27.04.1964
Efri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, hefur þetta mál verið alllengi til meðferðar í fjhn., og það á, eins og hann gat um, rót sína að rekja til þess, að það hafa borizt margvísleg erindi, sem öll voru til meðferðar í tollanefnd fjmrn., og það hefur ekki staðið á fjhn. að afgreiða þetta mál. í þessu frv. eru fólgnar leiðréttingar á ýmsu ósamræmi, sem komið hefur í ljós í tollskránni, sem samþ. var á hv. Alþ. í fyrra, og dreginn lærdómur af ýmissi reynslu, sem fengin er af framkvæmd hennar þetta eina ár, sem hún hefur verið í gildi. Og það er í rauninni ekki að undra, þó að eitt og annað komi í ljós eftir þá miklu formbreytingu, sem þá var gerð á tollskránni, sem þarf að leiðrétta. En breytingar, — sem verulegu máli skipta fyrir ríkissjóð eða neytendur, breytingar á tollapólitíkinni, eru í raun og veru engar fólgnar í þessu frv. Það eru ekki í því fólgnar neinar hækkanir til skaða, þó að einstaka liður sé hækkaður, og í þessu frv. eru fólgnar breytingar til lækkunar, sem ég hef enga ástæðu til þess að vanþakka, eins og t.d. á handverkfærum og varahlutum í heimilistæki, þó að þessar breytingar séu ekki stórvægilegri en það, að verulega þýðingu fyrir verðlagsmyndunina í landinu hefur þetta ekki.

Skattabyrðin í þjóðfélaginu er orðin óhóflega mikil. Núv. ríkisstj. hefur aukið skattheimtuna úr um það bil 1000 millj. kr. eða minna en það, þegar hún tók við, og í um það bil 3000 millj. kr. Skattar og tollar, sem innheimtir hafa verið í ríkissjóð samkv. ríkisreikningum frá 1960 til 1982, eru þessir: 1960 1188 millj., 1961 1368 millj. og 1962 1714 millj. Á þessum 2 árum hefur þessi skattheimta, þ.e.a.s. skattar og tollar, hækkað um 44.9 %.

Nú er þetta gjarnan skýrt af hálfu talsmanna hæstv. ríkisstj. á þann veg, að þetta séu afleiðingar af almennri verðlagsþróun í landinu og af auknum innflutningi. Þessi atriði eiga sjálfsagt sinn þátt í þessari þróun, en þær skýra hana engan veginn til fulls. Innflutningurinn á árinu 1962 var 3837 millj. og hafði þá aukizt um liðlega 700 millj. frá árinu 1960 eða um 24%. Vísitala framfærslukostnaðar á þessum árum hækkaði úr 104 og upp í 116, miðað við aprílmánuð, sem ég hef miðað hér við. Vísitala vöru og þjónustu hækkaði úr 106 og upp í 133 eða um 25%, vísitala framfærslukostnaðar um 12%. Þannig er það ljóst, að verðlagið hækkaði á þessum 2 árum ekkí nema u.þ.b. helminginn af því, sem skattahækkanirnar námu prósentvís.

Ef litið er á hækkun á almennum tekjum á þessu tímabili, kemur í ljós, að árstekjur þær, sem hagstofan vinnur úr skattskýrslum með hliðsjón af verðlagningu landbúnaðarafurða, uxu á árinu 1960 til ársins 1962 úr 78900 kr. í 103600 kr. eða um 32.5%. Þegar verið er að ræða um álagningu skatta á árinu 1960 og 1962 og verið er að bera þá saman við tekjuaukningu, væri að sjálfsögðu eðlilegra að miða við tekjurnar á árinu 1959 og 1961, því að það eru þær tekjur, sem á var lagt á þessum árum, og úrtakstekjurnar fyrir þessi ár, 1961 og 1959, hækkuðu úr 74900 og upp í 85400 eða um 14%. Þannig nær engin þeirra hækkana, sem gjarnan eru hafðar til viðmiðunar og afsökunar á því, hvað skattar hafa hækkað mikið í landinu, svipað því þeirri hækkun, sem varð á innheimtu skatta og tolla samkv. ríkisreikningi á þessum árum, sem ég hef hér tekið til meðferðar.

