05.05.1964
Neðri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

148. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég gerði nokkra grein fyrir þessu máli við 1. umr. og sé ekki ástæðu til að lengja það neitt að ráði. En það eru ummæli í nál. hv. minni hl. fjhn. á þskj. 571, sem gefa ekki rétta mynd af því, sem gerzt hefur í tollamálum nú undanfarið, og tel ég rétt að leiðrétta það.

Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í l. nr. 7 frá 1963 var gagnverð formbreyting gerð á tollskránni, en engar verulegar breytingar á heildarfjárhæð tolla. Tollar voru jafnaðir þannig, að þeir hæstu voru nokkuð lækkaðir, en lægri tollar hækkaðir á móti.“ Þessi mynd af tollskrárbreytingunni er alröng. Í fyrsta lagi var um verulega breytingu á heildarfjárhæð tolla að ræða. Hagstofunni hefur reiknazt svo til, að nýja tollskráin frá í fyrra skili í ríkissjóð af sama innflutningsmagni a.m.k. 100 millj. kr. lægri tollum en áður var. M.ö.o.: miðað við innflutninginn 1962, sem hagstofan mun hafa byggt á, þýddi nýja tollskráin 100 millj. kr. lækkun á heildarfjárhæðinni. Þetta var til viðbótar þeirri lækkun, sem gerð var í nóv. 1961, en það var talið, að sú lækkun, sem þá var gerð, hefði einnig lækkað tollana miðað við sama innflutningsmagn um ca. 100 millj. kr. M.ö.o.: þær tollabreytingar, sem gerðar hafa verið síðan haustið 1961, hafa lækkað heildarfjárhæð tollanna um a.m.k. 200 millj. kr. Vil ég láta þetta koma fram, sem raunar hefur komið hér fram áður, til þess að undirstrika, að hér er um algeran misskilning að ræða í nál. hv. minni hl.

Í öðru lagi er gefið í skyn, að tollar hafi aðeins verið jafnaðir og lægri tollar hækkaðir til að vega á móti tollalækkun. Þetta er rangt. Lægri tollar voru í mjög fáum tilfellum hækkaðir, og það var eingöngu gert, eins og skýrt var tekið fram þá, þegar um var að ræða óhjákvæmilega samræmingu við aðra tolla, sem verið höfðu hærri. Það var eingöngu til samræmingar, þannig að vörur, sem svipaðar voru eða notaðar í svipuðu skyni, væru með líka tolla, sem í einstaka tilfellum tollar voru hækkaðir.

Um hitt atriðið, að hæstu tollar hafi verið lækkaðir nokkuð, sem á víst að þýða, að það hafi ekki verið neitt verulegt, má benda á, að þegar tollskráin gekk í gildi, eða við skulum segja, þegar endurskoðun á tollskránni hófst 1961, þá voru heildaraðflutningsgjöld á sumum vörutegundum 200–300% og komust jafnvel á fjórða hundrað prósent. 1 núgildandi tollskrá er allra hæsti tollur 125%. Má hver sem vill túlka það svo, að hér sé um einhverja smávægilega lækkun að ræða, þegar tollur er lækkaður á fjölda vörutegunda úr 200–300 eða á fjórða hundrað prósent niður í 125% .

Þetta er rétt að komi hér fram og hefði náttúrlega átt að vera óþarfi, því að allar þessar upplýsingar hafa legið áður fyrir hv. þm. og þá ekki sízt hv. fjhn.

Varðandi brtt. hv. minni hl. koma þær náttúrlega engum á óvart. Það er nú einu sinni siður þess flokks, sem hér á hlut að máli, að hafa uppi ýmis yfirboð eða undirboð, eftir því sem við á, og verður náttúrlega alltaf að búast við því. Þar sem hins vegar er rætt um lækkun og lagt til, að tollar séu lækkaðir af vélum, þá hef ég skýrt frá því áður og tekið fram í grg., að vélatollar í heild eru til gagngerðrar endurskoðunar hjá tollskrárnefnd. Þess var freistað að hafa þær till. tilbúnar nú, þannig að þær gætu komizt í þetta frv., en tollskrárnefndin var á einu máli um það, að málið væri svo víðtækt og umfangsmikið, að ógerningur væri að gera því nægileg skil á þetta skömmum tíma og væri þess vegna ekki að vænta tillagna um vélatollana fyrr en í haust. Hins vegar hefur verið margyfirlýst, að að því er stefnt að lækka tolla á vélum. Almennir tollar á vélum eru nú 35%, og er suðvitað æskilegt vegna framleiðslunnar í landinu og efnahagslífsins í heild að geta fært þá tolla niður og þá helzt í áföngum.

Varðandi aðra till. um það að gefa eftir aðflutningsgjöld að vissu marki af íbúðum, þá er það að sjálfsögðu till., sem rétt er að taka til athugunar. Ég geri ráð fyrir, að þessi till. þýddi a.m.k. um 50 millj. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð á ársgrundvelli, og slíkar till. er náttúrlega ekki hægt að bera fram, þegar nokkuð er liðið á fjárhagsár, eftir að fjárl. hafa verið afgreidd, og ef slíkar stórbreytingar á að gera, þá verður það auðvitað að gerast í sambandi og samræmi við fjárlög.