29.04.1965
Neðri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð út af því frv. til l., sem hér er til umr.

Í upphafi stjórnartímabilsins lagði hæstv. ríkisstj. fram stefnuskráryfirlýsingu sína. Þar voru skráð loforðin, sem átti að framkvæma. Eitt þeirra var þetta. Kaup og kjör verði ákveðin með samningum vinnuveitenda og launþega, ríkisstj. mun ekki hafa nein afskipti af þeim málum. — Síðan hefur nokkrum sinnum bryddað á því, að hér hafi fremur verið um áferðar fallegt áróðursatriði að ræða, heldur en að hugur fylgdi máli. Nægir í því sambandi að minna á frv. til l. um launamál o.fl., sem lagt var fram hér á hv. Alþ. í nóv. 1963, en samkv. því átti að vera óheimilt að hækka laun, þóknun fyrir uppmælingar og ákvæðisvinnutaxta eða nokkurt annað endurgjald, sem um var samið eða greitt, þá er frv. var lagt fram á Alþ., eins og í þessu frv. segir. Og í 3. gr. frv. var sagt, að vinnustöðvanir til að knýja fram breytingar á launum eða breytingar á vinnutíma og öðru, er feli í sér launabreytingar, séu óheimilar meðan l. eru í gildi. Þarna átti sem sagt að snúa blaðinu svo rækilega við frá því, sem lofað hafði verið, að allt kaup og öll laun skyldu ákveðin samkv. l. og allar vinnustöðvanir yfirlýstar ólöglegar. Þannig varð ekki lengra komizt í því efni. Þegar þetta frv. var lagt fram, höfðu verið boðaðar mjög víðtækar vinnustöðvanir, sem vissulega hefðu orkað mjög truflandi á þjóðarframleiðsluna og fyrirsjáanlega bakað þjóðfélaginu verulegt tjón, ef til framkvæmda hefðu komið að öllu leyti. Þrátt fyrir þá þjóðarnauðsyn, sem þarna virtist í húfi, var þetta frv. góðu heilli afturkallað af hæstv. ríkisstj. Við nánari athugun munu hæstv. ráðh.

hafa séð, að lagasetning sem þessi mundi ekki reynast giftudrjúg, heldur að réttara væri að hverfa aftur til fyrri stefnu um að fara samningaleiðina.

Ég rifja þetta ekki upp hér til þess að lítilsvirða hæstv. ríkisstj., heldur fremur henni til hróss, því að þarna var af hennar hálfu mjög brugðið á hið betra ráð. En þessi sinnaskipti vöktu vissulega vonir um það, að hæstv. ríkisstj. hefði lært sína lexíu og ákveðið bæði þá og til frambúðar, að hafa ekki afskipti af kjaradeilum, nema þá að því leyti sem tekizt gæti að greiða fyrir því, að samningar næðust. Frv. það, sem hér um ræðir, sýnir þó, að batinn er enn ekki fullkominn. Enn örlar á þeirri tilhneigingu að taka fram fyrir hendurnar á aðilum í vinnudeilu með lagasetningu. Að þessu sinni er um það að tefla að lýsa með l. verkfall það, sem Félag ísl. atvinnuflugmanna boðaði frá og með 3. þ.m., óheimilt og að tilnefna menn í gerðardóm, er ákveði laun þeirra manna, sem þarna eiga hlut að máli, en það eru flugmenn á flugvélum af gerðinni Rolls Royce 400.

Enginn ágreiningur er um það, að verkfallið hafi verið löglega boðað og það sé í einu og öllu lögmætt samkv. l. um stéttarfélög og vinnudeilur, svo að engin þörf er á lagasetningu af því tilefni. Í nál. minni hl. samgmn. hv. Ed. kemur það fram og því hefur mér vitanlega ekki verið mótmælt, að engar óskir hafi borizt frá aðilum deilunnar, Félagi ísl. atvinnuflugmanna og Loftleiðum h/f, til ríkisstj. um að knýja fram lögþvingaðan gerðardóm, og því til viðbótar má bæta við, að Félag ísl. atvinnuflugmanna mun nú hafa lýst því yfir, að þeir flugmenn, sem hlut eiga að deilunni, muni ekki hlíta gerðardómi, muni ekki fljúga fyrir þau laun, sem gerðardómurinn muni úrskurða þeim, svo að ég veit ekki, hvaðan hæstv. samgmrh. hefur þær upplýsingar, sem hann lýsti hér áðan, að íslenzkir atvinnuflugmenn eða félag þeirra óskaði þess, að gerðardómurinn næði fram að ganga. Hér er um óbeðinn erindisrekstur hæstv. ríkisstj. að ræða.

