlega, að það gæti orðið góður arður, en á hinn bóginn yrðu það aldrei nema smáar fjárhæðir samt. En hér er eigi að síður um ákaflega merkilegt stefnumál að ræða, hvernig á þessu skuli halda. Búast má við því, að með þessu lagaákvæði, sem þarna yrði sett, yrði gefið fordæmi í þessum efnum. Ég hef ekki haft neina aðstöðu til þess síðan í gær að skapa mér skoðun á því, hvort þessi till., sem hér kemur fram í 8. gr., er heppileg eða ekki. En þetta verður að sjálfsögðu að athuga gaumgæfilega í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og þar á meðal skoðaðir þeir tvísköttunarsamningar, sem nú þegar eru fyrir hendi.

Þá eru það tvö atriði enn, sem ég gleymdi áðan. Ég vil taka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði varðandi það, að byggðarlögin þarna fyrir norðan og jafnvel einstaklingar þar ættu að eiga hlut í þessari verksmiðju, ættu að eiga hlutabréf, t.d. sýslan, Húsavíkurkaupstaður og Mývatnssveit, a.m.k. þessir aðilar, því að ef þetta kemst í framkvæmd, verður þetta stórfelldur þáttur í búskap þeirra þar. Ég vil einnig taka fram, að ég er algerlega fylgjandi því, að eins og þetta er allt í pottinn búið, þá eigi ríkið meiri hlutann í þessari verksmiðju. En ég vil í því sambandi benda á, hvort ekki mundi heppilegra, að Alþingi kysi fulltrúa fyrir ríkið í stjórn verksmiðjunnar, eins og gert er varðandi stjórn áburðarverksmiðjunnar. Ég held, að það hafi verið góð regla tekin upp, þegar lögin um áburðarverksmiðjuna voru sett, og það var að kjósa fulltrúa ríkisins í hlutafélaginu á Alþingi. Ég vil beina því til hæstv. ráðh., hvort það væri ekki heppilegra.