Það er skoðun okkar, sem erum í minni hl. fjhn., að þessar háu skattheimtur séu ákaflega skaðlegar, sérstaklega með tvennu móti. Tollarnir, sem lagðir eru á innfluttar vélar og tæki til útflutningsatvinnuveganna og framleiðsluatvinnuveganna í landinu, íþyngja þessum atvinnuvegum óhæfilega og rýra samkeppnismöguleika þeirra á erlendum og raunar einnig innlendum mörkuðum. Enn fremur eiga hinir háu tollar á byggingarvörum og ýmsum nauðsynjum til heimilisstofnunar mikinn þátt í að blása upp framfærslukostnaðinn í landinu með þeim afleiðingum, sem það hefur fyrir verðlagsþróunina og fyrir kaupgjaldsþróunina, sem hlýtur að fylgja í kjólfar dýrtíðarinnar. Hinn hái stofnkostnaður heimilanna hefur þau áhrif, eins og hann nú er orðinn, að mörgum ungum heimilum, sem eiga við þunga skuldabagga að stríða, eins og þau sjálfsagt eiga flest, þessu fólki finnst jafnvel sumu, að verðbólgan sé því nauðsynlegur bandamaður, til þess að það geti ráðið við eðlilegar fjárfestingar. Er það er að sjálfsögðu ákaflega óhollt fyrir verðlagsþróunina í landinu, að nokkurt fólk skuli þurfa að hafa þá tilfinningu, að verðbólgan sé því einhver bandamaður. Nóg er það, að nokkur hópur manna hefur verðbólguna að bandamanni til stórfelldrar eignasöfnunar, þó að ekki þurfi einnig að verða svo, að ungt fólk, sem þarf að ráðast í nauðsynlegar og eðlilegar fjárfestingar til heimilisstofnunar eða atvinnurekstrar, þurfi líka að líta á verðbólguna sem sinn bandamann. Þess vegna er það skoðun okkar í minni hl., að það sé ákaflega nauðsynlegt að reyna að draga úr þessum nauðsynlega stofnkostnaði.

Af þessum ástæðum höfum við til viðbótar þeim brtt., sem hv. fjhn. flytur í heild, en þær brtt. eru flestar eða allar þannig til komnar, að þær eru fluttar eftir tilmælum einhverra aðila og með meðmælum tollskrárnefndar fjmrn., flutt brtt., sem lúta fyrst og fremst að tvennu: í fyrsta lagi lækkun á tollum á vélum og tækjum til framleiðslunnar til samræmis við þær framleiðslugreinar, sem bezt eru settar í þessu efni, og í öðru lagi flytjum við brtt. um verulega endurgreiðslu tolla af byggingarefni til íbúða af hóflegri stærð og lækkun tolla á heimilistækjum, sem nú má orðið telja til nauðsynja á hverju heimili, og við leggjum til, að tollur á slíkum tækjum lækki úr 80% í 50% eins og frv., sem hér liggur fyrir, leggur til að tollar á varahlutum til þessara tækja geri. Að sjálfsögðu er það líka óumdeilt, Að æskilegt sé, að tæki og vélar annars vegar og varahlutir til þeirra hins vegar séu í sama tollflokki.