Verkfallið var boðað, eins og fyrr segir, þann 3. þ.m., en frv. útbýtt þann 20. og þá hagaði eins og kunnugt er, störfum þannig á hv. Alþ., að fyrirsjáanlegt var, að heil vika mundi líða, þar til frv. kæmi til 1. umr. Augljóst er, að flutningur þess hlaut að torvelda samkomulag aðila og hleypa illu blóði í málið og var því tíminn að mínum dómi óviturlega valinn og nær hefði verið að nota s.1. viku til þess að reyna samninga enn frekar, en gert hafði verið fram að því, ekki sízt þar sem svo virðist, að ekki hafi verið að samningaumleitunum unnið af verulegum þunga. Hæstv. samgmrh. sagði hér áðan, að haldnir hefðu verið allmargir fundir. Mig minnir, að hann nefndi 7 fundi með deiluaðilum. En ég er alveg viss um, að þeir fundir hafa bæði verið færri og styttri, en tíðkast í öðrum vinnudeilum, þar sem þungi hefur verið lagður á að leysa þær með samningum. Og í tilefni af afskiptum sáttasemjara væri ástæða til þess að spyrja, því að ég hef ekki séð það koma fram, hvort hann hafi lagt fram till. til sátta í málinu, sem aðilar hafi getað fengið að láta í ljós skoðun sína á, því að trúlega getur sáttasemjari, sá reyndi embættismaður, farið nokkuð nærri um það, hvaða laun þarna ætti að tiltaka, úr því að það er álítið, að gerðardómur hafi aðstöðu til þess. Ég tel því, að samningaleiðin hafi alls ekki verið reynd til þrautar. Og þeir tveir fundir, sem haldnir hafa verið, síðan frv. var lagt fram, voru auðvitað fyrir fram þýðingarlitlir eða þýðingarlausir, eftir að flugmönnum hafði verið sýndur hnefinn á þann hátt, sem gert er með flutningi þessa frv.

Í aths. frv. segir, að stöðvun á rekstri hinna nýju flugvéla valdi tilfinnanlegum truflunum á rekstri Loftleiða h/f og muni spilla því áliti, sem félagið hefur unníð sér á alþjóðavettvangi, og stefna framtíð þess í voða, því verði að teljast þjóðarnauðsyn að koma í veg fyrir frekari stöðvun umræddra flugvéla og þetta undirstrikaði hæstv. samgmrh. hér áðan. Víst er um það, að verkföllin skaða ávallt þann vinnuveitanda, sem þau beinast gegn og sama mun einnig um Loftleiðir í þessu tilfelli. Hvort skaði Loftleiða er eins tilfinnanlegur og í aths. er fullyrt, skal ég ekki um segja, um það hef ég ekki upplýsingar. Verulegur hluti starfsliðs þeirra hefur þó ekki lagt niður vinnu og þeim hefur tekizt að halda starfsemi sinni áfram, en vafalaust með talsverðum tilkostnaði, það skal ég ekki draga í efa.

Loftleiðir h/f eru flugfélag, sem hefur skapað sér virðingu og álít, ekki bara með oss Íslendingum, heldur víða um heim og áreiðanlega óska allir Íslendingar þess, að því megi áfram vel farnast. Engu að síður tel ég, að félagið verði, eins og aðrir atvinnuveitendur hér í landi, að mæta þessum erfiðleikum, sem nú steðja að því vegna umrædds verkfalls, sjálft og án íhlutunar ríkisvaldsins eða Alþ. Og ég vil segja það, að ég ber engan kvíðboga fyrir því fyrir mitt leyti, að það muni ekki takast. Loftleiðir og framámenn þeirra hafa á stuttri ævi félagsins marga hildi háð og jafnan tekizt að stýra heilu fleyi til hafnar. Ég hygg, að svo muni enn verða. Og ég tel í þessu tilfelli enn meiri ástæðu til bjartsýni nú en oft áður, þar sem viðsemjendur félagsins að þessu sinni eru nokkrir af flugmönnum þess, men, sem áreiðanlega bera hagsmuni félagsins fyrir brjósti og hafa reyndar flestir, ef ekki allir, sýnt það margsinnis á undanförnum árum og jafnan dugað félaginu bezt, þegar mest á reyndi. Íslenzkir flugmenn hafa með hæfni sinni og dugnaði lagt grundvöllinn að velgengni hinna íslenzku flugfélaga og njóta álíts víða um heim, um það er mér fyllilega kunnugt. Þeim hefur með góðri forustu stjórnenda fyrirtækjanna tekizt að byggja upp blómlegan atvinnurekstur og hljóta hvorir um sig að viðurkenna hlut hins. Þess vegna tel ég óhugsandi annað en þeim tækist að finna lausn á þeirri deilu, sem nú stendur yfir, ef þeir væru látnir í friði við að útkljá deilumál sín.