Ég skal minna á það, að við 1. umr. um þetta frv, gerði hæstv. fjmrh, grein fyrir því, að þær breytingar, sem fólgnar eru í þeirri brtt. okkar, sem ég hér taldi fyrsta, um lækkun á vélum og tækjum til framleiðslunnar, væru til meðferðar í fjmrn. og hjá tollskrárnefnd þess. Það er vissulega ekki nema ánægjulegt, að fjmrn. skuli hafa haft þessar breytingar til meðferðar og skuli, eins og fram kom í ræðu hans við 1. umr. málsins, hafa fullan skilning á nauðsyn þess, að þessar breytingar séu gerðar. Á hinn bóginn teljum við í minni hl., að lagfæring á þessu þoli ekki frekari bið. Ég vil leyfa mér í því sambandi að minna á það, sem raunar er minnt á í nál. okkar minni hl., að í grg. um kísilgúrverksmiðju er gerð grein fyrir nauðsyn þess, að þessar tollabreytingar eigi sér stað, og við leggjum þess vegna til, að fyrsta skrefið í þessu efni sé tekið með því, að samþykktar séu brtt. okkar um þessi efni. Við gerum okkur það ljóst, að sjálfsagt eru þessar brtt. eitthvað ófullkomnar. Sjálfsagt eru einhverjir liðir, sem þar hefðu átt að vera með, sem vantar í till. okkar, og e.t.v. á sér einnig stað, ef brtt. okkar yrðu samþykktar, einhver tollverndarskerðing, sem ekki væri í sjálfu sér fyllilega æskileg. Hins vegar álítum við, að þetta mál sé svo stórt og þýðingarmikið, að það verði þá heldur að taka upp þau randamál, sem af þessu kann að leiða, sérstaklega og auka þá e.t.v. annan stuðning við þær greinar, sem misstu tollvernd sína við þessar breytingar, enda munu þær ekki vera mjög umfangsmiklar í okkar atvinnulífi miðað við þann vinning, sem fengist af því fyrir útflutningsframleiðsluna alla, ef þessar till. yrðu samþykktar.

Í öðru lagi leggjum við til, að tollar af byggingarefni til íbúða, sem eru ekki stærri en hámark þeirra íbúða, sem húsnæðismálastjórnin viðurkennir, nefnilega 360 kúbíkmetrar, séu að verulegu leyti endurgreiddir. Við leggjum til, að það sé endurgreitt upp í þessa hámarksstærð sem svarar 110 kr. á rúmmetra. Hámarksendurgreiðsla gæti með þessum hætti orðið tæplega 40 þús. kr. á íbúð, en meðalendurgreiðsla yrði væntanlega eitthvað lægri. Mætti gera ráð fyrir 30–35 þús. kr. á íbúð, og miðað við, að byggðar séu 1500 íbúðir, eins og nú er gert ráð fyrir að þurfi árlega, gæti þessi endurgreiðsla í heild numið rúmlega 50 millj. kr. Við gerum ráð fyrir því, að þessi upphæð, sem þarna er um að ræða, mundi nema milli 70 og 80% af öllum tollum, sem greiddir eru af innfluttu efni til slíkra íbúða.

Og í þriðja lagi leggjum við svo til þá lækkun tolla á heimilistækjum, sem ég gat um áðan.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess í framsöguræðu sinni áðan, að það lægju einkum til þess tvær ástæður, að meiri hl. gæti ekki fallizt á þessar brtt. okkar, og hann gat um þessar tvær ástæður. Önnur þeirra var sú, að till. okkar um lækkun tolla á vélum og tækjum til framleiðslunnar væri nú í ýtarlegri endurskoðun í fjmrn., eins og hv. dm. er öllum kunnugt um, og væri eðlilegt að bíða úrslita þeirra athugana og þeirrar endurskoðunar. Ég held, að ég fari rétt með það, að það hafi m. a. komið í ljós í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls, að ekki er gert ráð fyrir því, að þessari endurskoðun geti verið lokið á þessu ári, og það þykir okkur langt að bíða eftir næsta Alþingi með svo nauðsynlegar leiðréttingar eins og hér er um að ræða.