Um sjálfar kröfurnar ætla ég ekki að dæma hér. Í byrjun deilunnar var mjög mikið gert af því í blöðum og manna á meðal að túlka kröfur flugmannanna sem svimandi háar og í engu samræmi við neitt það, sem hér hefði áður þekkzt. Síðan hefur nokkuð dregið úr þessum málflutningi og ég hygg, að kröfur flugmanna hafi a.m.k. í upphafi verið allmikið affluttar og þar í blandað saman við laun ýmsu af því, sem í raun réttri er fremur kostnaður fyrirtækisins flugmannanna vegna, svo sem tryggingum, uppihaldskostnaði og dagpeningum erlendis, sem kosta fyrirtækið mikið fé, en koma flugmönnum eða fjölskyldum þeirra ekki að miklu gagni, eins og kom fram greinilega af þeirri sundurliðun, sem hæstv. samgmrh. flutti hér á kröfum flugmanna. Ég hygg því, að miklu minna beri á milli í þessari deilu, heldur en almenningur og þeir, sem ekki þekkja til, halda. En ég tek það fram, að um þetta get ég ekki fyllilega borið. Ég hef ekki upplýsingar um það aðrar en þær, sem ég fékk hér áðan í ræðu hæstv. samgmrh.

Þá skildist mér og það kom líka fram af máli hæstv. ráðh., að verulegur hluti af ósamkomulaginu sé vegna ákvæða um vinnutíma og hvíldartíma og þá rifjast það upp í þessu sambandi, að í loftferðalögum þeim, sem samþ. voru á síðasta Alþ., er svo ákveðið í 52. gr., að ráðh. setji í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til þess að tryggja fyllsta öryggi, að fengnum till, félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar, en þessi reglugerð hefur ekki enn þá verið sett. Hennar er þó mikil þörf og brýn og ég vil leyfa mér að skora á hæstv. samgmrh. að beita sér fyrir því, að reglugerðin verði sett hið bráðasta og hafi till. frá umgetnum félagssamtökum eða flugmálastjórninni ekki borizt, hlýtur rn. að ganga eftir þeim, vegna þess að ákvæðin um lágmarkshvíldartímann eru sett til þess að tryggja fyllsta öryggi og sá aðili, sem lögin ætlast til að fylgist með því, að þetta sé gert, er ráðh. Þau eru sett fyrst og fremst vegna öryggis farþeganna. Það er aðeins til viðbótar, að þau eiga líka að tryggja það, að flugmenn vinni ekki of langan vinnutíma. Ef þessi reglugerð hefði fyrr verið fram komin, áður en til þessarar deilu kom, er næsta trúlegt, að sumir hlutar þess, sem nú ber á milli í flugmannadeilunni, hefðu ekki orðið að ásteytingarsteini og deilan því að sama skapi auðleystari.

Hér hafa á hv. Alþ. komið fram fullyrðingar, sem ekki hafa verið hraktar mér vitanlega, um að misræmið milli þess, sem flugmenn vilja fá og Loftleiðir telja sig geta borgað, sé miklu minna en ýmsir hafa viljað vera láta. Og ég trúi því fyrir mitt leyti, að launakröfur flugmanna fengjust færðar í það horf, sem báðir gætu við unað, ef þeir mættu skilningi á ýmsum öðrum sviðum kröfugerðarinnar og fyndu raunverulegan samningsvilja. Þetta segi ég án þess að taka nokkra afstöðu til þess, sem þeir fara fram á, vegna þess að ég er því ekki, eins og ég áðan sagði, nægilega kunnugur. En hvernig sem þessu er varið, er þó hitt bjargföst sannfæring mín, að það sé hættuleg braut fyrir Alþ. að samþykkja lagasetningu um kaup og kjör og taka þannig fram fyrir hendurnar á aðilum til þess að stýra þeim málum sjálfir með samningum, eins og hér hefur tíðkazt. Hvar á að draga þau mörk, sem gilda um þetta efni, ef einu sinni er byrjað? Hér er talað um þjóðarnauðsyn í aths. frv. Er það minni þjóðarnauðsyn að halda úti síldveiðiflotanum, vertíðarbátunum, millilandaskipunum eða innanlandssamgöngum, svo að eitthvað sé nefnt? Mundi ekki vegna þjóðarnauðsynjar þurfa að skipa upp varningi til landsins eða flytja framleiðsluvörurnar út í skipin, svo að þær kæmust á markaðinn? Ég held, að þetta allt saman og það hvert um sig sé fullt eins nauðsynlegt, sé fullt eins mikil þjóðarnauðsyn og starfsemi Loftleiða, með fullri virðingu fyrir því ágæta félagi.

Ef Alþ. samþykkir nú frv. þetta, væri það að skapa fordæmi um samskipti launþega og vinnuveitenda um ákvörðun kaups og kjara, sem enginn getur sagt um, hvert leiða muni. Hvert verður næsta skrefið? Hvaða starfshópur fær næst að mæta lagasetningu og gerðardómi, þegar hann fer fram á lagfæringu á kaupi og kjörum? Það er engin trygging fyrir því, að það verði hópur manna sem hér á landi er nefndur hátekjumenn. Áreiðanlega er hægt með engu minni rétti en hér er gert að tala um þjóðarnauðsyn í sambandi við störf ýmissa þeirra stétta, sem vinna við framleiðsluatvinnuvegina, hvort sem er til sjávar eða sveita, eins og t.d. þeirra örfáu starfshópa, sem ég áðan taldi upp.

Ég tel, að það sé alveg rétt, sem segir í nál. minni hl. samgmn. hv. Ed., að alveg sérstaklega ber að hafa þessa hættu í huga nú, þegar svo stendur á, að láglaunastéttirnar búast til sóknar fyrir bættum kjörum eftir 5 ára tímabil nær algerrar kyrrstöðu í kjaramálum eða jafnvel beinnar afturfarar hvað launakjör snertir. Ef byrjað er að ákveða kaup og kjör með l. héðan frá hv. Alþ. um gerðardóma, er ekki séð fyrir, hvar það muni enda. Því hefur heyrzt haldið fram, að samningar í umræddri vinnudeilu hljóti að hafa óheillavænleg áhrif á kröfugerð annarra stétta vegna þess samanburðar við laun flugmanna, sem fylgja mundi í kjölfarið. Þessu er til að svara, að ég kem ekki fyllilega auga á það, hvaða stéttir það eru, sem þarna ættu helzt að koma til greina. Má vera, að þær fyndust þó einhverjar, þegar til kemur, en helzt eru það þó líklega flugmenn á öðrum flugvélum.

En er einhver trygging fyrir því, að þessi samanburður verði ekki gerður allt að einu? Ég held það ekki. Ég held, að umræddir flugmenn, sem stjórna þessum stóru flugvélum, Rolls Royce 400, muni alltaf þurfa að fá það, sem við köllum hér há laun, vegna sérhæfni sinnar, langs og dýrs námstíma, stuttrar starfsævi og ýmislegra annarra atriða, sem hljóta að hafa áhrif á þessi mál. Og þannig held ég, að gerðardómur, þótt skipaður væri, mundi ekki komast hjá því að tiltaka það, sem við köllum háa upphæð til þessara manna, þó að til hans kasta kæmi. Og varla mundu aðrir launþegar síður finna ástæðu fyrir því að bera sig saman við það, sem slíkur dómur mundi ákveða, sem slegið væri föstu með gerðardómi, heldur en við það, sem einstakir starfshópar geta náð í frjálsum samningum við atvinnuveitendur sína. Sannleikurinn er sá, að launasamanburður verður alltaf gerður og það er ekkert ráð til, sem getur komið í veg fyrir hann.

Ég er eindregið á móti því að innleiða gerðardómsfyrirkomulagið um ákvörðun um kaup og kjör frekar en orðið er og því vil ég bera fram þá ósk til hæstv. ríkisstj., að hún dragi lærdóm af þeim atburðum, sem ég gat um í upphafi máls míns og taki frv. þetta til baka í trausti þess, að deiluaðilum takist að finna þá lausn, sem báðir geti við unað. Verði það ekki gert, mun ég greiða atkv. gegn frv. af þeim ástæðum, sem ég hef gert hér grein fyrir.