Hitt atriðið, sem hv. frsm. meiri hl, gat um, var það, að hér væri um að ræða verulegt fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð. Réttilega tók hv. frsm. meiri hl. það fram, að það gæfist kannske tækifæri til þess að ræða frekar um stefnuna í skattamálum og fjárhagsafkomu ríkissjóðs í sambandi við það frv., sem liggur fyrir d. og væntanlega kemur á dagskrá næstu daga, um tekjuskatt, og ég skal ekki heldur fara mörgum orðum um það atriði, að hve miklu leyti þessar brtt. eru fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð eða að hve miklu leyti þær mundu stefna fjárhagsafkomu ríkissjóðs í voða, en mér þykir rétt að minna aðeins á örfá atriði í þessu sambandi.

Það var stefna núv. hæstv. ríkisstj., sem boðuð var í upphafi starfsferils hennar, að óbeinir skattar skyldu að verulegu leyti koma í stað beinna skatta. Beinir skattar voru þá taldir óréttlátir, m.a. sökum þess, hve mikil brögð eru að skattsvikum, og það var talið hentugra að afla ríkissjóði tekna með óbeinum sköttum. Þá voru svo óbeinir skattar stórauknir, eins og hv. þm. er öllum minnisstætt, en beinir skattar voru lækkaðir snemma á árinu 1960, og þær tekjur, sem kallaðar voru þurftartekjur, voru gerðar skattfrjálsar. Með því frv. um breyt. á l. um tollskrá, sem hér liggur fyrir, er ekki vikið frá þessari stefnu, sem þá var boðuð, í neinu, því að breytingar til lækkunar á óbeinum sköttum eru ekki slíkar í þessu frv., að þær hafi nein áhrif á eða verði skoðaðar sem nein breyting á skattapólitíkinni yfirleitt. En hins vegar er vikið frá þeirri stefnu, sem mótuð var á árinu 1960 í skattamálum, með því frv., sem hv. frsm. meiri hl. minnti á áðan, frv. um tekjuskatt, sem ákveður lægri persónufrádrátt miðað við verðlagið en gert var, þegar stefnubreytingin var gerð í skattamálum í upphafi ársins 1960, og enn fremur ákveður hærri skattstiga í prósentum af skattskyldum tekjum en gilt hefur að undanförnu. Þetta er ágreiningslaust frá okkar hálfu, sem ávallt höfum talið skattastefnu hæstv. núv. ríkisstj. ranga. En þetta frávik, sem ríkisstj. er nú að leggja til, er einhliða til hækkunar. Og við teljum, að þá sé tímabært að gera einnig frávik frá hinni upphaflegu stefnu ríkisstj. með tilliti til þess að lækka þá einnig óbeina skatta, um leið og álagning beinna skatta er hlutfallslega aukin. Við teljum þess vegna, að það sé fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að rýra tolltekjur ríkissjóðs nokkuð, svo sem gert er ráð fyrir í brtt. okkar, með tilliti til þess, að ríkisstj. hefur nú til meðferðar og mun væntanlega fá samþykkta þá stefnubreytingu að því er lýtur að beinu sköttunum, sem fólgin er í frv. um tekjuskatt, sem liggur fyrir þessari hv. deild.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég enn fremur minna á það, að hv. þm. Daníel Ágústínusson, sem sat hér sem varamaður hv. 1. þm. Vesturl. um það leyti, sem frv. um tollskrá var lagt fram, lagði fram tvær brtt. á þskj. 316, og lýtur önnur að því að heimila fjmrn. að fella niður gjöld af hljóðfærum til notkunar í skólum og hin að því að heimila fjmrn. að fella niður aðflutningsgjöld af kvikmyndasýningarvélum fyrir félagsheimili og skóla. Ég vil leyfa mér að minna á þessar brtt, hv. þm. og geta þess, að við í minni hl. styðjum þær og mælum með samþykkt þeirra. Við mælum enn fremur með samþykkt frv., þeirra brtt., sem fjhn. flytur í heild, og að sjálfsögðu með brtt. okkar sjálfra.